Topp 5: Bestu íslensku plötur 2018

Ég var ánægður með íslenska plötuárið 2018 en ekkert lát var á útgáfu spennandi platna. Svo mikið kom út reyndar að það var ómögulegt fyrir mig að ná að hlusta á allt. Ég náði þó að hlusta á einhvern slatta og eftir standa fimm plötur sem mér þótti bera af í ár.

# 5 Teitur Magnússon – Orna

Teitur er heitur á annarri sólóplötu sinni sem veldur engum vonbrigðum. Teiti er í lófa lagið að semja lög og texta og það sannast hér. 8 lög sem mynda sterka heild og festa Teit endanlega í sessi sem einn áhugaverðasta tónlistarmanninn á Íslandi.

Lykillög: Bara þú, Hverra manna?, Kollgátan, Orna.

# 4 Huginn – Eini strákur, vol. 1

Ég var ekki að búast við svona sterkum frumburði frá Huginn en plata hans var kærkomin tilbreyting í rappsenuna. Huginn minnir líka miklu frekar á Father John Misty í útliti heldur en hinn týpíska rappara. Lögin á Eini strákur eru fersk, gestirnir góðir og Huginn hefur einstakt lag á að blanda saman söng og rappi. Topp næs!

Lykillög: Aftan, Hetjan, Hætti ekki, Leiðinni til þín.

# 3 GDRN – Hvað ef

Talandi um öfluga frumburði. GDRN eða Guðrún gerði virkilega gott mót í ár og hefur vonandi hjálpað til við að ryðja brautina fyrir ungar og upprennandi stúlkur í músík sem eru smeykar við að taka skrefið. GDRN er þeim hæfileikum gædd að hún virðist segja miklu meira en hún gerir með sinni einstöku tjáningu í lögum sínum. Hún er dulúðin uppmáluð og ég bíð spenntur eftir meira efni frá henni.

Lykillög: Hvað ef, Lætur mig, Treystu mér, Það sem var.

# 2 Birnir – Matador

Birnir stígur ekki feilspor á frumraun sinni, hvort sem um er að ræða plötuumslag, lagasmíðar, textasmíðar eða gesti á plötunni en þeir eru vandlega nýttir og bæta miklu við rétt eins og Birnir gerir þegar hann er aukanúmer hjá öðrum röppurum. Það má segja að Birnir sé að „delivera“ og hann stenst þær væntingar sem til hans voru gerðar á Matador. 

Lykillög: Af hverju, Fáviti, Gleymdu því, Út í geim.

# 1 Auður – AFSAKANIR

Alla tíð síðan ég heyrði lagið „South America“ hef ég verið aðdáandi Auðar. Árið 2017 gaf hann út snilldar plötu í Alone sem hann samdi til kærustu sinnar þegar þau áttu í fjarsambandi. Þar söng hann á ensku og því brá mér í brún þegar nýja platan mætti á Spotify og allir lagatitlar á íslensku. Það leit allt vel út á pappír, flottir gestir og allt það en eftir annað lag plötunnar „HATAÐUR“ slökkti ég á henni, þetta var ekki Auður sem ég þekkti. Ég snéri ekki aftur til plötunnar fyrr en nokkrum dögum seinna eftir að hafa náð áttum og hefur önnur tónlist varla komist að síðan. Hér eru breyttar aðstæður og Auður fer ekki í neinar skotgröfur með það. Hann leysir frá skjóðunni og það dylst engum hvað hann hefur gengið í gegnum og er að ganga í gegnum. Allt þetta gerir hann í afar fallegum umbúðum tónlistarinnar sem hann er svo fáránlega vel að sér í og hvert einasta smáatriði útpælt. AFSAKANIR er í takti við samfélagið sem við búum í um þessar mundir þar sem fólk er hvatt til að opna umræðuna og er ágætis holdgervingur fyrir árið 2018 hvað það varðar! Bravó Auðunn, ég mun aldrei slökkva á þér aftur ❤

Lykillög: FREÐINN, HEIMSKUR OG BREYSKUR, HVÍTUR OG TVÍTUGUR, MANÍSKUR.

Aðrar góðar sem komu út í ár:

  • Flekar – Swamp Flowers 
  • Herra Hnetusmjör – Hetjan úr hverfinu 
  • JóiPé og Króli – Afsakið hlé 
  • Kælan Mikla – Nótt eftir nótt
  • Rari Boys – Atari 
  • Salsakommúnan – Rok í Reykjavík 
  • TSS – Moods 

Torfi Guðbrandsson

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s