Færslusafn

TV on the Radio staðfestir á Sónar

TV

Hljómsveitin TV on the Radio var rétt í þessu að gefa það út að hún væri að koma á Sónar hátíðina í febrúar næstkomandi. Er þetta mikill fengur fyrir íslenskt tónlistarlíf enda hljómsveitin löngu búin að festa sig í sessi sem ein allra besta indí rokksveit síðustu ára. TV on the Radio spilaði á Iceland Airwaves hátíðinni árið 2003 svo það er löngu kominn tími á að endurnýja kynnin við íslenska tónlistarunnendur. Þeir póstuðu fyrr í dag á facebook síðu sinni: Beyond thrilled to be playing Sónar Reykjavík 2015!!

Tónlistarmaðurinn Kindness er einnig á leiðinni til landsins en hann var til að mynda nálægt því að koma á Airwaves árið 2012. Platan hans World, You Need a Change of Mind þótti ákaflega vel heppnuð en hann gaf nýverið út aðra plötu sína, Otherness. Svo fyrir fólk sem er ósátt við að Airwaves hátíðin sé búin þá er ljós í myrkrinu.

– Torfi

Auglýsingar

Highlands hitar upp fyrir Sónar með glænýju myndbandi

Hljómsveitin Highlands með þeim Loga Pedro (Retro Stefson, Pedro Pilatus) og Karin Sveinsdóttur hefur gefið út myndband við lagið „Hearts“ sem kom út í nóvember í fyrra. Leikstjórn er í höndum Narva Creative og skartar þeim Atla Óskari Fjalarssyni og Heru Hilmars í aðalhlutverkum.

Highlands kemur einmitt fram á Sónar hátíðinni sem hefst í kvöld en þau eiga leik á laugardag kl. 20:00 í Norðurljósasal Hörpu. EP platan Highlands – n°1 er svo væntanleg næsta mánudag og verður hægt að hala henni frítt niður á soundcloud síðunni þeirra.

Góða helgi og skemmtun á Sónar þið sem eruð að fara!

– Torfi

Sónar: Föstudagur

Það er fátt skemmtilegra en að skella sér á tónlistarhátíð í skammdeginu á Íslandi í febrúar og því er Sónar kærkomin viðbót við íslenskt tónlistarlíf. Harpan, móðir tónlistarhúsa á Íslandi sér um hýsingu og það veit upp á gott hvað varðar hljómgæði og aðstöðu. Hins vegar er dropinn dýr en lítill bjór selst á 800 krónur! En hvað um það, snúum okkur að föstudagskvöldi hátíðarinnar.

Ég var mættur í fyrra fallinu í Silfurberg en þar var Pedro Pilatus eða Logi litli bassaleikari Retro Stefson að hefja leik. Hann spilaði í rúmar 50 mínútur og er greinilega mikið efni innan þessa geira. Skemmtilegar pælingar í gangi sem nutu sín vel í Silfurberginu.

Sísí Ey voru næst á svið en ég verð að viðurkenna að fyrir tónleikana hafði ég ekkert sérstaklega góðar minningar af þeim er þær hituðu upp fyrir John Grant í Austurbæjabíó í fyrra sumar. Nú var hins vegar allt annað á ferðinni. Oculus hefur séð um að búa til grípandi takta fyrir systurnar og þær sjá um að gæða þá lífi með fallegum söng. Tónlistin minnir um margt á GusGus á góðum degi og skemmti ég mér konunglega á tónleikum þeirra. Unnsteinn Stefson birtist svo á sviðinu á lokakaflanum og var hressandi viðbót.

Eftir smá pásu var komið að hljómsveitinni sem fiskaði margan manninn á hátíðina eða Modeselektor frá Berlín. Ég ætla bara að taka það fram strax að ég var ekki í þeim hópi en ákvað samt að sjá þá enda eitt af stærri atriðum hátíðarinnar. Það var ljóst frá fyrstu mínútu að bjór var ekki rétta meðalið við tónlist Modeselektor og er ég viss um að þeir sem hafi verið á sterkari efnum en ég hafi skemmt sér konunglega. Þetta var hins vegar einum of mikið af því góða fyrir minn smekk. Í lokin róaðist þetta þó aðeins og hefði verið gaman að sjá þá bara slaka. Annars verð ég að hrósa sviðsmyndinni en það gerir miklu meira fyrir svona tónlist að hafa eitthvað myndrænt á bakvið.

Þar sem að Modeselektor voru ákveðin vonbrigði fyrir mér lagði ég allt mitt traust á GusGus og að þeir myndu redda kvöldinu. Þeir spiluðu lög af Arabian Horse ásamt tveimur nýjum lögum en fyrra lagið var einstaklega gott og í takt við það besta sem hefur komið frá hljómsveitinni. Daníel Ágúst og Högni eru skemmtilega ólíkar týpur og vega hvorn annan upp á sviðinu með sviðsframkomu sinni og söng. GusGus klikka seint og ef ekki hefði verið fyrir krossbandsaðgerð fyrir mánuði síðan hefði verið trítilóður eins og flestir á dansgólfinu.

Því miður var GusGus síðasti hjartslátturinn en mér fannst Silfurbergið tæmast óvenju fljótt eftir þeirra tónleika og sérstaklega þar sem að hin breska Simian Mobile Disco var næst á svið. Það voru ekki nema kannski 200 hræður í það mesta þegar þeir hófu leika og sá maður fljótt að þeir sem höfðu lagt leið sína eitthvert annað höfðu tekið rétta ákvörðun. SMD voru skráðir sem DJ atriði en hefðu þeir verið með live sett er ég viss um að meira hefði verið um manninn í Silfurbergi.

James Ford og Jas Shaw voru orðnir syfjaðir þegar klukkuna vantaði hálf 2.

James Ford og Jas Shaw voru orðnir syfjaðir þegar klukkuna vantaði hálf 2.

Það var ekkert annað í stöðunni en að kíkja í næsta sal á Trentemöller en hann hafði ég séð einu sinni áður á Iceland Airwaves og því ekki í forgangi að horfa á kauða. Norðurljós iðuðu sem betur fer af meira lífi en Silfurberg og var fólk almennt í góðum gír. En fætur mínir voru að þrotum komnir og því lá leiðin niður í bílakjallara þar sem að James Blake þeytti skífum.

Tónleikagestir voru greinilega spenntari fyrir James Blake heldur en Simian Mobile Disco en eftir á tel ég að þeir síðarnefndu hefðu notið sín betur í kjallaranum. Ég var alls ekki í þeim gír að nenna að troða mér eitthvað framarlega enda James Blake að fara að troða upp í Silfurbergi í kvöld þar sem hann kemur fram ásamt hljómsveit. Bílakjallarinn var þar með mín endastöð og fyrra Sónar kvöldið viss vonbrigði þó ekki hafi verið hægt að setja neitt út á íslensku listamennina.

Torfi 

James Blake með nýtt myndband og lag

james-blake-music11

Nú er farið að styttast í Sónar hátíðina sem hefst næsta föstudag. James Blake hefur ekkert gert til þess að minnka spennuna en fyrir stuttu sendi hann frá sér lagið „Retrograde“. Í gær póstaði hann svo á facebook síðu sinni nýju myndbandi við lagið sem er ekki síður fallegt.

„Retrograde“ er jafnframt fyrsti smellurinn af væntanlegri plötu sem hefur fengið nafnið Overgrown og kemur út þann 8. apríl næstkomandi. Seinasta breiðskífa Blake kom út árið 2011 og fékk hún frábæra dóma hvarvetna.

James Blake mun þeyta skífum í bílakjallaranum í Hörpu á föstudaginn kl. 02:00 og spilar svo daginn eftir í Silfurbergi kl. 20:45.

Torfi