Monthly Archives: nóvember 2014

TV on the Radio staðfestir á Sónar

TV

Hljómsveitin TV on the Radio var rétt í þessu að gefa það út að hún væri að koma á Sónar hátíðina í febrúar næstkomandi. Er þetta mikill fengur fyrir íslenskt tónlistarlíf enda hljómsveitin löngu búin að festa sig í sessi sem ein allra besta indí rokksveit síðustu ára. TV on the Radio spilaði á Iceland Airwaves hátíðinni árið 2003 svo það er löngu kominn tími á að endurnýja kynnin við íslenska tónlistarunnendur. Þeir póstuðu fyrr í dag á facebook síðu sinni: Beyond thrilled to be playing Sónar Reykjavík 2015!!

Tónlistarmaðurinn Kindness er einnig á leiðinni til landsins en hann var til að mynda nálægt því að koma á Airwaves árið 2012. Platan hans World, You Need a Change of Mind þótti ákaflega vel heppnuð en hann gaf nýverið út aðra plötu sína, Otherness. Svo fyrir fólk sem er ósátt við að Airwaves hátíðin sé búin þá er ljós í myrkrinu.

– Torfi

Auglýsingar

Airwaves ’14: Sunnudagur (+ lagalisti)

Hljómsveitirnar The War on Drugs og The Flaming Lips sáu um slúttið á Airwaves hátíðinni í ár. The War on Drugs var hér í fyrsta skipti en The Flaming Lips spilaði á Íslandi fyrir 15 árum.

The War on Drugs mættu sttundvíslega á sviðið og fóru nokkuð rólega af stað. Reyndar fannst mér fyrstu þrjú lögin öll frekar keimlík og var farinn að efast um ágæti sveitarinnar en það var óþarfi því að sveitin vann virkilega vel á þegar leið á tónleikana. Gestirnir í Vodafone-höllinni voru litlir í sér og kannski ekki furða eftir fjóra stútfulla daga af tónlist og gleði. Adam Granduciel fékk því kannski ekki þau viðbrögð sem hann vonaðist eftir þegar hann sagði t.d. að þetta væri í fyrsta skipti þeirra á Íslandi og að The Flaming Lips væru næstir á svið. Þeir enduðu tónleikana af krafti og reyndar það miklum krafti að brestir komu í hljóðkerfið nokkrum sinnum en það kom ekki að sök og skiluðu þeir af sér í heildina alveg hreint ágætis tónleikum.

Þá tók við hálftíma bið eftir The Flaming Lips en Wayne Coyne var þó mættur fyrr upp á svið til að fylgjast með vinnu hljóðmanna í skærgrænu hettupeysunni sinni. Maður gerði sér strax grein fyrir því að eitthvað yrði nú lagt meira í sviðsmyndina þeirra heldur en The War on Drugs og til að mynda hékk stór bjálki fyrir ofan sviðið sem var allur út í einhvers konar köðlum sem reyndust svo vera risastórar seríur.

Tíminn leið og hljómsveitin mætti á sviðið. Fyrsta verk var að koma út helling af blöðrum í salinn og stórum blöðrustöfum sem búið var að teipa saman og mynd „FUCK YEAH ICELAND“. Því næst komu risastórar uppblásaðar fígúrur á sviðið sem stóðu sitthvoru megin við Coyne og létu manni líða eins og Vodafone-höllin hefði verið breytt í sirkus. Lagavalið hjá The Flaming Lips var afskaplega skemmtilegt og þótti mér tónleikarnir fara vel af stað með laginu „The Abandoned Hospital Ship“. Góðri byrjun var fylgt á eftir með „She Don’t Use Jelly“ og „Yoshimi Battles the Pink Robots, Pt. 1“. Wayne Coyne var málglaður og talaði meðal annars um að þeir hefðu séð The Knife og Caribou spila. Ekki nóg með það sáu þeir líka norðurljós og Björk! Hann var ekkert að skafa af lofinu í hennar garð og sagði hana haft ótrúleg áhrif á heiminn. Bætti því svo við að við ættum að passa upp á að hún skyldi ekki labba inn í eldgos.

IMG_2984

Annars eru Wayne Coyle og félagar ekkert að hata að blása hluti upp og þeir héldu því áfram er Coyne steig inn í hina frægu loftkúlu og æddi af stað út í áhorfendaskarann. Mikið ljósmyndaklám átti sér stað í kjölfarið og var gripið til myndavéla og snjallsíma. Þetta var allt tilkomumikið og alveg á hreinu að svona metnaður er ekki lagður í tónleika á hverjum degi hér á Íslandi. Eftir 14 lög lögðu meðlimir frá sér hljóðfærin og héldu baksviðs en áhorfendur vildu meira og öskruðu og klöppuðu og það bar árangur að lokum því drengirnir snéru aftur á sviðið litlu síðar. Kunnuglegir tónar bárust frá sviðinu er „Do You Realize??“ fékk að hljóma og áhorfendur tóku til við að syngja með og rugga sér. Þeir voru ekki hættir því að þeir vildu sýna fólki hversu flinkir þeir eru sem ábreiðuband og tóku frekar epíska útgáfu af „Lucy in the Sky with Diamonds“ sem á afar vel við bandið en þeir voru nýlega að gefa út tribute plötu af Sgt. Pepper’s Lonely Heart Clubs Band. Þar með var botninn sleginn í tónleikana og Airwaves hátíðina mína.

Lagalisti:

The Abandoned Hospital Ship
She Don’t Use Jelly
Yoshimi Battles the Pink Robots, Pt. 1
In the Morning of the Magicians 
Watching the Planes
Feeling Yourself Disintegrate
Race for the Prize
Vein of Stars
Look… The Sun Is Rising
The W.A.N.D.
A Spoonful Weighs a Ton

Uppklapp

Do You Realize??
Lucy in the Sky with Diamonds

Airwaves hátíðin var frábær í ár þó að maður geti nú alltaf staðið sig betur í að sjá fleiri listamenn og að vera klókari varðandi raðirnar. Fyrir mér voru þetta sjö bestu tónleikarnir sem ég fór á.

1. The Flaming Lips
2. Hozier
3. Klangkarussell
4. Grísalappalísa ásamt Megasi
5. Ezra Furman
6. Anna Calvi
7. Júníus Meyvant

Annars þakka ég kærlega fyrir lesturinn!

– Torfi

Airwaves ’14: Laugardagur

Laugardagurinn hófst með smá innliti í Silfurbergið þar sem að fyrsta hljómsveit til að ríða á vaðið var Samaris. Mér fannst það eiga vel við að þau skyldu spila á undan The Knife enda hefur mér einmitt dottið sú hljómsveit í hug þegar ég hlusta á Samaris. Ég gaf mér reyndar ekki mikinn tíma í tónleika þeirra í þetta skiptið en þau eru alltaf söm við sig og eru að gera afskaplega flotta hluti.

Ég trítlaði yfir í Norðurljósasal en þar var Júníus Meyvant mættur ásamt hljómsveit. Segja má að hátíðin hafi verið tækifærið fyrir Júníus til þess að sanna sig og að vera ekki eitthvað „one hit wonder“. Júníus skilaði af sér gallalausum tónleikum þar sem að undur falleg tónlistin réði ríkjum og hans fallega rödd fékk að njóta sín til hins ýtrasta. Maðurinn á greinilega nóg af áheyrilegum lögum og er ég í kjölfarið strax orðinn spenntur fyrir plötunni hans sem er vonandi ekki langt í.

Þá var ferðinni aftur heitið í Silfurbergið en þar var The Knife að fara að spila síðustu tónleikana á Shaking the Habitual túrnum sínum og jafnvel síðustu tónleika sína ever. Því var maður ekki alveg viss hvar maður hafði þau. Ég held að flestir hafi búist við einhverjum nostalgíu „best of“ tónleikum sem gat alveg skeð en ef maður skoðaði lagalista af túrnum þeirra þá var það ekki tilfellið. Til að byrja með mætti ofurhress kona uppá sviðið sem eyddi 10 mínútum í að hita mannskapinn upp, persónulega hefðu 5 mínútur nægt mér en þetta var orðið frekar þreytt. Því næst mætti hljómsveitin upp á svið en sjaldan hef ég séð sviðið á Silfurberginu eins vel nýtt. Tónleikar The Knife minntu helst á árshátíð framandi ættbálks en þeim leiddist það ekki að dansa undir dynjandi takti og seiðandi röddu Karin. Í einu lagi gengu þau það langt að allir meðlimirnir tóku til við að dansa en enginn sá um að spila tónlistina. Ég tek það fram að ég kláraði ekki tónleikana en ég kannaðist ekki við eitt lag þessar 35 mínútur sem ég eyddi í salnum og því kannski smá vonbrigði en engu að síður var upplifunin þess virði og það verður ekki hægt að þræta fyrir það að The Knife leggur mikið í tónleika sína þó að tími þekktari laganna á tónleikum þeirra sé liðinn.

Ástæðan fyrir því að ég kláraði ekki tónleika The Knife var Hozier. Pilturinn frá Írlandi gerði vart um sig hjá mér fyrir rúmlega ári síðan þegar að lagið „Take Me to Church“ hlaut mikla spilun á X-inu. Ég var heillaður af dramatíkinni í laginu og þessari ótrúlegu rödd og fór að fylgjast betur með kauða. Eftirfylgnin stigmagnaðist, ekki síst vegna væntanlegrar komu hans á Airwaves og allt náði þetta hámarki þegar hann gaf út sína fyrstu plötu í september. Hozier á auðvelt með að búa til lög sem grípa mann og textarnir hans eru margir hverjir magnaðir. Áður en hann mætti til Íslands hafði hann átt vel heppnaðan túr í Bandaríkjunum þar sem að hann kom meðal annars fram í SNL en frægðarsól hans hefur kannski risið hraðar en skipuleggjendur Iceland Airwaves áttu von á. Tónleikar Hozier í Norðurljósasal voru æðislegir ef horft er framhjá óþolandi klið í salnum. Vil ég meina að þessi kliður hafi borist frá þeim sem voru þarna mættir einungis til þess að hlusta á eitt lag. Hozier var duglegur að spjalla við salinn og tilkynnti meðal annars að hann væri að fara að túra með Ásgeiri. Fyrir flutninginn á laginu „In a Week“ talaði hann um heimahaga sína sem gengu stundum undir nafninu „the garden of Ireland“ sem ættu þó ekki möguleika að sporna við fegurð íslensku náttúrunnar. Hozier var sum sé með allan pakkann og greinilega engin þreyta farin að segja til sín. Honum tókst líka að láta mig fá gæsahúð er hann flutti „The Angel of Small Death & the Codeine Scene“ og trúið mér, það þarf mikið til.

IMG_2977

Síðustu tónleikar kvöldsins sem ég sótti voru hjá Ezra Furman í Iðnó en þar er mikill meistari á ferð. Fyndið hvað ljósmyndir geta blekkt en ég nánast þekkti ekki manninn. Það kom kannski ekki á óvart þar sem að hann var í rauðum kjól, sokkabuxum og með hvíta spennu á höfðinu. Tónleikarnir voru ótrúlega skemmtilegir þar sem að fjörugt rokkið var í hávegum haft og mögnuð rödd Ezra fékk að njóta sín en hún hljómar eins og blanda af röddum yngri Bob Dylan, David Byrne (Talking Heads) og Alec Ounsworth (Clap Your Hands Say Yeah). Frábær endir á þrusu fínu laugardagskvöldi!

Airwaves’ 14: Föstudagur

Planið á föstudeginum var að sjá Roosevelt á Húrra en mér tókst að klúðra því með að mæta ekki nógu tímanlega. Röðin var löng og hreyfðist ekki neitt og ég gafst upp eftir að hafa heyrt Roosevelt spila tvö lög inni. Því var brugðið á það ráð að halda eitthvert annað þar sem enga röð væri að finna og endaði ég þá á Listasafninu. Þar var danska hljómsveitin Ballet School að spila. Eitthvað vesen var í gangi með hljóðið í byrjun sem lagaðist þó en það kom ekki að sök þar sem að ég gafst upp eftir tvö lög. Danmörk að skíta.

Harpan var næsti viðkomustaður og sá ég nokkur lög með Farao. Það var svolítill Zero 7 stemmari yfir henni og lögin hennar alveg þokkaleg. „Tell a Lie“ stóð samt upp úr og eftir það gat ég leyft mér að gera mig kláran fyrir tónleika Anna Calvi í Silfurbergi. Hún kom mér skemmtilega á óvart sú breska og hafði ég enga hugmynd um færni hennar á gítarinn en hún gerði mann alveg agndofa á köflum! Ekki nóg með það þá er hún alveg hörku söngvari líka og minnti mig stundum á PJ Harvey og Cat Power. Anna Calvi á fullt af flottum lögum eins og „Desire“ og „Eliza“ en hún tók einnig ábreiðu af Bruce Springsteen laginu „Fire“ sem kom vel út. Ég hafði ekki gert neinar sérstakar væntingar til Önnu en heillaði mig upp úr skónum með vel heppnuðum tónleikum sínum.

Þá var komið að Listasafninu aftur og nú beið mín röð en Ibibio Sound Machine var að spila. Ég náði ekki einu lagi með henni en komst þó inn í tæka tíð áður en Klangkarussell byrjuðu. Þeim tókst að koma gestum Listasafnsins á hreyfingu með fyrsta lagi sínu og héldu því þannig þangað til að þeir yfirgáfu sviðið. Listasafnið breyttist í stóran skemmtistað og það var ómögulegt að dilla sér ekki með í takt við tónlistina. Tónleikarnir náðu algjöru hámarki með smellunum „Sonnentanz (The Sun Don’t Shine)“ og „Netzwerk (Falls Like Rain)“ og tókst þeim að loka partýinu með stæl. Með betri tónleikum hátíðarinnar.

IMG_2933

Gamla bíó var næsti og síðasti áfangastaður kvöldsins en nú fór kærleikurinn við náungann að skipta meira máli heldur en tónlistin og því náði ég aðeins glefsum með Tomas Barfod sem bjargaði orðspori danskra tónlistarmanna þetta kvöldið og Sísí Ey. Strembin vika var farin að segja til sín hjá kærustunni sem hafði ekki meira úthald og því var brugðið á það ráð að fara heim. Það var þó ekki hægt að gráta yfir því enda ekki miklar líkur á því að einhver færi að toppa Klangkarussell.

– Torfi 

Airwaves ’14: Fimmtudagur

Fimmtudagskvöldið hófst á Frederiksen þar sem að CeaseTone var að spila. Þrátt fyrir að klukkan væri ekki margt var nokkuð af fólki á staðnum. Hafsteinn Þráinsson er aðalmaðurinn á bakvið CeaseTone en á tónleikum fær hann hljómsveit til stuðnings. Hafsteinn var valinn besti gítarleikarinn á Músíktilraununum í fyrra og stendur hann vel undir því. Lagasmíðar Hafsteins eru bara þó nokkuð góðar og skilaði hann ásamt hljómsveit sinni góðu dagsverki.

IMG_2896

Stefnan var tekin á Hörpuna þar sem að sigurvegarar Músíktilrauna í ár, Vio, opnuðu Silfurbergið. Ég var spenntur að sjá drengina en ég hafði séð þá á undanúrslitum Músíktilrauna í mars. „You Lost It“ er ennþá þeirra sterkasta lag en annars komust þeir nokkrum sinnum á gott flug með rokkaðari lögum sínum sem voru ágæt á tónleikunum en ekkert sérstaklega eftirminnileg. Framtíðin er þó björt og þeir hafa allt að bera til að vera flott hljómsveit í framtíðinni.

Ég færði mig yfir í Kaldaljós salinn til að sjá Alice Boman en hugurinn var þó á Húrra þar sem að Kött Grá Pjé var að spila á sama tíma en ég nennti hreinlega ekki að gera mér ferð þangað. Alice Boman hóf leikinn einsömul á „Waiting“ og flutti það lag með sóma. Salurinn var orðinn stappaður þegar að hljómsveitin hennar trítlaði á sviðið og spiluðu nokkur lög sem náðu þó ekki að rista neitt sérstaklega djúpt. Eftir flutninginn á „Over“ var ég orðinn þyrstur og ákvað því að yfirgefa Kaldaljós. Kvöldið hafði enn ekki náð neinu flugi.

Eftir að hafa vætt kverkarnar var komið að því að sjá Horse Thief en ég var nokkuð hrifinn af plötunni þeirra Fear In Bliss. Söngvarinn er með ansi sérstaka rödd sem minnir svolítið á Ezra Koenig í Vampire Weekend og hún naut sín nokkuð vel í Silfurberginu. Annars nutu lögin sín betur heima í stofu heldur en á tónleikum en það vantaði oft ris eða einhvern hápunkt til að gera mann agndofa. Tónleikarnir runnu annars bara nokkuð örugglega í gegn hjá Horse Thief en lögin voru þó flest í svipuðum dúr.

Harpan var yfirgefin og stefnan tekin á Gamla bíó þar sem að Megas hafði sameinast Grísalappalísu, ekki í fyrsta sinn og vonandi ekki í það síðasta. Það mátti búast við röð og því miður missti ég af einhverjum 10 mínútum en sem betur fer kom það ekki að sök. Stemningin var í allt öðrum klassa en á þeim tónleikum sem ég hafði farið á fyrr um kvöldið og á miðvikudaginn til samans. Þarna var Megas mættur, í fyrsta sinn á Airwaves ásamt bestu tónleikasveit landsins leyfi ég mér að fullyrða. Lög eins og „Paradísarfuglinn“, „Björg“ og „Ef þú smælar framan í heiminn“ fengu að hljóma og þau hljómuðu vel! Fólk dansaði og hélt Gunna á lofti þess á milli. Einhver leiðindi voru með hljóðið í míkrafónunum en þó ekki yfir alla tónleikana sem betur fer. Megas lét minna fyrir sér fara heldur en t.d. Gunnar enda talsvert eldri og lifaðri en var oft senuþjófur og þá sérstaklega í laginu „Ef þú smælar framan í heiminn“. Annars er ég bara í hálfgerðu sjokki yfir þessum hljóðfæraleikurum í Grísalappalísu sem eru allir fagmenn fram í fingurgóma. Saxófónninn er síðan auðvitað sér kapituli útaf fyrir sig en hann gerir alveg magnaða hluti fyrir þessa hljómsveit. Tvímælalaust bestu tónleikarnir hingað til.

IMG_2914

King Gizzard & the Lizard Wizard lokuðu fimmtudagskvöldinu með sýrusprengju en þeir voru vopnaðir tveimur trommuleikurum. Lögin voru flest í lengri kantinum og var aldrei slakað á. Ég var búinn að hlusta á plötuna þeirra Oddments fyrir tónleikana en það hefði ekki þurft, King Gizzard í stúdíó og King Gizzard á sviði er greinilega ekki sama dæmið og fengu melódíurnar að víkja fyrir hamagangi á sviðinu. Þrátt fyrir það var þetta ansi hressandi viðvera í Gamla bíói og ég hélt sáttur heim eftir fimmtudagskvöld sem hafði farið rólega af stað en endað í algjörri rússíbanareið.

– Torfi

Airwaves ’14: Miðvikudagur

Ég sem hélt að langar raðir á Airwaves heyrðu sögunni til. Ó nei. Sökum vinnu gat ég ekki mætt á tónleika fyrr en 22:30 og var planið að kíkja á Amabadama í Gamla bíói en er ég nálgaðist staðinn blasti við mér lengsta röð sem ég hef séð á miðvikudegi! Það þýðir bara það að maður þarf að skipuleggja dagskrána sína á komandi dögum enn betur og gæta þess að ætla sér ekki um of.

Ég nennti ómögulega að hanga í þessari röð svo að stefnan var tekin á annað hvort Frederiksen, Húrra eða Gaukinn. Ég endaði á Gauknum þar sem að Svartidauði var að spila. Ég er nú ekki beinlínis áhugamaður um svartan metal eða heimsendarokk eins og þeir gefa sig út fyrir að spila en þetta var akkúrat það sem ég þurfti á þessum tímapunkti. Þessi þrjú lög sem ég náði með þeim spörkuðu fast í rassgatið á mér alla leið yfir á Frederiksen þar sem að Ourlives var að klára settið sitt.

Una Stef var næst á svið en ég vissi ekki mikið um þá stúlku annað en hún væri hörku söngvari og hefði numið við FÍH. Hún mætti ásamt átta manna hljómsveit sem tróð sér á litla sviðið á Frederiksen. Stemningin var góð, bæði á sviði og útí sal og var það bæði nærveru Unu sjálfrar og tónlistarinnar sem gerði það að verkum. Una og hljómsveit byrjuðu af krafti á laginu „Mama Funk“ en hægðu svo á sér og renndu meðal annars í frábæra útgáfu af „Survivor“ með Destiny’s Child. Una sýndi fram á ósvikna sönghæfileika og þokkalegustu lagasmíðar. Hún fór allavega langt yfir þær væntingar sem ég gerði til hennar þetta kvöld.

IMG_2884

Ferðinni var heitið í Hörpuna þar sem stóð til að horfa á töffarana í Kaleo. Þeir léku ný lög í bland við gömul þar sem að pípurnar í Jökli fengu að njóta sín í Kaldaljósi. Rjóminn af frumburðinum var tekinn en nýju lögin sem voru þrjú eða fjögur gefa góða fyrirheit fyrir næstu plötu. Tónleikar þeirra voru þéttir og allir í góðu formi og ekki skemmdu fyrir auka strengir og gítarleikari.

Sum sé alveg afbragðs miðvikudagskvöld að baki þar sem að fjölbreytileikinn var í hávegum hafður.

– Torfi

Airwaves ’14: Böndin sem skipta máli

IMG_1127

Ég hef nú lokið við heimavinnuna mína fyrir Airwaves hátíðina sem hefst „formlega“ á morgun en off-venue dagskráin fór af stað í gær. Úrvalið af hljómsveitum og listamönnum er ansi gott í ár en sumar hljómsveitir eru öðrum fremri og það verður að hafa það í huga ef maður ætlar að eiga gott Airwaves. Afrakstur vinnunar eru tveir listar af hljómsveitum sem ég persónulega ætla að gera mitt besta til að sjá en það er auðvitað aðeins óskhyggja enda er laugardagurinn t.d. pakkaður af góðum hljómsveitum sem spila á sama tíma. Einhverju ætti maður samt að ná á off-venue en þó eru nokkrar sem taka ekki í þeirri dagskrá. Athugið að hér er aðeins um erlenda flytjendur að ræða en ég treysti mínum samlöndum auðvitað fyrir því að velja úr íslensku flórunni.

Skylduáhorf:

Caribou
Flaming Lips
Future Islands
Hozier
The Knife
The War on Drugs

Hafðu auga með þessum:

Anna Calvi
BLAENAVON
Ezra Furman
Horse Thief
How to Dress Well
Jaakko Eino Kalevi
King Gizzard and the Lizard Wizard
Klangkarussell
Kwabs
La Femme
Phox
Radical Face
Roosevelt
Son Lux
The Walking Who
Thus Owls
Tomas Barfod
Unknown Mortal Orchestra

– Torfi