Monthly Archives: apríl 2013

† Richie Havens allur

Söngvarinn og gítarleikarinn Richie Havens hefur hvatt vora jörð en hann lést í gær 72 ára að aldri. Richard Pierce Havens fæddist í Brooklyn í janúar 1941 og var hann einn af níu systkinum takk fyrir. Segja má að frægðarsól Havens hafi loks risið þegar hann kom fram á Woodstock hátíðinni árið 1969 en vegna seinkunar og forfalla annarra hljómsveita þurftu áhorfendur að sitja uppi með hann í næstum þrjá klukkutíma! Havens stóð sína plikt og vel það og hristi úr erminni hin og þessi lög sem féllu vel í gesti.

RichieHavens_banner

Richie Havens slær strengi á Woodstock.

Ef aðrir listamenn hefðu ekki verið seinir á hátíðina hefði mannkynið líklega aldrei heyrt lagið „Freedom“ en þar sem Havens var nánast búinn að spila öll lög sem hann kunni þurfti hann að spinna eitthvað á staðnum. Hann studdist við texta úr negrasálminum „Motherless Child“ og lék svo af fingrum fram eins og honum einum var lagið og úr varð lagið „Freedom„.

Havens hafði sinn einstaka stíl og mætti kannski lýsa honum sem frumbyggjalegum. Hann þótti vera ansi ákafur á gítarinn auk þess sem hann notaði opna stillingu en þá heyrist hljómur þegar slegið er yfir alla strengina í einu án þess að nota grip.

Árið 2007 birtist Havens í litlu hlutverki í kvikmyndinni I’m Not There sem túlkar Bob Dylan á marga vegu. Þar sat hann á verönd ásamt leikaranum Marcus Carl Franklin sem túlkaði ungan Bob Dylan og Tyrone Benskin og spiluðu þeir lagið „Tombstone Blues“. Lengri útgáfu af laginu er að finna á sándtrakki myndarinnar en Havens var einn af fjölmörgum listamönnum sem gerðu ábreiður af lögum Dylans. Það þarf ekki að koma á óvart að Havens hafi verið í því úrtaki enda hafði hann áður leikið lög eftir Bob Dylan með góðum árangri. Þá lék hann einnig ábreiður af ferli Bítlanna og má þar benda á „Strawberry Fields Forever“ sem var í Woodstock prógrammi hans og „Here Comes the Sun“.

Richie Havens hafði áhrif á margan manninn og má nefna tónlistarmenn eins og Bill Withers, Cat Stevens og Jeff Buckley í því samhengi. Það er ljóst að áhrif Havens liggja víðar og að frumlega listamenn eins og hann er ekki að finna á hverju strái. Havens hefur skilið eftir sig arfleifð sem mun lifa áfram um ókomna tíð.

Auglýsingar

Bíó: Ekkert svo ótrúlegur Wonderstone

Það var með jákvæðum hug sem ég fór á grínmyndina The Incredible Burt Wonderstone sem skartar ansi sjóuðum grínleikurum í aðalhlutverkum eða þeim Steve Carell og Buscemi sem og Jim Carrey. Ég fór reyndar bara á myndina til þess að sjá þann síðastnefnda enda verið einlægur aðdáandi hans síðan ég sá Dumb and Dumber í fyrsta sinn.

Burt (Carell) og Anton (Buscemi) voru sameinaðir í æsku er sá fyrrnefndi var að æfa sig í töfrabrögðum í skólanum. Eftir það var ekki aftur snúið og mynduðu þeir sterka vináttu sem fólst aðallega í því að stunda töfrabrögð. Á fullorðinsaldri verða þeir ráðnir sem töframenn á Aztec spilavítinu í Las Vegas sem er í eigu Doug Munny (James Gandolfini). Eftir 10 ár af sömu sýningunni minnkar aðsóknin smátt og smátt og ekki hjálpar hinn ferski Steve Gray (Carrey) til. Gray (skopstæling á Criss Angel) er einhvers konar götulistamaður og fær alveg brjálaðar hugmyndir, eins og að halda í sér þvagi til langs tíma og sofa ber að ofan á brennandi heitum kolum. Það er ljóst að til þess að auka miðasöluna þurfa æskuvinirnir að fara í naflaskoðun og gera róttækar breytingar á sýningu sinni.

Steve Gray

Og þannig hljómar söguþráðurinn í stuttu máli eða fyrri parturinn allavega. Myndin er ansi fyrirsjáanleg og maður veit alltaf hvað gerist næst, sem hefði verið í góðu lagi ef hún hefði á annað borð verið fyndin. Mínum manni til varnar var hann lítið í mynd en honum tókst líklega best af öllum að fá mig til að hlæja.

Því miður er ég búinn að missa þolinmæðina á Steve Carell, hann var ekkert fyndinn og ástæðan fyrir því er líklega sú að hann lifir ennþá á gömlu látbrögðunum og töktunum. Fyrir mér hefur hann ekkert þróast sem grínleikari síðan að ég sá hann fyrst í Bruce Almighty. Gömlu brandararnir virka ekki lengur og maður vorkenndi meistara Buscemi að þurfa standa þarna hliðina á honum í flestum atriðum sínum. Svo ég tali nú ekki um Alan Arkin sem nýverið sló í gegn í Argo þar sem hann lék á móti John Goodman, maðurinn hefur líklega þurft á áfallahjálp að halda eftir að hafa leikið í senunum með Carell. Persónuleikabreytingar Carells voru einnig ódýrar en til að byrja með var hann þessi graða týpa sem stígur ekki beint í vitið en breytist svo í afskaplega umhyggjusaman einstakling á elliheimilinu Grund. Fyrirgefið en ég var ekki að kaupa þetta og húmorinn og handritsgerð á ansi lágu plani þarna.

Augnayndið Olivia Wilde gerði veru mína í Álfabakka ögn skárri enda glæsileg kona í alla staði. James Gandolfini átti ágætis spretti sem og greyið Buscemi en það eitt að horfa á hann var nóg til þess að hlæja smá. Annars voru það atriðin með Jim Carrey sem stóðu upp úr og hann hreinlega neitar að gefast upp í þessum annars miskunnarlausa bransa. Að vísu fékk hann úr alltof litlu að moða og hefði myndin verið betur sett hefði hann fengið fleiri mínútur.

Jane

Olivia sæta að framkvæma töfrabragð.

The Incredible Burt Wonderstone er ekki nógu fyndin og á köflum smekklaus og ef ekki væri fyrir nærveru Jim Carrey og Oliviu Wilde og innkomulag Burt og Antons „Abracadabra“ með Steve Miller Band væri ég búinn að gleyma henni.

– Torfi

Yfirheyrslan: Bjarki Pjetursson (Vigri)

Bjarki Pjetursson er meðlimur í hljómsveitinni Vigri sem gaf út sína fyrstu plötu, Pink Boats, fyrir tveim árum og er hægt að lesa dóm sem ég skrifaði um hana á sínum tíma hér. Það var löngu kominn tími á að yfirheyra hann og hafði hann þetta að segja.

Fullt nafn: Bjarki Pjetursson.Bjarki Pje

Aldur: 23 ára.

Staða í hljómsveit: Harmonikka, gítar, söngur o.fl..

Áhrifavaldur/ar þínir: Fjölskyldan, vinir, tónlist, bíómyndir og allt.

Hefurðu gefið eiginhandaráritun: Já.

Frægasti tónlistarmaður sem þú hefur hitt: Damon Albarn.

Efnilegasti tónlistarmaður/hljómsveit landsins: Raggi Bjarna er allur að koma til.

Ofmetnasti tónlistarmaður/hljómsveit landsins: …….

Vanmetnasti: Ragga Gísla.

Drauma staður til að spila á: Eyjafjallajökull.

Bestu tónleikar sem þú hefur spilað á: Beatpol í Dresden eru mjög eftirminnilegir, svo var líka gaman að spila í Hörpunni á Airwaves.

Bestu tónleikar sem þú hefur séð: Emilíana Torrini í Háskólabíói einhvern tímann.

gogoyoko eða tonlist.is: Gogoyoko er frábær.

Ef þú mættir velja hvern sem er á Íslandi til að semja lag með: Sinfoníuhljómsveit Íslands.

En utan landsteina: Dr. Dre eða Snoop Dogg eru seigir.

Segðu okkur frá skemmtilegu atviki sem hefur hent þig á tónleikum: Þegar ákveðnum hljómsveitarmeðlimi var brátt í brók og við gátum því miður ekki lokið tónleikunum.

Hvað er framundan: Túr um Evrópu og gefa út nýja plötu.

Torfi