Monthly Archives: nóvember 2012

Tame Impala: Sjóðandi heitir Ástralar

Meðlimir Tame Impala stilla sér upp.

Ástralía hefur í gegnum tíðina alið af sér frábæra listamenn eins og AC/DC, Men at Work, Nick Cave og Russell Crowe (djók) og nú nýlega hefur hljómsveitin Tame Impala rutt sér til rúms bæði á heimavelli og útivelli. Það hefur sveitin gert með annarri breiðskífu sinni, Lonerism, sem slegið hefur í gegn hjá gagnrýnendum á þessu ári. Eitt lag af plötunni hefur verið í mikilli spilun á X-inu en það er „Elephant“ og situr lagið í 7. sæti Pepsi Max listans þegar að þetta er skrifað.

Helsti munurinn á Lonerism og frumburðinum Innerspeaker sem kom út fyrir tveimur árum er að hún er talsvert poppaðri og virðist poppið falla vel að sýrurokkinu sem að Tame Impala býður upp á. Kevin Parker söngvari og aðal lagahöfundur TI var undir miklum áhrifum frá Todd Rundgren við gerð plötunnar en tónlistin minnir einnig á sveitir eins og MGMT, Flaming Lips og jafnvel Bítlanna hvað söng og raddanir varða. Ekki amalegur hrærigrautur eins og þið heyrið en það má einnig bæta því við að Britney Spears var Parker ofarlega í huga á meðan hann vann að plötunni enda var hann í miklum popp hugleiðingum.

Tame Impala þýðir á íslensku tamin Impala sem er Antilóputegund.

Lonerism hefur fengið afbragðs dóma og fær hún meðal annars fjórar stjörnur hjá Rolling Stone, Mojo, Uncut og Q. Þeim hefur einnig vegnað vel í heimalandinu en þeir fengu Joð verðlaunin í ár fyrir bestu plötu ársins en það er útvarpsstöðin Triple J sem stendur fyrir verðlaununum. Ekki nóg með að vinna í ár heldur unnu þeir verðlaunin einnig árið 2010 fyrir Innerspeaker og er það met þar á bæ því engin hljómsveit hefur unnið tvisvar. Nú fer senn að líða að því að helstu tímarit og fjölmiðlar heims fari að senda frá sér árslista og má gera ráð fyrir því að Lonerism sé á þeim mörgum.

Bestu lögin á plötunni: Elephant, Enders Toi, Feels Like We Only Go Backwards, Keep on Lying.

– Torfi

Auglýsingar

Það sem Metallica hefði átt að gera varðandi Load & ReLoad

Liðskipan Metallica á þessum tíma.

Það eru skiptar skoðanir um ágæti Metallica eftir að …And Justice for All kom út árið 1988. Þegar að svarta albúmið kom út þremur árum seinna bættust nýir aðdáendur við en þeir gömlu snéru margir baki við James Hetfield og félaga enda ekki sáttir við breytinguna hjá hljómsveitinni. Þeir hafa áreiðanlega gubbað upp í sig þegar að plöturnar Load og ReLoad litu dagsins ljós árin 1996 og 1997. Plöturnar sem áttu upphaflega að koma út í einu lagi sem tvöföld plata misstu marks og hlutu dræmar viðtökur. Það er samt ekki hægt að neita því að á þessum plötum leynast nokkur afbragðs lög og hefði ég verið umboðsmaður Metallicu hefði ég beðið þá um hinkra aðeins, sleppa nokkrum lögum og gefa út eina sterka plötu. Svona hefði ég skorið plöturnar niður.


Load                                           

1. Ain’t My Bitch                          
2. 2 x 4                                         
3. The House Jack Built             
4. Until It Sleeps                         
5. King Nothing                           
6. Hero of the Day                       
7. Bleeding Me                              
8. Cure                                            
9. Poor Twisted Me                     
10. Wasting My Hate                  
11. Mama Said                               
12. Thorn Within                         
13. Ronnie                                     
14. The Outlaw Torn

ReLoad

1. Fuel
2. The Memory Remains
3. Devil’s Dance
4. The Unforgiven II
5. Better Than You
6. Slither
7. Carpe Diem Baby
8. Bad Seed
9. Where the Wild Things Are
10. Prince Charming
11. Low Man’s Lyric
12. Attitude
13. Fixxxer

Eins og sjá má er niðurskurðurinn mikill en það er líka þörf á honum því að farþegarnir eru margir á plötunum og þá sérstaklega ReLoad. Að sjálfsögðu þyrfti að raða lögunum upp í fallega röð og myndi ég gera það nokkurn veginn svona.

Loaded

1. Fuel
2. Ain’t My Bitch
3. The Memory Remains
4. Until It Sleeps
5. King Nothing
6. Hero of the Day
7. The Unforgiven II
8. Mama Said

Það þarf að byrja sterkt og kemur ekkert annað til greina en að opna plötuna á „Fuel“. „Ain’t My Bitch“ fylgir fast á eftir og fjörið heldur svo áfram með „The Memory Remains“. Við hægjum aðeins ferðina svo með þristinum af Load þar sem röðuninni á þeim var ekki raskað. Þá er komið að smá epík með „The Unforgiven II“ og platan endar svo á hinu kántrí skotna „Mama Said“. Samtals myndi Loaded taka 40 mínútur í spilun sem er alveg ágætis lengd. Alls ekki slæm plata sem hefði getað gert betri hluti en Load og ReLoad.

Torfi

God’s Lonely Man gengin út

Já það hlaut að koma að því, Pétur Ben hefur gefið út breiðskífu númer tvö, God’s Lonely Man. Liðin eru heil sex ár síðan að frumburðurinn Wine for My Weakness kom út og því löngu kominn tími á aðra plötu. Að vísu má ekki gleyma því að Pétur hefur verið upptekinn við ýmislegt annað en hann spilar auðvitað með mörgum listamönnum, gerir lög fyrir kvikmyndir og gaf út plötu í fyrra ásamt Eberg.

God’s Lonely Man hefur að geyma níu frumsamin lög sem öll eru sungin á ensku. Hvorki meira né minna en þrjú lög ná yfir sjö mínútna múrinn og er það merki um metnaðarfullar lagasmíðar. Ég er sérstaklega ánægður með að sjá lagið „Tomorrows Rain“ á plötunni en ég heyrði það fyrst á Airwaves hátíðinni árið 2010 og varð stundvís ástfanginn. Einnig er þarna að finna lagið „Cold War Baby“ sem er eitt af betri lögum plötunnar.

Í lýsingunni á gogoyoko er talað um að platan svipi til hljómsveitarinnar Velvet Underground og gæti ég ekki verið meira sammála en í hvert skipti sem ég hef heyrt Pétur spila nýtt efni að undanförnu hefur Lou Reed oftar en ekki komið upp í hugann.

Ábreiðan á God’s Lonely Man.

Pétur Ben gefur plötuna út sjálfur og hefur söfnun verið í gangi en þegar þetta er skrifað hefur hann náð að safna rúmlega helming af þeirri upphæð sem hann lagði upp með. Það er ósk mín að fólk styrki Pétur enda frábær listamaður hér á ferð. Þangað til getið þið notið plötunnar hér á gogoyoko.

– Torfi 

Airwaves: Sigur Rós + Uppgjör

Það var áberandi besta veðrið á sunnudeginum en það viðrar oft vel er Sigur Rós stígur á svið á Íslandi. Ég held að það sé ekki hægt að finna betri hljómsveit til að „loka“ Iceland Airwaves hátíðinni enda Sigur Rós í hópi þeirra allra bestu í heimi er kemur að tónleikum og umgjörð í kringum þá.

Húsið opnaði klukkan sex en lengi vel hélt ég að Doors væri upphitunarband fyrir Sigur Rós, aulinn ég. Sigur Rós átti samkvæmt miðanum að hefja leik klukkan sjö þannig ég mætti tímanlega fyrir það. Klukkan sló sjö og ekkert gerðist. Það var ekki fyrr en upp úr átta sem að tónleikarnir byrjuðu og var maður því orðinn vel þreyttur í fótunum enda nokkuð erfið standandi steisjon helgi að baki. En við upphafstóna Sigur Rósar var maður fljótur að gleyma því.

Sviðið var umlukið stóru hvítu tjaldi og birtust fallegar og á köflum óhugnalegar myndir á því. Tjaldið fékk að standa í 3-4 lög og féll svo niður við mikinn fögnuð gesta. Sigur Rós renndi í nokkuð pottþétt prógram og spilaði mörg af sínum bestu lögum á ferlinum. Aðeins voru leikin tvö lög af Valtara en þeir vilja meina að lögin af plötunni virki ekki öll á sviði.

Eftir uppklapp léku þeir þrjú lög og þar af eitt alveg splunku nýtt sem þeir kalla „Brennisteinn“. Lagið er frábrugðið öllu því sem þeir hafa gert áður en fýlingurinn var rafmagnaður og poppaður í senn, frábært stöff og spennandi að heyra framhaldið líklegast á næsta ári. Einnig verð ég að minnast á ljósasýninguna í laginu sem gerði þetta enn áhrifaríkara. Þeir enduðu svo leika á „E-bow“ og bundu þar með enda á fullkomna tónleika sem munu ábyggilega sitja lengi í höfði fólks.

Tónleikar Sigur Rósar komast þar með endanlega í hóp þeirra bestu sem ég hef upplifað þar sem að tónlist og sviðsmynd vinna saman að ógleymanlegri upplifun. Það voru ekki ómerkari listamenn en Portishead og Radiohead.

Uppgjör Airwaves

Hátíðin í ár var sú fjórða hjá mér en áður hafði ég farið 2008, 2009 og 2010. Það verður að viðurkennast að þessi var sú lakasta af þeim öllum og þá aðallega vegna lítils magns af góðum listamönnum. Ekki bætti heldur úr skák öll forföllin sem urðu af ýmsum ástæðum. Ég get ímyndað mér að fólk hafi séð á eftir Swans, Polica og Django Django.

Ástæðan fyrir því að ég fer á Airwaves hátíðina er til þess að uppgvötva góða og efnilega erlenda listamenn. Þeir íslensku eru ekki eins mikilvægir fyrir mér en ég lít fyrst og fremst á þá sem bónus við hinar erlendu.

Annars voru bestu tónleikarnir sem ég sá eftirfarandi:

1. Jamie N Commons
2. Patrick Wolf
3. Half Moon Run (á Kex)
4. Haim
5. Prins Póló

Margir reka líklega upp stór augu að sjá Sigur Rós ekki á listanum en ég tel þá vera í öðrum klassa og ekki hægt að líkja þeirri upplifun við aðrar á hátíðinni.

Jamie N Commons er efnilegur andskoti.

Það kom skemmtilega á óvart hvað raðirnar voru litlar í samanburði við fyrri ár, allavega upplifði ég ekki nema eina pínu litla á Iðnó á laugardagskvöldinu. Þegar ég labbaði útaf Listasafninu eftir tónleika Friends bjóst ég við röð út á Bæjarins beztu en það var engin! Harpan kom líka vel út en þetta er í annað sinn sem að hátíðin er til húsa þar og kynntist ég því fyrst núna og óhætt að segja að söknuðurinn af Nasa kemur ekki til með að lifa lengi á meðan við eigum hús eins og Hörpu.

Meira hef ég eiginlega ekki að segja um þessa annars yndislegu hátíð sem verður líklega helst minnst fyrir stormasamt veður og skróp nokkurra listamanna.

Takk annars fyrir innlitið og áhugann yfir Airwaves gott fólk!

Torfi

Airwaves: Laugardagur

Sökum þess að ég sá ekki alla tónleikana hjá Half Moon Run í Hörpunni á föstudagskvöldið ákvað ég að bæta úr því og mæta á Kex klukkan 13 þar sem þeir spiluðu off venue. Það var góð ákvörðun enda um virkilega fína hljómsveit að ræða sem hefur alla burði til að verða stærra nafn í framtíðinni. Ég hafði sérstaklega gaman af því að sjá hljómborði stillt upp ofan á bassatrommu annars trommuleikarans en hann sló ýmist taktinn um leið og hann spilaði á borðið. Góð byrjun á deginum í boði Half Moon Run.

Í millitíðinni kíkti ég heim og las þær leiðinlegu fréttir á heimasíðu hátíðarinnar að Django Django, hljómsveitin sem ég hafði verið hvað spenntastur fyrir myndi ekki spila sökum veikinda. Þetta setti planið sem ég hafði búið til og dreymt um á hliðina. Nú var það ekki lengur Harpan sem heillaði heldur var það Listasafnið.

Ég var mættur tímanlega fyrir klukkan átta og voru það snillingarnir í Prins Póló sem opnuðu kvöldið. Sveitin var vel mönnuð þetta kvöld en Benni Hemm Hemm lék á bassa, Borko sá um slagverk og önnur hljóð og Loji Höskuldsson úr Sudden Weather Change spilaði á gítar og söng bakrödd. Ég hef séð Prins Póló nokkrum sinnum en ég myndi segja að þeir hafi aldrei verið betri en í gær. Prinsinn Svavar og trymbillinn Kristján Freyr slógu á létta strengi eins og þeim einum er lagið og kitluðu hláturtaugar tónleikagesta hvað eftir annað. „Föstudagsmessan“ stóð upp úr að mínu mati og var endirinn ekki síðri þar sem farið var niðrá strönd. Prins Póló verður bara betri og betri með tímanum og er að stimpla sig inn sem ein af bestu og ferskustu hljómsveitum Íslands um þessar mundir að mínu mati.

Kwes var næstur á svið. Hann mætti ásamt tveimur stúlkum. Ég get ekki sagt að Kwes hafi heillað mig neitt svakalega. Tónlistin var lágstemd og ekki grípandi. Einu sinni heyrðist það lágt í Kwes að þrjár stúlkur í salnum yfirgnæfðu hann með einhverju masi. Tónleikarnir náðu algjöru hámarki þegar lagið „Bashful“ var tekið og kannski þegar að Kwes lagðist á gólfið með hljómborð og spilaði á það með fótunum. En það var of lítið og of seint líkt og markið hjá Santi Cazorla gegn Man Utd. í gær.

Þá var komið að Sin Fang og félögum. Sindri Már er enginn aukvissi í íslensku tónlistarlífi og fór vel með tímann sinn í gær. Ég hefði reyndar viljað heyra eitthvað af nýjustu plötunni hans Half Dreams. Annars nokkuð örugg frammistaða og búið að rífa upp stemninguna að nýju eftir Kwes.

Hljómsveitin Friends frá Bandaríkjunum steig á svið klukkan ellefu. Þau eru mjög hress og það er tónlistin líka þó að hún sé reyndar misgóð. Ég var ekki alveg að átta mig samt á öðrum söngvaranum og var hann frekar óþæginlegur ásýndar. Samantha Urbani var eitursvöl og fór fyrir sveitinni með látum. Friends blandar saman allskonar stefnum svo úr verður dansvæn og hressandi tónlist sem skilur þó ekki mikið eftir sig. Friends er gott dæmi um sviðsband með tvo síngúla.

Þá sagði ég skilið við Listasafnið og var stefnan sett á Iðnó þar sem hljómsveitin DIIV átti að koma fram en hún er einmitt frá Brooklyn rétt eins og Friends. DIIV gaf út plötuna Oshin á þessu ári og hlaut hún meðal annars náð fyrir augum Pitchfork í sumar. The Horrors og The Drums komu upp í hugann þegar ég hlustaði á DIIV en þeir spila kraftmikið indí rokk með shoegaze áhrifum. Að vísu skildi ég aldrei hvað söngvarinn var að segja eða syngja um en það voru kannski hljóðfærin sem voru í aðalhlutverki. Að vísu gerði ég ekki mikinn greinarmun á lögum DIIV enda ekki um mikla fjölbreytni að ræða þar en það þarf ekki endilega að vera slæmt. Þetta var meira eins og eitt stórt tónverk sem tekur þrjú kortér í flutningi og það er allt í lagi stundum.

Eftir DIIV minnkaði mannfjöldinn talsvert en Valdimar áttu að loka kvöldinu á Iðnó. Mér fannst það ágætis tilhugsun að enda á góðri íslenskri tónlist. Valdimar spilaði aðallega lög af nýjustu plötunni sinni Um stund en ég hefði viljað heyra meira af Undralandi enda ekki búinn að hlusta neitt á þá nýju. Því var það augljóst að hápunktarnir voru þegar lögin „Undraland“ og „Yfirgefinn“ fengu að hljóma. Að vísu er lagið „Sýn“ í sama gæðaflokki en annars er nýja efnið þeirra ekki eins gott og það gamla.

Þar með lokaði ég laugardagskvöldinu sem tók heldur óvænta stefnu eftir skrópið hjá Django Django. Kvöldið hefði getað verið betra og sérstaklega í ljósi þess að bestu tónleikarnir voru í boði Prins Póló.

Sigurvegari kvöldsins!

Torfi

Airwaves: Föstudagur

Ég hóf leikinn í Fríkirkjunni en þar áttu Lay Low og Patrick Wolf frá Bretlandi að spila. Fólk var að tínast inn og fékk ég mjög gott sæti, borgar sig að vera mættur tímanlega!

Lay Low var virkilega góð og vel studd af hljómsveit sinni. Hún tók lög af flestum plötum sínum og má segja að hún hafi valið vel. Lay Low var einnig dugleg að tjá sig á milli laga og kvartaði undan nöglinni á þumalfingrinum sem var við það að detta af! Í seinni hlutanum var ástandið það slæmt að hún gat málað sig í framan með blóðinu. En fyrir utan þetta vesen þá voru tónleikarnir sérstaklega flottir og eigum við Íslendingar virkilega góðan listamann í Lay Low.

Næstur á svið var Patrick Wolf. Kauði gaf nýverið út plötu í tilefni af 10 ára starfsafmæli sínu þar sem hann setti mörg sín bestu lög í akústískan búning. Hann var mættur ásamt þremur listamönnum sem skiptust á að styðja hann. Patrick spilaði á fjöldan allan af hljóðfærum, flygil, hörpu og smávaxinn gítar. Röddin hans er sterk og naut hún sín vel í Fríkirkjunni. Hann var einnig óhræddur við að segja sögur á bakvið lögin sín svo maður lifði sig þvílíkt inn í hans hugarheim. Einnig var skemmtilegt þegar t.d. míkrafónninn við flygilinn var eitthvað laus í sér og truflaði Patrick í flutningi sínum, það kom þó ekki að sök og hoppaði hann beint aftur inn í lagið án vandræða. Tónleikarnir stóðu yfir í eina klukkustund og voru gestir Fríkirkjunnar líklega saddir og sælir að þeim loknum.

Eftir smá matarpásu kíkti ég á lokin á tónleikum hinnar kanadísku Half Moon Run og var ég nokkuð spældur að vera ekki mættur fyrr. Þeir litu út fyrir að vera hörku band og var mitt fyrsta verk að kíkja hvort þeir ættu ekki eftir að koma fram á off-venue dagskránni. Blessunarlega áttu þeir eitt skipti eftir.

Það var ekkert annað í stöðunni að gera en að bíða eftir Hjálmari og Jimi Tenor. Ég vissi í rauninni ekkert út í hvað ég var að fara þar en ég vonaðist eftir því að sjá Hjálmar leika öll sín bestu lög. Það rættist hins vegar ekki. Ég þekkti ekki eitt lag en allt snérist greinilega um þennan Jimi Tenor því miður. Það má samt ekki taka af þeim að spilamennskan var góð og á köflum var þetta bara allt í lagi en ég bjóst við einhverju allt öðru.

Hjálmar hefðu verið betur settir án þessa manns.

Í restina var það svo FM Belfast en mér sýndist á öllu að prógrammið þeirra hefði lítið breyst frá því á árinu 2008 og svo var mér svo illt í maganum að ég gat ekki meir. Kvöldið byrjaði því mjög vel en endaði ekki eins sterkt á kvöldin áður.

– Torfi

Airwaves: Fimmtudagur

Annar í Airwaves og ég mættur upp í Hörpu nokkuð ráðvilltur. Það var tvennt sem ég varð að sjá þetta kvöld, Jamie N Commons og Haim. Ég tók því enga sénsa og kom mér tímanlega fyrir í Silfurbergi. Þar átti Lára Rúnars að stíga á svið og maður lét sig nú hafa það.

Ég veit ekki með Láru, hún fær góðan stuðning frá færum listamönnum en klúðrar svo málunum í sviðsframkomu og tali. Þetta er allt eitthvað svo klisjukennt. Hún getur samt alveg sungið og hún hefur ágætis hugmyndir í farteskinu en hún ætti samt að einbeita sér að því að vera hún sjálf.

Jamie N Commons var næstur á svið en það mun vera djúpraddaður andskoti frá Bretlandi. Honum hefur verið líkt við ekki ómerkari menn en Tom Waits og Nick Cave, slík eru gæðin. Að auki hefur hann góðan bakgrunn í blúsi eftir veru sína í Chicago. Jamie og hljómsveit hans kom, sá og sigraði, allavega mig. Ég var með gæsahúð lag eftir lag. Tónlistin var líka fjölbreytt og prógrammið var jafnt og þétt. Með betri tónleikum sem ég hef séð á Airwaves og bið ég ykkur um að muna þetta nafn í náinni framtíð.

Planið var að fara á Gaukinn en fyrst það var engin röð fyrir utan Þýska barinn varð maður eiginlega að kíkja á Gísla Pálma. Hann hóf leikinn á „Swagalegt“ og það var swagaleg upplifun. Eftir að Gísli var hálfnaður með annað lagið ákvað ég að rölta yfir á Gaukinn þar sem að Sudden Weather Change var að stilla upp.

Ég hef aldrei hlustað á SWC af neinu ráði. Þeir eru samt vel metnir hjá pressunni og ég var temmilega spenntur fyrir útkomunni. Þetta eru flottir drengir og ábyggilega mjög góðir í því sem þeir eru að gera en þetta heillar mig ekki.

Næst á svið var Nova Heart en hún kemur alla leiðina frá Kína. Fyrir minn smekk aðeins of mikil sýra en flottir tilburðir inn á milli hjá meðlimum og söngkonan örugg og kraftmikil. Áhorfendur voru að fýla þetta og mega þeir kínversku vera sáttir með sitt.

Þá var komið að því sem allir höfðu beðið eftir, hljómsveitin Haim frá Bandaríkjunum. Þrjár myndarlegar systur og einn drengur sem lamdi húðir. Þau rifu stemninguna upp á annað plan og vöfðu áhorfendum um fingur sér. Stúlkan á bassanum verður mér alltaf minnisstæð en ekki endilega fyrir flotta takta á bassanum heldur fyrir gapandi gin sitt. Um leið og hún byrjaði að plokka bassann opnaðist kjafturinn á henni upp á gátt. Maður var pínu smeykur. Annars virkilega gott sett hjá þeim og góð sviðsframkoma sem gefur alltaf vel. Flottasta stúlknaband sem ég hef séð, punktur.

Þessar stöllur sáu til þess að ég fór sáttur heim.

Torfi

Airwaves: Miðvikudagur

Þá má segja að jólin séu byrjuð en Airwaves hófst í gær. Að þessu sinni ákvað ég að nýta mér off-venue dagskránna og skellti ég mér og Kex Hostel til að sjá Blouse frá Bandaríkjunum en blessunarlega komust þau leiðar sinnar til Íslands. Það var mikið af fólki og erfitt að sjá í meðlimi Blouse en þau stóðu sig ágætlega. Tónlistin sem þau búa til er þó ekkert ný af nálinni og eitthvern veginn fannst mér settið renna bara í eitt. Ágætis byrjun á Iceland Airwaves 2012 samt sem áður.

Eftir að hafa skellt í sig heitu súkkulaði í kuldanum var ferðinni heitið á Hressó en þar átti hin ameríska Vacationer að stíga á svið klukkan 16. Ég var ekki betur upplýstur en það að allt í einu stökk M-Band á svið og renndi í nokkur lög. Sandy hafði gert það að verkum að Vacationer þurfti að bíða með að ferðast á klakann, ekki gott mál. M-Band stóð hins vegar fyrir sínu og verð ég að segja að tónlistin hans nýtur sín betur lifandi heldur en heima í stofu. Það var líka nóg af fólki en tjaldið fyrir utan Hressó var næstum því fullt. M-Band var ánægður með það og mátti hann einnig vera ánægður með sitt framlag.

Bar 11 var næsti áfangastaður en þar var Pétur nokkur Ben að fara að spila. Sex ár eru liðin frá því að síðasta plata Péturs, Wine for My Weakness, kom út og því löngu kominn tími á nýja. Sú plata er væntanleg eftir tvær vikur en hann hlýtur að vera ósáttur við að missa af túristalestinni sem á eftir að sópa í sig íslenska varninginn í plötubúðum borgarinnar. Pétur Ben bauð upp á þétta dagskrá og er hann talsvert breyttur frá árinu 2006. Það er einhver nettur Lou Reed fýlingur í honum með meiri keyrslu og rokki. Mjög gott.

Ég fór svo í fýluferð upp í 12 tóna til að sjá hina kanadísku Passwords en þegar þar var komið var hurðin lokin og feitlaginn karlmaður sem stóð þar fyrir. Það var greinilega ekki meira pláss fyrir fólk enda ekki furða, pínulítið pleis! Ég hljóp því aftur niður á Bar 11 til að sjá Vigra. Kjallarinn á Bar 11 er náttúrulega hræðilegur staður fyrir hljómsveit eins og Vigra enda nýtur tónlistin þeirra sín alls ekki á svo litlum stað. Ég býst því við miklu betri tónleikum hjá þeim í Hörpu í kvöld.

Þá var off-venue stússinu lokið þennan daginn og kominn tími á að nýta armbandið eitthvað. Ég var búinn að haka við M-Band og þótt að ég hafi séð hann fyrr um daginn ákvað ég að skella mér aftur. Það verður að segjast að tónleikarnir hans á Hressó voru betri að mínu mati. Prógrammið var lengra og hljóðið var betra. En engu að síður flottir tónleikar og verður spennandi að fylgjast með framgangi hans á næstunni.

Gaukurinn var næsta stopp en þar voru að koma fram sigurvegarar Músíktilrauna 2012, RetRoBot. Ég hafði einu sinni rennt disknum þeirra í gegn en ekkert misst mig í einhverri hrifningu. Þeir eru hins vegar virkilega skemmtilegir á sviði og smitaði gleðin út frá sér. Fínar hugmyndir í gangi hjá þeim og framtíðin björt.

Þá var það spurning um að sjá Lockerbie eða færa sig yfir á Þýska barinn og bíða eftir hljómsveitunum þar. Ég valdi seinni kostinn. Hinn umtalaði Gabríel steig á svið ásamt gestum er ég var nýbúinn að koma mér fyrir. Mér finnst mjög pirrandi að vita ekki hver þessi Gabríel er. Það kom mér líka á óvart að hann rappar ekki neitt. Hann stendur þarna bara með heklaða grímu og ýtir á einhverja takka á meðan hinir sjá um sýninguna. Ásamt röppurunum voru mættir menn eins og Unnsteinn úr Retro Stefson, Valdimar og Emmsjé Gauti. Því miður komst Krummi ekki en það hefði verið áhugavert í meira lagi. Settið hans Gabríels var ágætis tilbreyting frá öllu því sem ég hafði séð fyrr um daginn og ekkert hægt að kvarta yfir þessari ákvörðun.

Norska sveitin HIGHASAKITE var næst á svið en hún var sú eina erlenda sem var á on-venue dagskránni þetta kvöldið. Kynjaskiptingin í bandinu var góð og voru meðlimir voðalega hressir. Tónlistin þeirra er ágæt og fannst mér lagið „Son of a Bitch“ standa upp úr.

Spennan var í hámarki, Þórunn Antonía var næst í röðinni en hún hefur verið að gera góða hluti með Berndsen undanfarið. Hann mætti fyrstur á svið ásamt gítarleikara og kynnti skvísuna til leiks. Saman buðu þau upp á hressandi tóna og sló hún Tóta ekki slöku við, söngurinn var óaðfinnanlegur.  Það hefði kannski mátt vera meiri stemning í salnum en ég þorði varla að dilla mér við tónlistina. „Too Late“ var algjör hápunktur en þó fannst mér heila settið helvíti gott. Glæsilegir tónleikar hjá Þórunni og var ég sérstaklega ánægður með gítarleikarann í fyrrnefndu lagi.

Elmar var hvergi sjáanlegur á meðan Þórunn flutti lögin sín.

Þá var komið að óskabarni þjóðarinnar og jafnframt síðasta atriði kvöldsins hjá mér, Ásgeiri Trausta. Ég hafði aðeins séð hann spila tvisvar áður en ekki með hljómsveit. Sem betur fer var hann mættur með allan skarann með sér og því von á góðum tónleikum. Hann hóf leikinn á „Nýfallið regn“ og eftir það var ekki aftur snúið. Það mynduðust þó óþarflega langar pásur á milli laganna en meðlimir voru ekki sáttir með hljóðið sýndist mér. Hann renndi þó í öll sín bestu lög og fór langt með að spila öll lögin af plötunni. Frábærir tónleikar og góður endir á góðum degi.

– Torfi