Monthly Archives: apríl 2014

Þessir munu leika í Star Wars: Episode VII

star_wars_39787

Nú rétt í þessu var staðfest hvaða leikarar koma til með að leika í nýjustu Star Wars myndinni sem væntanleg er á hvíta tjaldið á næsta ári en mikil leynd hefur hvílt yfir leikaravalinu fram að þessu. Nokkrir af gömlu leikurunum munu endurtaka rullur sínar í bland við ný andlit en Harrison Ford er þar á meðal. Einnig verða þarna kempur eins og Max von Sydow og Andy Serkis ásamt Oscar Isaac og Adam Driver sem léku saman í Inside Llewyn Davis. John Williams sér svo um tónlistina enda ekki hægt að bjóða upp á aðra Star Wars mynd án hans.

Gömlu brýnin:

Harrison Ford (Han Solo)
Carrie Fisher (Leia Solo)
Mark Hamill (Luke Skywalker)
Anthony Daniels (C-3PO)
Peter Mayhew (Chewbacca)
Kenny Baker (R2-D2)

Þessir koma svo nýir inn:

Oscar Isaac
John Boyega
Daisy Ridley
Adam Driver
Andy Serkis
Domhnall Gleeson
Max von Sydow

– Torfi

Auglýsingar

Tónleikadómur: Elvis Presley á sviði

EPOS

Ég skellti mér á ansi sérstaka tónleika í Eldborgarsal Hörpu í gær. Þar var á ferðinni 15 manna hljómsveit sem spilaði undir fyrir kónginn sjálfann, Elvis Presley. Presley sjálfur var þó ekki viðstaddur enda löngu látinn en honum var varpað upp á stórt tjald sem staðsett var fremst á sviðinu. Ég hafði ekki kynnt mér tónleikana nógu vel en ég bjóst við hologram Elvis en í staðinn var gömlum upptökum af Elvis á tónleikum varpað upp á tjaldið. Þetta fannst mér heldur lélegt enda hefði ég eflaust fengið það sama út úr því að horfa á YouTube klippur af kónginum heima hjá mér með græjurnar í botni.

Í lýsingunni á tónleikunum á midi.is stóð: Rödd Elvis og nærvera hans á tjaldinu er svo kraftmikil og samspilið við tónlistamennina og söngvarana á sviðinu svo samofið að eftir nokkur lög getur þú nánast gleymt því að Elvis er ekki í eigin persónu á sviðinu. Ég get því miður ekki kvittað undir þetta en þetta ótrúlega samspil gerði það reyndar að verkum að ég gleymdi að það væri lifandi hljómsveit á sviðinu. Hljómsveitin fékk ekki að njóta sín nógu vel að mínu mati enda stóð hún í skugganum af Elvis og það var ekki fyrr en að þeir plöntuðu sér fyrir framan tjaldið í nokkur skipti sem maður fann virkilega fyrir þeim.

Ekki er hægt að kvarta yfir lagavalinu en þó nutu lögin sín misvel enda Elvis engum líkur á sviðinu. Í „Love Me Tender“ var t.d. meira um kossaflens en söng og í mörgum lögum var keyrslan fullmikil þannig að lögin voru sum hver bara í mínútu í flutningi. Ein kona sem sat fyrir neðan mig hitti naglann á höfuðið þegar hún sagði við manninn sinn: Þitt lag var miklu lengra en mitt!

Þessir tónleikar gerðu allavega ekki mikið fyrir mig enda geri ég aðeins meiri kröfur fyrir þennan pening. Þetta var miklu líkara tónleikamynd heldur en tónleikum og ég vona svo innilega að þetta verði ekki raunin í framtíðinni að reyna að lífga listamenn við með lifandi tónlist undir gömlu myndefni. En ég get aðeins sjálfum mér um kennt enda kynnti ég mér málið lítið áður en ég verslaði miða.

Ég var ekki að sjá neitt nýtt inn í Eldborgarsalnum þetta annars fína fimmtudagskvöld en frekar hefði ég viljað eyða peningnum í að sjá Elvis eftirhermu í heimsklassa á sviðinu með þessari fanta þéttu hljómsveit.

Lagalisti kvöldsins

That’s All Right Mama
I Got a Woman

Hound Dog
Don’t Be Cruel
Mystery Train/Tiger Man
Just Pretend
You Don’t Have to Say You Love Me
Sweet Caroline
Heartbreak Hotel
Are You Lonesome Tonight
Baby, What You Want Me to Do
Lawdy Ms. Clawdy
One Night With You
I Can’t Stop Loving You
Love Me Tender
Polk Salad Annie
Bridge Over Troubled Water

Hlé

Trouble/Guitar Man
Jailhouse Rock
All Shook Up
Blue Suede Shoes
You Lost That Loving Feelin’
Patch It Up
Make the World Go Away
Don’t Cry Daddy
In the Ghetto
Walk a Mile In My Shoes
LIVE GOSPEL SEGMENT – Singers with Elvis Presley feature How Great Thou Art
The Wonder of You
Can’t Help Falling In Love

Torfi

Samheldin fjölskylda gefur út sumarsmellinn 2014

Three Beat Slide
Sumarsmellurinn 2014 er fundinn og kemur hann heldur betur úr óvæntri átt. Lagið heitir „Summertime is Great“ og er eftir hljómsveitina Three Beat Slide, munið þetta nafn, Three Beat Slide sem samanstendur af tveimur systkinum og líklegast og vonandi föður þeirra. Lagið kom á YouTube 15. mars síðastliðinn og hefur á ca. þremur vikum fengið rúmlega 700,000 áhorf sem er nokkuð gott miðað við algjörlega óþekkt nafn.

Lagið sjálft er einlægt og einfalt rétt eins og myndbandið sem skartar fjölskyldunni í góðum gír í sumarskapi. Þeim tekst að breiða út boðskap sumarsins með gleði, grilli og grænu grasi svo eitthvað sé nefnt. Ég vara ykkur samt við, viðlagið á það til að setjast algjörlega að í heilabúinu ykkar. „It’s summertime and isn´t it great….“.

– Torfi

Elín Helena gefur út Til þeirra er málið varðar

Elín til

Þann 1. apríl síðastliðinn kom út frumburður pönk hljómsveitarinnar Elín Helena sem ber hið skemmtilega heiti Til þeirra er málið varðar. Ekki láta nafn sveitarinnar plata ykkur því að hér er um alvöru pönk að ræða, það mikið pönk reyndar að meðlimir hafa ákveðið að kalla tónlistina sína pönk-pönk sem er tvisvar sinnum meira pönk en venjulegt pönk.

Platan er komin í helstu plötubúðir landsins, á geisladisk og vínyl, og inniheldur 18 frumsamin lög á okkar ylhýra tungumáli. Lögin eru ekki bara góð heldur er umslagið afar fallegt og gerir plötuna ennþá eigulegri fyrir vikið. Ljósmyndin sem prýðir umslagið var tekin af Bjarnleifi Bjarnleifssyni blaðaljósmyndara og skartar körfuboltaköppum í kröppum dansi.

Það er því ekki möguleiki á því að fermingarbörnin í ár blóti saklausum ömmum sínum fyrir að gefa sér þessa plötu í fermingargjöf, standandi í þeirri trú um að hér sé um huggulega popptónlist að ræða.

Torfi 

Vio sigruðu Músíktilraunir 2014

IMG_1715

Það var hljómsveitin Vio frá Mosfellsbæ sem bar sigur úr bítum á Músíktilraunum þetta árið. Í öðru sæti lenti hljómsveitin Lucy in Blue og í því þriðja hafnaði Conflictions. Milkhouse var svo kosin hljómsveit fólksins.

Undirritaður var viðstaddur síðasta undanúrslitakvöldið og sá Vio komast áfram í úrslitin. Þeir voru með betri atriðum kvöldsins og er óhætt að segja að drengirnir þrír séu vel að sigrinum komnir.

Það eru því spennandi tímar framundan hjá Vio og verður fróðlegt að fylgjast með framgöngu þeirra á næstunni.

– Torfi