Monthly Archives: júlí 2013

Upphitun fyrir Frank Ocean

frank-ocean-20121-608x300

Frank Ocean kemur fram í Laugardalshöll nú á þriðjudaginn og er nú þegar uppselt í stæði en enn er hægt að fá miða í hina rándýru stúku. Tónleikarnir eru partir af You’re Not Dead…2013 túrnum en í honum kemur hann fram alls fjórtán sinnum víðsvegar um Evrópu og Kanada. Ekkert upphitunarband verður til staðar sem er að mínu mati bara jákvætt, algjör óþarfi að lengja biðina eitthvað frekar.

En hverju mega gestir tónleikanna eiga von á í lagavali? Eins og flest allir (sem ætla að gera sér ferð á tónleikana) vita gaf Ocean út plötuna channel ORANGE í fyrra sem hlaut ansi hreint góða dóma og var í efsta sæti margra yfir bestu plötur ársins 2012. Þó að platan hafi verið hans fyrsta formlega stúdíóplata hafði hann árið áður gefið út mixteip plötuna, nostalgia, ULTRA. sem innihélt lög eins og „Swim Good“ og „Novacane“. Gera má fastlega ráð fyrir því að Ocean taki þessi tvö lög og enn fleiri af channel ORANGE. Þá er Ocean svolítið í því að taka ábreiður eftir aðra en ef hann er í því stuði hefur hann verið að taka „By Your Side“ með Sade, „When You Were Mine“ með Prince og „I Miss You“ með Beyonce!

Ocean hefur gefið það út að hann sé að vinna að nýju efni og má alveg eins búast við því að hann taki ný lög en hann tók til að mynda þrjú ný lög á tónleikum í Frakklandi í byrjun þessa mánaðar. Svo á hann nokkur lög sem hafa ekki birst á plötunum tveimur sem hann er vanur að spila á tónleikum.

En Frank virðist vera duglegur að stokka upp í prógramminu sínu ef marka má lagalistasíður á netinu og er bara vonandi að hann leyfi íslenskum gestum að heyra sín bestu lög og einhver glæný í leiðinni.

Það má allavega búast við því að þessi lög verði spiluð en þetta eru tíu mest spiluðu lögin hans á tónleikum yfir þetta ár.

Bad Religion
Crack Rock
Forrest Gump
Golden Girl
Lost
Monks
Novacane
Pyramids
Sierra Leone
Super Rich Kid

Frank_Ocean-Nostalgia_UltraChannel_ORANGE
Annars hvet ég alla til að mæta í appelsínugulu á þriðjudaginn en það er greinilega uppáhalds liturinn hans af plötuumslögum hans að dæma, ég þori allavega að veðja að liturinn muni koma fram á næstu plötu í einhverju formi. Góða skemmtun!

Auglýsingar