Færslusafn

Tónleikadómur: Útgáfutónleikar The Diversion Sessions

Síðastliðinn fimmtudag skellti ég mér á útgáfutónleika The Diversion Sessions. Platan þeirra The Truth, the Love, the Life kom reyndar út í fyrra á netinu og geisladisk en kom svo út á þriðja forminu, fallegum hvítum vínyl í maí. Það er óhætt að segja að ég hafi beðið lengi eftir bæði vínylnum og útgáfutónleikum The Diversion Session enda er ég ofboðslega hrifinn af því sem Markús og félagar eru að gera.

Tónleikarnir fóru fram í Tjarnarbíói og hef ég ekki farið leynt með dálæti mitt á þeim stað eins og sést á síðustu færslu. Aðgangseyrir 2700 kr. sem var ekki neitt miðað við dagskrána sem Markús kynnti í byrjun.

Tónlistarkonan Þóra Björk hóf leik og lék tvö lög, „Sólarylur“ eftir sjálfa sig og „As Long As I Have You“ sem er frægast í flutningi Elvis Presley. Þóra býr yfir mikilli útgeislun og var ég sérstaklega hrifinn af því hvernig hún fór með „Elvis“ lagið sem hún gerði að sínu eigin. Slagorðið „minna er meira“ á vel við upphitun Þóru sem gerði gott mót og setti tóninn fyrir kvöldið.

Næstur á svið var Marteinn Sindri sem er einmitt meðlimur í The Diversion Sessions. Hann hefur undanfarið verið að semja tónlist og lék fyrir áhorfendur tvö frumsamin lög. Fyrra lagið, „Heim til míns hjarta“ flutti hann með litlu systur sinni. Fallegt lag þar sem Marteinn fór vel með gítarinn og sýndi að hann er engu síðri gítarleikari en píanóleikari. Í seinna laginu sem nefnist „Storm Blows Over“ (minnir mig) skipti hann yfir á píanóið. Þar er um sterkara lag að ræða sem væri gaman að fá að heyra aftur. Í stúdíó með þig Marteinn!

Þá var komið að aðal númeri kvöldsins. Meðlimir The Diversion Sessions týndust á sviðið ásamt gestahljóðfæraleikurum. Flestir voru klæddir hvítum fötum í stíl við umslag plötunnar og vínylinn. TDS tóku fyrst „Mónóey“ en það er einmitt upphafslag plötunnar. Eitthvað var ekki alveg að virka og þótti mér sveitin ekki koma laginu nógu vel til skila. Það var þó engin ástæða til að örvænta. Næsta lag var „Now I Know“, lag nr. 7 á plötunni og greinilegt að meðlimir ætluðu ekki að halda tryggð við númeraröðina á plötunni. Fjögur lög voru tekin til viðbótar fyrir hlé, m.a. hið stórskemmtilega „13th Floor“ og hið epíska lokalag „Slow Boat“ þar sem að Hildur Ársælsdóttir fór á kostum á fiðlu og sög. Síðasta lag fyrir hlé var hið Tom Waits skotna „Blessed“ sem kom afar vel út í lifandi flutningi þökk sé m.a. frábærum bakröddum úr Vox Populi.

IMG_4620

Eftir hlé voru leikin eldri lög í bland við ný. Slagarinn „Ég bisst assökunar“ var tekinn auk „Decent Times“ þar sem að Sigrún Sif Jóelsdóttir aðstoðaði Markús með sönginn. Að mínu mati voru það þó nýju lögin sem reyndust vera senuþjófar kvöldsins. Þá sérstaklega lögin „Very Lightly“ sem mér skilst að Markús deili með vini sínum og síðasta lag kvöldsins sem ég gef mér það bessaleyfi að kalla „The Days Ahead“. Nýja uppáhalds lagið mitt með sveitinni og ef Guð lofar kemur það út seinna í sumar. Ábreiðan af „Blue Motorbike“ var einnig nokkrum númerum of svöl.

Í stuttu máli voru tónleikarnir ákaflega vel heppnaðir þar sem að gestir fengu nóg fyrir peninginn, heil 15 lög! Gestahljóðfæraleikarar ásamt gestasöngkonunum þrem stóðu sig öll með glans og hífðu lögin upp á hærra plan. Útlitið er gott fyrir framhaldið og vonandi verður biðin ekki löng eftir nýju lögunum.

Lagalisti kvöldsins:

Mónóey
Now I Know
13th Floor
Get a Party Going
Slow Boat
Blessed 

Hlé

Dead End Job
É bisst assökunar
Decent Times
The Truth the Love the Life
Hlýnun jarðar
Very Lightly
Picture a Painting 

Uppklapp

Blue Motorbike (ábreiða)
The Days Ahead

Torfi Guðbrandsson

Auglýsingar

Tónleikadómur: Elvis Presley á sviði

EPOS

Ég skellti mér á ansi sérstaka tónleika í Eldborgarsal Hörpu í gær. Þar var á ferðinni 15 manna hljómsveit sem spilaði undir fyrir kónginn sjálfann, Elvis Presley. Presley sjálfur var þó ekki viðstaddur enda löngu látinn en honum var varpað upp á stórt tjald sem staðsett var fremst á sviðinu. Ég hafði ekki kynnt mér tónleikana nógu vel en ég bjóst við hologram Elvis en í staðinn var gömlum upptökum af Elvis á tónleikum varpað upp á tjaldið. Þetta fannst mér heldur lélegt enda hefði ég eflaust fengið það sama út úr því að horfa á YouTube klippur af kónginum heima hjá mér með græjurnar í botni.

Í lýsingunni á tónleikunum á midi.is stóð: Rödd Elvis og nærvera hans á tjaldinu er svo kraftmikil og samspilið við tónlistamennina og söngvarana á sviðinu svo samofið að eftir nokkur lög getur þú nánast gleymt því að Elvis er ekki í eigin persónu á sviðinu. Ég get því miður ekki kvittað undir þetta en þetta ótrúlega samspil gerði það reyndar að verkum að ég gleymdi að það væri lifandi hljómsveit á sviðinu. Hljómsveitin fékk ekki að njóta sín nógu vel að mínu mati enda stóð hún í skugganum af Elvis og það var ekki fyrr en að þeir plöntuðu sér fyrir framan tjaldið í nokkur skipti sem maður fann virkilega fyrir þeim.

Ekki er hægt að kvarta yfir lagavalinu en þó nutu lögin sín misvel enda Elvis engum líkur á sviðinu. Í „Love Me Tender“ var t.d. meira um kossaflens en söng og í mörgum lögum var keyrslan fullmikil þannig að lögin voru sum hver bara í mínútu í flutningi. Ein kona sem sat fyrir neðan mig hitti naglann á höfuðið þegar hún sagði við manninn sinn: Þitt lag var miklu lengra en mitt!

Þessir tónleikar gerðu allavega ekki mikið fyrir mig enda geri ég aðeins meiri kröfur fyrir þennan pening. Þetta var miklu líkara tónleikamynd heldur en tónleikum og ég vona svo innilega að þetta verði ekki raunin í framtíðinni að reyna að lífga listamenn við með lifandi tónlist undir gömlu myndefni. En ég get aðeins sjálfum mér um kennt enda kynnti ég mér málið lítið áður en ég verslaði miða.

Ég var ekki að sjá neitt nýtt inn í Eldborgarsalnum þetta annars fína fimmtudagskvöld en frekar hefði ég viljað eyða peningnum í að sjá Elvis eftirhermu í heimsklassa á sviðinu með þessari fanta þéttu hljómsveit.

Lagalisti kvöldsins

That’s All Right Mama
I Got a Woman

Hound Dog
Don’t Be Cruel
Mystery Train/Tiger Man
Just Pretend
You Don’t Have to Say You Love Me
Sweet Caroline
Heartbreak Hotel
Are You Lonesome Tonight
Baby, What You Want Me to Do
Lawdy Ms. Clawdy
One Night With You
I Can’t Stop Loving You
Love Me Tender
Polk Salad Annie
Bridge Over Troubled Water

Hlé

Trouble/Guitar Man
Jailhouse Rock
All Shook Up
Blue Suede Shoes
You Lost That Loving Feelin’
Patch It Up
Make the World Go Away
Don’t Cry Daddy
In the Ghetto
Walk a Mile In My Shoes
LIVE GOSPEL SEGMENT – Singers with Elvis Presley feature How Great Thou Art
The Wonder of You
Can’t Help Falling In Love

Torfi

Sönghópurinn Olga í útrás

OLGAA

Alþjóðlegi sönghópurinn Olga ætlar sér stóra hluti í sumar og hyggst gefa út plötu og túra um Ísland. Í hópnum eru tveir Íslendingar, þeir Bjarni Guðmundsson (fyrsti tenór) og Pétur Oddbergur Heimisson (bass-barítón). Ásamt þeim eru Hollendingarnir Gulian van Nierop (barítón) og Jonathan Ploeg (annar tenór) og Rússinn Philip Barkhudarov (bassi). Hópurinn kynntist í Tónlistarskóla HKU í Utrecht í Hollandi en þar nema þeir söng undir handleiðslu Jóns Þorsteinssonar.

Olga varð til árið 2012 og komu drengirnir meðal annars hingað til Íslands í fyrra og héldu fimm tónleika víðsvegar um landið. Undirritaður skellti sér á síðustu tónleikana sem haldnir voru í Fríkirkjunni og komu þeir skemmtilega á óvart. „A capella“ tónleikar eiga það til að vera þurrir og svæfandi en það er ekki raunin hjá Olgu. Þeir hafa húmor fyrir sjálfum sér, taka fjölbreytt lög og koma gestum á óvart með ýmsum uppátækjum oft í miðjum flutningi. Gestirnir í Fríkirkjunni gengu allavega sáttir til dyra að tónleikum loknum eftir mikil hlátrasköll, lófaklöpp og uppklöpp.

Nú ætla þeir að leggja land undir fót að nýju og hafa með sér glænýja plötu í farteskinu. En það kostar peninga að ferðast og því ætla Olgumenn að treysta á almenning og nota Karolina Fund til þess að fjármagna ferðalagið. Fyrir utan Ísland eru fyrirhugaðir tónleikar víða um Evrópu og má þar nefna tónleika í Frakklandi, Þýskalandi, Austurríki og að sjálfsögðu Hollandi.

Þó að meirihlutinn í hópnum sé af erlendu bergi brotinn eru menn ekkert að veigra sér við að taka íslensk lög. Íslendingarnir í hópnum hafa greinilega kennt félögum sínum vel því að það má varla heyra mun á flutningi íslensku piltana og þeirra erlendu. „Heyr, himna smiður“ er gott dæmi um það.

Til gamans má geta komust Bjarni og Pétur í fréttirnar fyrir tveimur árum er þeir tóku óvænt þátt í karókí keppni undir berum himni í Berlín. Drengirnir voru á bakpokaferðalagi um Evrópu og áttu leið hjá Mauregarðinum þar í borg. Þeir gáfu sér samt tíma í að þenja raddböndin aðeins og fluttu Elvis slagarann „Can’t Help Falling In Love“ við mikinn fögnuð viðstaddra. Í kjölfarið unnu þeir sér inn hina frægu 15 mínútna frægð á Íslandi.

Ég hvet fólk eindregið til að fylgjast vel með Olgu á komandi mánuðum því að treystið mér, hér eru á ferðinni mikil gæðablóð sem finnst fátt skemmtilegra en að gleðja fólk með fögrum söng.

Tónleikarnir sem þeir ætla að halda á Íslandi:

Fimmtudagurinn 26. júní – Tjarnarborg, Ólafsfjörður
Sunnudagurinn 29. júní – Hvollinn, Hvolsvöllur
Þriðjudagurinn 1. júlí – Langholtskirkja, Reykjavík
Miðvikudagurinn 2. júlí – Bláa kirkjan, Seyðisfjörður
Föstudagurinn 4. júlí – Hafnarkirkja, Höfn í Hornafirði

Heimasíða Olgu: http://www.olgavocalensemble.com

Olga á Facebook: http://www.facebook.com/olgavocalensemble

Leggðu Olgu lið hér: http://www.karolinafund.com/project/view/309

Torfi Guðbrandsson