Monthly Archives: september 2012

Yfirheyrslan: Hörður Már Bjarnason (M-Band)

Hörður Már er ungur tónlistarmaður og býr til tónlist undir nafninu M-Band. Í mars gaf hann út plötuna EP sem inniheldur sex frumsamin lög. Hann kemur fram á Airwaves og spilar á Faktorý á miðvikudeginum ásamt því að spila á off venue dagskránni. Potturinn tók hann í yfirheyrslu.

Fullt nafn: Hörður Már Bjarnason.

Aldur: 23 vetra.

Staða í hljómsveit: Söngvari, hljómborðsleikari og græjupervert.

Fyrri hljómsveitir/verkefni: Það er eiginlega rosa mikið og fjölbreytt! Mest af því hefur verið að spila með allskonar ballsveitum og sveitum sem skapaðar voru fyrir menntaskólasýningar. Það sem ég var þó síðast að gera var að leika með blússveitinni Stone Stones og semja tónlist fyrir menntaskólaleikverk.

Áhrifavaldur/ar þínir: Úff… það eru rosa margir. Það eru í raun og veru bara tónlistarmenn sem eru að gera tónlist sem höfðar einhvern veginn til mín, óháð því hvernig tónlist það er. Það er kannski helst að nefna Modeselektor þessa stundina hvað varðar lagasmíðar, hljóðsköpun og hljóðblöndun. Þeir vita alveg hvað þeir eru að gera.

Hefurðu gefið eiginhandaráritun: Hehe nei. Ég þarf nú ekkert eitthvað að berja af mér aðdáendurna… ennþá. Djók!

Frægasti tónlistarmaður sem þú hefur hitt: Ég hef hitt Björn Jörund einhvern tímann, man ekki eftir einhverjum fleiri stórum nöfnum.

Efnilegasti tónlistarmaður/hljómsveit landsins: Já þeir eru alveg nokkrir! Ásgeir Trausti er kannski efstur á blaði þar sem hann er að gera allt gjörsamlega vitlaust!

Ofmetnasti tónlistarmaður/hljómsveit landsins: Ég veit eiginlega ekki hvað ég get sagt hér. Eins og ég sé þetta og er ekki búinn að stúdera þetta mikið, þá eru held ég langflestir að fá það sem þeir eiga skilið, í góðri merkingu.

Vanmetnasti: Enginn sem ég hef tekið eftir. Kannski er það líka bara málið… 😦

Drauma staður til að spila á: Ég sá alltaf fyrir mér að spila á Nasa, en nú er sá staður ekki til lengur þannig að ég er ekki alveg viss.

Bestu tónleikar sem þú hefur spilað á: Það eru nú ekki margir tónleikarnir sem ég hef spilað á, en einhvern tímann spilaði ég í Berlín. Það var fáránlega gaman! Staðurinn var mjög flottur, kjallari lengst ofan í jörðinni þar sem allir veggir voru graffaðir í spað með neon málningu, vatnsleiðslur í loftunum, diskókúla og sjónvörp inn í veggjunum, mjög reif-legt allt saman. Svo var bara mjög gott sánd og mjög góð stemning í fólki.

Bestu tónleikar sem þú hefur séð: Ég held að það séu tónleikar Queens of the Stone Age í Laugardalshöll 2005.

gogoyoko eða tonlist.is: Gogoyoko alveg klárt mál! Ég hef ekki snert þetta tonlist.is dót..

Ef þú mættir velja hvern sem er á Íslandi til að semja lag með: Það væri kannski Magnús Tryggvason Elíassen trommari eða jafnvel Þórarinn Guðnason úr Agent Fresco. Eða báðir! Það gæti allt saman orðið mjög áhugavert.

En utan landsteina: Kannski Anthony Hegarty. Annars veit ég ekki. Ég er annars að vinna núna mikið með Veriníque Jacques, sellóleikara. Það er bara mjög gaman.

Segðu okkur frá skemmtilegu atviki sem hefur hent þig á tónleikum: Ég var einhvern tímann beðinn um óskalag. Þá hélt einhver að ég væri dj. Mér fannst það pínu fyndið þar sem ég var með eiginlega of mikið af græjum til að vera dj.

Hvað er framundan: Á döfinni er plötuútgáfa og svo auðvitað Airwaves. Svo heldur lífið bara áfram með öllu sem því fylgir…

Torfi

Auglýsingar

YouTube dagsins: The Charlies – Hello Luv

Það hafa allir skoðun á The Charlies (áður Nylon). Fólk annaðhvort hatar þær eða elskar, ég persónulega hata að elska þær. Í dag kom út myndbandið við lagið „Hello Luv“ og sver það sig í ætt við „Monster (Eat Me!)“. Greddan og töffaraskapurinn eru í fyrirrúmi og eru dömurnar aðstoðaðar af Barbie, Ken, dönsurum og saklausum hundi.

Það má segja að myndbandið sé betra en lagið. Maður fær það á tilfinninguna að lagið hafi verið samið undir áhrifum og látið þar við sitja. „Monster (Eat Me!)“ var miklu sterkara lag og féll maður svoleiðis fyrir melódíunni eins og þær sungu sjálfar um.

Úr Hagkaup tískunni yfir í Hollywood.

Ég eitthvern veginn efast um að þetta muni samt ganga hjá þeim þarna úti í Hollywood. Þess vegna er ég kominn með frábæra hugmynd. Ég vil sjá The Charlies í Evróvisjón keppninni á næsta ári! Sleppa þessari undankeppni og fela verkefnið í hendur þeirra. Þær uppfylla nefnilega skilyrðin til þess að ná langt í keppninni, sem eru hæfilega gott lag og laglegar (lag)línur. Ef þær myndu svo ná topp þremur sem er raunhæft markmið myndi það koma þeim rækilega á kortið og opna um leið helling af tækifærum í Evrópu.

Því segi ég við The Charlies: Hættið að eltast við ameríska drauminn og snúið ykkar að Evrópu, það er einfaldlega ekki pláss fyrir fleiri grúppur eins og ykkar þarna úti.


– Torfi

Topp 5: Umtöluðustu listamenn landsins

Íslendingar fá gjarnan æði fyrir tónlistarmönnum og missa sig hreinlega í að lofa þá á samskiptasíðum. Facebook síðan mín hefur fengið að finna fyrir því undanfarið. Sumt er mjög gott en annað finnst mér algjört ofmat. Þetta eru þeir fimm sem fólk hefur verið að „hæpa“ undanfarið.

# 5 Retro Stefson

Retro Stefson voru saklausir til að byrja með en eftir plötu númer tvö fór allt að gerast. Stelpurnar úr Gerplu fóru allt í einu að fýla þá eftir að hafa leikið í myndbandinu við „Kimba“. Þessar stelpur áttu vini sem voru nýbúnir að jafna sig eftir símaskránna með Gillz og þetta smitaði auðvitað út frá sér. Þriðja platan er væntanleg innan skamms og það má því búast við látum.

# 4 Ásgeir Trausti

Fólk er að tapa sér yfir Ásgeiri Trausta um þessar mundir. Sjaldan hefur nýliði komið inn með eins litlum látum en valdið svo miklum usla eins og raun ber vitni. Hinn íslenski Justin Vernon (Bon Iver) vilja sumir meina og ekki batnar það. Við erum að tala um það að maðurinn hélt fjóra útgáfutónleika og seldist upp á þá alla!

# 3 Mugison

Óskabarn þjóðarinnar í fyrra. Örn Elías var búinn að gefa út nokkrar plötur sem fengu góða dóma hjá gagnrýnendum en voru ekkert að heilla almenning. Þangað til að lagið „Stingum af“ fór í spilun í útvarpinu. Allir gátu tileinkað sér boðskapinn í laginu og lærðu það utan af, meira að segja krakkar í leikskóla. Platan Haglél kom svo síðar og seldist afar vel og bauð Mugison í kjölfarið upp á fría tónleika í Hörpu takk fyrir.

# 2 Dikta

Dikta er nokkurs konar Nickleback Íslands. Múgurinn svoleiðis gleypir við tilgerðarlegum lagasmíðum og textum og heldur nafni þeirra á lofti. Þetta hefur reyndar róast aðeins enda síðasta plata ekki eins sigursæl og Get It Together. Þeir fá samt prik fyrir að gera grín af sjálfum sér í Steindanum um daginn.

# 1 Of Monsters and Men

Of Monsters and Men hefur sprengt skalann hvað varðar umtal og vinsældir. Tónlist þeirra hitti ekki bara í mark á Íslandi heldur einnig í Bandaríkjunum þar sem áhugi fyrir fólk tónlist er gífurlegur og Bretlandi. Þegar fólk er samt farið að tala um OMAM í sömu andrá og Sigur Rós og Björk er það á villigötum.

– Torfi

Airwaves upphitun: Patrick Wolf

Þá er kominn tími á að hita skrílinn upp fyrir Iceland Airwaves hátíðina sem mun skella á þar næstu mánaðamót. Mér skilst reyndar að það verði fleiri útlendingar á hátíðinni í ár enda Íslendingar oft kærulausir þegar kemur að því að kaupa miða í tæka tíð.

Sá fyrsti sem verður kynntur til leiks hjá Pottinum er Patrick Wolf eða Patrick Denis Apps eins og hann heitir réttu nafni. Patrekur fæddist í Bretlandi og byrjaði ungur að fikta við tónlist, kunni á hin ýmsu hljóðfæri og gat sungið í þokkabót. Fyrsta plata hans leit dagsins ljós 2003 og ber heitið Lycanthropy sem var afrakstur átta ára vinnu takk fyrir. Síðan þá hafa komið út fjórar plötur og er von á þeirri sjöttu í október.

Tónleikar hans í Fríkirkjunni verða væntanlega mikið litaðir af henni enda um akústíska plötu að ræða en á heimasíðu Airwaves er atriði Patricks auglýst sem „acoustic“. Platan nefnist Sundark and Riverlight og inniheldur mörg af bestu lögum Patricks í akústískum búningi og má því kannski segja að um „best of“ plötu sé að ræða.

Patrick Wolf með úlf.

Tónlist Patricks er dramatísk en hann blandar saman klassískum hljóðfærum við elektróník sem tekst bara furðuvel. Ef ég væri í ykkar sporum og hefði lítið hlustað á Patrick myndi ég mæla með Lupercalia sem kom út í fyrra og væntanlegri Sundark and Riverlight til að hita upp fyrir tónleikana. Patrick Wolf kemur fram í Fríkirkjunni á föstudeginum klukkan hálf tíu og í guðanna bænum missið ekki af honum!

– Torfi

Joaquin Phoenix snýr aftur á hvíta tjaldið

Jú þið heyrðuð rétt, Joaquin Phoenix er væntanlegur á hvíta tjaldið í október en hann hefur verið fjarverandi í fjögur ár eða síðan að kvikmyndin Two Lovers kom út. Að vísu kom heimildarháðmyndin I’m Still Here út árið 2010 en þar þóttist hann hafa gefist upp á kvikmyndum og hugðist snúa sér alfarið að rappi. Virkilega súr mynd ef út í það er farið.

En nú er J.P. mættur aftur til leiks í Hollywood en hann leikur á móti kanónunni Philip Seymour Hoffman í The Master eftir leikstjórann og handritshöfundinn Paul Thomas Anderson. Sá maður á nú ekkert slæman feril að baki en hann hefur t.d. leikstýrt og skrifað myndir á borð við Boogie NightsMagnolia og There Will Be Blood. Það má því alveg búast við sprengju enda eru J.P. og P.S.H. með betri leikurum samtímans á góðum degi. 

Always two there are, no more, no less. A master and an apprentice.

Phoenix leikur fyrrverandi hermann sem er nokkuð ráðvilltur eftir herþjónustu sína og kemur þá trúarleiðtoginn Lancaster Dodd (Hoffman) til sögunnar og tekur hann uppá arminn. Lancaster fer fyrir trúfélaginu ‘The Cause’ sem sprettur upp í kjölfar seinni heimsstyrjaldarinnar. Meira veit ég nú ekki um innihald myndarinnar en Phoenix virðist ætla að nota sömu greiðslu og í Walk the Line sem er fagnaðarerindi enda smekkleg með eindæmum.

Til gamans má geta að Johnny Greenwood úr Radiohead samdi tónlistina fyrir myndina og er hægt að hlusta á tóndæmi hér.

– Torfi

Yfirheyrslan: Ívar Björnsson (Nolo)

Yfirheyrslan er nýr liður hér á Pottinum þar sem við tökum tónlistarmenn af handahófi og yfirheyrum þá rækilega. Sá fyrsti hefur gert það gott undanfarin ár með hljómsveit sinni Nolo en taka verður þó fram að þetta er ekki knattspyrnumaðurinn Ívar Björnsson.

Fullt nafn: Ívar Björnsson.

Aldur: 21.

Staða í hljómsveit: Hljómborð, bassi og söngur.

Fyrri hljómsveitir/verkefni: Spooky Jetson a.k.a. Black Sabbath Íslands.

Áhrifavaldur/ar þínir: Alltaf erfitt að svara þessari spurningu en ég hlusta mikið á t.d. Marc Bolan/T. Rex, Gary Numan, Black Sabbath og Beach House.

Drauma staður til að spila á: Um borð í Norrænu, eða gamalli kirkju eins og t.d. Dómkirkju Flórens, væri örugglega magnað sound þar.

Hefurðu gefið eiginhandaráritun: Já það hef ég.

Frægasti tónlistarmaður sem þú hefur hitt: Bó Hall.

Efnilegasti tónlistarmaður/hljómsveit landsins: Er ekki Ásgeir Trausti að gera allt vitlaust? Hann er efnilegur en svo er grjóthart band sem kallast Saytan, þeir eru með mjög flott stöff sem lofar góðu.

Ofmetnasti tónlistarmaður/hljómsveit landsins: Það eru nokkrar ofmetnar hljómsveitir hér á landi en ég get ómögulega sagt hverjir það eru, ég vil ekki að fólk hræki á mig út á götu.

Vanmetnasti: Kannski skrítið að nefna FM Belfast þar sem þau eru gríðarfræg hér á landi en mér finnst þau svo vanmetin erlendis. How to Make Friends er plata í heimsklassa og ætti að fá meira umtal erlendis. Gæti verið að ég sé að rugla og að þau séu mjög fræg þarna úti en þetta er það sem mér finnst.

Bestu tónleikar sem þú hefur spilað á: Spiluðum eitt sinn á menntaskólaballi MH á Nasa, það var örugglega enginn að hlusta heldur í leit að sleik en við misstum okkur í gleðinni á sviðinu. Svo hafa allir Airwaves tónleikarnir okkar heppnast gríðarvel.

Bestu tónleikar sem þú hefur séð: Ég fór á Rolling Stones í Köben og það var magnað, erfitt að toppa þá tónleika.

Ef þú mættir velja hvern sem er á Íslandi til að semja lag með: Við erum fljótlega að fara að semja lög með drengjunum í Sudden Weather Change. Við höfum áður unnið lag saman sem ber heitið „Saan Rail“ sem má finna á plötunni Hitaveitan, mjög svo sveitt og skemmtilegt lag.

En utan landsteina: Maður hefði verið til í að vinna með Gary Numan, maðurinn á milljón forn syntha. En hann er orðinn svo dark eitthvað, komið þetta Emo element í hann sem ég er ekki að fíla. En það væri t.d. spennandi að vinna með Beach House eða jafnvel Empire of the Sun.

Segðu okkur frá skemmtilegu atviki sem hefur hent þig á tónleikum: Það var eitt fyndið atvik sem við lentum í með Spooky Jetson. Það var þannig að við vorum að spila á Samfés á litlu sviði í Laugardalshöllinni. Við vorum svona 14-15 ára gamlir og óreyndari en skelfiskur á þurru landi. Það safnaðist saman stór hópur af krökkum þegar við byrjuðum að spila og fremst í hópnum voru kolóðar stelpur. Þær voru að grípa í buxnaskálmarnar hjá manni eða skónna og gargandi líkt og við værum Hvanndalsbræður á miðju sveitaballi. Svo tók einhver gítarinn hans Nonna úr sambandi á miðjum leikum. En allt gekk vel og við þurftum lögreglufylgd út.

Hvað er framundan: Það eru spennandi tímar framundan hjá okkur, eitt hljómborðið okkar sem við höfum notað síðan í byrjun bilaði á miðri æfingu. Hljómborðið var skran úr Góða hirðinum en það innihélt trommusound sem finna má á flestum lögum okkar ásamt flottum en barnalegum synthaeffectum. Þannig að núna erum við á fullu í því að finna staðgengil og þróa soundið okkar ennþá meir.

Ívar í vinnunni.

Torfi

Tónleikadómur: Jet Black Joe 20 ára

Undirritaður var þess heiðurs aðnjótandi að vera viðstaddur afmælistónleika Jet Black Joe í gærkvöldi en þeir voru að halda uppá 20 ára starfsafmæli sitt. Vegna mikillar aðsóknar voru haldnir tvennir tónleikar, yðar einlægur átti miða á þá seinni.

Að vísu voru aðeins tveir upprunalegir meðlimir mættir til að halda uppá afmælið en það voru að sjálfsögðu Páll Rósinkranz og Gunnar Bjarni Ragnarsson. Þeim til aðstoðar voru mættir tvíburarnir Guðlaugur og Kristinn Júlíussynir og Snorri Snorrason fyrrum Idol stjarna. Saman mynduðu þessir menn einstaklega þétta og góða hljómsveit sem fóru ansi hreint vel með lög Jet Black Joe.

Leikin voru allra bestu lögin af ferli sveitarinnar og var ég lítið var við þessi nýju lög sem talað var um að þeir myndu spila. Hljómsveitin byrjaði reyndar tónleikana á einhvers konar útfærslu af „Also sprach Zarathustra“ sem var vel við hæfi enda ekkert annað í boði en að bjóða Palla velkominn á svið með slíkri epík.

Níu lög voru spiluð fyrir hlé en hápunktar þar voru lög eins og „My Time For You“ og að sjálfsögðu „Higher and Higher“ en þá tók salurinn heldur betur við sér og stóð upp að beiðni Palla og dansaði og klappaði eins og það ætti lífið að leysa. Kannski ekki beint rétti tímapunkturinn til að taka hlé en einhver verður salan á barnum að vera.

Gunnar og Palli í sínu allra fínasta.

Keyrslan var ekkert minni eftir hlé og byrjaði Gunnar strax að búa til læti með gítarnum en ég verð að segja að Gunnar lítur ekki út fyrir að vera frá þessu fróni enda afskaplega svalur maður með eindæmum, bæði í spilamennsku og útliti. Palli bauð frænku sinni Sigríði Guðnadóttur upp á svið til að taka lagið „Freedom“ og var sá flutningur epískur svo ekki sé meira sagt. Kraftar Sigríðar voru einnig nýttir í „Knockin’ on Heaven’s Door“ sem var tekið í stíl Guns N’ Roses.

„Higher and Higher“ var svo spilað aftur og átti að vera síðasta lag kvöldsins. Eins og við mátti búast voru drengirnir klappaðir upp að hætti Íslendinga og tóku þeir þá „Rain“ sem þeir höfðu einnig spilað áður á tónleikunum. Ég veit ekki með þetta uppátæki, mér fannst alveg nóg að upplifa nostalgíuna sem fylgdi „Higher and Higher“ einu sinni og þótti mér eiginlega nóg um þegar „Rain“ var svo endurtekið. Það er ekki eins og lagerinn af lögum sé lítill hjá þeim félögum.

Fyrir utan endurtekningarnar var þetta skemmtileg afmælisveisla þar sem hljómburður var í hæsta gæðaflokki.

Lagalisti

Take Me Away
Big Fat Stone
I, You, We
Rain
Jamming
Starlight
My Time For You
Stepping Stone
Higher and Higher

Hlé

Falling
Summer Is Gone

I Know
Freedom
Knockin’ on Heaven’s Door
Won’t Go Back
Are You Gonna Go My Way 
Higher and Higher 

Rain

– Torfi