Monthly Archives: ágúst 2014

Airwaves upphitun: Future Islands – The Vintage Caravan – The War on Drugs

Besta tónlistarhátíð Íslands, Iceland Airwaves, fer fram dagana 5-9 nóvember næstkomandi. Ekki er enn búið að staðfesta öll atriðin en þó eru komin nokkur þungavigtaratriði og nægir þar að nefna The Flaming Lips, Caribou og The Knife í því samhengi. Ég ætla hins vegar að líta aðeins betur á þrjár aðrar hljómsveitir sem ég er afskaplega spenntur að sjá á hátíðinni í ár.

Future Islands

Future Islands er áhugaverð hljómsveit frá Bandaríkjunum. Söngvarinn Samuel T. Herring býr yfir gríðarlega öflugri sviðsframkomu eins og sést á meðfylgjandi myndbandi. Sveitin hefur starfað í u.þ.b. 8 ár og gaf út fjórðu breiðskífuna sína Singles núna í mars og hefur hún fengið glimrandi dóma á Pitchfork og Allmusic.com. Airwaves gestir mega búast við þrusu fínum tónleikum og þá sérstaklega ef Sammi gamli verður í sama stuði og hann var í hjá David Letterman.

The Vintage Caravan

Hér eru á ferðinni sóðalega þétt íslensk hljómsveit með virkilega flott lög. Söngvarinn Óskar býr yfir alveg hörku rödd og heldur sömuleiðis uppi gítarleiknum í hljómsveitinni. Þetta myndband við lagið „Expand Your Mind“ er með því skemmtilegra sem ég hef séð hjá íslenskri sveit en það er bæði vel sveppað og steikt og passar afar vel við tónlistina. Drengirnir eru annars búsettir í Danmörku þessa dagana og eiga þar lítið rúgbrauð sem þeir ferðast um á villt og galið útum alla Evrópu. Þeir ætla hins vegar að gera sér ferð hingað til Íslands í nóvember og útbúa einhvern djúsí kokteil handa rokkþyrstum aðdáendum.

The War on Drugs

The War on Drugs er eitt af stærri atriðum hátíðarinnar í ár. Þeir hafa gefið út þrjár plötur og sú síðasta sem kom út á þessu ári er í miklum metum hjá tónlistarspekúlöntum og rómuð sem ein besta plata ársins hingað til. Tónlistarmaðurinn Kurt Vile sem hefur átt góðu gengi að fagna síðustu ár er einn af stofnmeðlimum hljómsveitarinnar en hætti eftir útgáfu fyrstu plötunnar til að einbeita sér að sólóferlinum. The War on Drugs er þó heldur betur að minna á sig í ár með plötunni sinni Lost in the Dream.

– Torfi

Auglýsingar