Category Archives: Myndband

Jon Heder og Haim í nýju myndbandi Chromeo

Í dag kom út glænýtt myndband frá hljómsveitinni Chromeo við lagið „Old 45’s“ sem er að finna á hinni bráðskemmtilegu plötu White Women. Chromeo-liðar fá til sín góða gesti í myndbandinu þar sem að stelpurnar úr Haim og leikarinn Jon Heder sýna ágætis takta á afskekktum mótorhjólabar. Augnayndið sem Jon Heder reynir við á barnum er Amra Silajdzic, leikkona og fyrirsæta frá Bosníu. Skemmtilegt myndband við skemmtilegt lag.

Annars er alveg óhætt að mæla með White Women sem gefur fyrri verkum ekkert eftir og greinilega engin þreytumerki að finna á hljómsveitinni geðþekku. Þá mælist ég til þess að fólk renni laginu „Lost on the Way Home“ í gegn en það gæti mögulega gert daginn betri.

– Torfi

Auglýsingar

Samheldin fjölskylda gefur út sumarsmellinn 2014

Three Beat Slide
Sumarsmellurinn 2014 er fundinn og kemur hann heldur betur úr óvæntri átt. Lagið heitir „Summertime is Great“ og er eftir hljómsveitina Three Beat Slide, munið þetta nafn, Three Beat Slide sem samanstendur af tveimur systkinum og líklegast og vonandi föður þeirra. Lagið kom á YouTube 15. mars síðastliðinn og hefur á ca. þremur vikum fengið rúmlega 700,000 áhorf sem er nokkuð gott miðað við algjörlega óþekkt nafn.

Lagið sjálft er einlægt og einfalt rétt eins og myndbandið sem skartar fjölskyldunni í góðum gír í sumarskapi. Þeim tekst að breiða út boðskap sumarsins með gleði, grilli og grænu grasi svo eitthvað sé nefnt. Ég vara ykkur samt við, viðlagið á það til að setjast algjörlega að í heilabúinu ykkar. „It’s summertime and isn´t it great….“.

– Torfi

Highlands hitar upp fyrir Sónar með glænýju myndbandi

Hljómsveitin Highlands með þeim Loga Pedro (Retro Stefson, Pedro Pilatus) og Karin Sveinsdóttur hefur gefið út myndband við lagið „Hearts“ sem kom út í nóvember í fyrra. Leikstjórn er í höndum Narva Creative og skartar þeim Atla Óskari Fjalarssyni og Heru Hilmars í aðalhlutverkum.

Highlands kemur einmitt fram á Sónar hátíðinni sem hefst í kvöld en þau eiga leik á laugardag kl. 20:00 í Norðurljósasal Hörpu. EP platan Highlands – n°1 er svo væntanleg næsta mánudag og verður hægt að hala henni frítt niður á soundcloud síðunni þeirra.

Góða helgi og skemmtun á Sónar þið sem eruð að fara!

– Torfi

James Blake með nýtt myndband og lag

james-blake-music11

Nú er farið að styttast í Sónar hátíðina sem hefst næsta föstudag. James Blake hefur ekkert gert til þess að minnka spennuna en fyrir stuttu sendi hann frá sér lagið „Retrograde“. Í gær póstaði hann svo á facebook síðu sinni nýju myndbandi við lagið sem er ekki síður fallegt.

„Retrograde“ er jafnframt fyrsti smellurinn af væntanlegri plötu sem hefur fengið nafnið Overgrown og kemur út þann 8. apríl næstkomandi. Seinasta breiðskífa Blake kom út árið 2011 og fékk hún frábæra dóma hvarvetna.

James Blake mun þeyta skífum í bílakjallaranum í Hörpu á föstudaginn kl. 02:00 og spilar svo daginn eftir í Silfurbergi kl. 20:45.

Torfi

Jonas Alaska syngur um október

Fyrir rúmlega ári síðan uppgvötvaði ég norskan tónlistarmann sem kallaði sig Jonas Alaska. Ég var að vinna í Noregi á þessum tíma og var hann með tvö lög í spilun í útvarpinu. Eitt þeirra snart mig mjög en það heitir einfaldlega „October“. Þar syngur hann um unga menn sem fórust á sjónum. Ég er ekki viss hvort að textinn sé byggður á raunverulegum atburðum en mér þykir það líklegt.

Svona talar Jonas um október.

Annars mæli ég með því að fólk tékki betur á honum Jónasi en hann gaf út ágætis plötu í fyrra. Þetta er líka þægilegt í kuldanum.

Torfi

Sundsprettur í nýju myndbandi The xx

Romy Madley Croft á bólakafi!

Hljómsveitin The xx sendi frá sér myndband í dag við lagið „Chained“ af plötunni Coexist sem kom út í síðasta mánuði. Mun þetta vera fyrsta lagið á plötunni sem gert er myndband við af einhverju viti. Leikstjórn var í höndum framleiðslufyrirtækisins Young Replicant en þeir gerðu meðal annars myndbandið við lagið „We Own the Sky“ með M83.

Í þessu myndbandi stinga allir þrír meðlimir The xx sér til sunds. Buslugangur og loftkúlur eru þannig í aðalhlutverki en einnig er mikið um fallega liti í myndbandinu eins og sjá má á skýjunum sem svipar mikið til umbúðanna á plötunni.

– Torfi

YouTube dagsins: The Charlies – Hello Luv

Það hafa allir skoðun á The Charlies (áður Nylon). Fólk annaðhvort hatar þær eða elskar, ég persónulega hata að elska þær. Í dag kom út myndbandið við lagið „Hello Luv“ og sver það sig í ætt við „Monster (Eat Me!)“. Greddan og töffaraskapurinn eru í fyrirrúmi og eru dömurnar aðstoðaðar af Barbie, Ken, dönsurum og saklausum hundi.

Það má segja að myndbandið sé betra en lagið. Maður fær það á tilfinninguna að lagið hafi verið samið undir áhrifum og látið þar við sitja. „Monster (Eat Me!)“ var miklu sterkara lag og féll maður svoleiðis fyrir melódíunni eins og þær sungu sjálfar um.

Úr Hagkaup tískunni yfir í Hollywood.

Ég eitthvern veginn efast um að þetta muni samt ganga hjá þeim þarna úti í Hollywood. Þess vegna er ég kominn með frábæra hugmynd. Ég vil sjá The Charlies í Evróvisjón keppninni á næsta ári! Sleppa þessari undankeppni og fela verkefnið í hendur þeirra. Þær uppfylla nefnilega skilyrðin til þess að ná langt í keppninni, sem eru hæfilega gott lag og laglegar (lag)línur. Ef þær myndu svo ná topp þremur sem er raunhæft markmið myndi það koma þeim rækilega á kortið og opna um leið helling af tækifærum í Evrópu.

Því segi ég við The Charlies: Hættið að eltast við ameríska drauminn og snúið ykkar að Evrópu, það er einfaldlega ekki pláss fyrir fleiri grúppur eins og ykkar þarna úti.


– Torfi

Nýtt myndband frá Vigra

Síðastliðinn sunnudag birti Vigri nýtt myndband við lagið „Animals“ á YouTube.

Ragnar Snorrason leikstýrði myndbandinu en það var tekið upp í Sandvík á Reykjanesi. Ungi og ráðvillti drengurinn er leikinn af Atla en hann er einmitt bróðir Ragnars. Þyrí Huld Árnadóttir, dansari með meiru, sér svo um mótleikinn.

Þetta er annað myndband Vigra en einnig er til myndband við lagið  „Sleep“ sem var tekið upp í öskufallinu af Eyjafjallajökli. Það er áferðafagurt líkt og hið nýja og leggja Vigra menn greinilega mikið upp úr því að hafa myndefnið við lögin sín almennilegt.

Vigri gaf út frumburð sinn í fyrra, Pink Boats, en bæði lögin má finna á henni sem og önnur góðgæti.

Torfi