Monthly Archives: desember 2013

Bestu erlendu plöturnar 2013

Tónlistarárið 2013 var ekki aðeins gott á Íslandi heldur einnig úti í heimi. Það er samt alltaf jafn erfitt að fylgjast með og sér maður það best þegar árslistarnir hrannast inn frá hinum og þessum tónlistarmiðlum. Þó að maður sé nokkurn veginn á sama máli með topp 10 er samt heill hellingur sem maður hefur ekki heyrt af eða ekki komist í að hlusta á. En þá er alltaf gaman í janúar, febrúar því að þá getur maður skoðað það sem framhjá manni fór árið áður. En ég hef gert upp hug minn og þetta eru þær 10 sem stóðu framar öðrum sem ég hlustaði á árið 2013.

# 10 Trouble Will Find Me – The National

Print
Hljómsveitin The National hefur hægt og bítandi skapað sér sess sem ein frambærilegasta rokksveit heims með frábærum plötum (The Boxer og High Violet). Trouble Will Find Me er ekki eins góð og þær, heilt yfir miklu rólegri og færri smellir en í heildina rennur hún ljúft í gegn.

Hápunktar: Demons, I Need My Girl, I Should Live in Salt.

# 9 Pale Green Ghosts – John Grant

john-grant-pale-green-ghosts
Þessi á næstum því heima á íslenska listanum enda vann John Grant plötuna mikið með Íslendingum. Biggi Viera setur sinn svip á plötuna sem er býsna frábrugðin Queen of Denmark og fer þessi nýji rafstíll John Grant einstaklega vel.

Hápunktar: Black Belt, Glacier, GMF.

# 8 …Like Clockwork – Queens of the Stone Age

like-clockwork-album-cover-image
Það var kominn tími á góða plötu frá QOTSA eftir vonbrigðin í Era Vulgaris. Joshua Homme og félagar hafa fundið sjarmann sem einkenndi þá á dögum Songs for the Deaf og eru það virkilega góð tíðindi.

Hápunktar: I Sat by the Ocean, If I Had a Tail, My God Is the Sun.

# 7 Yeezus – Kanye West

1-Yeezus_304x304
Sama hversu umdeildur Kanye er verður hann aldrei sakaður um að búa til lélega tónlist. Kanye er fjölbreyttur listamaður sem sýnir sig best í því hversu ólíkar plöturnar hans eru. Yeezus er harðari en fyrri verk Kanye og jafnvel aðeins hrárri á köflum og plötuumslagið sýnir kannski hráleikann best. Meðferð Kanye á laginu „Strange Fruit“ í flutningi Ninu Simone er svo algjörlega epísk.

Hápunktar: Black Skinhead, Blood on the Leaves, Bound 2, New Slaves.

# 6 Random Access Memories – Daft Punk

daft-punk-random-access-memories-cover
Líklega best markaðsetta plata ársins sem tókst að búa til óbærilega spennu eftir henni og gerði það að verkum að þegar hún kom út var eiginlega bannað að fýla hana ekki. Þegar leið á sumarið og maður búinn að liggja yfir henni þá gat maður metið kosti hennar og galla. Kostirnir eru þeir að lögin eru flest afbragðs góð en gallarnir kannski þeir að hún er óDaft Punklegasta platan til þessa þar sem að listamennirnir setja ótrúlega mikinn svip á hana. Hún hljómar þá kannski frekar eins og Daft Punk plata þar sem aðrir listamenn gera sínar útgáfur af lögunum þeirra. Gott dæmi um þetta er „Instant Crush“ sem hljómar eins og lag eftir The Strokes og „Get Lucky“ sem er óneitanlega eign Nile Rodgers. En auðvitað er þetta samstarfsplata sem gengur vel upp og Daft Punk valdi svo sannarlega þá listamenn sem féllu vel að þeirra stíl.

Hápunktar: Contact, Get Lucky, Giorgio by Moroder, Give Life Back to Music, Instant Crush.

# 5 Modern Vampires of the City – Vampire Weekend

Vampire_Weekend_-_Modern_Vampires_of_the_City
Vampire Weekend komu þvílíkt ferskir inn í árið 2008 með lygilega góðum frumburði. Contra sem kom út tveimur árum síðar var ákveðin vonbrigði en með Modern Vampires of the City hafa þeir náð að fullmóta sinn stíl og gefa hér frá sér ótrúlega heilsteypt verk með slögurum sem geta staðið einir og sér. Á góðum degi getur Vampire Weekend verið skemmtilegasta hljómsveitin í bransanum og hún var það svo sannarlega í ár. Stubbasöngurinn í „Ya Hey“ er samt pirrandi og fellir plötuna í 5. sæti.

Hápunktar: Diane Young, Step, Unbelievers.

# 4 Reflektor – Arcade Fire

arcade-fire-reflektor-cover-500x500 (1)
Það tók mig smá tíma að venjast nýja hljóm uppáhalds hljómsveitarinnar minnar en eftir að hafa gefið henni tíma tókst mér að meta hana að verðleikum. Platan er stór og flest lögin einnig en Arcade Fire höndlar stærðina með miklum ágætum enda stórt band og vel mannað. Þrátt fyrir að handbragð James Murphy liti plötuna er gamla góða Arcade Fire aldrei langt undan.

Hápunktar: Afterlife, Here Comes the Night Time, Reflektor, We Exist.

# 3 Settle – Disclosure 

disclosure-settle-album
Bræðurnir í Disclosure eiga hrós skilið fyrir að hafa sent frá sér eins góðan frumburð og Settle er og vera ekki eldri en þetta en það er eins og þeir hafi verið í þessum bransa í fleiri fleiri ár. Þeir sýna ótrúlega mikinn þroska miðað við aldur á plötunni sem hljómar gjörsamlega óaðfinnanlega og eru þeir líklega margir í house geiranum sem öfunda bræðurna af Settle. Til að gefa fólki ágætis mynd af gæðum plötunnar hafa verið gefnir út sex smellir út frá henni en vanalega eru þeir í kringum þrjá.

Hápunktar: F for You, Latch, When a Fire Starts to Burn, White Noise.

# 2 Overgrown – James Blake

james-blake-overgrown-410
James Blake fylgir hér á eftir fyrstu plötunni sinni með ennþá betra verki. Lagið „Retrograde“ gaf strax tóninn fyrir eitthvað stærra hjá James Blake og frammistaða hans á Sónar Reykjavík sýndi að hann er með frambærilegri listamönnum nútímans þar sem hann blandar allskonar stílum saman og býr þar að auki yfir afar fallegri rödd. Tónlist James Blake hentar vel fyrir rappara eins og sést vel á „Take a Fall For Me“ þar sem RZA rappar og svo „Life Around Here“ þar sem Chance the Rapper tekur til máls en þá útgáfu er reyndar ekki að finna á plötunni.

Hápunktar: I Am Sold, Life Around Here, Retrograde, To the Last.

# 1 AM – Arctic Monkeys 

Arctic+Monkeys+AM
Arctic Monkeys hafa loksins fundið sig á ný eftir að hafa verið afvegaleiddir á hinum misgóðu Humbug og Suck It and See. Platan er fjölbreytt og sneisafull af góðum lögum. Umhverfið í LA hefur líklega haft einhver áhrif á Alex Turner og félaga þar sem r&b og hipp hopp áhrifin leyna sér ekki á plötunni. Rokkið er samt alltaf númer 1, 2 og 3 og þá skiptir engu hvort að þeir séu í rólegri kantinum eða ekki, þeir gera það alveg jafn vel og þá helst Alex Turner sem nýtur sín ofboðslega vel í lögum eins og „Mad Sounds“ og „I Wanna Be Yours“ sem eru algjör unaður á að hlusta. Eitt uppáhalds lagið mitt á plötunni er „Fireside“ þar sem trommarinn er í aðalhlutverki í frábærum slætti og Alex Turner afslappaður og svalur. AM er afskaplega fjölbreytt plata sem maður mun seint fá leið á og þau sem héldu að þeir gætu aldrei toppað fyrstu tvær plöturnar sínar hafa mögulega haft rangt fyrir sér.

Hápunktar: Platan eins og hún leggur sig.

Torfi Guðbrandsson

Auglýsingar

Bestu íslensku plöturnar 2013

Þá er komið að máli málanna, hverjar voru bestu íslensku plöturnar árið 2013? Þær voru nokkuð margar sem litu dagsins ljós í ár en þetta eru þær tíu plötur sem mér fannst standa upp úr.

# 10 Planet Earth – Berndsen

Berndsen
Það var algjörlega kominn tími á aðra plötu frá Berndsen og hann svíkur engan með ögn myrkari plötu en Lover in the Dark var.

Hápunktar: Data Hunter, Gimmi Gimmi, Two Lovers Team.

# 9 Artificial Daylight – 1860

1860
Hér er á ferðinni frábær plata með piltunum úr 1860. Ef hún hefði verið aðeins sterkari um miðbikið hefði hún klárlega verið ofar á þessum lista.

Hápunktar: Father’s Farm, Go Forth, Íðilfagur.

# 8 Northern Comfort – Tilbury

Tilbury___Northe_5272377cb8447
Þorri og félagar hafa gefið út tvær plötur á tveimur árum, Northern Comfort er heilsteyptara verk heldur en Exorcise og má svo sem alveg lesa það úr titlunum á plötunum.

Hápunktar: Deliverance, Northern Comfort, Turbulance.

# 7 See You in the Afterglow – Leaves

Leaves
Maður var nú eiginlega farinn að afskrifa Leaves og bjóst ekki við að heyra meira frá þeim eftir hina frekar litlausu We Are Shadows. En með See You in the Afterglow eru þeir komnir aftur í sitt besta form.

Hápunktar: Ocean, Perfect Weather, The Sensualist.

# 6 Flowers – Sin Fang

Flowers
Einn afkastamesti tónlistarmaður þjóðarinnar síðustu tíu árin gaf tóninn fyrir frábært íslenskt tónlistarár með sinni þriðju stóru plötu, Flowers. Henni tekst að toppa forvera sína með stærri hljóm og þroskaðri lagasmíðum.

Hápunktar: Look at the Light, See Ribs, What’s Wrong With Your Eyes, Young Boys.

# 5 ALI – Grísalappalísa

Ali
Syrgjendur Jakobínurínu geta þerrað tárin því að í ár reis Gunnar upp frá dauðum, giftur og sprækari sem aldrei fyrr. Honum til aðstoðar eru mættir sterkir póstar héðan og þaðan úr tónlistarlífinu ásamt einum nýjum og ferskum (Baldri) og saman bjóða þeir til tónlistarveislu, bæði fyrir augu og eyru.

Hápunktar: Allt má (má út), Kraut í g, Lóan er komin, Skrítin birta.

# 4 Kveikur – Sigur Rós

Kveikur
Það leið ekki langur tími á milli platna hjá Sigur Rós að þessu sinni. Eftir rólegheitin í Valtara var kominn tími á smá læti og gaf lagið „Brennisteinn“ í Höllinni á Airwaves ’12 góð fyrirheit um það sem koma skyldi. Að þessu sinni voru þeir aðeins þrír eftir að Kjartan hafði yfirgefið sveitina en það bitnaði þó alls ekki á gæðum plötunnar.

Hápunktar: Bláþráður, Brennisteinn, Ísjaki, Kveikur, Rafstraumur.

# 3 Friður – Ojba Rasta

Ojba_Rasta___Fri_525eeee5c927c
Ojba Rasta hafa náð góðum tökum á því að kokka upp algjöran eðal úr hráefnunum reggí og döbbi ásamt nokkrum vel völdum orðum úr íslenskunni. Þeir halda hér vel á spöðunum og platan hljómar ekki eins og hún hafi verið unnin í einhverju flýti eins og við mætti búast þegar að frumburðurinn leit aðeins dagsins ljós í fyrra.

Hápunktar: Einhvern veginn svona, Ég veit ég vona, Þyngra en tárum taki.

# 2 Komdu til mín svarta systir – Mammút 

Mammút
Það mætti halda að einhver bölvun hafi hvílt á svörtu systurinni enda ætlaði það aldrei að takast að koma plötunni út. Til allrar hamingju tókst það þó á endanum og það er alveg ljóst að á þessum fimm árum sem liðu á milli Karkara og þessarar plötu hafa meðlimir þroskast mikið sem listamenn og náð að þróa tónlist sína enn frekar með þessum líka glæsilega árangri.

Hápunktar: Blóðberg, Salt, Ströndin, Tungan.

# 1 Tookah – Emilíana Torrini

Emilíana_Torrini_-_Tookah (1)
Emilíana Torrini er líklega það besta sem hefur komið frá Kópavoginum og eru það engar ýkjur. Ferill hennar er glæsilegur og Tookah er enn ein rósin í hnappagatið hennar. Platan er falleg, einlæg, dularfull, djörf og á köflum dansvæn og er ekki ein sekúnda af þessum ca. 2400 illa nýtt. Tookah er enn eitt meistaraverkið og eyrnakonfektið úr smiðju Torrini og Dan Carey og megi það samstarf halda lengi áfram um ókomna tíð!

Hápunktar: Autumn Sun, Blood Red, Home, Speed of Dark, Tookah.

Torfi Guðbrandsson

Bestu erlendu lögin 2013

# 20 „Lean“ – The National

Þrátt fyrir að The National hafi gefið út ágætis plötu í ár með nokkrum fínum lögum fannst mér lagið „Lean“ sem þeir sömdu fyrir The Hunger Games: Catching Fire standa þeim framar. Hæfilega stórt og fallegt lag sem passar vel við Hungurleikana.

# 19 „In the Kingdom“ – Mazzy Star

Titillag nýju plötunnar með Mazzy Star sem lét aðdáendur sína bíða alltof lengi eftir nýju efni. En biðin var þess virði en mikið eyrnakonfekt hér á ferð.

# 18 „Another Love“ – Tom Odell

Langbesta lagið með Tom Odell ásamt kannski „Can’t Pretend“. Platan hans var svolítið flöt en þetta lag situr fast eftir í kollinum. Rólegt í byrjun en byggist svo alltaf meir og meir upp og sterk rödd Tom Odells nýtur sín vel.

# 17 „Last of the Summer Wine“ – Palma Violets 

Grípandi og letilegt rokk í anda The Strokes og The Libertines.

# 16 „Sweater Weather“ – The Neighbourhood

Lag sem var feyki vinsælt hér á landi og í mikilli spilun á X-inu. Hipp og kúl og algjört æði.

# 15 „Name Written in the Water“ – Cass McCombs

Cass McCombs leiðist ekki að gefa út lög en á síðustu þremur árum hefur hann gefið út rúmlega 40 lög. Cass er með afar viðkunnalega rödd og ekki skemmir fyrir skemmtilegur takturinn í laginu.

# 14 „We Exist“ – Arcade Fire

Eitt af mörgum frábærum lögum frá Arcade Fire af plötunni Reflektor.

# 13 „If I Had a Tail“ – Queens of the Stone Age

Það var kominn tími á gott efni frá Josh Homme og félögum og hér eru þeir í s-inu sínu.

# 12 „Shuggie“ – Foxygen

Ég skil ekki alveg hvernig þessi hljómsveit fór framhjá útvarpsmönnum landsins en ég minnist þess ekki að hafa heyrt einasta lag með þeim í útvarpinu. Þetta hefði t.d. átt full erindi á aldir ljósvakans.

# 11 „Unbelievers“ – Vampire Weekend

Vampire Weekend minntu heldur betur á sig í ár og hér er eitt frábært frá þeim.

# 10 „One Way Trigger“ – The Strokes 

Lag sem sýnir tvær hliðar á Julian Casablancas, þessa léttleikandi og kæruleysislegu hlið og svo hina eitursvölu og ögn lágstemdari hlið.

# 9 „Kemosabe“ – Everything Everything 

Íslandsvinirnir í Everything Everything hræra hér mörgum stílum saman í einn graut sem skilar sér í afskaplega sturluðu og góðu lagi. Líklega besta lag sem samið hefur verið um Tonto.

# 8 „Life Around Here“ – James Blake

Frábært lag úr smiðju James Blake sem er líka vinsæll hjá röppurum en til er útgáfa af laginu þar sem Chance the Rapper lætur nokkur vel valin orð falla.

# 7 „My Number“ – Foals

Lag sem einkenndi sumarið mitt í Noregi en þegar ég heyri þetta lag sé ég fyrir mér norska hraðbraut þar sem sólin sleikir malbikið.

# 6 „Don’t Save Me“ – Haim

Það var ótrúlega spennandi að fylgjast með framgöngu systranna í Haim í ár eftir æðislega tónleika á Airwaves í fyrra. „Don’t Save Me“ er vitnisburður um spádóma margra, þær eru einfaldlega með þetta!

# 5 „White Noise“ – Disclosure (ásamt AlunaGeorge)

Hér fá bræðurnir í Disclosure góða hjálp frá tvíeykinu í AlunaGeorge og saman sjóða þau í einn besta hittara ársins. 

# 4 „Instant Crush“ – Daft Punk (ásamt Julian Casablancas)

„Get Lucky“ skyggði að sjálfsögðu á öll hin lögin af Random Access Memories en persónulega myndi ég allan daginn kjósa Julian Casablancas fram yfir Pharrell Williams.

# 3 „Hold On, We’re Going Home“ – Drake

Ég er nú ekki mikill Drake maður en með þessu lagi hittir hann mig beint í hjartastað. Ábreiðan sem Arctic Monkeys gerði af laginu er einnig ógleymanleg.

# 2 „Why’d You Only Call Me When You’re High?“ – Arctic Monkeys 

Alex Turner og félagar sýna á sér nýjar hliðar sem svipa svolítið mikið til hipp-hoppsins og það fer þeim lygilega vel.

# 1 „GMF“ – John Grant

„GMF“ heyrði ég fyrst í Austurbæjabíói sumarið 2012 og heyrði það ekki aftur fyrr en í febrúar/mars á þessu ári þegar hægt var að hlusta á plötuna frítt á soundcloud. Ég held að ég hafi hlustað á það svona 10 sinnum það kvöld enda hef ég aldrei upplifað aðra eins bið en vanalega getur maður smellt lagi sem maður heyrir á tónleikum strax á fóninn þegar heim er komið. Lagið hefur alla þá kosti sem prýðir frábær lög, það er grípandi og ekki bara viðlagið, textinn er snilld, lengdin á laginu er fullkomin en það vill oft verða þannig að lög sem grípa mig strax eru alltof stutt, flutningurinn hjá John Grant er frábær og nýtingin á Sinead O’Connor er líka góð. Sannkallað fimm stjörnu lag.

Bestu íslensku lögin 2013

Þau voru mörg góð lögin sem komu út í ár hér á landi og það er alveg ljóst að íslenskir tónlistarmenn eru ekkert á leiðinni að slaka á hvað tónlistarsköpun varðar. Hérna eru 20 bestu lögin að mati Pottsins.

# 20 „Up“ – Steinar

Svokallaði hittarinn sem kom Steinari á kortið hér á landi. Hann náði að syngja sig inn í hjörtu líklega allra stelpna á unglingsaldri og mun sennilega selja góðan slatta af plötunni sinni fyrir jólin.

# 19 „Vonarströnd“ – Íkorni

Huggulegir tónar frá Íkornanum sem lá undir feld mest allt árið.

# 18 „Mama Ganja“ – Johnny and the Rest

Sumarlag frá strákunum í Johnny and the Rest.

# 17 „Automobile“ – Kaleo 

Rosalega óíslenskt lag en engu að síður afskaplega skemmtilegt sem flytur mann beina leið yfir til Bandaríkjanna.

# 16 „Aheybaró“ – Kött Grá Pjé og Nolem 

Lag sem ég heyrði fyrst í Stúdíó A sem mér þykir miður enda hefði verið gaman að njóta þess í sólinni.

# 15 „Bál“ – Drangar

Það væri nú bara eitthvað að ef stjörnuband Íslands í ár ætti ekki lag á listanum.

# 14 „No Need to Hesitate“ – Jóhann Kristinsson

Jóhann var í góðu formi í ár og hér er hans besta lag til þessa.

# 13 „What’s Wrong With Your Eyes“ – Sin Fang

Sin Fang heldur áfram að bæta sig ár eftir ár og hér er eitt stórt og grípandi úr hans smiðju.

# 12 „Ísjaki“ – Sigur Rós

Sigur Rós voru langt frá því að vera kaldir hvað lagasmíðar varðaði 2013.

# 11 „Ég bíð þín“ – Vök 

Sigurvegarar Músíktilrauna 2013 sýna með þessu lagi að þau eru vel að titlinum komin.

# 10 „Salt“ – Mammút

Það var löngu kominn tími á nýtt efni frá Mammút og hér er eitt af mörgum frábærum lögum sem þau gáfu frá sér í ár.

# 9 „I Would If I Could“ – Lay Low 

Eitt eitursvalt lag frá Lovísu.

# 8 „Íðilfagur“ – 1860

Lag sem kemur mér alltaf í gott skap, frábær flutningur!

# 7 „Tookah“ – Emilíana Torrini

Emilíana Torrini heldur áfram að minna á sig, óaðfinnanlegur hljóðfæraleikur hér á ferð.

# 6 „Ég bisst assökunar“ – Markús and the Diversion Sessions

Skemmtilegt og kæruleysislegt lag sem minnir á meistara á borð við Megas og Súkkat.

# 5 „Two Lovers Team“ – Berndsen

Hér fara Berndsen og félagar gjörsamlega á kostum og get ég hreinlega ekki beðið eftir að dilla mér við þessa tóna á tónleikum hjá þeim.

# 4 „Skrítin birta“ – Grísalappalísa

Til allrar hamingju er einn besti sviðsmaður landsins kominn til baka og er hann umkringdur toppmönnum. Skemmtilegasta myndband ársins líka.

# 3 „Einhvern veginn svona“ – Ojba Rasta

Það er erfitt að hunsa lag eins og þetta, hryllilega skemmtilegt og grípandi.

# 2 „Ocean“ – Leaves

Það er nú bara þannig að ég er forfallinn Leaves aðdáandi og er ég heyrði þetta fyrst í útvarpinu var ég næstum búinn að sprengja hátalarana í bílnum.

# 1 „Bragðarefir“ – Prins Póló

Ein mestu vonbrigðin árið 2013 voru þau að Prins Póló kom ekki með plötu en miðað við þetta lag þá er von á góðu 2014 (vonandi).

Topp 5: Plötuumslög ársins 2013

Þá er Potturinn kominn í árslistafýling og ætlar m.a. að útnefna plötur ársins og lög ársins. Aldrei áður hefur höfundur þó útbúið lista yfir plötuumslög ársins sem er náttúrulega algjör synd enda verður að hæla því eins og innihaldinu. Hér koma fimm bestu plötuumslög ársins.

# 5 Hymnalaya – Hymns 

Hymnalaya

Fyrsta plata hljómsveitarinnar Hymnalaya er afskaplega ljúf hlustunar og að sama skapi er plötuumslagið fallegt og gefur manni í raun strax hugmynd um að fyrir innan leynist eitthvað huggulegt. Heiðurinn af verkinu á Gísli Hrafn Magnússon en hann er einmitt meðlimur í Hymnalaya og spilar á gítar.

# 4 Dj. Flugvél og Geimskip – Glamúr í geimnum

Dj. Flugvél

Þegar maður heyrir nafnið á plötunni „Glamúr í geimnum“ er myndin sem maður fær upp í hugann bara nokkuð líkleg til þess að líta út eins og á viðkomandi plötuumslagi. Steinunn Eldflaug Harðardóttir sem er manneskjan á bakvið Dj. Flugvél og geimskip er bílstjóri ferðarinnar út í geim og það er erfitt að neita tilboðinu.

# 3 Berndsen – Planet Earth 

Berndsen

Það er ekki endilega vegna framhliðarinnar sem að Planet Earth hlýtur atkvæði mitt en opnan er ekki síður falleg og gerir plötuna að enn eigulegri grip. Framhliðin minnir mann svolítið á umhverfið í gömlu Tron myndinni og hefur maður eilitlar áhyggjur af Berndsen þarna hinum megin við skjáinn.

# 2 Tilbury – Northern Comfort

Tilbury___Northe_5272377cb8447

Annað árið í röð fær Hugleikur Dagsson það verkefni að búa til umslag fyrir bróðir sinn í Tilbury og eins og í fyrra tekst honum vel til. Myndin grípur augað strax með fallegum lit og geimfara á villigötum. Tilbury þurfa að vera duglegir að gefa út plötur til að halda þessum fallega myndaflokki gangandi.

# 1 Ojba Rasta – Friður 

Ojba_Rasta___Fri_525eeee5c927c

Það var náttúrulega aldrei spurning hvaða plata væri með fallegasta umslagið í ár. Ragnar Fjalar Lárusson nær að toppa sig frá því í fyrra en það plötuumslag var ekki síður fallegt og nokkuð ljóst að hann á eftir að láta mikið að sér kveða á næstu árum. Platan fer til spillis inn í plötuskáp og ætti að fara beint í ramma og upp á vegg.