Færslusafn

Jon Heder og Haim í nýju myndbandi Chromeo

Í dag kom út glænýtt myndband frá hljómsveitinni Chromeo við lagið „Old 45’s“ sem er að finna á hinni bráðskemmtilegu plötu White Women. Chromeo-liðar fá til sín góða gesti í myndbandinu þar sem að stelpurnar úr Haim og leikarinn Jon Heder sýna ágætis takta á afskekktum mótorhjólabar. Augnayndið sem Jon Heder reynir við á barnum er Amra Silajdzic, leikkona og fyrirsæta frá Bosníu. Skemmtilegt myndband við skemmtilegt lag.

Annars er alveg óhætt að mæla með White Women sem gefur fyrri verkum ekkert eftir og greinilega engin þreytumerki að finna á hljómsveitinni geðþekku. Þá mælist ég til þess að fólk renni laginu „Lost on the Way Home“ í gegn en það gæti mögulega gert daginn betri.

– Torfi

Auglýsingar

Bestu erlendu lögin 2013

# 20 „Lean“ – The National

Þrátt fyrir að The National hafi gefið út ágætis plötu í ár með nokkrum fínum lögum fannst mér lagið „Lean“ sem þeir sömdu fyrir The Hunger Games: Catching Fire standa þeim framar. Hæfilega stórt og fallegt lag sem passar vel við Hungurleikana.

# 19 „In the Kingdom“ – Mazzy Star

Titillag nýju plötunnar með Mazzy Star sem lét aðdáendur sína bíða alltof lengi eftir nýju efni. En biðin var þess virði en mikið eyrnakonfekt hér á ferð.

# 18 „Another Love“ – Tom Odell

Langbesta lagið með Tom Odell ásamt kannski „Can’t Pretend“. Platan hans var svolítið flöt en þetta lag situr fast eftir í kollinum. Rólegt í byrjun en byggist svo alltaf meir og meir upp og sterk rödd Tom Odells nýtur sín vel.

# 17 „Last of the Summer Wine“ – Palma Violets 

Grípandi og letilegt rokk í anda The Strokes og The Libertines.

# 16 „Sweater Weather“ – The Neighbourhood

Lag sem var feyki vinsælt hér á landi og í mikilli spilun á X-inu. Hipp og kúl og algjört æði.

# 15 „Name Written in the Water“ – Cass McCombs

Cass McCombs leiðist ekki að gefa út lög en á síðustu þremur árum hefur hann gefið út rúmlega 40 lög. Cass er með afar viðkunnalega rödd og ekki skemmir fyrir skemmtilegur takturinn í laginu.

# 14 „We Exist“ – Arcade Fire

Eitt af mörgum frábærum lögum frá Arcade Fire af plötunni Reflektor.

# 13 „If I Had a Tail“ – Queens of the Stone Age

Það var kominn tími á gott efni frá Josh Homme og félögum og hér eru þeir í s-inu sínu.

# 12 „Shuggie“ – Foxygen

Ég skil ekki alveg hvernig þessi hljómsveit fór framhjá útvarpsmönnum landsins en ég minnist þess ekki að hafa heyrt einasta lag með þeim í útvarpinu. Þetta hefði t.d. átt full erindi á aldir ljósvakans.

# 11 „Unbelievers“ – Vampire Weekend

Vampire Weekend minntu heldur betur á sig í ár og hér er eitt frábært frá þeim.

# 10 „One Way Trigger“ – The Strokes 

Lag sem sýnir tvær hliðar á Julian Casablancas, þessa léttleikandi og kæruleysislegu hlið og svo hina eitursvölu og ögn lágstemdari hlið.

# 9 „Kemosabe“ – Everything Everything 

Íslandsvinirnir í Everything Everything hræra hér mörgum stílum saman í einn graut sem skilar sér í afskaplega sturluðu og góðu lagi. Líklega besta lag sem samið hefur verið um Tonto.

# 8 „Life Around Here“ – James Blake

Frábært lag úr smiðju James Blake sem er líka vinsæll hjá röppurum en til er útgáfa af laginu þar sem Chance the Rapper lætur nokkur vel valin orð falla.

# 7 „My Number“ – Foals

Lag sem einkenndi sumarið mitt í Noregi en þegar ég heyri þetta lag sé ég fyrir mér norska hraðbraut þar sem sólin sleikir malbikið.

# 6 „Don’t Save Me“ – Haim

Það var ótrúlega spennandi að fylgjast með framgöngu systranna í Haim í ár eftir æðislega tónleika á Airwaves í fyrra. „Don’t Save Me“ er vitnisburður um spádóma margra, þær eru einfaldlega með þetta!

# 5 „White Noise“ – Disclosure (ásamt AlunaGeorge)

Hér fá bræðurnir í Disclosure góða hjálp frá tvíeykinu í AlunaGeorge og saman sjóða þau í einn besta hittara ársins. 

# 4 „Instant Crush“ – Daft Punk (ásamt Julian Casablancas)

„Get Lucky“ skyggði að sjálfsögðu á öll hin lögin af Random Access Memories en persónulega myndi ég allan daginn kjósa Julian Casablancas fram yfir Pharrell Williams.

# 3 „Hold On, We’re Going Home“ – Drake

Ég er nú ekki mikill Drake maður en með þessu lagi hittir hann mig beint í hjartastað. Ábreiðan sem Arctic Monkeys gerði af laginu er einnig ógleymanleg.

# 2 „Why’d You Only Call Me When You’re High?“ – Arctic Monkeys 

Alex Turner og félagar sýna á sér nýjar hliðar sem svipa svolítið mikið til hipp-hoppsins og það fer þeim lygilega vel.

# 1 „GMF“ – John Grant

„GMF“ heyrði ég fyrst í Austurbæjabíói sumarið 2012 og heyrði það ekki aftur fyrr en í febrúar/mars á þessu ári þegar hægt var að hlusta á plötuna frítt á soundcloud. Ég held að ég hafi hlustað á það svona 10 sinnum það kvöld enda hef ég aldrei upplifað aðra eins bið en vanalega getur maður smellt lagi sem maður heyrir á tónleikum strax á fóninn þegar heim er komið. Lagið hefur alla þá kosti sem prýðir frábær lög, það er grípandi og ekki bara viðlagið, textinn er snilld, lengdin á laginu er fullkomin en það vill oft verða þannig að lög sem grípa mig strax eru alltof stutt, flutningurinn hjá John Grant er frábær og nýtingin á Sinead O’Connor er líka góð. Sannkallað fimm stjörnu lag.

Airwaves: Fimmtudagur

Annar í Airwaves og ég mættur upp í Hörpu nokkuð ráðvilltur. Það var tvennt sem ég varð að sjá þetta kvöld, Jamie N Commons og Haim. Ég tók því enga sénsa og kom mér tímanlega fyrir í Silfurbergi. Þar átti Lára Rúnars að stíga á svið og maður lét sig nú hafa það.

Ég veit ekki með Láru, hún fær góðan stuðning frá færum listamönnum en klúðrar svo málunum í sviðsframkomu og tali. Þetta er allt eitthvað svo klisjukennt. Hún getur samt alveg sungið og hún hefur ágætis hugmyndir í farteskinu en hún ætti samt að einbeita sér að því að vera hún sjálf.

Jamie N Commons var næstur á svið en það mun vera djúpraddaður andskoti frá Bretlandi. Honum hefur verið líkt við ekki ómerkari menn en Tom Waits og Nick Cave, slík eru gæðin. Að auki hefur hann góðan bakgrunn í blúsi eftir veru sína í Chicago. Jamie og hljómsveit hans kom, sá og sigraði, allavega mig. Ég var með gæsahúð lag eftir lag. Tónlistin var líka fjölbreytt og prógrammið var jafnt og þétt. Með betri tónleikum sem ég hef séð á Airwaves og bið ég ykkur um að muna þetta nafn í náinni framtíð.

Planið var að fara á Gaukinn en fyrst það var engin röð fyrir utan Þýska barinn varð maður eiginlega að kíkja á Gísla Pálma. Hann hóf leikinn á „Swagalegt“ og það var swagaleg upplifun. Eftir að Gísli var hálfnaður með annað lagið ákvað ég að rölta yfir á Gaukinn þar sem að Sudden Weather Change var að stilla upp.

Ég hef aldrei hlustað á SWC af neinu ráði. Þeir eru samt vel metnir hjá pressunni og ég var temmilega spenntur fyrir útkomunni. Þetta eru flottir drengir og ábyggilega mjög góðir í því sem þeir eru að gera en þetta heillar mig ekki.

Næst á svið var Nova Heart en hún kemur alla leiðina frá Kína. Fyrir minn smekk aðeins of mikil sýra en flottir tilburðir inn á milli hjá meðlimum og söngkonan örugg og kraftmikil. Áhorfendur voru að fýla þetta og mega þeir kínversku vera sáttir með sitt.

Þá var komið að því sem allir höfðu beðið eftir, hljómsveitin Haim frá Bandaríkjunum. Þrjár myndarlegar systur og einn drengur sem lamdi húðir. Þau rifu stemninguna upp á annað plan og vöfðu áhorfendum um fingur sér. Stúlkan á bassanum verður mér alltaf minnisstæð en ekki endilega fyrir flotta takta á bassanum heldur fyrir gapandi gin sitt. Um leið og hún byrjaði að plokka bassann opnaðist kjafturinn á henni upp á gátt. Maður var pínu smeykur. Annars virkilega gott sett hjá þeim og góð sviðsframkoma sem gefur alltaf vel. Flottasta stúlknaband sem ég hef séð, punktur.

Þessar stöllur sáu til þess að ég fór sáttur heim.

Torfi