Færslusafn

Airwaves ’15: Miðvikudagur

IMG_4060

Stundin er loks runnin upp, Iceland Airwaves hátíðin er hafin í 17. sinn! Eins og venjan hefur verið undanfarin á er miðvikudagurinn alltaf helgaður íslensku hljómsveitunum. Miðvikudagurinn er helvíti góður gluggi fyrir íslensku sveitirnar til að heilla erlent bransafólk enda engin truflun af stærri hljómsveitum að utan. Að þessu sinni ákvað ég að kíkja á Iðnó eftir að hafa losnað úr vinnu kl. 22:30.

Ojba Rasta var að klára fyrsta lagið sitt þegar ég kom í hús og var salurinn smekkfullur. Reggísveitin spilaði aðallega ný lög og ljóst að ekki er langt í næstu plötu. Nýja stöffið hljómaði vel og verður sennilega enn betra þegar maður fær að heyra það aftur og getur lagt betur við hlustir. „Einhvern veginn svona“ af plötunni Friður var síðasta lag kvöldsins og mætti Gnúsi Yones í tæka tíð til að sinna sínum þætti í laginu en hann var nýkominn af tónleikum Amadabama í Hörpunni. Fínustu tónleikar hjá Ojba Rasta þó að vissulega hefði verið skemmtilegra að heyra meira gamalt efni.

Flestir meðlimir Ojba Rasta þurftu ekki að fara langt enda Teitur Magnússon, forsprakki Ojba Rasta, næsta atriði á dagskrá. Teitur gaf út frábæra plötu undir lok síðasta árs sem Pottinum fannst eiga skilið þriðja sæti á árslista yfir bestu íslensku plötur þess árs. Aðeins aðgengilegra og léttara efni en Ojba Rasta býður uppá þar sem gleðin, ástin og lífið er í aðalhlutverki. Teitur náði að taka öll lögin af plötunni nema eitt enda platan rétt undir hálftíma að lengd. Teitur og hljómsveit voru þétt og fékk hann aðstoð m.a. frá Samúel Jóni, Zakaríasi Hermani úr Caterpillarmen og kærustu sinni í lokalaginu „Allt líf“. Léttir og skemmtilegir tónleikar í boði Teits og félaga sem náðu að trompa Ojba Rasta í þetta skiptið.

Það var ekki auðveld ákvörðun að velja hvaða hljómsveit maður ætti að taka næst en það kitlaði mikið að fara í Gamla bíó og tékka á Pink Street Boys. Mig hefur hins vegar lengi langað til að sjá Shades of Reykjavík á tónleikum og ákvað því að vera um kyrrt. SoR eru búnir að vera duglegir að gefa út lög og myndbönd uppá síðkastið enda plata á leiðinni sem verður vonandi klár um næstu mánaðamót. Stendur þar klárlega hæst lagið með Ella Grill og Leoncie. Hljómsveitin mætti með fullt af propsi, t.d. stóran kross, tvo hægindastóla og meira að segja húðflúrara sem gerði sér lítið fyrir og flúraði einn gestinn uppá sviði meðan Shades of Reykjavík spilaði. Fremstir í SoR-flokkinum fara þeir Elli Grill, Prins Puffin og Emmi sem sjá að langmestu leyti um rappið á meðan HBridde sér um að skila töktunum í hljóðkerfið. Rapparnir þrír eru ólíkir en þó allir góðir og vega þannig hvorn annan upp. Þeir eiga fullt af flottum lögum og er það nýjasta „DRUSLA“ alveg frussu skemmtilegt lag. Því miður var orðið lítið um manninn í húsinu en það var bara þeirra missir þar sem SoR voru duglegir að gefa áhorfendum bjór og ég tala nú ekki um þá upplifun að sjá húðflúrunina uppá sviði. SoR voru svalir og í fantaformi og gefa tónleikarnir góð fyrirheit fyrir væntanlega plötu sem mun koma til með að loka rappárinu 2015 með stæl.

Ekki hægt að kvarta yfir neinu fyrsta kvöldið á Iceland Airwaves 2015 og ljóst að þrusu hátíð er í vændum!

Torfi Guðbrandsson

Auglýsingar

Bestu íslensku plöturnar 2013

Þá er komið að máli málanna, hverjar voru bestu íslensku plöturnar árið 2013? Þær voru nokkuð margar sem litu dagsins ljós í ár en þetta eru þær tíu plötur sem mér fannst standa upp úr.

# 10 Planet Earth – Berndsen

Berndsen
Það var algjörlega kominn tími á aðra plötu frá Berndsen og hann svíkur engan með ögn myrkari plötu en Lover in the Dark var.

Hápunktar: Data Hunter, Gimmi Gimmi, Two Lovers Team.

# 9 Artificial Daylight – 1860

1860
Hér er á ferðinni frábær plata með piltunum úr 1860. Ef hún hefði verið aðeins sterkari um miðbikið hefði hún klárlega verið ofar á þessum lista.

Hápunktar: Father’s Farm, Go Forth, Íðilfagur.

# 8 Northern Comfort – Tilbury

Tilbury___Northe_5272377cb8447
Þorri og félagar hafa gefið út tvær plötur á tveimur árum, Northern Comfort er heilsteyptara verk heldur en Exorcise og má svo sem alveg lesa það úr titlunum á plötunum.

Hápunktar: Deliverance, Northern Comfort, Turbulance.

# 7 See You in the Afterglow – Leaves

Leaves
Maður var nú eiginlega farinn að afskrifa Leaves og bjóst ekki við að heyra meira frá þeim eftir hina frekar litlausu We Are Shadows. En með See You in the Afterglow eru þeir komnir aftur í sitt besta form.

Hápunktar: Ocean, Perfect Weather, The Sensualist.

# 6 Flowers – Sin Fang

Flowers
Einn afkastamesti tónlistarmaður þjóðarinnar síðustu tíu árin gaf tóninn fyrir frábært íslenskt tónlistarár með sinni þriðju stóru plötu, Flowers. Henni tekst að toppa forvera sína með stærri hljóm og þroskaðri lagasmíðum.

Hápunktar: Look at the Light, See Ribs, What’s Wrong With Your Eyes, Young Boys.

# 5 ALI – Grísalappalísa

Ali
Syrgjendur Jakobínurínu geta þerrað tárin því að í ár reis Gunnar upp frá dauðum, giftur og sprækari sem aldrei fyrr. Honum til aðstoðar eru mættir sterkir póstar héðan og þaðan úr tónlistarlífinu ásamt einum nýjum og ferskum (Baldri) og saman bjóða þeir til tónlistarveislu, bæði fyrir augu og eyru.

Hápunktar: Allt má (má út), Kraut í g, Lóan er komin, Skrítin birta.

# 4 Kveikur – Sigur Rós

Kveikur
Það leið ekki langur tími á milli platna hjá Sigur Rós að þessu sinni. Eftir rólegheitin í Valtara var kominn tími á smá læti og gaf lagið „Brennisteinn“ í Höllinni á Airwaves ’12 góð fyrirheit um það sem koma skyldi. Að þessu sinni voru þeir aðeins þrír eftir að Kjartan hafði yfirgefið sveitina en það bitnaði þó alls ekki á gæðum plötunnar.

Hápunktar: Bláþráður, Brennisteinn, Ísjaki, Kveikur, Rafstraumur.

# 3 Friður – Ojba Rasta

Ojba_Rasta___Fri_525eeee5c927c
Ojba Rasta hafa náð góðum tökum á því að kokka upp algjöran eðal úr hráefnunum reggí og döbbi ásamt nokkrum vel völdum orðum úr íslenskunni. Þeir halda hér vel á spöðunum og platan hljómar ekki eins og hún hafi verið unnin í einhverju flýti eins og við mætti búast þegar að frumburðurinn leit aðeins dagsins ljós í fyrra.

Hápunktar: Einhvern veginn svona, Ég veit ég vona, Þyngra en tárum taki.

# 2 Komdu til mín svarta systir – Mammút 

Mammút
Það mætti halda að einhver bölvun hafi hvílt á svörtu systurinni enda ætlaði það aldrei að takast að koma plötunni út. Til allrar hamingju tókst það þó á endanum og það er alveg ljóst að á þessum fimm árum sem liðu á milli Karkara og þessarar plötu hafa meðlimir þroskast mikið sem listamenn og náð að þróa tónlist sína enn frekar með þessum líka glæsilega árangri.

Hápunktar: Blóðberg, Salt, Ströndin, Tungan.

# 1 Tookah – Emilíana Torrini

Emilíana_Torrini_-_Tookah (1)
Emilíana Torrini er líklega það besta sem hefur komið frá Kópavoginum og eru það engar ýkjur. Ferill hennar er glæsilegur og Tookah er enn ein rósin í hnappagatið hennar. Platan er falleg, einlæg, dularfull, djörf og á köflum dansvæn og er ekki ein sekúnda af þessum ca. 2400 illa nýtt. Tookah er enn eitt meistaraverkið og eyrnakonfektið úr smiðju Torrini og Dan Carey og megi það samstarf halda lengi áfram um ókomna tíð!

Hápunktar: Autumn Sun, Blood Red, Home, Speed of Dark, Tookah.

Torfi Guðbrandsson

Bestu íslensku lögin 2013

Þau voru mörg góð lögin sem komu út í ár hér á landi og það er alveg ljóst að íslenskir tónlistarmenn eru ekkert á leiðinni að slaka á hvað tónlistarsköpun varðar. Hérna eru 20 bestu lögin að mati Pottsins.

# 20 „Up“ – Steinar

Svokallaði hittarinn sem kom Steinari á kortið hér á landi. Hann náði að syngja sig inn í hjörtu líklega allra stelpna á unglingsaldri og mun sennilega selja góðan slatta af plötunni sinni fyrir jólin.

# 19 „Vonarströnd“ – Íkorni

Huggulegir tónar frá Íkornanum sem lá undir feld mest allt árið.

# 18 „Mama Ganja“ – Johnny and the Rest

Sumarlag frá strákunum í Johnny and the Rest.

# 17 „Automobile“ – Kaleo 

Rosalega óíslenskt lag en engu að síður afskaplega skemmtilegt sem flytur mann beina leið yfir til Bandaríkjanna.

# 16 „Aheybaró“ – Kött Grá Pjé og Nolem 

Lag sem ég heyrði fyrst í Stúdíó A sem mér þykir miður enda hefði verið gaman að njóta þess í sólinni.

# 15 „Bál“ – Drangar

Það væri nú bara eitthvað að ef stjörnuband Íslands í ár ætti ekki lag á listanum.

# 14 „No Need to Hesitate“ – Jóhann Kristinsson

Jóhann var í góðu formi í ár og hér er hans besta lag til þessa.

# 13 „What’s Wrong With Your Eyes“ – Sin Fang

Sin Fang heldur áfram að bæta sig ár eftir ár og hér er eitt stórt og grípandi úr hans smiðju.

# 12 „Ísjaki“ – Sigur Rós

Sigur Rós voru langt frá því að vera kaldir hvað lagasmíðar varðaði 2013.

# 11 „Ég bíð þín“ – Vök 

Sigurvegarar Músíktilrauna 2013 sýna með þessu lagi að þau eru vel að titlinum komin.

# 10 „Salt“ – Mammút

Það var löngu kominn tími á nýtt efni frá Mammút og hér er eitt af mörgum frábærum lögum sem þau gáfu frá sér í ár.

# 9 „I Would If I Could“ – Lay Low 

Eitt eitursvalt lag frá Lovísu.

# 8 „Íðilfagur“ – 1860

Lag sem kemur mér alltaf í gott skap, frábær flutningur!

# 7 „Tookah“ – Emilíana Torrini

Emilíana Torrini heldur áfram að minna á sig, óaðfinnanlegur hljóðfæraleikur hér á ferð.

# 6 „Ég bisst assökunar“ – Markús and the Diversion Sessions

Skemmtilegt og kæruleysislegt lag sem minnir á meistara á borð við Megas og Súkkat.

# 5 „Two Lovers Team“ – Berndsen

Hér fara Berndsen og félagar gjörsamlega á kostum og get ég hreinlega ekki beðið eftir að dilla mér við þessa tóna á tónleikum hjá þeim.

# 4 „Skrítin birta“ – Grísalappalísa

Til allrar hamingju er einn besti sviðsmaður landsins kominn til baka og er hann umkringdur toppmönnum. Skemmtilegasta myndband ársins líka.

# 3 „Einhvern veginn svona“ – Ojba Rasta

Það er erfitt að hunsa lag eins og þetta, hryllilega skemmtilegt og grípandi.

# 2 „Ocean“ – Leaves

Það er nú bara þannig að ég er forfallinn Leaves aðdáandi og er ég heyrði þetta fyrst í útvarpinu var ég næstum búinn að sprengja hátalarana í bílnum.

# 1 „Bragðarefir“ – Prins Póló

Ein mestu vonbrigðin árið 2013 voru þau að Prins Póló kom ekki með plötu en miðað við þetta lag þá er von á góðu 2014 (vonandi).

Topp 5: Plötuumslög ársins 2013

Þá er Potturinn kominn í árslistafýling og ætlar m.a. að útnefna plötur ársins og lög ársins. Aldrei áður hefur höfundur þó útbúið lista yfir plötuumslög ársins sem er náttúrulega algjör synd enda verður að hæla því eins og innihaldinu. Hér koma fimm bestu plötuumslög ársins.

# 5 Hymnalaya – Hymns 

Hymnalaya

Fyrsta plata hljómsveitarinnar Hymnalaya er afskaplega ljúf hlustunar og að sama skapi er plötuumslagið fallegt og gefur manni í raun strax hugmynd um að fyrir innan leynist eitthvað huggulegt. Heiðurinn af verkinu á Gísli Hrafn Magnússon en hann er einmitt meðlimur í Hymnalaya og spilar á gítar.

# 4 Dj. Flugvél og Geimskip – Glamúr í geimnum

Dj. Flugvél

Þegar maður heyrir nafnið á plötunni „Glamúr í geimnum“ er myndin sem maður fær upp í hugann bara nokkuð líkleg til þess að líta út eins og á viðkomandi plötuumslagi. Steinunn Eldflaug Harðardóttir sem er manneskjan á bakvið Dj. Flugvél og geimskip er bílstjóri ferðarinnar út í geim og það er erfitt að neita tilboðinu.

# 3 Berndsen – Planet Earth 

Berndsen

Það er ekki endilega vegna framhliðarinnar sem að Planet Earth hlýtur atkvæði mitt en opnan er ekki síður falleg og gerir plötuna að enn eigulegri grip. Framhliðin minnir mann svolítið á umhverfið í gömlu Tron myndinni og hefur maður eilitlar áhyggjur af Berndsen þarna hinum megin við skjáinn.

# 2 Tilbury – Northern Comfort

Tilbury___Northe_5272377cb8447

Annað árið í röð fær Hugleikur Dagsson það verkefni að búa til umslag fyrir bróðir sinn í Tilbury og eins og í fyrra tekst honum vel til. Myndin grípur augað strax með fallegum lit og geimfara á villigötum. Tilbury þurfa að vera duglegir að gefa út plötur til að halda þessum fallega myndaflokki gangandi.

# 1 Ojba Rasta – Friður 

Ojba_Rasta___Fri_525eeee5c927c

Það var náttúrulega aldrei spurning hvaða plata væri með fallegasta umslagið í ár. Ragnar Fjalar Lárusson nær að toppa sig frá því í fyrra en það plötuumslag var ekki síður fallegt og nokkuð ljóst að hann á eftir að láta mikið að sér kveða á næstu árum. Platan fer til spillis inn í plötuskáp og ætti að fara beint í ramma og upp á vegg.

Airwaves ’13: Fimmtudagur

Á fimmtudaginn ákvað ég að byrja snemma og nýta mér off-venue dagskrána til þess að sjá bönd sem ég bjóst ekki við að ná on-venue. Stúdentakjallarinn varð fyrir valinu en þar fóru fram tónleikar undir yfirskriftinni Blast from Canada. Dagskránni hafði seinkað eitthvað en þegar ég mætti voru Royal Canoe að klára en það litla sem ég sá frá þeim leit bara nokkuð vel út.

Hljómsveitin Cousins var næst á svið en hún innihélt aðeins tvo meðlimi, kvenkyns trommara og ungan mann sem söng og spilaði á gítar. Ég get ekki sagt að ég hafi búist við miklu þegar ég sá þau tvö stilla upp en þau komu mér heldur betur á óvart með keyrslu sinni og þokkalegustu lögum.

Þegar Cousins hafði lokið sér af var komið að The Balconies. Þau komu mér á óvart rétt eins og hin og þá aðallega frúin í bandinu sem fór á kostum uppi á sviðinu og hefur greinilega æft hreyfingarnar sínar eitthvað heima fyrir. Spilagleðin skein af sveitinni og það kom lítið á óvart að þau ætli sér að koma alls átta sinnum fram á hátíðinni.

Síðasta sveitin á dagskrá í kjallaranum var We Are Wolves, þrír mjög svo ólíkir menn með mikla hæfileika. Þeir voru flottir og viðhéldu keyrslunni og orkunni sem hafði einkennt kanadísku hljómsveitirnar til þessa. Í lokin tóku þeir ábreiðu af „Paranoid“ með Black Sabbath sem hentaði stíl þeirra og rödd söngvarans fáránlega vel. Ég fór því vel gíraður og sáttur inn í miðbæinn þar sem leið mín lá á Listasafnið en yfirskriftin á Stúdentakjallaranum stóð svo sannarlega undir nafni, þetta var algjör sprengja frá Kanada!

Fyrsta sveit á svið var hin frábæra Sometime sem hefur gefið út tvær afbragðs fínar plötur á síðustu árum. Diva de la Rosa var söm við sig hvað dressið varðar og henni til halds og trausts var Danni sem sá um músíkina. Tónleikarnir voru flottir og nutu tónarnir sín vel í Listasafninu en þeir hefðu þó verið ennþá betri hefðu þau tekið „Désormais“.

Hin bandaríska Caveman áttu næsta leik en ég var frekar spenntur fyrir þeirri hljómsveit svona fyrirfram. Þrátt fyrir að hafa tekið bæði lögin sem ég vildi heyra fannst mér þeir ekkert fara á kostum. Lögin svona heilt yfir voru öll frekar svipuð, vel flutt en samt voða lítill munur á milli laga. Viss vonbrigði frá heillisbúunum.

Ojba Rasta flokkurinn var næstur á svið en hann hefur pungað út tveimur plötum á tveimur árum sem er aðdáunarvert fyrir íslenska sveit. Það á greinilega að reyna að selja Friðinn yfir hátíðina en þau vörpuðu upp stórri mynd af plötu umslaginu ásamt því að henda út þremur diskum í áhorfendur í lok tónleika. Tónleikarnir sjálfir voru þokkalegir en ég er ennþá að venjast nýja efninu fyrir utan auðvitað „Einhvern veginn svona“ sem er í hópi bestu laga ársins á Íslandi. Að fá smá reggí í kroppinn var líka ágætis tilbreyting frá öllu hinu.

IMG_1034

Fyrir hátíðina var einn mesti valkvíðinn að velja á milli Jagwar Ma og Yo La Tengo. Ég kaus hressleikann fram yfir gæðin kannski og ég sé ekki eftir því. Jagwar Ma er nokkuð ný hljómsveit sem blandar saman raftónlist og (indí)rokki. Þeir lögðu allt í tónleikana og kannski full mikið á köflum en stundum ærðist maður vegna hávaða frá þeim. Jagwar Ma eiga nokkur alveg helvíti fín lög en ég spái þeim mikilli velgengni á komandi árum og alls ekki ólíklegt að maður noti einhvern tímann frasann „Já ég sá þá á Airwaves“.

IMG_1042

Ég kláraði að vísu ekki tónleikana hjá Jagwar Ma en tvö önnur nöfn áttu huga minn en það voru Anna von Hausswolff og The Young Fathers. Daman varð fyrir valinu og lenti ég smá röð fyrir utan Gamla bíó en þá voru liðnar 20 mínútur af tónleikum Önnu. Salurinn var stappaður og því þurfti ég að gera mér það að góðu að sitja á gólfinu um stund en það var allt í lagi því að Anna kynnti næsta lag sitt sem „hit song“ og það var að sjálfsögðu hið frábæra „Mountains Grave“ og ákvörðunin um að hafa valið Önnu hafði strax borgað sig. Tónlist hennar naut sín vel í Gamla bíói (eins og öll tónlist gerir) og fór hún á kostum rétt eins og hljómsveitin hennar. Anna hefur yfir ótrúlegri rödd að ráða og hefur ekkert fyrir því að fara með hana upp í hæstu hæðir. Ótrúlegur listamaður sem ég var svo heppinn að fá að sjá í bestu mögulegu aðstæðum.

Ég var saddur eftir þetta og hélt heim á leið eftir frábæran Airwaves fimmtudag!

Easy Star All-Stars: Reggí sveit með pung

radiodread

Reggí menningin á Íslandi hefur farið stigvaxandi síðustu ár og þá aðallega með hljómsveitinni Hjálmar og nú nýlega Ojba Rasta sem hefur vakið mikla lukku. Reggí og döbb (dub) virðist einnig vera góð blanda sem síðarnefnda sveitin hefur tileinkað sér og það með miklum ágætum.

En það eru ekki margar reggí hljómsveitir sem leggja sig fram við það að covera plötur í heild sinni en þó er ein slík til og nefnist hún Easy Star All-Stars og er ættuð frá Jamaíku. Og það eru engar smá plötur sem sveitin hefur tekið fyrir og yfirfært í reggí stílinn og myndu þær líklegast allar flokkast undir bestu plötur sögunnar í popp/rokk geiranum. Plöturnar eru sem sagt þessar, Dark Side of the Moon með Pink Floyd, OK Computer með Radiohead, Sgt. Peppers Lonely Heart Club’s Band með Bítlunum og loks Thriller með Michael Jacksoneasy-star-all-stars-lonely-hearts-d. Eins og sjá má eru þetta engir aukvissar í tónlistarsögunni og í raun hálfgerð fífldirfska að henda í sínar eigin útgáfur af þessum plötum og það í reggí/döbb búning.

En þótt ótrúlegt sé þá hefur þetta tekist einstaklega vel upp og hafa þeir almennt verið að fá góða dóma fyrir þessar tilraunir sínar. Að mínu mati finnst mér Easy Star’s Lonely Heart Dubs Band koma best út í þessum reggí döbb stíl þó að Radiodread og Easy Star’s Thrilla koma skemmtilega á óvart og þá sérstaklega sú síðastnefnda en það í raun fáránlegt hvernig þeir ná að tækla lög eins og „Billie Jean“, „Beat It“ og „Thriller“ með jafn miklum sóma og í raun er. Ekki finnst mér Dark Side of the Moon koma vel út í reggí búning en sitt sýnist hverjum. 

Ofan á þetta allt saman hafa þeir gefið út eina plötu með frumsömdu efni en hún hefur vitaskuld fallið í skuggann af hinum fjórum enda sveitin skapað sér nafn sem coversveit.

Boðskapurinn með þessum pistli er þessi, ef þú fýlar reggí með döbb ívafi og þessar plötur og ert tilbúin/nn til að slá þessu saman er algjörlega málið fyrir þig að kíkja á þetta.

– Torfi

Árslisti: Bestu íslensku plöturnar 2012

Eins og ég hef komið inn á áður þá var íslenska tónlistarárið afar safaríkt og man ég ekki eftir betra ári hvað plötur varðar. Hér eru 10 bestu plötur ársins að mati Pottsins.

Star Crossed# 10

Þórunn Antonía – Star Crossed

Hér sameinast fingur Davíðs Berndsen og silkimjúk rödd Þórunnar Antoníu. Platan er vel poppuð og gamaldags en það sem kannski háir henni er hversu ófjölbreytt hún er.

Helstu lög: Lovers in the Night, So High og Too Late.

 

 

Tilbury - Exorcise# 9

Tilbury – Exorcise

Frumburður stjörnusveitarinnar Tilbury gerði ágætis lukku á árinu og eru nokkrar helvíti fínar lagasmíðar á Exorcise, þær hefðu bara mátt vera fleiri.

Helstu lög: Drama, Slow Motion Fighter, Sunblinds og Tenderloin.

 

 

Ojba Rasta# 8

Ojba Rasta – Obja Rasta

Það var kominn tími á að einhver önnur reggí sveit en Hjálmar stigi fram og það gerðu liðsmenn Ojba Rasta svo sannarlega með reggí-döbb frumburðinum sínum. Skemmtilegir textar í bland við glaðværa tónlist klikkar seint!

Helstu lög: Gjafir jarðar, Hreppstjórinn og Jolly Good.

 

 

valdimar---um-stund# 7

Valdimar – Um stund

Undraland var afar vel heppnuð plata og það má segja að það hafi verið smá pressa á Valdimar að fylgja henni eftir. Um stund er ögn rólegri og heilsteyptara verk en það vantar samt fleiri hittara.

Helstu lög: Beðið eftir skömminni, Sýn og Yfir borgina.

 

 

nora - himinbrim# 6

Nóra – Himinbrim

Hér er um að ræða metnaðarfulla plötu frá hljómsveitinni Nóru. Lögin eru stór og minna stundum á sveitir eins og Arcade Fire. Þú byrjar ekkert að hlusta á þessa nema að þú gerir það til enda.

Helstu lög: Himinbrim, Kolbítur og Sporvagnar.

 

 

 

sigur-ros-valtari-cd-packshot-lst097077# 5

Sigur Rós – Valtari

Enn einn osturinn frá okkar ástkæru Sigur Rós. Ekki besta platan þeirra en persónulega er ég meira fyrir Takk… og Ágætis byrjun plöturnar en þessi er meira í takt við (). Róleg og sveimandi sem hlýjar í kuldanum.

Helstu lög: Dauðalogn, Rembihnútur og Varúð.

 

 

Moses_Hightower__5020f334e3b5f# 4

Moses Hightower – Önnur Mósebók

Hressasta hljómsveit landsins, það er ekki spurning. Þeir halda hér vel á spöðunum en hér er um rökrétt framhald að ræða frá Búum til börn. Hnittnir textarnir passa svo vel við vandaðan og undurfagran hljóðfæraleikinn að það hálfa væri hellingur.

Helstu lög: Háa c, Sjáum hvað setur og Stutt skref.

 

 

Petur# 3

Pétur Ben – God’s Lonely Man

Ó hve lengi ég beið þín segi ég nú bara. Sex ár liðin frá síðustu plötu sem gerði góða lukku. Pési hefur þroskast mikið sem lagahöfundur og hljómar platan eftir því. Pétur Ben minnir mig svolítið á Lou Reed áður en hann missti það og er ég ekki fær um að hrósa meir en það.

Helstu lög: Cold War Baby, Tomorrows Rain og Yellow Flower.

 

Dyrd# 2

Ásgeir Trausti – Dýrð í dauðaþögn

Ásgeir „Stormsveipur“ Trausti þarf enga kynningu en ég man ekki eftir öðrum eins sigurfara í íslenskri tónlistarsenu. Hugljúfar lagasmíðarnar og björt röddin með íslensku textunum er eitthvað sem virkar á alla Íslendinga.

Helstu lög: Dýrð í dauðaþögn, Hljóða nótt, Hærra og Nýfallið regn.

 

Enter 4# 1

Hjaltalín – Enter 4

Mögulega síðasta platan sem kom út á árinu og hvað það er nú gaman þegar að svona konfektmoli kemur óvænt úr kassanum. Besta plata Hjaltalín hingað til en samstarf Högna og GusGus hefur líklega gert honum gott og má heyra áhrif hér og þar á plötunni. Hjaltalín er mögulega ein best mannaðasta sveit á Íslandi í dag með sjálfan Jesú Krist (Högni) í fararbroddi. Svona mannskapur veitir einfaldlega bara á gott!

Torfi

Árslisti: Bestu íslensku lögin 2012

Mig grunar að íslenskir tónlistarmenn hafi verið frekar smeykir við að heimurinn myndi enda 20. desember í ár og því hafi þeir haft hraðar hendur og gefið frá sér miklu betri lög í kjölfarið. Það var því úr nógu að velja úr góðum íslenskum lagasmíðum en þetta eru þau tíu lög sem stóður upp úr að mínu mati.

Ásgeir Trausti – „Dýrð í dauðaþögn“

Þeir eru fáir sem hafa komið inn í íslenskt tónlistarlíf á jafn hvítum hesti og Ásgeir Trausti gerði í ár. „Dýrð í dauðaþögn“ er eitt af mörgum frábærum lögum á samnefndri plötu en með aðeins meiri vídd og tilþrifum en restin.

BlazRoca & Ásgeir Trausti – „Hvítir skór“

Þetta lag heillaði mig ekki við fyrstu hlustun en svo tók ég húmorinn á þetta og fór að meta lagið upp á nýtt. Þrátt fyrir að hafa komið seint út á árinu er þetta eitt af mest spiluðu lögunum á iPodinum mínum.

Hjaltalín – „We“

Frábært lag frá einni heitustu hljómsveit landans undanfarin ár. Lagið er stórt og mætti það alveg vera lengra fyrir mér.

Legend – „City“

Krummi sýnir á sér nýjar hliðar og tekst það einkar vel því að hann er greinilega sniðinn fyrir raftónlistina.

Moses Hightower – „Sjáum hvað setur“

Ein skemmtilegasta hljómsveit sem Ísland hefur alið af sér í langan tíma. Þeir sem hafa ekki farið á tónleika með þessum gleðigjöfum eru heppnir að heimurinn endaði ekki fyrir þremur dögum.

Ojba Rasta – „Hreppstjórinn“

Ég varð ekki var við hljómsveitina Ojba Rasta fyrr en á þessu ári og þvílíkur dýrðardagur sem það var þegar ég lagði hlustir á „Hreppstjórann“ og „Jolly Good“. Það er bara synd að þeir hafi ekki hent laginu á YouTube því lagið þeirra bitnar á fegurð þessarar færslu.

Pétur Ben – „Tomorrows Rain“

http://www.gogoyoko.com/song/799641

Ekki er Pétur Ben skárri en lagið hans er hvorki að fínna á Souncloud né YouTube. En lagið er engu að síður gott og kannski pínu svindl að það fái að fljóta með þar sem það er gamalt. En það vegur víst þyngra þegar lagið er formlega gefið út heldur en spilað á tónleikum.

Sin Fang – „Only Eyes“

Sindri Sin Fang er duglegur í tónlistarsköpun og gefur reglulega út lög undir ýmsum nöfnum, þó aðallega Sin Fang og Pojke um þessar mundir. „Only Eyes“ er ofboðslega hressandi og áferðafalleg lagasmíð og ekki sekúndubrot sem fer til spillis. Það má búast við því að Sindri verði atkvæðamikill á næsta ári.

Tilbury – „Tenderloin“

Fyrsti síngúllinn úr smiðju súpergrúppunar Tilbury. Það er einhver gamall andi yfir laginu sem er svo heimilislegur og þægilegur og hefur afslappaður söngur Þormóðs þar mikið að segja. Vonandi verður hann fyrirmynd fyrir aðra trommara sem dreymir um að stíga aðeins framar á sviðið en þora ekki að taka af skarið.

Þórunn Antonía – „Too Late“

Það er við hæfi að enda þetta á ísdrottningunni sjálfri Þórunni Antoníu. Lagið hefði gert það gott á níunda áratugnum get ég ímyndað mér og gallinn sem Tóta skartar í myndbandinu og dans tilþrifin hefðu einnig fengið góðar undirtektir. En það hefur einnig erindi nú árið 2012 enda frábært lag, frábært myndband og frábærir listamenn hér á ferð.

Torfi