Category Archives: Kvikmyndir

Topp 5: Kvikmyndir um fótbolta

Nú þegar Ísland hefur lokið keppni á Heimsmeistaramótinu í knattspyrnu er ekki úr vegi að renna yfir bestu kvikmyndirnar sem fjalla um fótbolta til að fylla enn betur upp í tómarúmið sem Ísland skilur eftir sig. Það skal hafa í huga að hér er aðeins átt við leiknar myndir en ekki heimildamyndir þó að þrjár af þessum fimm séu byggðar á sannsögulegum atburðum. Þar sem ekki er leikið á mótinu á morgun er kjörið tækifæri að renna í gegnum einhverjar af þessum fimm eðalmyndum.

# 5 Goal! 

Goal! er kannski ekki besta mynd sem þú munt sjá á ævinni en þeir sem hafa dálæti af knattspyrnu ættu að hafa gaman að fyrstu myndinni um Santiago Munez. Myndin fjallar um skáldaða knattspyrnumanninn Santiago Munez sem kemst á samning hjá Newcastle United. Það sem gerir myndina áhugaverða er að alvöru leikmenn Newcastle leika gestahlutverk í henni og notaðar eru svipmyndir úr alvöru leikjum sem gerir hana eins raunhæfa og hún getur orðið. Það er ekki laust við kjánahroll hér og þar en Goal! er afbragðs afþreying fyrir þá sem hafa yfir höfuð gaman af íþróttinni. Mynd nr. 2 er einnig ágætis skemmtun en í guðanna bænum haldið ykkur frá þeirri þriðju!

# 4 Mean Machine 

Kvikmynd sem skartar hinum grjótharða Vinnie Jones sem var einmitt atvinnumaður í fótbolta áður en hann færði sig yfir í kvikmyndaleik. Í myndinni leikur hann knattspyrnumann sem dæmdur er í fangelsi. Þrátt fyrir að sitja á bakvið lás og slá nær hann að  fá útrás í knattsparki með því að koma á leik milli fanga og fangavarða, eitthvað sem er t.d. þekkt hér á landi á Litla-Hrauni. Það er urmull af eftirminnilegum karakterum í myndinni og til að mynda sjáum við Jason Statham í miklum ham sem markmanninn Monk. Mynd sem óhætt er að mæla með.

# 3 Pelé: Birth of a Legend

Það var löngu orðið tímabært að gera kvikmynd um einn besta knattspyrnumann sögunnar, Pelé. Ég viðurkenni að væntingar mínar voru stilltar í hóf áður en ég fór á myndina en hún var býsna fljót að ná mér á sitt band og í lokin var ég farinn að fagna líkt og ég væri að horfa á alvöru fótboltaleik. Myndin spannar uppvaxtarár Pelé fram að fyrsta Heimsmeistaramóti hans þar sem hann skóp sér nafn sem einn besti knattspyrnumaður heims aðeins 17 ára gamall! Þrælskemmtileg mynd sem ætti að eldast vel.

# 2 Fever Pitch (1997)

Ég er kannski ekki hlutlaus þegar kemur að þessari mynd enda fjallar hún um mitt ástsæla félag, Arsenal. Hér er ungur Colin Firth á ferðinni ásamt Mark Strong en þeir eru eldheitir stuðningsmenn Arsenal sem á möguleika á að vinna ensku úrvalsdeildina í síðasta leik gegn Liverpool á útivelli árið 1989. Myndin er eftir samnefndri bók Nick Hornby og nær að fanga andann í kringum ensku knattspyrnuna á eftirminnilegan hátt.

# 1 The Damned United

Breska kvikmyndin The Damned United fjallar um hinn magnaða knattspyrnustjóra Brian Clough sem er einn sigursælasti stjóri í sögu enskrar knattspyrnu. Það sem gerir myndina áhugaverða er að hún fjallar ekki um sætu sigrana með Nottingham Forest heldur ósigrana með Leeds United. Clough var áhugaverður karakter og er túlkun Michael Sheen á stjóranum óaðfinnanleg. Bráðskemmtileg og áhugaverð mynd sem rígheldur manni allan tímann.

Aðrar góðar myndir um fótbolta:

Escape to Victory
Goal ll: Living the Dream
Green Street Hooligans
Íslenski draumurinn
Purely Belter

Torfi Guðbrandsson

Auglýsingar

Bestu kvikmyndir 2017

Kvikmyndaárið var að mínu mati ansi sterkt og nokkuð margar myndir sem ég var spenntur að sjá. Framhaldsmyndir voru áberandi í ár og í mörgum tilfellum áttu þær að fylgja á eftir vel heppnuðu upphafi. Svo voru aðrar myndir sem áttu að bjarga málunum eins og t.d. Wonder Woman og Justice League sem fengu það hlutverk að gera DC Comics-bálkinn að alvöru keppinaut fyrir Marvel-myndirnar en þó að þær hafi ekki náð inn á topp 10 hjá mér þá eru þær skref í rétta átt. Það var líka nóg um að vera hér á landi þar sem að Hjartasteinn, Undir trénu og Ég man þig standa upp úr en hrifnastur var ég af Undir trénu. Á þessum lista ætla ég samt að halda mig við erlendu myndirnar. Þetta eru 10 bestu myndirnar sem ég sá á árinu.

# 10 – It

Ég hef aldrei verið eins spenntur fyrir hryllingsmynd líkt og ég var fyrir It en eftir að hafa séð stikluna fyrir myndina í byrjun árs taldi ég nánast niður dagana í frumsýningu. Myndin minnir um margt á þættina Stranger Things þar sem að krakkagengi berst við yfirnáttúruleg öfl. Trúðurinn er vel heppnaður og frammistaða sænska leikarans Bill Skarsgård er ekkert annað en mögnuð. Ungu leikararnir eru hver öðrum flottari og stór ástæða þess að myndin drífur í 10. sætið á þessum lista.

# 9 – T2 Trainspotting

Það er ákveðin áhætta fólgin í því að ráðast í framhaldsmynd 20 árum eftir að fyrri myndin kom út. Þetta mistókst t.d. í tilfelli Dumb and Dumber To. En í tilfelli T2 Trainspotting eru engin mistök gerð. Persónurnar hafa vissulega elst um 20 ár en hér er haldið rétt á spöðunum. Karakterarnir eru ennþá jafn skemmtilegir og síðast og standa þar Spud og Begbie upp úr. Frábært framhald af einni bestu mynd síðasta áratugs 20. aldar.

# 8 – Thor: Ragnarok 

Það var kominn tími á almennilega mynd um þrumuguðinn Þór. Thor: Ragnarok slær fyrri tveimur ref fyrir rass og vel það. Hér eru allir upp á sitt besta og nýju karakterarnir bæta miklu við. Ásgarður nýtur sín vel og bardagasenurnar eru glæsilegar. Myndin er bráðskemmtileg enda húmorinn allsráðandi og þar fer Chris Hemsworth á kostum. „Immigrant Song“ með Led Zeppelin er svo notað á hárréttann hátt í lokin á myndinni.

# 7 – Guardians of the Galaxy Vol. 2 

Það er hreinn ógerningur að kunna ekki vel við verndara vetrarbrautarinnar. Fyrri myndin var kærkomin tilbreyting frá hefnendunum og fólk vildi sjá meira af þessum stuðboltum, þar á meðal ég. Framhaldið tekst vel til og útfærslan á illmenninu heppnast vel og kemur á óvart. Það sem einkenndi fyrri myndina var frábær tónlist og það á einnig við hér. Geimópera í hæsta gæðaflokki!

# 6 – Baby Driver 

Ég vildi óska þess að Baby Driver hefði komið út þegar ég var nýbúinn að fá bílpróf síðla árs 2006. Þá hafði ég brjálaðan áhuga á akstri og það skipti mig hjartans máli hvað ég var að hlusta á í bílnum á meðan ég rúntaði um bæinn. En allt í góðu. Myndin er frábær skemmtun þar sem að samspil tónlistar og kvikmyndar hefur sjaldan verið betra. Hvert smáatriði er úthugsað og virðist vera að leikstjórinn Edgar Wright láti myndina stjórnast af lögunum. Verst er að Kevin Spacey leikur nokkuð mikilvægt hlutverk í myndinni.

5 – Get Out 

Það er langt síðan að kvikmynd kom mér eins mikið á óvart og Get Out. Áferðafalleg kvikmynd sem byrjar nokkuð sakleysislega en verður svo æ óþæginlegri og skrítnari og að lokum allsvaðaleg. Ég var hálfgeru áfalli eftir áhorfið og þurfti smá tíma til að jafna mig. Óvæntasti smellur ársins klárlega!

# 4 – Logan 

Loksins fékk Hugh Jackman kvikmyndina sem hann átti skilið. Hér er hann þjakaðri en nokkru sinni fyrr en á sama tíma hokinn af reynslu. Ofan á það er flækjustigið í lífi hans orðið töluvert meira með komu Lauru. Nú þarf hann að láta klærnar standa fram úr ermum í síðasta sinn og það er unun að fylgjast með. Hugh Jackman getur gengið sáttur frá borði verði þetta hans síðasta skipti í Wolverine gervinu.

# 3 – Star Wars: The Last Jedi 

Forsýning Nexus á Star Wars: The Last Jedi var klárlega hápunkturinn í ár þó að myndin drífi ekki ofar en í þriðja sæti. Það á náttúrulega að vera bannað að láta mann bíða í 2 ár eftir framhaldi en biðin var algjörlega þess virði. Ég er í hópi þeirra Stjörnustríðsaðdáenda sem var ánægður með myndina og hef ekki fundið neinar ástæður til þess að rakka hana niður. Þróunin á Kylo og Rey er mér að skapi og það var notalegt að fá að eyða kvöldstund með Luke Skywalker í síðasta sinn. Nú er bara spurning hvernig þeim tekst að loka þessum þríleik.

# 2 – Dunkirk 

Ég var farinn að sakna þess að sjá eitthvað eftir meistara Nolan og eftir að Dunkirk rataði í kvikmyndahús hér á landi setti ég kröfu á að sjá hana í sal 1 í Egilshöll þar sem ég vildi láta taka mig í augun og eyrun. Og það var nákvæmlega það sem hún gerði. Í gegnum tíðina hef ég séð margar frábærar stríðsmyndir byggðar á sönnum atburðum en engin hefur tekið sömu nálgun og Dunkirk gerir þar sem áhorfandinn fær allt aðra upplifun en áður. Stórkostleg mynd sem rígheldur manni í sætinu allan tímann!

# 1 – Blade Runner 2049 

Ég var orðinn vel spenntur fyrir Blade Runner 2049 og eins og með SWTLJ dugði ekkert minna til en salur 1 í Egilshöll. Og þvílík kvikmynd. Nútíma listaverk sem heiðrar forvera sinn og þróar heiminn í rétta átt á sama tíma. Ryan Gosling smellpassar inn í þennan heim sem vélmennið K og heldur myndinni uppi lengst af. Þrátt fyrir að slaga upp í næstum þrjá tíma sóar kvikmyndin ekki einni sekúndu að mínu mati og það eru sannkölluð forréttindi að fá að upplifa mynd af þessu kalíberi í bestu mögulegu gæðum. 10 af 10!

Aðrar sem voru nálægt (í stafrófsröð):

Atomic Blonde 
Coco
John Wick 2 
La La Land
Manchester by the Sea 
War of the Planet of the Apes
Wonder Woman

Torfi Guðbrandsson

Topp 5: Lánsmyndir í vanskilum

Það er ekki tekið út með sældinni að vera DVD-safnari í dag. Það er í raun óskiljanlegt að einhver hafi sig út í slíka vitleysu enda getur áhugamálið verið dýrt og plássfrekt á heimilinu. En það eru bara sumar myndir sem maður verður að eiga og hafa til taks þegar upp kemur sú staða að það er ekkert að gera. Ég er þó ekki það slæmur þó ég segi sjálfur frá og gæti átt helmingi fleiri myndir ef það væri ekki stoppari á mér sem er yfirleitt kærasta mín.

Það er þó annar galli á þessu áhugamáli sem er talsvert verri en kostnaðurinn og plássleysið. Það munu vera vinirnir eða ættingjarnir sem vilja fá myndir úr safninu lánaðar. Ég hef frekar slæma reynslu af þessu enda ekki eins mikil pressa á að skila myndinni til vinar síns eins og að skila henni daginn eftir á videoleiguna sem fer nú brátt að heyra sögunni til. Til að sporna við þessu vandamáli tók ég uppá því að skrá niður lánsmyndir á word skjal þar sem ég litaði nafn myndarinnar gult og skrifaði nafn þess sem fékk hana lánaða fyrir aftan. Þannig gat ég alltaf fylgst með hvar myndirnar mínar voru niðurkomnar og haft samband við viðkomandi þegar lánið hafði staðið yfir alltof lengi. Það dugði þó ekki til með þær myndir sem ég mun fara yfir hér á topp 5 listanum. Þær myndir hafa ekki enn skilað sér og í öllum tilvikum nema einu hef ég þurft að fjárfesta í nýju eintaki af þeim.

Ég segi við þá sem að eru að hugsa um að fara út í það að safna myndum á einhverju formi að halda fast utan um þær og ekki undir nokkrum kringumstæðum missa myndirnar út fyrir dyr heimilisins í hendur vina eða ættingja sem lofa öllu fögru á staðnum en svíkja svo loforðið þegar fram líða stundir. Þetta er stórvarasamt fólk þegar kemur að akkúrat þessu og því skuluð þið helst ekki hafa myndirnar fyrir allra augum en nú geymi ég mínar myndir í læstum skáp. En vindum okkur í listann.

# 5 Djöflaeyjan – Pétur Andreas Maack

d5_d__0_DevilsIsland_grande
Pétur fékk myndina lánaða snemma í fyrra en það gerði ég með miklum trega enda reynslan af því að lána myndir ekki góð. Ég ákvað þó að gera undantekningu enda Pétur drengur góður og hann kom reglulega í klippingu hjá frúnni. En eitthvað hefur dregið úr vexti hársins enda hefur Pétur ekki látið sjá sig síðan. Myndin hefur því ekki enn skilað sér í hús og þar með er ég opinberlega hættur að lána myndir.

# 4 Godzilla – SBS

godzilla
Ég geri mér fulla grein fyrir því að Godzilla frá árinu 1998 er ekki góð mynd. En fólk verður að taka það með í reikninginn að ég var að verða 9 ára þegar myndin var frumsýnd og ég var með mikið risaeðlublæti á þeim tíma. Staðan er hins vegar sú að á sama tíma og ég lánaði SBS Godzilla fékk ég That Thing You Do! lánaða frá honum sem ég hef ekki heldur skilað. Við erum því jafn sekir í þessu og ef hann er að lesa þetta þá er ég tilbúinn að skila honum myndinni gegn því skilyrði að ég fái mína til baka.

# 3 Baby Boy – Sigurður Edgar 

Baby_boy
Eina VHS myndin á þessum lista er Baby Boy frá árinu 2001 sem er jafnframt fyrsta kvikmynd Tyrese Gibson. Sennilega sú mynd sem ég horfði mest á unglingsárum mínum þangað til að frændi minn, Sigurður Edgar fékk hana lánaða og skilaði aldrei aftur. Til allrar hamingju fann ég myndina á Laugarásvideo um daginn á DVD og keypti hana á 600 krónur. Það var góð tilfinning að setja myndina í tækið eftir 14 ára fjarveru og leið mér eins og ég væri orðinn 13 ára aftur. Lærdómurinn sem ég dró af þessu útláni er að ekki er heldur hægt að treysta frændfólki sínu og er það ekki síður óáreiðanlegt og vinir manns þegar kemur að þessu.

# 2 A Clockwork Orange – Kristófer Rósinkranz 

aclock
Við Kristófer áttum samleið árið 2007 þegar við vorum saman í leikriti og hljómsveit. Afar viðkunnanlegur náungi. Einhvern tímann barst talið að uppáhalds kvikmyndunum okkar og ég ljóstraði því upp að mín væri A Clockwork Orange. Hann hafði ekki séð hana áður en hafði keypt sér nýtt sjónvarp á þeim tíma og fannst tilvalið að vígja nýja sjónvarpið með meistaraverki Kubrick. Það versta var að ég hafði slæma tilfinningu fyrir útláninu og gerði ráð fyrir að sjá hana aldrei aftur. Ég beið því ekki lengi eftir því að bæta henni við í safnið að nýju og fjárfesti í henni í annað skiptið þegar ég sá hana til sölu í kaupfélaginu á Hellu sumarið 2007.

# 1 Star Wars: Episode II – Attack of the Clones – Anton Bjarni

swii
Ástæðan fyrir því að þessi vonda mynd situr á toppi listans er sú að hún hefur verið lengst í útláni fyrir utan Baby Boy en þar sem SWII er DVD-mynd hefur hún vinninginnLengi hefur Star Wars safnið mitt verið ófullkomnað vegna fjarveru þessarar en til allrar hamingju fann ég eintak af henni á litlar 300 krónur um daginn og gat því loksins fullkomnað safnið. Það verður þó að segjast að hún hefur versnað með árunum og er hún að mínu mati sísta Stjörnustríðsmyndin. Myndina fékk ég í jólagjöf frá frænku minni jólin 2002 og horfði ég á hana oft og mörgum sinnum næsta árið. Anton fékk hana svo lánaða 2004 og hefur hún verið í hans fórum síðan.

Eins og sjá má á þessum lista getur líf DVD-safnarans verið erfitt. Ég reiknaði gróflega hvað ég hef tapað miklu á því að lána þessar myndir út og fer upphæðin sem ég hef eytt í myndirnar „aftur“ uppí rúmlega 4000 krónur. Fyrir utan SWII keypti ég allar hinar á sínum tíma og þá dýrara verði enda flestar glænýjar svo að sá kostnaður er ennþá hærri en 4000 krónurnar. Þannig að safnarinn tapar gríðarlegum fjármunum þegar vinirnir fá myndir lánaðar og skila þeim ekki.

Ég ítreka enn og aftur áhættuna sem fylgir því að lána myndir úr safninu sínu. Þú átt á hættu að sjá þær aldrei aftur. Næst þegar vinur ykkar kemur í heimsókn og spyr hvort að hann megi fá mynd lánaða spyrjið þá á móti: „Fá hana lánaða? Meinarðu ekki frekar að má ég eiga hana?“. Hinn möguleikinn er að stinga uppá því að horfa á myndina saman í sömu heimsókninni eða þá fara með myndina til viðkomandi þegar þið hittist næst og horfa á hana saman.

Ég vona að þetta blogg og þessi ráð nýtist ykkur söfnurunum þarna úti og þið hin sem eruð með myndir í vanskilum, vinsamlegast skilið þeim í hvelli.

Torfi Guðbrandsson

Bíó: Hrútar (Rams)

Screen Shot 2015-05-29 at 11.00.46 AM

ENGLISH BELOW!

Kvikmyndin Hrútar eftir Grím Hákonarson var frumsýnd fyrr í þessum mánuði á hinni virtu kvikmyndahátíð í Cannes og gerði sér lítið fyrir og vann til Un Certain Regard verðlaunana. Myndin rataði svo í íslensk kvikmyndahús í gær og ákvað ég að skella mér á myndina ásamt föður mínum sem er mikill áhugamaður um íslensku sauðkindina enda uppalinn í sveit.

Hrútar segir frá tveimur bræðrum sem hafa ekki talast við í 40 ár þrátt fyrir að búa á sömu lóð. Þeir eru færir bændur og vinna reglulega til verðlauna fyrir öfluga hrúta sína. En þegar riðuveiki gerir vart við sig í stofninum hjá öðrum bróðurnum reynir enn meira á stirt samband þeirra en áður.

Sigurður Sigurjónsson og Theódór Júlíusson leika bræðurna og það er ekki hægt að hugsa sér betri kandídata í hlutverkin á þessari stundu. Báðir tveir eru algjörlega að toppa hvað varðar kvikmyndaleik og þá sérstaklega Siggi Sigurjóns sem hefur verið að sýna á sér áður óséðar hliðar í Borgríki-myndunum. Skjátími Sigurðar er lengri en Theódórs enda fylgist áhorfandinn með sögunni í gegnum hann og hvílir myndin því meira á hans herðum heldur en Tedda. Sigurður fer létt með að sæta þeirri ábyrgð enda ofboðslega viðkunnanlegur náungi sem getur gert mikið úr litlu. Það má í raun segja að hann hafi verið fæddur í þetta hlutverk og virkilega sannfærandi sem einstæður bóndi sem á ekkert annað að en elsku kindurnar sínar. Reyndar fékk hann góða upphitun fyrir ca. 30 árum  í Dalalíf sem hinn ógleymanlegi sveitaunnandi JR.

Aðrir leikarar stoppa stutt við og fá óumflýjanlega úr litlu að moða. Helst má nefna Svein Ólaf Gunnarsson sem stendur alltaf fyrir sínu og er hér í hlutverki lögfræðingsins Bjarna, Gunnar Jónsson sem smellpassar í hlutverk sitt sem bóndinn Grímur, Charlotte Bøving sem leikur Katrínu dýralækni og hrútaþuklara og svo Þorleif Einarsson sem útskrifaðist af leikarabraut frá LHÍ fyrir ekki svo löngu síðan og sýnir hér lipra takta. En Jón Friðrik Benónýsson ber af aukaleikurunum sem Runólfur enda fékk hann úr mestu að moða og gerði það einkar vel með sinni einstöku rödd og útliti. Mér þótti svo Jörundur Ragnarsson illa nýttur í sínu hlutverki og á leikari af því kalíberi meira skilið.

Hrútar er að mínu mati laus við alla tilgerð og gerir íslensku sauðkindinni góð skil. Myndin dregur upp raunhæfa mynd af lífi bóndans sem er ekki alltaf dans á rósum. Ég er pínu hræddur um að þeir sem ekki hafa alist uppí sveit eða fengið að kynnast lífinu þar af neinu viti átti sig á þeim mögnuðu tengslum sem að bóndinn og hans fólk á það til að mynda með kindunum. Sjálfum fannst mér það ótrúlegt að þeir bændur og sveitamenn sem ég hef kynnst segjast þekkja hverja einustu kind sína með nafni en þegar ég horfi á þær þá eru þær allar eins! Þeirra líf veltur á heilbrigðum kindastofni og maður getur varla ímyndað sér hversu mikið áfall það er fyrir bændur þegar smitsjúkdómur líkt og riða gerir vart við sig á þeirra jörð. Aðstandendum Hrúta hefur hins vegar tekist að draga upp raunsæja mynd af slíku áfalli og í leiðinni búið til fallega kvikmynd um tvo bræður sem að lokum þurfa að reiða sig á hvorn annan til að halda í það sem þeim er kærast.

Niðurstaða: Loksins er íslensku sauðkindinni gerð þau skil sem hún á skilið á hvíta tjaldinu án þess þó að ætla að gera lítið úr Dalalífi Þráins Bertelssonar. Sigurður Sigurjónsson eldist eins og gott rauðvín og verður bara betri með aldrinum og það sama má segja um Theódór Júlíusson. Myndin á verðlaunin á Cannes svo sannarlega skilið og verður gaman að fylgjast með gengi hennar úti í heimi.


 

Earlier this month Grímur Hákonarson Rams (Hrútar) was premiered at the Cannes Film Festival and received the Un Certain Regard prize in the same catalogue. It was premiered in Icelandic movie theaters yesterday and I went with my dad who happens to be very enthusiastic about sheeps.

Rams tells of two brothers who haven’t spoken in 40 years despite the fact that they live next door to each other. They’re very good farmers and get regular awards for their rams but when scrapie infests on their farm the brothers must rely on each other as never before.

The roles of the brothers are in the hands of Sigurður Sigurjónsson and Theódór Júlíusson and you can’t think of any better candidates to do the job at this moment. Both of them are on the top of their careers especially Siggi Sigurjóns who has been showing people that he is more than a comedy actor with his interpretation of the spoiled cop Margeir in the City State’s movies. The viewers watch the story through the eyes of Siggi who carries the movie on his shoulders. That job is well done by Sigurður as he is such a likeable guy who can do very much with very little. In fact you can say he was born into this role as he is so convincing as this singular farmer who loves nothing more than his sheeps. Let’s not forget that he got a little warm up 30 years ago when he played the unforgettable JP character in Dalalíf.

Other actors get little time as you can expect but most of them do a very good job. Sveinn Ólafur Gunnarsson delivers a good performance as you can always expect from him as the lawyer Bjarni, Gunnar Jónsson fits perfectly in his role as the farmer Grímur, Charlotte Bøving does a good job as the veterinarian and Þorleifur Einarsson shows his good moves as a new and upcoming actor. But the one that stands out of this lot is Jón Friðrik Benónýsson as Runólfur who gets the best lines when he presents the awards for the best ramp and tells the other farmers about the verdict on the scrapie test. He has such a unique voice and looks and it is strange that no director has noticed this gem of an actor before.

In my opinion Rams is unpretentious and draws a very realistic image of the Icelandic sheep and the farmer’s life which can get tough at times. I’m afraid that people who didn’t grow up in this environment or at least didn’t get a taste of it don’t realize the great bond that the farmer and his people happen to create with the sheeps. The fact that most of the farmers know all of their sheeps by name is crazy, for me they look all the same but for the farmers, sheeps have their own identity. Farmers make a living out of their sheeps and when something bad as a scrapie gets to their farm you can only imagine the consequences. The people behind Rams has succeded in showing us how blow of that kind can affect the man behind the farmer by creating this beautiful film about two brothers who in the end have to rely on each other to hold on to what’s dearest to them.

Conclusion: Finally the Icelandic sheep get’s the film she deserves without saying anything bad about Dalalíf. Sigurður Sigurjónsson is like a red wine, the older – the better and you can say the same about Theódór Júlíusson. Rams is a deserved winner of the Un Certain Regard prize and it will be interesting to see how she fares in the big world.

– Torfi Guðbrandsson

Bestu kvikmyndir 2014

Potturinn hefur hingað til ekki verið að taka saman þær kvikmyndir sem honum þótti bestar yfir árið þar sem að tónlistin hefur alltaf haft yfirhöndina en þar sem að kvikmyndaárið í ár var virkilega ljúft er ekki annað hægt. Ætlunin var einnig að fara yfir þær íslensku á topp 5 lista en því miður er erfitt að fylla upp í svoleiðis lista þegar maður gefur ekki kost á sér á Afann og Algjöran Sveppa. Hins vegar var ég gríðarlega sáttur við Vonarstræti, Borgríki 2 og París Norðursins. Því má svo bæta við að kvikmyndir sem komu út 2013 en rötuðu ekki í íslensk kvikmyndahús fyrr en í ársbyrjun eru ekki gjaldgengar á þennan lista.

# 10 Dawn of the Planet of the Apes

dawn-planet-apes-koba-weapon
Dawn of the Planet of the Apes er talsvert betri heldur en forveri sinn og veitir upprunalegu Planet of the Apes myndinni mikla samkeppni um að hljóta titilinn „besta Apaplánetumyndin“. Sagan er komin í ansi spennandi átt enda aparnir komnir í ansi harða baráttu við mennina sem þurfa að berjast fyrir lífi sínu. Endirinn býður upp á framhald sem ætti að vera tilhlökkunarefni.

# 9 John Wick 

john wick
Ef maður var ekki að búast við einhverju á árinu þá var það frábær hasarmynd með Keanu Reeves í aðalhlutverki. Reeves hefur sjaldan verið betri á hvíta tjaldinu og sýnir hér gamalkunna takta.

# 8 The Hobbit: Battle of Five Armies 

smaug
Þriðja myndin um Hobbitann er að mínu mati sú besta í þríleiknum enda eru dvergarnir loksins hættir á hlaupum og farnir að einbeita sér að því að verja heimili sitt. Myndin byrjar af krafti þegar Smeyginn lætur að sér kveða í Vatnabæ í einu flottasta atriði sem ég hef séð í kvikmynd. Að því loknu er stríðið mikla byggt upp sem kemst þó aldrei nálægt glæsileika stríðanna í Hringadróttinssögu. En þrátt fyrir að þríleikurinn um Bilbó og félaga sé ekki í sama gæðaflokki og Hringadróttinssaga hef ég samt alltaf jafn gaman af þessum magnaða heimi sem að Tolkien og Peter Jackson bjuggu til fyrir okkur og á ég eftir að sakna þess að sjá ekki fleiri ævintýri úr Miðgarði lifna við á hvíta tjaldinu.

# 7 The Raid 2

The-Raid-2-Reviews-Berandal
Fyrri myndin, The Raid, sló mig útaf laginu á sínum tíma með ótrúlegustu slagsmálaatriðum sem ég hef séð. The Raid 2, er lengri, betri og sagan áhugaverðari. Áhorfandinn fylgir lögreglumanninum Rama í gegnum spillingu og svik lögreglumanna og annarra bófa. Myndin er stútfull af flottum karakterum eins og Uco, Prakoso og auðvitað Rama en allir eru þeir túlkaðir af leikurum sem hafa ekki mikla reynslu á hvíta tjaldinu þó annað mætti halda. Raid myndirnar verða seint toppaðar hvað gæði slagsmálaatriða varðar og eru Iko Uwais og Yayan Ruhian sennilega komnir með vinnu fyrir lífstíð í að skapa slagsmálasenur fyrir kvikmyndir.

# 6 The Grand Budapest Hotel

grand-budapest-hotel-fiennes-revolori
Leikstjórinn Wes Anderson stígur ekki feilspor og er The Grand Budapest Hotel enn ein snilldin sem hann hristir fram úr erminni. Það er enginn betri en einmitt W. Anderson þegar kemur að því að nýta stór nöfn í minni hlutverkum en hér höfum við nöfn eins og Willem Dafoe, Adrien Brody, Jude Law, Bill Murray, Jeff Goldblum og Edward Norton sem allir hafa kynnst lengri skjátíma. Ralph Fiennes er hins vegar sá sem eignar sér myndina en hann leikur hóteleigandann M. Gustave sem rekur undur fallegt hótel. Hann ásamt lobbístráknum Zero lendir í alls kyns uppákomum sem eru ansi skoplegar þökk sé snilli leikstjórans og skrifum Stefan Zweig. The Grand Budapest Hotel fer langt með að vera besta myndin úr smiðju Wes Anderson og þá er nú mikið sagt.

# 5 Nightcrawler 

Nighcrawler-still-04
Jake Gyllenhaal er stórkostlegur í hlutverki siðblinda ljósmyndarans Louis Bloom sem vinnur hörðum höndum að því að ná góðum ljósmyndum af slysum og vettvangi glæpa í Los Angeles. Bloom verður svo heltekinn af vinnu sinni að smátt og smátt fer hann að hafa áhrif á aðstæður til þess eins að ná betra efni. Ótrúlega mögnuð mynd sem lætur áhorfandann fyllast af viðbjóði og stundum hlátri. Það er bara svo fjandi óþægilegt að hlæja að svona sjúkum manni á meðal almennings.

# 4 Guardians of the Galaxy 

guardians-of-the-galaxy-starlord-flying
Guardians of the Galaxy var ágætis tilbreyting frá Iron Man og þessum helstu ofurhetjum sem kvikmyndaunnendur hafa verið mataðir af í nokkur ár. Enginn gat þó séð fyrir að þetta hliðarverkefni ætti eftir að slá svona rækilega í gegn. Græn Zoe, tré, þvottabjörn, MMA bardagakappi og blanda af Han Solo og Mal var það sem þurfti til að bjarga vetrarbrautinni að þessu sinni og að sjálfsögðu frábær tónlistin. Það er hvergi dauðan punkt að finna í þessari tveggja klukkustunda skemmtiferðageimskipssiglingu og nú þarf Marvel að leggja drög að næstu mynd um þessa varðmenn.

# 3 Boyhood

boy
Án efa ein metnaðarfyllsta kvikmynd sem gerð hefur verið. Kvikmynd sem tekin var upp yfir 12 ára tímabil þar sem fylgst er með uppvexti Mason og fjölskyldu hans. Boyhood er laus við alla tilgerð og dregur upp raunverulega mynd af þroska og lífsskeiði hjá ungum dreng sem gengur í gegnum mis erfiðar raunir frá 5 ára aldri til 18. Leikarar eiga mikið lof skilið og þá sérstaklega Ellar Coltrane og Ethan Hawke.

# 2 Gone Girl

rosamundgonegirl_640px
Er ég sá plakatið af Gone Girl var ég fljótur að dæma myndina sem misheppnaða þar sem að Ben Affleck lék aðalhlutverkið. Svo áttaði ég mig á því að Ben Affleck er ekki sá Ben sem við munum eftir í Armageddon. Ég dreif mig því á myndina og Guð minn almáttugur hvað þetta var sturluð mynd. Myndin tók tvær stefnubreytingar sem ég sá alls ekki fyrir og komu mér vægast sagt í opna skjöldu. Rosamund Pike hefur hingað til alltaf verið þessi snoppufríða og viðkunnanlega leikkona fyrir mér en hérna sýnir hún stórleik með óútreiknanlegum karakter sínum. Ben Affleck stendur sig einnig vel sem hinn ólánsami Nick Dunne. Gone Girl skildi mig eftir orðlausan í sætinu mínu og þurfti ég smá tíma til að jafna mig eftir hana og horfa ekki tortryggnum augum á kærustuna mína.

# 1 Interstellar

interstellar_a
Myndirnar í topp 3 hefðu svo sem geta raðast öðruvísi en svona er allavega niðurröðunin núna. Það var bara eitthvað alltof sexí við það að sjá krafta Christopher Nolan og Matthew McConaughey sameinast í geimnum. Lífshorfur mannsins eru í hættu og Cooper er sendur út í geim ásamt öðrum í þeim tilgangi að finna aðra plánetu þar sem maðurinn getur hafið nýtt líf. Það sem ég elska hvað mest við kvikmyndir sem gerast út í geimnum er að þar fáum við að sjá hið sanna eðli mannsins þar sem aldrei hefur reynt meira á þolmörk hans. Maðurinn þarf að taka stórar ákvarðanir og svara stórum spurningum. Matt Damon verður allavega ekki tekinn í sátt aftur í bráð.

– Torfi Guðbrandsson

Bíó: Inside Llewyn Davis

Inside-Llewyn-Davis-Oscar-Isaac

Inside Llewyn Davis er nýjasta kvikmynd Coen bræðra og fjallar í stuttu máli um strögglandi tónlistarmann í New York árið 1961.

Oscar Isaac leikur tónlistarmanninn Llewyn Davis og leysir það hlutverk með miklum sóma. Hann fetar sömu fótspor og Joaquin Phoenix gerði í Walk the Line og syngur öll lögin sín í myndinni sjálfur og gerir það ótrúlega vel. Oscar er svo umkringdur flottum leikurum á borð við Carey Mulligan, Justin Timberlake, John Goodman og F. Murray Abraham.

Án þess að ætla að reifa söguþráð myndarinnar í löngu máli er allt í lagi að fara yfir það helsta.

  • Llewyn Davis (Oscar Isaac) er farinn að reyna fyrir sér sem sóló listamaður eftir að hafa verið áður í dúett.
  • Umbinn hans er kominn á aldur, gerir lítið gagn og sólóplatan selst illa.
  • Davis á hvergi heima og fær að gista hjá vinum og ættingjum.
  • Fyrrverandi kærastan Jean (Carey Mulligan) er með barni og er ekki viss hvort að Davis sé pabbinn eða nýi kærastinn, Jim (Justin Timberlake).
  • Ofan á þetta allt saman er veturinn harður og Davis á engan frakka.

Sem sagt, allt í rugli hjá Davis greyinu. Tónlistin er það eina sem hann á en honum virðist einhvern veginn vera fyrirmunað að gera sér lifibrauð úr henni.

Ég verð að segja að ég skemmti mér ótrúlega vel á myndinni fyrir hlé. Það var svo gaman að fylgjast með hrakförum Davis og það virtist ekkert falla með honum alveg sama hvað það var. Lögin voru einnig afskaplega góð og þá ber helst að nefna „Hang Me, Oh Hang Me“, „Fare Thee Well (Dink’s Song)“, „The Last Thing On My Mind“ og „Five Hundred Miles“. Atriðið þar sem að Davis tekur lagið með Jim og Al Cody var stórskemmtilegt og var það aðallega tilburðum þess síðastnefnda að þakka. Þá var ég ótrúlega ánægður með það hve lögin nutu sín vel í myndinni og fengu að lifa alveg til enda en það vill oft verða í svona tónlistarmyndum að maður fær bara að heyra brot úr lögunum.

Myndin var ekki alveg eins sterk eftir hlé og þá er aðallega um að kenna drepleiðinlegu ferðalagi Davis til Chicago með súrustu ferðafélögum kvikmyndasögunnar, þeim Roland Turner (John Goodman) og Johnny Five (Garrett Hedlund). Eftir þennan dapra kafla í myndinni fannst mér hún aldrei ná sér almennilega aftur á flug og var maður farinn að finna til með Davis greyinu. Þó að innri tími myndarinnar sé ein vika má alveg gera ráð fyrir því að framtíð Davis hafi ekki verið í tónlistinni, allavega ekki sem sólólistamaður. Mér fannst eitt af síðustu atriðum myndarinnar gefa það til kynna að róðurinn yrði erfiður enda var sjálfur Bob Dylan næstur upp á svið á eftir Davis. Eitthvað segir mér það að útsendarar útgáfufyrirtækjanna hafi frekar heillast af tónlist Dylan frekar en Davis. 

Hinir mjög svo súru ferðafélagar.

Hinir mjög svo súru ferðafélagar.

Nú veit ég að Llewyn Davis var ekki til í raun og veru þó að hugmyndin af myndinni hafi komið í gegnum bók eftir tónlistarmanninn Dave Van Rock. En örlög Llewyn Davis minna mig svolítið á Sixto Rodriguez og hljómsveitina Anvil sem hlutu endurnýjun lífdaga með heimildarmyndunum Searching for Sugar Man og Anvil: The Story of Anvil. Llewyn Davis er ekki ósvipaður Sixto en báðir eru þeir ekki hreinræktaðir Bandaríkjamenn og semja alveg ótrúlega fína tónlist sem nær af einhverjum völdum ekki að hitta í mark neins staðar. Að vísu hitti Sixto í mark í S-Afríku en þið vitið hvert ég er að fara. Eins með Anvil sem hafði allt að bera en tókst ekki að heilla útgefendur. Þá minnir Llewis mig á grínþættina Flight of the Conchords þar sem að tveimur Nýsjálendingum gengur illa að slá í gegn í New York þrátt fyrir afbragðs fína tónlist og hefur þar umboðsmaðurinn mikið að segja.

Það er örugglega til slatti af tónlistarmönnum eins og Llewyn Davis sem reyndu að harka í þessum grimma bransa en höfðu ekki erindi sem erfiði og þurftu á endanum að snúa sér að öðru til að hafa í sig og á. Ímyndaðu þér að vera að koma fram á undan eða eftir mönnum eins og Bob Dylan. Þú bara keppir ekkert við það.

Niðurstaða: Góð en hefði getað verið enn betri. Tónlistin frábær og flutningur leikara á lögunum til fyrirmyndar. Skylduáhorf fyrir þá sem hafa gaman af þjóðlagatónlist.

Torfi Guðbrandsson

Topp 5: Kvikmyndir um samkynhneigð

Til heiðurs samkynhneigðra og helgarinnar sem bíður þeirra fannst mér tilvalið að henda í smá lista yfir bestu kvikmyndir um samkynhneigð (sem ég hef séð). Það er til þó nokkur slatti af kvikmyndum sem fjallar um samkynhneigð á einn eða annan hátt en það sem ég hef séð er bara brotabrot af því úrvali sem til er.

# 5 The Kids Are All Right (2010)

the_kids_are_all_right031
Nic og Jules eru lesbískt par og eiga þær saman tvö börn, Laser og Joni. Systkinin vilja dag einn gjarnan finna sinn náttúrulega föður og er þau finna hann bjóða þau honum að hluta til inn í líf sitt sem var kannski ekki svo sniðugt eftir allt saman. Frábær og mannleg mynd sem nær að blanda saman gríni og alvöru með miklum sóma.

# 4 Mysterious Skin (2004)

Mysterious
Joseph Gordon-Levitt hefur skotist hratt upp á stjörnuhimininn á síðustu árum en hans helsti leiksigur hlýtur að vera í þessari kvikmynd þar sem hann leikur hinn ráðvillta Neil. Neil var misnotaður í æsku af þjálfara sínum ásamt öðrum dreng og eru afleiðingar þeirra gjörólíkar. Sumar senurnar í kvikmyndinni reyna mikið á en til að hafa í sig og á selur Neil sig og það eru í öllum tilvikum eldri menn með ólíkar nautnir. Þessi er ekki fyrir viðkvæma.

# 3 Brokeback Mountain (2005)

le-secret-de-brokeback-mountain-8
Brokeback Mountain er líklega ein umtalaðasta mynd seinni ára en hún vakti ansi sterk viðbrögð á sínum tíma og gerir sennilega enn. Jake Gyllenhaal og Heath Ledger heitinn voru rísandi stjörnur á þessum tíma og tóku mikinn séns með þessum hlutverkum en þeir komust svo sannarlega vel frá þeim. Jack Twist og Ennis Del Mar eru ráðnir sem fjárhirðar eitt sumarið í Wyoming og upp í fjallinu gerast hlutir sem þeim báðum óraði líklega ekki fyrir. Eftirminnileg mynd með frábærum leikurum og enn betri leikstjóra.

# 2 Milk (2008)

james-franco-penn_1788110b
Frammistaða Sean Penn í hlutverki Harvey Milk er óaðfinnanleg enda kom það engum á óvart er hann hlaut Óskarinn fyrir besta leik í aðalhlutverki. Harvey Milk var fyrsti viðurkenndi samkynhneigði stjórnmálamaðurinn í Kaliforníu og barðist hann fyrir réttindum samkynhneigðra allt til dauðadags. Myndin er falleg og í senn átakanleg en umfram allt gríðarlega vel leikin en ásamt Penn eru þarna drengir eins og James Franco, Emile Hirsch og Josh Brolin. Milk er skylduáhorf!

# 1 I Love You Phillip Morris (2009)

i-love-you-phillip-morris-www-whoisscout-com-4
Mín uppáhalds mynd um samkynhneigð er I Love You Phillip Morris sem skartar þeim Jim Carrey (my man) og Ewan McGregor (Obi-Wan Kenobi!) í aðalhlutverkum. Eftir að Steven Russell (Carrey) lendir í bílslysi hefst hjá honum nýtt líf sem samkynhneigður maður. Russell lifir hátt og nýtir þekkingu sína sem fyrrum lögregluþjónn til að svindla á kerfinu en að endingu kemst upp um gjörðir hans og hann settur í steininn. Þar kynnist hann Phillip Morris (McGregor) og fellur gjörsamlega fyrir honum. Ástin verður sterkari en frelsið sem Russell öðlast svo að nýju og heldur þá brandarinn áfram þegar hann kemur sér inn í fangelsið aftur með ýmsum brögðum til þess eins að vera með ástmanni sínum. Þó að þetta hljómi eins og algjört grín þá er Steven Russell til í alvörunni og afplánar nú sinn 140 ára fangelsisdóm.

– Torfi

Bíó: Ekkert svo ótrúlegur Wonderstone

Það var með jákvæðum hug sem ég fór á grínmyndina The Incredible Burt Wonderstone sem skartar ansi sjóuðum grínleikurum í aðalhlutverkum eða þeim Steve Carell og Buscemi sem og Jim Carrey. Ég fór reyndar bara á myndina til þess að sjá þann síðastnefnda enda verið einlægur aðdáandi hans síðan ég sá Dumb and Dumber í fyrsta sinn.

Burt (Carell) og Anton (Buscemi) voru sameinaðir í æsku er sá fyrrnefndi var að æfa sig í töfrabrögðum í skólanum. Eftir það var ekki aftur snúið og mynduðu þeir sterka vináttu sem fólst aðallega í því að stunda töfrabrögð. Á fullorðinsaldri verða þeir ráðnir sem töframenn á Aztec spilavítinu í Las Vegas sem er í eigu Doug Munny (James Gandolfini). Eftir 10 ár af sömu sýningunni minnkar aðsóknin smátt og smátt og ekki hjálpar hinn ferski Steve Gray (Carrey) til. Gray (skopstæling á Criss Angel) er einhvers konar götulistamaður og fær alveg brjálaðar hugmyndir, eins og að halda í sér þvagi til langs tíma og sofa ber að ofan á brennandi heitum kolum. Það er ljóst að til þess að auka miðasöluna þurfa æskuvinirnir að fara í naflaskoðun og gera róttækar breytingar á sýningu sinni.

Steve Gray

Og þannig hljómar söguþráðurinn í stuttu máli eða fyrri parturinn allavega. Myndin er ansi fyrirsjáanleg og maður veit alltaf hvað gerist næst, sem hefði verið í góðu lagi ef hún hefði á annað borð verið fyndin. Mínum manni til varnar var hann lítið í mynd en honum tókst líklega best af öllum að fá mig til að hlæja.

Því miður er ég búinn að missa þolinmæðina á Steve Carell, hann var ekkert fyndinn og ástæðan fyrir því er líklega sú að hann lifir ennþá á gömlu látbrögðunum og töktunum. Fyrir mér hefur hann ekkert þróast sem grínleikari síðan að ég sá hann fyrst í Bruce Almighty. Gömlu brandararnir virka ekki lengur og maður vorkenndi meistara Buscemi að þurfa standa þarna hliðina á honum í flestum atriðum sínum. Svo ég tali nú ekki um Alan Arkin sem nýverið sló í gegn í Argo þar sem hann lék á móti John Goodman, maðurinn hefur líklega þurft á áfallahjálp að halda eftir að hafa leikið í senunum með Carell. Persónuleikabreytingar Carells voru einnig ódýrar en til að byrja með var hann þessi graða týpa sem stígur ekki beint í vitið en breytist svo í afskaplega umhyggjusaman einstakling á elliheimilinu Grund. Fyrirgefið en ég var ekki að kaupa þetta og húmorinn og handritsgerð á ansi lágu plani þarna.

Augnayndið Olivia Wilde gerði veru mína í Álfabakka ögn skárri enda glæsileg kona í alla staði. James Gandolfini átti ágætis spretti sem og greyið Buscemi en það eitt að horfa á hann var nóg til þess að hlæja smá. Annars voru það atriðin með Jim Carrey sem stóðu upp úr og hann hreinlega neitar að gefast upp í þessum annars miskunnarlausa bransa. Að vísu fékk hann úr alltof litlu að moða og hefði myndin verið betur sett hefði hann fengið fleiri mínútur.

Jane

Olivia sæta að framkvæma töfrabragð.

The Incredible Burt Wonderstone er ekki nógu fyndin og á köflum smekklaus og ef ekki væri fyrir nærveru Jim Carrey og Oliviu Wilde og innkomulag Burt og Antons „Abracadabra“ með Steve Miller Band væri ég búinn að gleyma henni.

– Torfi

Velvet Goldmine: Óður til glysrokksins

velvet-goldmine

Kvikmyndin Velvet Goldmine frá árinu 1998 er ágætis skemmtun og sérstaklega fyrir þá sem hafa gaman af tónlist. Leikstjóri myndarinnar er Todd Haynes en hann leikstýrði meðal annars I’m Not There. þar sem Bob Dylan var túlkaður á marga vegu.

Christian Bale leikur blaðamanninn Arthur Stuart sem fær það verðuga verkefni að komast að því hvað varð um poppstjörnuna Brian Slade (leikinn af Jonathan Rhys Meyers) sem gerði það gott á áttunda áratugnum en hvarf skyndilega af sjónarsviðinu með sviðsettum dauða að öllum líkindum. Arthur er reyndar vel kunnugur þessa tímabils enda var hann sjálfur mikill aðdáandi Brian Slades og glysrokksins.

Karakterinn Brian Slade er að miklu leyti byggður á David Bowie og karakternum hans Ziggy Stardust sem og Marc Bolan frontmanni T. Rex. Það skín alveg í gegn í myndinni en því miður var David Bowie sjálfur ekkert sérstaklega hrifinn af þessu uppátæki leikstjórans og bannaði honum meðal annars að nota tónlistina sína í henni auk þess sem endurskrifa þurfti handritið.

Ewan McGregor leikur söngvarann Curt Wild sem byggður er á Iggy Pop og Lou Reed en báðir voru þeir nánir Bowie á sínum tíma. Reyndar minnir karakterinn óneitanlega mikið á Kurt Cobain en það var aldrei ætlunin að sögn Ewan og Haynes en að þeirra sögn gætu líkindin stafað af því að Kurt hafi verið undir miklum áhrifum frá Iggy Pop.

Það sem heldur kvikmyndinni uppi er fyrst og fremst tónlistin en það voru engir aukvissar sem voru á bakvið hana. Settar voru saman tvær hljómsveitir, hin breska The Venus in Furs sem innihélt þá Thom Yorke og Johnny Greenwood (Radiohead), Bernard Butler (Suede), Andy Mackay (Roxy Music) og David Gray og var hún hljómsveitin á bakvið Brian Slade. Ameríska hljómsveitin sem studdi við bakið á Curt Wild kallaðist Wylde Ratttz og stóð saman af Ron Asheton (The Stooges), Thurston Moore og Steve Shelley (Sonic Youth) og þremur öðrum minna þekktum listamönnum. Þá gegna meðlimir Placebo örlitlu hlutverki í myndinni og spila meðal annars sína útgáfu af „20th Century Boy“.

christian-velvet-goldmine---miramax

Christian Bale í gervi sínu í myndinni.

Aðalleikararnir þrír standa sig allir vel en þó þykir mér Rhys Meyers vera sístur af þeim enda hef ég aldrei verið neitt sérstaklega hrifinn af kauða sem leikara. Christian Bale er ólíkur sjálfum sér enda er karakterinn hans talsvert kvenlegri en hann er þekktur fyrir í dag. Hann sýnir þó traustan leik eins og hans er von og vísa og heldur myndinni saman. Ewan McGregor stendur sig vel og þá sérstaklega í söngnum en hann söng lögin sín sjálfur og gef ég mönnum alltaf prik fyrir það.

Ég tel að þessi kvikmynd sé eilítið vanmetin og á fárra vitorði en ég mæli hiklaust með henni og sérstaklega fyrir þá sem hafa dálæti á tónlist með áherslu á glysrokkið.

– Torfi

51 árs Jim Carrey væntanlegur á hvíta tjaldið í ár

Á mínum yngri árum var ég mikill aðdáandi Jim Carrey og er enn. Ég hef lagt það í vana minn að horfa á eina mynd með honum á afmælisdaginn hans, 17. janúar og gærdagurinn var þar engin undantekning. The Truman Show varð fyrir valinu að þessu sinni en hún er með betri myndum grínleikarans geðþekka.

Hann var hvergi sjáanlegur á hvíta tjaldinu í fyrra en í ár verður þar breyting á því að hann mun leika í kvikmyndunum The Incredible Burt Wonderstone og Kick-Ass 2. Í fyrrnefndu myndinni leikur hann töframanninn Steve Gray (sem minnir svolítið á Kid Rock) en þar leikur hann á móti Steve Carell en þeir léku einmitt saman í Bruce Almighty þar sem að Carell fór á kostum. Stiklan fyrir myndina lítur gríðarlega vel út en gaman verður að fylgjast með gömlu kempunum og sjá hvort að þeir geti ekki enn kitlað hláturtaugar fólks.

getImageByAdminMovieIdÍ Kick-Ass 2 leikur hann svo ofursta en það verður spennandi að sjá hvernig hann tekur sig út í henni en Nicolas Cage var til að mynda frábær í fyrri myndinni og sýndi á sér glænýja hlið. Á næsta ári má svo búast við framhaldi af kvikmyndinni sem breytti ferli Jim Carrey á sínum tíma eða Dumb and Dumber. Það eru blendnar tilfinningar í gangi hjá mér varðandi númer tvö en hún verður annað hvort stórkostleg eða hræðileg en samt aldrei verri en Dumb and Dumberer: When Harry Met Lloyd sem hlýtur að vera ein versta mynd allra tíma!

Sum sé, tvær áhugaverðar myndir framundan hjá einum besta grínleikara síðari ára.

– Torfi