Monthly Archives: febrúar 2013

Óskarinn 2013

Þá er 85. Óskarsverðlaunahátíðinni lokið en hún fór fram í nótt með pompi og prakt. Grínistinn Seth MacFarlane sá um að kæta og hneyksla gesti til skiptis og þandi einnig raddböndin en hann á jafnvel framtíðina fyrir sér í söngi af frammistöðu hans í nótt að dæma!

Það sem kom kannski mest á óvart á þessari hátíð var það að engin kvikmynd var að sópa til sín öllum helstu verðlaununum heldur var þeim bróðurlega deilt ef svo má segja. Þó mætti segja að Argo hafi verið sigurvegari kvöldsins enda fékk hún verðlaun fyrir bestu mynd og besta handrit byggt á áður útgefnu efni. Argo var þar með fyrsta kvikmyndin sem vinnur án þess að leikstjóri myndarinnar hafi verið tilnefndur, sjálfur Ben Affleck.

Ang Lee fékk hins vegar styttuna fyrir bestu leikstjórn og fær styttan félagsskap heima hjá kauða þar sem hann hreppti sömu styttu fyrir sjö árum síðan fyrir kvikmyndina Brokeback Mountain. Hann leikstýrði að sjálfsögðu hinni mjög svo áhrifaríku og fallegu mynd Life of Pi en hún hlaut flest verðlaunin á hátíðinni en hún vann einnig verðlaun fyrir myndatöku, brellur og tónlist.

Það kom fáum á óvart að Daniel Day-Lewis hafi fengið styttuna fyrir túlkun sína á Abraham Lincoln og var það vel við hæfi að hann tæki við styttunni úr höndum Meryl Streep. Þar með skráði hann sig á spjöld sögunnar því að hann er fyrsti leikarinn sem unnið hefur styttuna þrisvar sinnum en hinar fékk hann fyrir myndirnar My Left Foot: The Story of Christy Brown og There Will Be Blood. Það var svo enginn sem hrökk í kút við það þegar nafn Christoph Waltz var lesið upp úr skjalinu fyrir besta leikara í aukahlutverki, maðurinn var vel að titlinum kominn og það greinilega margborgar sig fyrir kauða að leika í myndum Tarantino enda hefur hann skapað eina eftirminnilegustu karaktera kvikmyndasögunnar í þeim King Schultz og Hans Landa.

Jennifer Lawrence átti frábært kvöld en hún þótti skarta fallegasta kjólnum og hlaut svo verðlaunin fyrir besta leik í aðalhlutverki fyrir hlutverk sitt í Silver Linings Playbooks. Þetta var kannski of mikið í einu á einu kvöldi en henni tókst að hrasa á leið upp á sviðið og það er alltaf vandræðanlegt þegar fólk fellur á stórri stundu, Unnur Birna ætti t.d. að þekkja það. En hún tók þessu nokkuð vel og sagði áhorfendum að það væri óþarfi að standa upp fyrir henni vegna fallsins. Anne Hathaway hlaut svo verðlaun fyrir hlutverk sitt í Les Misérables en hún fór hreinlega á kostum þann hálftíma sem hún birtist í myndinni og virðist hár hennar vaxa og dafna bara ansi vel.

Besta erlenda myndin var Amour en þeir hefðu allt eins getað gefið aðstandendum myndarinnar Eldfjall styttuna og heiðurinn enda Amour aðeins frönsk útgáfa af íslensku myndinni. Það er engum blöðum um það að fletta á Íslandi að líkindin séu einum of mikil á milli þessara tveggja mynda og tek ég það kannski á mig að skrifa svoleiðis grein hér á Pottinum í nánustu framtíð.

Searching for Sugar Man hlaut verðlaun fyrir bestu heimildarmynd sem eru frábær tíðindi en Rodriguez sjálfur var ekki viðstaddur enda vildi hann ekki draga athyglina frá myndinni. Brave þótti vera besta teiknimyndin en sjálfur hafði ég reiknað með að Wreck-It Ralph myndi hljóta þau verðlaun.

Ekki má svo gleyma meistara Quentin Tarantino en hann hlaut verðlaunin fyrir besta frumsamda handrit á kvikmyndinni Django Unchained og hlaut hún þar með tvær styttur sem verður að teljast ásættanlegur árangur fyrir mynd af slíkum toga. Ræðan hans Quentin var svo lífleg og hressandi tilbreyting miðað við aðrar þetta kvöldið.

Þetta var svona brot af því helsta á Óskarnum í ár en ég verð þó að lýsa yfir áhyggjum mínum yfir henni Kristen Stewart en hún mætti á hátíðina á hækjum og engu líkara en að hún hafi orðið fyrir árás af varúlfi eða einhverju óargardýri. Hún verður að fara að gera eitthvað í sínum málum ef hún ætlar ekki að vera aðhlátursefni Hollywood um ókomna tíð!

Oscar 2013 Winners

Sigurvegarar kvöldsins í flokki leikara virða fyrir sér stytturnar.

Torfi

Auglýsingar

Sónar: Laugardagur

Stefnan var að byrja á Ólafi Arnalds en því miður náði ég aðeins restinni af tónleikum hans. Þegar að ég kom var Arnar úr Agent Fresco að syngja ásamt fiðluleikara og sellóleikara. Ólafur endaði samt tónleikana einn á lagi sem hann samdi til heiðurs ömmu sinnar. Virkilega fallegt en klámhringitónn hjá tónleikagesti eyðilagði samt fallega stund.

Eftir Ólaf ákvað ég að vera grand og bjóða kærustunni út að borða á Munnhörpuna. Að máltíð lokinni lá leiðin á Silfurberg þar sem að við vildum ekki taka neina sénsa á biðröðum eða veseni í kringum tónleika James Blake. DJ Andrés sá um að þeyta skífum þangað til en fyrir mér var það ekkert annað en truflun á samræðum við skemmtilegt fólk.

Loks kom James Blake og var salurinn alltaf þéttari og þéttari. James Blake bauð upp á skemmtilega fjölbreytt prógramm. Lög af plötunni James Blake fengu að hljóma ásamt glænýjum lögum og öðrum héðan og þaðan af stuttum en glæstum ferli Blakes. Ég var virkilega hrifinn af því hvernig Blake tók sjálfan sig upp í sumum lögum og spilaði svo upptökuna undir sem innihélt oft öskur og læti áhorfenda í stað þess að nota playback. Blake var annars yfirvegaður og spjallaði eilítið við áhorfendur. Hann sló svo botninn með nýja laginu „Retrograde“ við mikinn fögnuð gesta og batt þar með enda á bestu tónleika Sónar 2013 að mínu mati.

Næsta atriði í Silfurbergi var nokkuð skemmtilegt og öðruvísi en þá voru Gluteus Maximus mættir á svið ásamt nokkrum stæltum skrokkum sem lyftu lóðum uppi á sviði, heldur betur óvænt uppákoma! Daníel Ágúst birtist svo í fyrsta laginu og á eftir honum kom Högni og stóðu þeir sína plikt eins og búast mátti við. Ég lét mér þó nægja að sjá byrjunina og keypti mér bjór og fékk mér sæti fyrir utan salinn alveg þangað til að ég heyrði að Squarepusher væri mættur.

Squarepusher eða Tom Jenkinson mætti með hjálm og virkaði á mann eins og þriðji Daft Punk bróðirinn. Á hjálminum birtist sama mynd sem var á risaskjánum fyrir aftan hann og borðinu fyrir framan hann. Tónlist Squarepusher er líst á alnetinu sem drill ‘n’ bass tónlist og get ég alveg tekið undir það. Hún minnti mig einnig á tölvuleikjatónlist á sterum og meina ég það ekki á neikvæðan hátt. Sýningin var rosaleg og get ég rétt ímyndað mér hvernig hún fór ofan í fólk sem var á einhverju sterkara en bjórþambi. Klárlega einn af hápunktum hátíðarinnar en ég vildi óska þess að heilsan mín hafi verið betri því þá hefði ég dansað af mér rassgatið á þessum tónleikum!

Squarepusher helmet

Þá var komið að því að kíkja á Mugison en hann var með tónleika í Norðurljósum en fyrirfram var það vitað að þeir væru í takt við Sónar, sem sagt rafrænir. Hann var þarna mættur með heimatilbúna hljóðfærið sitt sem mér skilst að hann kalli minstrument. Honum til aðstoðar voru þrír meðlimir Ensíma og mátti glögglega greina áhrif þeirra í nokkrum lögum. Hann tók svo tvö lög af Mugiboogie í nýjum búning sem féll vel í kramið hjá áhorfendum. Eftir ca. fimm lög var mér farið að verkja það mikið í hægri hælnum að ég naut tónlistarinnar ekki lengur og neyddist því til þess að labba út.

Eftir smá slökun gerði ég mig líklegan til þess að fara á Pachanga Boys í kjallaranum en ég nennti engan veginn að bíða í röð fyrir eitthvað sem ég var ekkert svo spenntur fyrir í hræðilegum hljómgæðum í þessum blessaða bílakjallara. Þar með lauk þátttöku minni á Sónar 2013.

Niðurstaða

Sónar var mín heiðarlega tilraun til þess að kynnast þessum raftónlistarheimi betur. Yfir helgina komst ég að tvennu, ég er ekki mikið fyrir DJ-sett og til þess að fýla svona harða raftónlist þarf maður að vera annað hvort blindfullur eða á einhverju. Að þessu sinni var ég ekki í standi til þess að djamma af einhverju ráði og tel ég að það hafi komið niður á skemmtanagildi hátíðarinnar fyrir mér.

15.000 krónur finnst mér svo mikill peningur fyrir svona hátíð þar sem að flestir stóru gæjarnir komu bara til DJ-a og lítið var úr erlendum atriðum að moða. Ef maður ber svo hátíðina saman við Iceland Airwaves sem er fimm daga hátíð og miðaverð á hana er 16.500 er þetta ansi há upphæð.

Ég er ekki viss um að ég leggi leið mína aftur á Sónar á næsta ári en ef ég geri það mun ég klárlega fá mér meira að drekka.

Ætla að enda þetta á nokkrum gullkornum frá reiðum gestum hátíðarinnar.

„Verð bara að segja að ég er ekki sáttur með að hafa borgað rúmlega 17 þúsund kall fyrir yfirselda tónleika, endalausar raðir og að sjá Hörpuna í sinni skítugustu mynd. Ég er alls ekki sáttur og ég held að fólk sem hafi þarna fyrir tónlistina en ekki sukkið sé sammála mér.“

„Ótrúlegt hvernig það birtast alltaf allt í einu fleiri miðar á hátíð sem var uppseld. Hversu oft hefur „selst upp“ á sónar 2013 síðustu vikur? Mér leið eins og rollu á leið í réttir þarna inni, þetta var viðbjóðslegt og jólagjöfin frá kæró ónýt.“

– Torfi

Sónar: Föstudagur

Það er fátt skemmtilegra en að skella sér á tónlistarhátíð í skammdeginu á Íslandi í febrúar og því er Sónar kærkomin viðbót við íslenskt tónlistarlíf. Harpan, móðir tónlistarhúsa á Íslandi sér um hýsingu og það veit upp á gott hvað varðar hljómgæði og aðstöðu. Hins vegar er dropinn dýr en lítill bjór selst á 800 krónur! En hvað um það, snúum okkur að föstudagskvöldi hátíðarinnar.

Ég var mættur í fyrra fallinu í Silfurberg en þar var Pedro Pilatus eða Logi litli bassaleikari Retro Stefson að hefja leik. Hann spilaði í rúmar 50 mínútur og er greinilega mikið efni innan þessa geira. Skemmtilegar pælingar í gangi sem nutu sín vel í Silfurberginu.

Sísí Ey voru næst á svið en ég verð að viðurkenna að fyrir tónleikana hafði ég ekkert sérstaklega góðar minningar af þeim er þær hituðu upp fyrir John Grant í Austurbæjabíó í fyrra sumar. Nú var hins vegar allt annað á ferðinni. Oculus hefur séð um að búa til grípandi takta fyrir systurnar og þær sjá um að gæða þá lífi með fallegum söng. Tónlistin minnir um margt á GusGus á góðum degi og skemmti ég mér konunglega á tónleikum þeirra. Unnsteinn Stefson birtist svo á sviðinu á lokakaflanum og var hressandi viðbót.

Eftir smá pásu var komið að hljómsveitinni sem fiskaði margan manninn á hátíðina eða Modeselektor frá Berlín. Ég ætla bara að taka það fram strax að ég var ekki í þeim hópi en ákvað samt að sjá þá enda eitt af stærri atriðum hátíðarinnar. Það var ljóst frá fyrstu mínútu að bjór var ekki rétta meðalið við tónlist Modeselektor og er ég viss um að þeir sem hafi verið á sterkari efnum en ég hafi skemmt sér konunglega. Þetta var hins vegar einum of mikið af því góða fyrir minn smekk. Í lokin róaðist þetta þó aðeins og hefði verið gaman að sjá þá bara slaka. Annars verð ég að hrósa sviðsmyndinni en það gerir miklu meira fyrir svona tónlist að hafa eitthvað myndrænt á bakvið.

Þar sem að Modeselektor voru ákveðin vonbrigði fyrir mér lagði ég allt mitt traust á GusGus og að þeir myndu redda kvöldinu. Þeir spiluðu lög af Arabian Horse ásamt tveimur nýjum lögum en fyrra lagið var einstaklega gott og í takt við það besta sem hefur komið frá hljómsveitinni. Daníel Ágúst og Högni eru skemmtilega ólíkar týpur og vega hvorn annan upp á sviðinu með sviðsframkomu sinni og söng. GusGus klikka seint og ef ekki hefði verið fyrir krossbandsaðgerð fyrir mánuði síðan hefði verið trítilóður eins og flestir á dansgólfinu.

Því miður var GusGus síðasti hjartslátturinn en mér fannst Silfurbergið tæmast óvenju fljótt eftir þeirra tónleika og sérstaklega þar sem að hin breska Simian Mobile Disco var næst á svið. Það voru ekki nema kannski 200 hræður í það mesta þegar þeir hófu leika og sá maður fljótt að þeir sem höfðu lagt leið sína eitthvert annað höfðu tekið rétta ákvörðun. SMD voru skráðir sem DJ atriði en hefðu þeir verið með live sett er ég viss um að meira hefði verið um manninn í Silfurbergi.

James Ford og Jas Shaw voru orðnir syfjaðir þegar klukkuna vantaði hálf 2.

James Ford og Jas Shaw voru orðnir syfjaðir þegar klukkuna vantaði hálf 2.

Það var ekkert annað í stöðunni en að kíkja í næsta sal á Trentemöller en hann hafði ég séð einu sinni áður á Iceland Airwaves og því ekki í forgangi að horfa á kauða. Norðurljós iðuðu sem betur fer af meira lífi en Silfurberg og var fólk almennt í góðum gír. En fætur mínir voru að þrotum komnir og því lá leiðin niður í bílakjallara þar sem að James Blake þeytti skífum.

Tónleikagestir voru greinilega spenntari fyrir James Blake heldur en Simian Mobile Disco en eftir á tel ég að þeir síðarnefndu hefðu notið sín betur í kjallaranum. Ég var alls ekki í þeim gír að nenna að troða mér eitthvað framarlega enda James Blake að fara að troða upp í Silfurbergi í kvöld þar sem hann kemur fram ásamt hljómsveit. Bílakjallarinn var þar með mín endastöð og fyrra Sónar kvöldið viss vonbrigði þó ekki hafi verið hægt að setja neitt út á íslensku listamennina.

Torfi 

James Blake með nýtt myndband og lag

james-blake-music11

Nú er farið að styttast í Sónar hátíðina sem hefst næsta föstudag. James Blake hefur ekkert gert til þess að minnka spennuna en fyrir stuttu sendi hann frá sér lagið „Retrograde“. Í gær póstaði hann svo á facebook síðu sinni nýju myndbandi við lagið sem er ekki síður fallegt.

„Retrograde“ er jafnframt fyrsti smellurinn af væntanlegri plötu sem hefur fengið nafnið Overgrown og kemur út þann 8. apríl næstkomandi. Seinasta breiðskífa Blake kom út árið 2011 og fékk hún frábæra dóma hvarvetna.

James Blake mun þeyta skífum í bílakjallaranum í Hörpu á föstudaginn kl. 02:00 og spilar svo daginn eftir í Silfurbergi kl. 20:45.

Torfi