Færslusafn

Airwaves ’14: Laugardagur

Laugardagurinn hófst með smá innliti í Silfurbergið þar sem að fyrsta hljómsveit til að ríða á vaðið var Samaris. Mér fannst það eiga vel við að þau skyldu spila á undan The Knife enda hefur mér einmitt dottið sú hljómsveit í hug þegar ég hlusta á Samaris. Ég gaf mér reyndar ekki mikinn tíma í tónleika þeirra í þetta skiptið en þau eru alltaf söm við sig og eru að gera afskaplega flotta hluti.

Ég trítlaði yfir í Norðurljósasal en þar var Júníus Meyvant mættur ásamt hljómsveit. Segja má að hátíðin hafi verið tækifærið fyrir Júníus til þess að sanna sig og að vera ekki eitthvað „one hit wonder“. Júníus skilaði af sér gallalausum tónleikum þar sem að undur falleg tónlistin réði ríkjum og hans fallega rödd fékk að njóta sín til hins ýtrasta. Maðurinn á greinilega nóg af áheyrilegum lögum og er ég í kjölfarið strax orðinn spenntur fyrir plötunni hans sem er vonandi ekki langt í.

Þá var ferðinni aftur heitið í Silfurbergið en þar var The Knife að fara að spila síðustu tónleikana á Shaking the Habitual túrnum sínum og jafnvel síðustu tónleika sína ever. Því var maður ekki alveg viss hvar maður hafði þau. Ég held að flestir hafi búist við einhverjum nostalgíu „best of“ tónleikum sem gat alveg skeð en ef maður skoðaði lagalista af túrnum þeirra þá var það ekki tilfellið. Til að byrja með mætti ofurhress kona uppá sviðið sem eyddi 10 mínútum í að hita mannskapinn upp, persónulega hefðu 5 mínútur nægt mér en þetta var orðið frekar þreytt. Því næst mætti hljómsveitin upp á svið en sjaldan hef ég séð sviðið á Silfurberginu eins vel nýtt. Tónleikar The Knife minntu helst á árshátíð framandi ættbálks en þeim leiddist það ekki að dansa undir dynjandi takti og seiðandi röddu Karin. Í einu lagi gengu þau það langt að allir meðlimirnir tóku til við að dansa en enginn sá um að spila tónlistina. Ég tek það fram að ég kláraði ekki tónleikana en ég kannaðist ekki við eitt lag þessar 35 mínútur sem ég eyddi í salnum og því kannski smá vonbrigði en engu að síður var upplifunin þess virði og það verður ekki hægt að þræta fyrir það að The Knife leggur mikið í tónleika sína þó að tími þekktari laganna á tónleikum þeirra sé liðinn.

Ástæðan fyrir því að ég kláraði ekki tónleika The Knife var Hozier. Pilturinn frá Írlandi gerði vart um sig hjá mér fyrir rúmlega ári síðan þegar að lagið „Take Me to Church“ hlaut mikla spilun á X-inu. Ég var heillaður af dramatíkinni í laginu og þessari ótrúlegu rödd og fór að fylgjast betur með kauða. Eftirfylgnin stigmagnaðist, ekki síst vegna væntanlegrar komu hans á Airwaves og allt náði þetta hámarki þegar hann gaf út sína fyrstu plötu í september. Hozier á auðvelt með að búa til lög sem grípa mann og textarnir hans eru margir hverjir magnaðir. Áður en hann mætti til Íslands hafði hann átt vel heppnaðan túr í Bandaríkjunum þar sem að hann kom meðal annars fram í SNL en frægðarsól hans hefur kannski risið hraðar en skipuleggjendur Iceland Airwaves áttu von á. Tónleikar Hozier í Norðurljósasal voru æðislegir ef horft er framhjá óþolandi klið í salnum. Vil ég meina að þessi kliður hafi borist frá þeim sem voru þarna mættir einungis til þess að hlusta á eitt lag. Hozier var duglegur að spjalla við salinn og tilkynnti meðal annars að hann væri að fara að túra með Ásgeiri. Fyrir flutninginn á laginu „In a Week“ talaði hann um heimahaga sína sem gengu stundum undir nafninu „the garden of Ireland“ sem ættu þó ekki möguleika að sporna við fegurð íslensku náttúrunnar. Hozier var sum sé með allan pakkann og greinilega engin þreyta farin að segja til sín. Honum tókst líka að láta mig fá gæsahúð er hann flutti „The Angel of Small Death & the Codeine Scene“ og trúið mér, það þarf mikið til.

IMG_2977

Síðustu tónleikar kvöldsins sem ég sótti voru hjá Ezra Furman í Iðnó en þar er mikill meistari á ferð. Fyndið hvað ljósmyndir geta blekkt en ég nánast þekkti ekki manninn. Það kom kannski ekki á óvart þar sem að hann var í rauðum kjól, sokkabuxum og með hvíta spennu á höfðinu. Tónleikarnir voru ótrúlega skemmtilegir þar sem að fjörugt rokkið var í hávegum haft og mögnuð rödd Ezra fékk að njóta sín en hún hljómar eins og blanda af röddum yngri Bob Dylan, David Byrne (Talking Heads) og Alec Ounsworth (Clap Your Hands Say Yeah). Frábær endir á þrusu fínu laugardagskvöldi!

Auglýsingar

Airwaves ’14: Böndin sem skipta máli

IMG_1127

Ég hef nú lokið við heimavinnuna mína fyrir Airwaves hátíðina sem hefst „formlega“ á morgun en off-venue dagskráin fór af stað í gær. Úrvalið af hljómsveitum og listamönnum er ansi gott í ár en sumar hljómsveitir eru öðrum fremri og það verður að hafa það í huga ef maður ætlar að eiga gott Airwaves. Afrakstur vinnunar eru tveir listar af hljómsveitum sem ég persónulega ætla að gera mitt besta til að sjá en það er auðvitað aðeins óskhyggja enda er laugardagurinn t.d. pakkaður af góðum hljómsveitum sem spila á sama tíma. Einhverju ætti maður samt að ná á off-venue en þó eru nokkrar sem taka ekki í þeirri dagskrá. Athugið að hér er aðeins um erlenda flytjendur að ræða en ég treysti mínum samlöndum auðvitað fyrir því að velja úr íslensku flórunni.

Skylduáhorf:

Caribou
Flaming Lips
Future Islands
Hozier
The Knife
The War on Drugs

Hafðu auga með þessum:

Anna Calvi
BLAENAVON
Ezra Furman
Horse Thief
How to Dress Well
Jaakko Eino Kalevi
King Gizzard and the Lizard Wizard
Klangkarussell
Kwabs
La Femme
Phox
Radical Face
Roosevelt
Son Lux
The Walking Who
Thus Owls
Tomas Barfod
Unknown Mortal Orchestra

– Torfi

Topp 5: Huldumenn í tónlistinni

Sumir tónlistarmenn hafa farið þá leið að hylja andlit sín og eru ástæðurnar mismunandi eftir hverjum og einum. Potturinn fór í smá rannsóknarvinnu og leitaði af þeim helstu sem eru þekktari fyrir grímurnar sínar heldur en sín eigin andlit.

# 5 The Knife

The Knife III The Knife II
Sænsku systkinin hafa reyndar ekki stuðst við grímurnar alfarið en eru þó líklegri til að þess að setja þær upp ef eitthvað stendur til. Þau eru ekki mikið gefin fyrir athyglina og vilja síður fara í viðtöl eða koma fram á opinberum vettvangi. Systirin er einnig þekkt undir nafninu Fever Ray og er hún óþekkjanleg þsr sem fyrr.

# 4 SBTRKT

música/TUMBALONG Bon Chat, Bon Rat (AUS), Electric Wire Hustle (NZ), Ghostpoet (UK), LUNICE (CAN), Mitzi (AUS), SBTRKT (UK), Simon Caldwell (AUS), Tiger & Woods (ITA) sbtrkt-608x608
Tónlistamaðurinn Aaron Jerome sem kallar sig SBTRKT skartar grímu í frumbyggjalegum stíl er hann kemur fram á tónleikum. Aaron vill aðskilja sig og sína persónu frá tónlistinni og hefur leyst það með þessari laglegu grímu.

# 3 Deadmau5

deadmau5-live
Stærstu grímuna á listanum ber sjálfur Joel Thomas Zimmerman sem er betur þekktur sem Deadmau5. Hann bjó til lógóið „mau5head“ sem varð svo að grímu eftir að vinur hans hafði bent honum á þann möguleika. Gríman hefur marga útlitsmöguleika og er sjón víst sögu ríkari á tónleikum Deadmau5.

# 2 Slipknot

Slipknot-metal-755631_1100_770
Grímurnar hjá meðlimum Slipknot er eins og samansafn af öllum óhugnalegustu grímunum í hryllingsmyndum Hollywood. Meðlimir í dag eru átta talsins og koma þeir ekki fram nema með grímu og í kraftgalla. Grímurnar hjálpa til við að koma tónlistinni til skila enda er hún oft á tíðum mjög svo aggressív og kraftmikil. Grímurnar þróast og breytast með tímanum og er greinilega mikil vinna lögð í að þær líti sem best út.

# 1 Daft Punk

Daft-Punk-Album-Giorgio-Moroder
Franski dúettinn Daft Punk eru að mínu mati með lang smekklegustu og svölustu grímurnar. Árið 1999 breyttust þeir að eigin sögn í vélmenni og hafa þeir ekki litið um öxl síðan. Að þeirra sögn á áherslan að vera á tónlistina eins og hjá fleirum hér fyrir ofan og leiðist þeim fátt meira en tónlistarfólk með sínar „rokk & ról“ pósur og viðhorf.

GabríelVið Íslendingar eigum einn grímuklæddan tónlistarmann en það er hann Gabríel sem er reyndar dulnefni listamannsins. Í viðtali við Monitor fyrir ári síðan hafði hann þetta að segja um orsök grímunnar og nafnleyndarinnar: „Þegar ég ákvað loks að drífa í mig því (hip hoppinu) fannst mér tilvalið að koma fram undir öðrum formerkjum, öðru nafni en áður og með grímu til að aðskilja mig algjörlega frá öðru sem ég hef gert í tónlist. Þess vegna langaði mig að stimpla mig inn sem eitthvað alveg nýtt og alveg ferskt og leyfa fólki þar með að dæma mig eingöngu út frá því nýja en ekki einhverju gömlu sem fólk myndi hugsanlega tengja mig við væri ég grímulaus“.

Hljómar eins og Gabríel hafi eitthvað að fela og hafi jafnvel skítuga sögu í tónlistinni, djók. Gott og blessað hjá kauða en ég held ég viti hver maðurinn á bakvið kauða er og er það meðlimur í Hjálmum, Baggalút og annar helmingur greiningardeildar Hljómskálans, Guðmundur Kristinn Jónsson. Já þið sem vissuð það ekki fyrir heyrðuð það fyrst hér á Pottinum og verði ykkur barasta að góðu!

Er þetta Gabríel?

Er þetta Gabríel?

– Torfi