Category Archives: Minningargreinar

† Richie Havens allur

Söngvarinn og gítarleikarinn Richie Havens hefur hvatt vora jörð en hann lést í gær 72 ára að aldri. Richard Pierce Havens fæddist í Brooklyn í janúar 1941 og var hann einn af níu systkinum takk fyrir. Segja má að frægðarsól Havens hafi loks risið þegar hann kom fram á Woodstock hátíðinni árið 1969 en vegna seinkunar og forfalla annarra hljómsveita þurftu áhorfendur að sitja uppi með hann í næstum þrjá klukkutíma! Havens stóð sína plikt og vel það og hristi úr erminni hin og þessi lög sem féllu vel í gesti.

RichieHavens_banner

Richie Havens slær strengi á Woodstock.

Ef aðrir listamenn hefðu ekki verið seinir á hátíðina hefði mannkynið líklega aldrei heyrt lagið „Freedom“ en þar sem Havens var nánast búinn að spila öll lög sem hann kunni þurfti hann að spinna eitthvað á staðnum. Hann studdist við texta úr negrasálminum „Motherless Child“ og lék svo af fingrum fram eins og honum einum var lagið og úr varð lagið „Freedom„.

Havens hafði sinn einstaka stíl og mætti kannski lýsa honum sem frumbyggjalegum. Hann þótti vera ansi ákafur á gítarinn auk þess sem hann notaði opna stillingu en þá heyrist hljómur þegar slegið er yfir alla strengina í einu án þess að nota grip.

Árið 2007 birtist Havens í litlu hlutverki í kvikmyndinni I’m Not There sem túlkar Bob Dylan á marga vegu. Þar sat hann á verönd ásamt leikaranum Marcus Carl Franklin sem túlkaði ungan Bob Dylan og Tyrone Benskin og spiluðu þeir lagið „Tombstone Blues“. Lengri útgáfu af laginu er að finna á sándtrakki myndarinnar en Havens var einn af fjölmörgum listamönnum sem gerðu ábreiður af lögum Dylans. Það þarf ekki að koma á óvart að Havens hafi verið í því úrtaki enda hafði hann áður leikið lög eftir Bob Dylan með góðum árangri. Þá lék hann einnig ábreiður af ferli Bítlanna og má þar benda á „Strawberry Fields Forever“ sem var í Woodstock prógrammi hans og „Here Comes the Sun“.

Richie Havens hafði áhrif á margan manninn og má nefna tónlistarmenn eins og Bill Withers, Cat Stevens og Jeff Buckley í því samhengi. Það er ljóst að áhrif Havens liggja víðar og að frumlega listamenn eins og hann er ekki að finna á hverju strái. Havens hefur skilið eftir sig arfleifð sem mun lifa áfram um ókomna tíð.

Auglýsingar

Litið yfir feril Tony Scott

Þær sorglegu fréttir bárust fyrir nokkrum dögum að breski leikstjórinn Tony Scott hefði framið sjálfsmorð og er því ekki úr vegi að rifja upp feril þessa merka leikstjóra og fara yfir nokkrar af hans bestu myndum.

Á góðri stunduÁ góðri stundu !

Tony Scott fæddist í Bretlandi á því merka ári 1944, fáeinum dögum eftir að sjálfstæðisbaráttu íslensku þjóðarinnar lauk. Hann var yngstur þriggja bræðra og ekki hár í loftinu þegar kvikmyndabakterían nær fyrst tökum á honum. Haft er eftir Tony að hann hafi skuldað pening „hægri, vinstri“ og því þáð boð eldri bróðir síns Ridley (AlienGladiatorPrometheus) um að leikstýra auglýsingum, þá fimmtán ára gamall. Bræðurnir enda svo á því að leikstýra í kringum þúsúnd auglýsingum næstu áratugi. Auglýsingabransinn reyndist góður skóli fyrir bræðurna sem voru þó í meira mæli farnir að hallast að gerð kvikmynda í fullri lengd. Á níunda áratugi síðustu aldar hófu nokkrir leikstjórar breska innrás á Bandaríkjamarkað og í broddi fylkingar voru bræðurnir tveir. Þessi innrás var harkalega gagnrýnd af þarlendum miðlum sem spurðu sig hvað nokkrir Bretar með bakgrunn í auglýsingum hefðu fram að færa í Hollywood. Framleiðandinn Jerry Bruckheimer var þó á öðru máli og gaf Tony tækifæri á að spreyta sig, það samstarf átti eftir að vera gjöfult og skilaði 6 myndum áður en yfir lauk.

Árið 1986…
Leikstýrir Tony Scott kvikmyndinni Top Gun sem er framleidd af áðurnefndum Jerry Bruckheimer. Myndin sló í gegn og malaði gull fyrir fjárfesta og naut mikillar hylli meðal áhorfenda, gagnrýnendur eru hins vegar ekki jafn hrifnir en þetta átti síðar eftir að verða endurtekið efni í sambandi við flestar hans myndir. Myndin kemur ekki aðeins Tony á kortið heldur einnig Vísindakirkju geðsjúklingnum Tom Cruise sem bar harm sinn að mestu leyti í hljóði við fráfall Scott, tísti þessum skilboðum þó til fylgismanna sinna á twitter og er maður meiri fyrir vikið!

Árið 1987…
Sér Tony til þess að Axel Foley í túlkun Eddie Murphy snúi til baka í kvikmyndinni Beverly Hills Cop II. hann leikstýrði ekki fyrstu myndinni í seríunni en steig hvergi feilspor í útsetningu sinni á þeirri seinni. Myndin er frábær afþreying, í senn hröð og fyndin og sannar færni Tony í að skapa úrvals afþreyingu.

Árið 1991…
Lýtur The Last Boy Scout dagsins ljós. Þar leiða lögreglumaðurinn Joe Hallenbeck (Bruce Willis) og ruðningskappinn Jimmy Dix (Damon Wayans) saman hesta sína við rannsókn á morðmáli, en ung stúlka finnst látin. Myndin er ótrúlega skemmtileg en þó ekki án galla og kemst kvikmyndagagnrýnandinn Roger Ebert að þessari niðurstöðu um myndina:

Bruce Willis fýrar

„The movie is a superb example of what it is: a glossy, skillful, cynical, smart, utterly corrupt and vilely misogynistic action thriller. How is the critic to respond? To give it a negative review would be dishonest, because it is such a skillful and well-crafted movie. To be positive is to seem to approve its sickness about women. I’ll give it three stars. As for my thumb, I’ll use it and my forefinger to hold my nose.“ – Roger Ebert

Árið 1993…
Kemur myndin True Romance út en handritið að myndinni skrifaði enginn annar en Quentin Tarantino, kannski sú mynd sem hefur fengið hvað besta dóma meðal gagnrýnenda og finnst mér einsog hún hafi loks verið metin að verðleikum í seinni tíð. Myndin er stjörnum prýdd einsog flestar af myndum Scott. Frammistaða Gary Oldman er sérstaklega áhugaverð en hann bregður sér í hlutverk eiturlyfjasalans Drexl.

Drexl

Árið 2001…
Er komið að Nathan D. Muir (Robert Redford) að bjarga fyrrum lærlingi sínum Tom Bishop (Brad Pitt) úr klóm öfgamanna í myndinni Spy Game. Þetta er kláralega mín uppáhalds mynd eftir títt nefndan leikstjóra enda vel heppnuð í alla staði, ekki skemmir fyrir að lagið „Brothers in Arms“ eftir Dire Straits sé notað í senunni hér fyrir neðan:

Árið 2004…
Kemur út myndin Man on Fire, en hún er eina myndin á listanum sem ég hef ekki séð, ég hef því takmarkaðan áhuga á að hripa eitthvað niður um hana. Ef marka má uppistandarann Chris Rock er myndin hins vegar hin besta skemmtun! Látum hann eiga lokaorðin í þessari grein…

– Elfar