Monthly Archives: ágúst 2012

Kvikmyndir í einræðisríkinu Norður-Kóreu

Það er eitt land umfram önnur sem vekur ávalt áhuga hjá mér en þá er ég að tala um einræðisríkið Norður-Kóreu. Einræðisherrar hafa ráðið ríkjum og sett sérkennilegan blæ á allt þar í landi. Þegnum er bannað að fara úr landi, magn ferðamanna inní landið er mjög takmarkað, það er ekkert internet, ekkert rafmagn í sveitunum og bókstaflega allt er ritskoðað. Ríkisfjölmiðlum kóresku þjóðarinnar (að sjálfsögðu eru engir sjálfstætt reknir miðlar) er stjórnað af Kommúnistaflokknum sem fer vægast sagt frjálslega með sannleikann og segir t.d. frá ótrúlegum sigrum á vettvangi íþrótta, nú síðast á Ólympíuleikunum svo ekki sé minnst á frásagnir af leiðtogum þjóðarinnar, skemmst er að segja frá sannleiksgildi þess sem þar er ritað…

Ráðamönnum í Norður-Kóreu er mikið í mun að sýna útlendingum fram á ágæti þess sem þeir eru að gera og taka því þá örfáu ferðamenn sem til landsins koma í nokkurs konar „show“ um höfuðborgina Pyongyang. Í Pyongyang eru gífurlega dýrar byggingar ásamt styttum af leiðtoganum fráfallna Kim-Il Sung sem bjó til cult úr sjálfum sér en því kefli hafa arftakar hans, feðgarnir Kim Jong-Il og Kim Il-Sun haldið hraustlega á lofti.

Kim Jong-Il ætti að vera flestum kunnur en þó ekki fyrir afrek sín á kvikmyndasviðinu. Hann hafði þó mikinn áhuga á kvikmyndum. Ásamt því að byggja sjö kvikmyndahús fyrir sjálfan sig hafði leiðtoginn ástkæri dálæti á hryllingsmyndum, Godzilla myndum og leikkonunni Elizabeth Taylor. Að lokum hafði þessi ást hans á kvikmyndum það í för með sér að hann vildi búa þær til sjálfur, hann lét reisa risastór kvikmyndaver í miðri höfuðborginni en þrátt fyrir það var skortur á fagfólki í landinu og þá voru góð ráð dýr. Að lokum gerði hann það eina rétta í stöðunni og lét ræna þeim mannskap sem vantaði frá nágrannaríkinu Suður-Kóreu. Útúr þessari vitleysu kom myndin Pulgasari, en hún er ekki einungis mesta steypa kvikmyndasögunnar heldur bara mannkynssögunnar yfir höfuð.

Eina eiginlega reynsla greinarhöfundar af landinu var frekar neiðkvæð, að taka U-beygju framhjá lofthelgi landsins á leið til Japan var ekki góð skemmtun og bætti svona ca. klukkutíma ofaná flug sem var þá þegar orðið alltof langt.

Mögnuð heimildamynd um kvikmyndir í NK:

Pulgasari í fullri lengd:

-efh

Auglýsingar

Litið yfir feril Tony Scott

Þær sorglegu fréttir bárust fyrir nokkrum dögum að breski leikstjórinn Tony Scott hefði framið sjálfsmorð og er því ekki úr vegi að rifja upp feril þessa merka leikstjóra og fara yfir nokkrar af hans bestu myndum.

Á góðri stunduÁ góðri stundu !

Tony Scott fæddist í Bretlandi á því merka ári 1944, fáeinum dögum eftir að sjálfstæðisbaráttu íslensku þjóðarinnar lauk. Hann var yngstur þriggja bræðra og ekki hár í loftinu þegar kvikmyndabakterían nær fyrst tökum á honum. Haft er eftir Tony að hann hafi skuldað pening „hægri, vinstri“ og því þáð boð eldri bróðir síns Ridley (AlienGladiatorPrometheus) um að leikstýra auglýsingum, þá fimmtán ára gamall. Bræðurnir enda svo á því að leikstýra í kringum þúsúnd auglýsingum næstu áratugi. Auglýsingabransinn reyndist góður skóli fyrir bræðurna sem voru þó í meira mæli farnir að hallast að gerð kvikmynda í fullri lengd. Á níunda áratugi síðustu aldar hófu nokkrir leikstjórar breska innrás á Bandaríkjamarkað og í broddi fylkingar voru bræðurnir tveir. Þessi innrás var harkalega gagnrýnd af þarlendum miðlum sem spurðu sig hvað nokkrir Bretar með bakgrunn í auglýsingum hefðu fram að færa í Hollywood. Framleiðandinn Jerry Bruckheimer var þó á öðru máli og gaf Tony tækifæri á að spreyta sig, það samstarf átti eftir að vera gjöfult og skilaði 6 myndum áður en yfir lauk.

Árið 1986…
Leikstýrir Tony Scott kvikmyndinni Top Gun sem er framleidd af áðurnefndum Jerry Bruckheimer. Myndin sló í gegn og malaði gull fyrir fjárfesta og naut mikillar hylli meðal áhorfenda, gagnrýnendur eru hins vegar ekki jafn hrifnir en þetta átti síðar eftir að verða endurtekið efni í sambandi við flestar hans myndir. Myndin kemur ekki aðeins Tony á kortið heldur einnig Vísindakirkju geðsjúklingnum Tom Cruise sem bar harm sinn að mestu leyti í hljóði við fráfall Scott, tísti þessum skilboðum þó til fylgismanna sinna á twitter og er maður meiri fyrir vikið!

Árið 1987…
Sér Tony til þess að Axel Foley í túlkun Eddie Murphy snúi til baka í kvikmyndinni Beverly Hills Cop II. hann leikstýrði ekki fyrstu myndinni í seríunni en steig hvergi feilspor í útsetningu sinni á þeirri seinni. Myndin er frábær afþreying, í senn hröð og fyndin og sannar færni Tony í að skapa úrvals afþreyingu.

Árið 1991…
Lýtur The Last Boy Scout dagsins ljós. Þar leiða lögreglumaðurinn Joe Hallenbeck (Bruce Willis) og ruðningskappinn Jimmy Dix (Damon Wayans) saman hesta sína við rannsókn á morðmáli, en ung stúlka finnst látin. Myndin er ótrúlega skemmtileg en þó ekki án galla og kemst kvikmyndagagnrýnandinn Roger Ebert að þessari niðurstöðu um myndina:

Bruce Willis fýrar

„The movie is a superb example of what it is: a glossy, skillful, cynical, smart, utterly corrupt and vilely misogynistic action thriller. How is the critic to respond? To give it a negative review would be dishonest, because it is such a skillful and well-crafted movie. To be positive is to seem to approve its sickness about women. I’ll give it three stars. As for my thumb, I’ll use it and my forefinger to hold my nose.“ – Roger Ebert

Árið 1993…
Kemur myndin True Romance út en handritið að myndinni skrifaði enginn annar en Quentin Tarantino, kannski sú mynd sem hefur fengið hvað besta dóma meðal gagnrýnenda og finnst mér einsog hún hafi loks verið metin að verðleikum í seinni tíð. Myndin er stjörnum prýdd einsog flestar af myndum Scott. Frammistaða Gary Oldman er sérstaklega áhugaverð en hann bregður sér í hlutverk eiturlyfjasalans Drexl.

Drexl

Árið 2001…
Er komið að Nathan D. Muir (Robert Redford) að bjarga fyrrum lærlingi sínum Tom Bishop (Brad Pitt) úr klóm öfgamanna í myndinni Spy Game. Þetta er kláralega mín uppáhalds mynd eftir títt nefndan leikstjóra enda vel heppnuð í alla staði, ekki skemmir fyrir að lagið „Brothers in Arms“ eftir Dire Straits sé notað í senunni hér fyrir neðan:

Árið 2004…
Kemur út myndin Man on Fire, en hún er eina myndin á listanum sem ég hef ekki séð, ég hef því takmarkaðan áhuga á að hripa eitthvað niður um hana. Ef marka má uppistandarann Chris Rock er myndin hins vegar hin besta skemmtun! Látum hann eiga lokaorðin í þessari grein…

– Elfar

Topp 5: Myndir með Russell Crowe

Eins og kunnugt er var Russell Crowe staddur hérlendis um daginn. Hann varð mikið fjölmiðlafóður í kjölfarið og ætlar potturinn ekki að vera neinn eftirbátur í þeim málum. Í tilefni af viðveru hans ætla ég að henda í topp 5 lista yfir hans bestu kvikmyndir. Listinn hefst á fimmunni.

#5 American Gangster (2007)

Frábær ræma úr smiðju Ridley Scott. Hér eru sameinaðir tveir þungavigtarmenn í Russell Crowe og Denzel Washington en þeir hafa einmitt báðir leikið boxara á ferlinum. Crowe leikur leynilögguna Richie Roberts sem ætlar sér að taka eiturlyfjakónginn Frank Lucas (Denzel) úr umferð. Ég man það svo vel hvað mér brá að sjá Russell Crowe svona feitan en það hefur víst fylgt hlutverkinu.

#4 The Next Three Days (2010)

Þessi kom skemmtilega á óvart. Það var eiginlega ekki í mínum plönum að sjá myndina en félagi minn hvatti mig til þess að horfa á hana og þvílík mynd! Ég gat ekki einu sinni farið niður í eldhús til að setja poppið í örbylgjuofninn. John Brennan (Crowe) þarf að taka til örþrifaráða þegar eiginkona hans, Lara Brennan (Elizabeth Banks) er sökuð um morð. Skylduáhorf fyrir alla spennufíkla!

#3 A Beautiful Mind (2001)

Crowe sýnir á sér glænýja hlið en hann er ekki beint vanur því að leika einhverfan stærðfræðing. Hér er á ferðinni hörku ræma en hún sópaði til sín fernum verðlaunum á Óskarnum árið 2002 og meðal annars fyrir bestu mynd. Það var mikill skandall að Russell Crowe skyldi ekki vinna styttuna fyrir besta leik í aðalhlutverki en hana fékk Denzel nokkur Washington fyrir leik sinn í Training Day.

#2 L.A. Confidential (1997)


Öflug mynd með úrvals leikurum en ásamt Crowe eru þarna kórbræður eins og Kevin Spacey, Guy Pearce og Danny DeVito. Russell Crowe fer hreinlega á kostum sem hinn ljónharði Edmund ‘Bud’ White en hann er duglegur að láta finna fyrir sér í myndinni. Það er spilling í borg englanna en Nætur uglu morðin eiga hug Edmunds allan og einnig tveggja starfsbræðra hans. Krákan hefur sjaldan verið betri en einmitt í þessari mynd!

#1 Gladiator (2000)


Fyrirsjáanlegt val? Má vera en hún á fyrsta sætið svo sannarlega skilið! Það er mér enn í fersku minni er mér var neitaður aðgangur á myndina í Háskólabíói á sínum tíma þó ég væri í fylgd með föður mínum. Ég fór bókstaflega hágrátandi út í bíl og skellti hurðinni á eftir mér og má segja að ég hafi verið í svipuðu ástandi og þegar Maximus kom að fjölskyldu sinni í gálganum. Ekki leið á löngu þó þar til ég fengi að sjá rulluna og var mér þá ljóst að betri kvikmynd myndi ég aldrei sjá.

Áferðafalleg kvikmynd um hrakfarir Rómaveldis og Maximus hershöfðingja er hinn snarspillti Commodus (Joaquin Phoenix) lætur að sér kveða. Það þekkja margir þá tilfinningu að berjast gegn ranglætinu með réttlætinu og því held ég að margir hafi fundið sig í Maximus og þar af leiðandi lifað sig meir en venjulegt er inní myndina. Gæsahúðin gerir vart við sig á mörgum stöðum í myndinni og er sama hversu oft ég horfi á hana, gæsahúðin birtist alltaf aftur og aftur. Ég er orðinn það heitur eftir þessi skrif um Gladiator að ég held ég skelli henni bara í tækið núna.

– Torfi

Nýtt myndband frá Vigra

Síðastliðinn sunnudag birti Vigri nýtt myndband við lagið „Animals“ á YouTube.

Ragnar Snorrason leikstýrði myndbandinu en það var tekið upp í Sandvík á Reykjanesi. Ungi og ráðvillti drengurinn er leikinn af Atla en hann er einmitt bróðir Ragnars. Þyrí Huld Árnadóttir, dansari með meiru, sér svo um mótleikinn.

Þetta er annað myndband Vigra en einnig er til myndband við lagið  „Sleep“ sem var tekið upp í öskufallinu af Eyjafjallajökli. Það er áferðafagurt líkt og hið nýja og leggja Vigra menn greinilega mikið upp úr því að hafa myndefnið við lögin sín almennilegt.

Vigri gaf út frumburð sinn í fyrra, Pink Boats, en bæði lögin má finna á henni sem og önnur góðgæti.

Torfi

Rock Werchter: Sunnudagur + uppgjör

Síðasti dagur hátíðarinnar var runninn upp en á pappírnum var hann ekki jafn feitur og fyrri dagarnir. Ég hóf daginn á bresku hljómsveitinni The Vaccines en í henni er bassaleikarinn Árni Hjörvar. The Vaccines spilar pönkskotið indí rokk og voru þeir hrárri en ég bjóst við. Þeir spiluðu lög af plötunni sinni What Did You Expect from the Vaccines? og einnig lög af væntanlegri plötu, Come of Age, en hún kemur út 3. september næstkomandi. Það var góð keyrsla á strákunum og náðu þeir að hita mann ágætlega upp fyrir daginn.

Eftir tveggja tíma pásu var komið að Noel Gallagher’s High Flying Birds. Kóngurinn mætti í rándýrum leðurjakka og átti gjörsamlega sviðið. Noel og félagar léku lög af sínum ferli og einnig fengu að fljóta með nokkur lög með Oasis. Það var sniðugt hjá þeim enda finnst mér lögin hjá High Flying Birds frekar einhæf. Toppurinn á tónleikunum og jafnvel hátíðinni allri var lokalagið, „Don’t Look Back in Anger“, sem hann tileinkaði Vincent Kompany, fyrirliða og miðverði Manchester City. Allur skarinn tók undir og var ég með gæsahúð allan tímann! Fínustu tónleikar sem enduðu með sprengju.

Vincent Komapany & Noel Gallagher eru miklir mátar.

Þegar Noel hafði lokið sér af voru þrjú kortér í Florence + the Machine og þá var ekkert annað að gera en að fikra sig áfram nær sviðinu. Fjögur ár voru síðan að ég sá Florence Welch og vélina troða upp í Listasafni Reykjavíkur á Iceland Airwaves. Ýmislegt hefur gengið á síðan þá og fara þau létt með að fylla hallir og leikvanga í dag. Loks flykktust þau inná sviðið við mikinn fögnuð viðstaddra og byrjuðu tónleikana á „Only If for a Night“. Enn gerði gæsahúðin vart við sig á nokkrum stöðum en fyrir mér hefði Florence mátt gera meira af því að syngja og minna af því að tala. Frægðin hefur greinilega farið illa með hana sem og áfengið og vímuefnin en hún bullar tóma vitleysu sem ekkert vit er í. En hvað um það, tíminn sem hljómsveitin fékk var að mínu mati of stuttur eða kannski nýttu þau hann bara illa. Þau tóku ekki nema níu lög, sex af Ceremonials og þrú af Lungs. Ég vildi fá meira sem og líklega flest allir sem voru á tónleikunum en Florence var orðin þyrst og þar með var það búið.

Ég var ekkert að stressa mig yfir því að fylgjast vel með Snow Patrol en ég nýtti tímann til að hlaða símann minn og þá var ágætt að hafa eitthvað til að horfa á. Þeir fengu til sín gesti eins og til að mynda Ed Sheeran sem var ágætis bónus þar sem ég missti af honum. Einu lögin sem ég þekki annars með Snow Patrol eru „Run“ og „Chasing Cars“ og tóku þeir þau bæði sem var kannski fyrirsjáanlegt en engu að síður hápunktar á annars flötum og auðgleymanlegum tónleikum.

Red Hot Chili Peppers voru næstir á svið og reyndar síðastir líka en þeir lokuðu hátíðinni í ár. Eins og margir var ég með æði fyrir þeim fyrir nokkrum árum en daginn í dag er ég lítið gefinn fyrir þá og ekki bætti úr skák þegar að gítarleikarinn John Frusciantes yfirgaf sveitina. Þeir komu mér hinsvegar skemmtilegt á óvart enda tóku þeir mörg af sínum bestu lögum. Nýji gítarleikarinn Josh Klinghoffer var feykilega öflugur og lítið hægt að kvarta undan honum. Flea og Chad Smith voru samir við sig og einnig Anthony Kiedis söngvari. Þeir voru líka í stuði en oft á milli laga kom einhver djamm syrpa af handahófi frá Josh, Flea og Chad. Maður sá að þeir voru að skemmta sér og auðvitað smitaði það út frá sér. Djammið endaði svo á laginu „Give It Away“ sem átti vel við enda allir að kveðja Rock Wercter 2012.

Uppgjör

Rock Werchter var þriðja tónlistarhátíðin mín en ég fór á Reading í Bretlandi 2009 og FIB á Spáni í fyrra. Allar þessar hátíðir eru ólíkar og kannski helst FIB sem sker sig úr enda minni í sníðum.

Það er ekki hægt að kvarta yfir mörgu á RW en ég hef þó samt nokkrar kvartanir.

  • Það var mjög svo pirrandi að þurfa að standa í röð á fimmtudeginum og bíða eftir því að fá armbandið. Þetta varð til þess að ég missti af einni hljómsveit sem ég var heitur fyrir. Á Reading og FIB var þetta afgreitt um leið og mætt var á svæðið.
  • Á RW eru þrjú svið, aðalsviðið, Hlaðan og Pýramídinn. Pýramídinn er hræðilegur. Það tekur núll eina að fylla hann og tjaldið nær svo lágt að þeir sem eru fyrir utan eiga mjög erfitt með að sjá listamennina á sviðinu. Ég veit að það er skjár fyrir utan en maður vill nú oftast geta séð fólkið lifandi líka. Til þess er maður nú að fara á svona hátíð.
  • Manni líður stundum eins og Simba og Múfasa í gnýjahjörðinni en fjöldinn af fólkinu þarna er rosalegur. Þú þarft að skipuleggja þig vel ef þú þarft að hoppa frá einum listamanni yfir í annan eins og ég þurfti að gera þegar Beirut og Pearl Jam voru að spila.

Kostina þarf ekkert að fjölyrða um enda alveg ástæða fyrir því að hátíðin sé í topp 5 yfir stærstu hátíðir í Evrópu.

Bestu tónleikarnir og þar sem allt gekk upp voru að mínu mati þessir (í stafrófsröð).

  • Beirut
  • Justice
  • M83

Fleiri orð ætla ég nú ekki að hafa um þessa ágætu hátíð en ég er nú þegar farinn að huga að næsta sumri. Hvaða hátíð skyldi verða fyrir valinu þá?

Rock Werchter: Laugardagur

Laugardagurinn hófst í hlöðunni en þar var að koma fram ein bjartasta von Breta, Michael Kiwanuka. Ég verð að viðurkenna að ég var ekkert að tapa mér yfir kauða en flest öll lögin hjá honum runnu í eitt nema „Home Again“ sem var hápunkturinn á annars flötum tónleikum.

Strax á eftir Michael voru Alabama Shakes að hefja leik í Pýramídanum en þau gáfu út frábæran frumburð fyrr á þessu ári. Því miður var orðið frekar margt um manninn og settist ég því í grasið svolítið frá skjánum sem hékk fyrir utan. Eftir að hafa einbeitt mér að fyrstu lögunum og bestu („Hold On“ og „I Found You“) ákvað ég að leggjast og loka augunum. Ég man því frekar lítið eftir restinni af tónleikunum en stundum þarf maður bara að slaka á og hvíla andlitið frá sólinni.

Aðalsviðið var næsti áfangastaður en þar voru að stíga á stokk Wolfmother og Kasabian. Rétt eins og á AS lá ég í grasinu og í þessu tilfelli safnaði ryki því að skammt frá var göngustígurinn sem mikil traffík var á. Wolfmother á ekki beint lager af góðum og eftirminnilegum lögum en þó eiga þeir til lög eins og „Woman“ og „White Unicorn“ sem eru alveg að fá fjórar stjörnur í iTunes möppunni minni. Fyrir utan þessi tvö lög og „Dimension“ var ég ekkert að missa mig og því farinn að hlakka pínu til að sjá Kasabian.

Það er ekkert svo langt síðan að Kasabian „meikaði“ það en þeir gáfu út flotta plötu árið 2004. Svo er lítið að frétta af þeim þangað til 2009 en þá kemur lagið „Fire“ þeim á kortið en allir unnendur enska boltans ættu að kannast við stefið úr því lagi. Annað en Wolfmother eiga Kasabian nóg af efni til að búa til flotta tónleika og þannig týndu þeir til lög af plötunum KasabianWest Ryder Pauper Lunatic Asylum og Velociraptor!. Það sem mér þótti standa upp úr voru lögin „Club Foot“ og „L.S.F.“ af fyrstu plötunni og „Re-Wired“ af þeirri síðustu. Í það heila hafði ég annars gaman af Kasabian en það var frekar skondið þegar Tom Meighan söngvari bað félaga sinn Sergio Pizzorno um að syngja „I’m On Fire“ partinn í „Fire“ því að greyið var að verða raddlaust. „You’re a lifesaver“ sagði hann svo og þar með kvöddu þeir.

Þar sem að ég er lítill Mumford and Sons maður og mikill M83 maður var stefnan tekin á Hlöðuna þar sem My Morning Jacket var að fara að spila. Það var ansi fámennt þar enda megnið af fólkinu á Mumford. MMJ voru þó ekkert að pæla í því og buðu uppá vel þétta tónleika. Söngvarinn Jim James er með þeim betri sem ég hef heyrt í og var ég pínu hræddur um að líkami hans gæti ekki höndlað kraftinn í honum. Hápunkturinn var þriggja laga syrpa sem innihélt „Holdin’ On to Black Metal“, „Outta My System“ og „Lay Low“. Ég kláraði að vísu ekki tónleikana því að M83 voru að fara að spila á Pýramídanum og í þetta skiptið ætlaði ég að koma mér vel fyrir þar!

Það var ekki eins troðið og áður er ég mætti á Pýramídann og náði ég að planta mér á fínum stað nálægt sviðinu. Eftirvæntingin var mikil enda M83 búin að sækja í sig veðrið síðustu ár og gefið út frábærar plötur. Geðveikin byrjaði á fyrstu sekúndu er furðuvera birtist á sviðinu og gnæfði yfir áhorfendur og var geðshræringin mikil á því augnabliki. Stuttu síðar birtust meðlimir M83 og hófu sýninguna með látum. Ég skemmti mér konunglega á þessum tónleikum og söng hástöfum með ásamt því að stíga nokkur misgóð dansspor. Ef ég ætti að nefna einhverja hápunkta væru þeir líklega „Reunion“ og „Couleurs“. Það var heldur ekkert leiðinlegt að heyra „Midnight City“ og stemninguna sem fylgdi því. Svo verð ég einnig að minnast á bassaleikarann Jordan Lawlor sem var í miklu stuði og sérstaklega þegar hann fór á kúabjölluna, aðra eins fótavinnu hef ég aldrei séð!

Það var ekki mikill tími á að melta M83 því að The xx voru þegar byrjuð að spila á aðalsviðinu. The xx er ein svalasta hljómsveit á þessari plánetu en þau nýttu sér skemmtilegan fítus á skjánum með því að birtast í svarthvítu. Öll lögin af fyrstu plötunni voru tekin ásamt fimm af væntanlegri plötu. Þau voru góð en mér fannst samt tónlistin þeirra fjara út á svona stóru sviði fyrir framan svona mikið af fólki. Ég vonast til þess að sjá þau aftur einn daginn undir betri skilyrðum.

Enn var maður á hlaupum því að næst á dagskrá var Regina Spektor en hún tróð upp á Pýramídanum  fræga. Ég settist á viðarpallinn fyrir framan skjáinn og lét ljúfu tóna Reginu leika um eyrun mín. Regina býr yfir miklum sjarma og er þar að auki frábær listamaður svo það er auðvelt að gleyma sér í eina klukkustund eins og tilfellið var á hennar tónleikum. Hápunktarnir voru margir en ég ætla að láta nægja að nefna lagið „Hero“ sem hljómaði í byrjun myndarinnar (500) Days of Summer. Mér leið vel og eiginlega betur í hjartanu eftir að hafa séð Reginu og hvet ég alla til þess að sjá hana ef tækifæri gefst til.

Ég ákvað að enda kvöldið á Incubus frekar en að fara á Editors einfaldlega vegna þess að ég fýla þá betur og tengi mig og mína persónu miklu meira við þá. Maður ferðaðist nokkur ár aftur í tímann með Incubus en þeir tóku rjómann af ferlinum. „Drive“, „Pardon Me“ og „Talk Shows On Mute“ voru þarna og einnig „Anna Molly“, „Love Hurts“ og „Nice to Know You“. Brandon Boyd fór svo úr að ofan og þá var dagurinn fullkomnaður.

Chase and Status voru byrjaðir að telja í er ég labbaði fram hjá aðalsviðinu en ég hafði bara ekkert úthald í þá geðveiki. Ég var sáttur.

Það fór hrollur um mann þegar þessi birtist í Pýramídanum!

Einnig hefði verið gaman að sjá: Ben Howard, James Vincent McMorrow, Simple Minds.

Torfi

Rock Werchter: Föstudagur

Þá var komið að föstudeginum og aðeins meira í gangi hvað varðar úrval og gæði listamanna.

Fyrstur á dagskrá hjá mér var Miles Kane í Hlöðunni en það má segja að hann sé nokkurs konar klóni af Alex Turner úr Arctic Monkeys. Það var reyndar smá töf á karlinum en maður var fljótur að gleyma því er hann birtist á sviðinu vopnaður gítar og söng „You Rearrange My Mind!“. Miles er afskaplega líflegur og skemmtilegur á sviði og skein leikgleðin af honum. Eini gallinn er kannski sá að hann á aðeins fjögur góð lög en hin eru fljót að gleymast.

Á eftir Miles var haldið á Pýramídann pínlega en þar var Perfume Genius að hefja leik. Tónlist Perfume Genius myndi njóta sín mun betur inní lokuðum sal en lögin hans eru afar róleg og hafði hann það meira að segja að orði sjálfur og afsakaði sig. En ég nýtti tækifærið bara og tyllti mér og hlóð batteríin fyrir komandi átök.

Tveggja tíma pása myndaðist eftir Perfume Genius og var hún nýtt til að nærast og sjá hluta af Gossip á en Beth Ditto fór á kostum á sviðinu og kom fólki til að hlægja með beinskeyttum húmor sínum. Ég ákvað þrátt fyrir hnyttna brandara og ágætis spretti Gossip að koma mér vel fyrir í Hlöðunni því að næstir á svið voru The Temper Trap.

Ég eyddi fyrsta kortérinu af settinu hjá The Temper Trap að pæla í söngvaranum Dougy Mandagi sem hefur að geyma ansi háa rödd. Þegar hann brýnir rausn sína eru fáir sem standast honum snúning en hann á í örlitlum erfiðleikum með lágu kaflana í lögunum og vill það stundum gerast að hljómsveitin yfirgnæfir hann. Sem betur fer lagaðist þetta eftir því sem leið á tónleikana. Annars voru þeir þrusu fínir og var ekki eitt lag sem ég saknaði. Hinsvegar setti æstur kvenkyns aðdáandi svip sinn á mína upplifun en hún lét öllum illum látum, baðaði út höndum, grét meira en eðlilegt er og var eitthvern veginn alltaf í sjóndeildarhringnum mínum. Ef ekki hefði verið fyrir hana hefði ég skemmt mér mun betur!

Jack White var ekki búinn að klára sitt sett og hlustaði ég á kauða meðan ég úðaði í mig einhverjum óþverra á svæðinu. Ég sá ekki eftir þeirri ákvörðun minni að taka The Temper Trap fram yfir tónleika hans en það var þó ánægjulegt að heyra „Seven Nation Army“ enda ákveðin nostalgía sem fylgir því lagi.

Aftur var ég mættur í Hlöðuna og nú átti að sjá Lönu Del Rey. Maður hafði ekkert heyrt neitt nema slæma hluti um greyið á sviði en ég vildi sjá það með berum augum og fella dóm á það sjálfur. Lana mætti á sviðið við mikinn fögnuð viðstaddra og renndi beint í slagarann „Blue Jeans“. Með henni á sviði voru þrjár konur sem spiluðu á strengjahljóðfæri og píanisti. Persónulega var á dolfallinn yfir sjarma og kynþokka Lönu og ekki skemmdi fyrir flutningur hennar á lögunum en þau voru í aðeins öðruvísi búningi en á plötunni. Rétt eins og Perfume Genius myndi hún samt njóta sín best í lokuðum sal eins og t.d. Eldborg. Hápunkturinn var svo í lokin er hún tók „National Anthem“ og sendi mig sáttan á aðalsviðið.

Þá var komið að Pearl Jam, einni albestu hljómsveit heims. Væntingar mínar voru miklar enda ekki gefið að sjá hljómsveit í þessum gæðaflokki. Ég get ekki sagt annað en að Eddie Vedder og félagar hafi valdið mér vonbrigðum. Fyrir mér var dagskráin þeirra alltof þung og fannst mér Eddie Vedder þurfa á hvíld að halda en þeir hafa verið að spila mikið að undanförnu. Ljósu punktarnir voru kannski helst lögin af Ten og „Daughter“. Tónleikar Beirut áttu að hefjast tíu mínútum áður en Pearl Jam myndi klára og var ég þegar farinn að undirbúa flóttaleiðina er ég heyrði Eddie Vedder kynna síðasta lagið (að ég hélt) „Rockin’ in the Free World“ sem ég hef aldrei fýlað neitt sérstaklega. Ég nýtti því tækifærið og hljóp yfir í Hlöðuna til að sjá Beirut.

Ég var eiginlega mættur á nákvæmlega sama tíma og Zach Condon og félagar í Beirut og gladdist ég mjög þegar ég heyrði fyrstu tónana í „Santa Fe“ og sá því ekki eftir þeirri ákvörðun að yfirgefa Pearl Jam. Tónlist Beirut er afar hentug til að dansa við og langaði mér helst að fækka fólkinu í Hlöðunni um helming og fleygja kærustunni til og frá áhyggjulaus. Það var hinsvegar ekki möguleiki og þurfi ég að sætta mig við að rugga mér bara í lendunum. Annars gerðu Beirut það sem Pearl Jam gerðu ekki, þeir skemmtu mér með spilamennsku og sviðsframkomu sinni og ekki skemmdi lagalistinn fyrir sem hefði getað verið valinn af sjálfum mér! Fullkominn endir á mjög góðum degi!

Guðjón „Fulli“ Ólafsson ásamt Dougy Mandagi!

Einnig hefði verið gaman að sjá: Bat for Lashes, Wiz Khalifa, „Yellow Ledbitter“ lokalag Pearl Jam

-Torfi

Rock Werchter: Fimmtudagur

Nú er meir en mánuður liðinn síðan að tónlistarhátíðin Rock Werchter í Belgíu átti sér stað og því löngu orðið tímabært að gera hátíðina upp.

Í ár mættu 437 Íslendingar á Rock Werchter og í kjölfarið spyr maður sig hvort að RW sé hin nýja Hróaskelda? Því verður ekki svarað hér en ljóst er að aðsókn Íslendinga á RW mun bara aukast með komandi árum enda erum við ekki þekkt fyrir að vera frumleg þegar kemur að því að velja okkur tónlistarhátíð.

Fyrir hátíðina var ég búinn að gera áætlun um hvaða hljómsveitir ég ætlaði að sjá en það gat ég gert þar sem búið var að birta tímasetningar listamanna á heimasíðu hátíðarinnar sem er algjör snilld.

Ætlunin var að byrja á Metric en af því varð ekki vegna stærstu biðraðar sem ég hef séð sem myndaðist fyrir utan innganginn sökum þess að armböndin voru ekki afhent fyrr en þá. Algjör svívirða og fáránlegt að geta ekki afhent manni armbandið á komutíma.

Þannig Bombay Bicycle Club var næst á dagskrá en ekki var langt síðan að Jack Steadman söngvari og gítarleikari hljómsveitarinnar hafði troðið upp á Hressó hér á landi. Þeir voru talsvert betri nú heldur en í fyrra á FIB enda næstum ár síðan að seinasta breiðskífa þeirra kom út. Þeir spiluðu aðallega efni af fyrstu og síðustu plötu ásamt því að bæta við einu af disknum Flaws. Flott byrjun á hátíðinni.

Eftir tveggja tíma pásu var komið að því að sjá Cypress Hill á minnsta og lélegasta sviðinu, Pýramídanum. Ég var búinn að koma mér ágætlega fyrir þegar að maður birtist á sviðinu og tilkynnti að seinkun yrði á hljómsveitinni. Sú seinkun varð að lokum alltof löng og ég gafst upp en stutt var þá í að Blink-182 myndi hefja leik á aðalsviðinu og vildi ég koma mér vel fyrir þar.

Ég hafði virkilega gaman af tríóinu en þeir tóku rjómann af ferlinum og voru hápunktarnir klárlega „I Miss You“ og „What’s My Age Again?“. Ef þeir hefðu svo tekið „Always“ hefði þetta verið fullkomið. Þvílík forréttindi sem það voru að fá að sjá þessa rugludalla sem prýddu gjarnan sjónvarpskjáinn heima í stofu á Popp-Tíví árunum.

Eftir Blink var komið að smá matarpásu en næstir á svið voru Elbow, hljómsveit sem ég hef aldrei náð að tengjast neinum böndum en ákvað þó að tylla mér á grasið og gefa þeim séns. Tónleikar Elbow voru hundleiðinlegir í einu orði sagt, söngvarinn tilgerðarlegur og kjánalegur og tónlistin máttlaus. Sem betur fer var ekkert annað meira spennandi í gangi á sama tíma.

The Cure voru næstir á svið en ég var mjög svo spenntur fyrir tónleikum þeirra enda frábær hljómsveit þar á ferðinni. Hljómsveitin var vel þétt og bauð uppá langa og góða dagskrá. Robert Smith var í fantaformi þetta kvöld og í raun ótrúlegt hversu vel röddin hans hljómar miðað við aldur og fyrri störf. Góðir tónleikar en maður saknar auðvitað alltaf einhverra laga en það fylgir þessu því miður.

Þá var komið að síðustu hljómsveit dagsins hjá mér en það var Justice sem var eiginlega sú sveit sem ég var spenntastur fyrir á hátíðinni enda færði ég mig miklu nær sviðinu en áður til að upplifa stemninguna betur. Ég get varla með orðum lýst tónlistarlegu fullnægingunni sem ég fékk á þessum tónleikum. Sviðsmyndin og ljósin voru trufluð, Xavier de Rosnay og Gaspard Augé eru alltof svalir fyrir þennan heim og lögin þeirra henta dansþyrstum áhorfendum einkar vel. Franska dúettnum hefur tekist að búa til tryllta sýningu enda hafa þeir góðan efnivið til að byggja á. Réttlætið sigraði að lokum og sendu mig sáttan heim á A3 tjaldsvæðið.

Jakkinn sem ég ætla að eignast einn góðan veðurdag!

Einnig hefði verið gaman að sjá: Cypress Hill, The Kooks, Metric.

Torfi

My Brother is Pale gefur út DP#1

Fyrir ca. þremur vikum síðan leit frumburður sveitarinnar My Brother is Pale dagsins ljós en hún nefnist DP#1 og er þá væntanlega verið að vísa til þess að um demó/prómó disk sé að ræða. Platan inniheldur fimm lög, fjögur eftir þá sjálfa en eitt eftir meistara Tim Buckley.

Tónlist My Brother is Pale mætti lýsa sem vönduðu rokki en sveitina skipa fjórir drengir, Ástvaldur Axel Þórisson, Emil Svavarsson, Hannes Heiðar Sigmarsson og Matthijs van Issum. Þannig hefur sveitin litið út frá því í október í fyrra en í mars fóru drengirnir í hljóðver og er afraksturinn DP#1 en hana má einmitt nálgast á gogoyoko og soundcloud.

Sveitin fylgir svo plötunni eftir með mikilli spilamennsku á næstunni en þeir munu einnig halda áfram að semja nýtt efni. Hægt er að fylgjast betur með sveitinni á facebook síðu drengjanna http://www.facebook.com/mybrotherispale.