Category Archives: Topp 5

Topp 5: Íslensku plöturnar 2017

Íslenska plötuárið 2017 var gjöfult og kom út ógrynni af efni. En þrátt fyrir margar útgáfur átti ég erfitt með að manna topp 5 lista yfir bestu plötur ársins. Það er þó ekki við listamennina að sakast heldur fyrst og fremst sjálfan mig þar sem erfitt er að komast yfir svona mikið af efni á stuttum tíma. En þær plötur sem skipa efstu 5 sætin hjá mér voru sennilega þær sem ég hlustaði mest á yfir árið og kannski ekki furða þar sem mér þótti þær bera af. Það getur vel verið að listinn myndi líta öðruvísi út eftir hálft ár en ég er nokkuð viss um að plöturnar í topp 4 myndu alltaf halda sér. En eins og staðan er á mér í dag eru þetta 5 bestu íslensku plötur ársins 2017.

# 5 Sturla Atlas – 101 Nights

101 Nights er fjórða plata Sturla Atlas en þeir hafa verið afar duglegir að semja og senda frá sér efni frá því að frumburðurinn Love Hurts kom út 2015. 101 Nights er þeirra besta verk til þessa og sýnir fram á að strákarnir eru búnir að þroskast heilmikið sem lagahöfundar. Gallinn við fyrri verk er sá að plöturnar voru ekki nægilega sterkar í heildina en áttu þó ágætis spretti og frábær lög inn á milli. Hér gætir aðeins meira jafnvægis, kannski engir dúndur slagarar en lögin eru öll yfir meðallagi góð og platan heldur dampi út í gegn. Nýtingin á „Svaraðu“ með king Herbert Guðmundsson í „Leap of Faith“ er svo dásamleg.

Lykillög: Mean 2 You, One Life, Time, Waiting.

# 4 Auður – Alone 

Auður er listamaður sem ég fæ hreinlega ekki nóg af, bæði í þeim skilningi að ég get hlustað endalaust á tónlistina hans og hann gefur ekki út nógu mikið efni. Frumraun hans Alone er vandað verk og rennur ljúflega í gegn. Öll lög eru tengd og platan er í raun eins og eitt langt lag. Titill plötunnar ber nafn með rentu en yrkisefnið er fjarveran frá kærustunni sem hélt utan til náms. Auður skefur ekki af hlutunum og lætur allt flakka og mæli ég hiklaust með plötunni fyrir rómantíska kvöldstund með makanum. Já og án makans líka.

Lykillög: 3D, Both Eyes on You, South America, When It’s Been a While.

# 3 Ásgeir – Afterglow 

Það var alltaf að fara að vera vandasamt verk að fylgja á eftir velgengni Dýrð í dauðaþögn sem kom Ásgeiri Trausta á kortið árið 2012 og gerði hann að einu heitasta nafni íslensku senunnar. En það tókst furðu vel og er Afterglow verðugur eftirfari frumburðarins. Hljóðheimurinn er orðinn stærri og meiri pælingar eru í gangi. Þó ég sé mikill aðdáandi gamla Ásgeirs Trausta og íslensku textana sem prýddu fyrstu plötuna þá sýnir hann hér að hann er enginn sveitapiltur lengur og hefur þroskast heilan helling sem tónlistarmaður.

Lykillög: Afterglow, Dreaming, Stardust, Unbound.

# 2 Aron Can – Ínótt

Aron Can. Hvað getur maður sagt um þetta undrabarn? Ínótt er í rauninni hans fyrsta stóra plata og fylgir á eftir hinni glæsilegu frumraun, Þekkir stráginn. Platan telur heil 13 lög og ekkert hálfkák í gangi. Platan kom út á vegum plötuútgáfunnar Sticky og er cd útgáfan hin glæsilegasta. Innihaldið er gott líka og það vefst ekkert fyrir Aroni og félögum að búa til slagara og góð lög. Meira svona!

Lykillög: Fremst þegar ég spila, Fullir vasar, Geri þetta allt, Ínótt, Sleikir á þér varirnar.

# 1 Joey Christ – Joey 

Jóhann Kristófer eða Joey Christ var afkastamikill á síðasta ári en ásamt því að standa í útgáfu með Sturlu Atlas-flokknum sendi hann frá sér tvær plötur með viku millibili í byrjun júlí. Sú fyrri, Anxiety City var á ensku en sú síðari, Joey var á íslensku og hitti beint í mark hjá mér. Fyrir utan fyrsta lagið á plötunni eru gestir í öllum lögunum og það eru þeir ásamt Joey sem gera plötuna að því sem hún er. Þessir gestir setja svip sinn á lögin og eru ekki valdir í verkefnið af ástæðulausu. Stíllinn hans Joey er skemmtilegur og stundum hálf kjánalegur eins og t.d. í laginu „Ísvélin“ þar sem hann fer í nokkrar augljósar staðreyndir í byrjun lagsins. Innkoma Sturlu Atlas er líka kómísk í meira lagi þar sem hann talar fallega til síns besta vinar. Jóhann fylgist greinilega vel með í músíkinni og ber nýting hans á hljómsveitinni Súkkat í laginu „Ísland“ vott um það. Sömuleiðis sækir hann í efnivið 12:00 og notar aðalstefið úr því í lagið „Gella Megamix“ sem stendur undir nafni. Þegar allt kemur til alls er platan stórskemmtileg og tekur sig mátulega alvarlega og sýnir svart á hvítu að Joey Christ getur vel staðið á eigin fótum.

Lykillög: G Blettur, Hanga með mér, Ísvélin, Joey Cypher, Túristi.

Torfi Guðbrandsson

Auglýsingar

Topp 5: Plötuumslög ársins 2017

Það er komið að árlegu uppgjöri í tónlist og kvikmyndum. Ég hef ekki skrifað um flottustu plötumslögin síðan 2014 en mér finnst ástæða til að byrja árslistarununa á þeim núna. Vonandi verður ekki langt í næstu árslista en ég stefni á að fjalla um bestu kvikmyndir ársins sem og bestu íslensku plöturnar og lögin.

# 5 Auður – Alone 

Auður er í miklu uppáhaldi hjá mér og umslagið fyrir frumraun hans Alone er í takt við tónlistina hans, nútímaleg.

# 4 Moses Hightower – Fjallaloft

Eitt af einkennismerkjum Moses Hightower eru sniðug og falleg umslög á plötunum þeirra. Umslagið fyrir Fjallaloft er þar engin undantekning þar sem kaldhæðnin svífur yfir vötnum.

# 3 Aron Can – Ínótt

Sjaldan hefur umslag fangað tíðarandann eins vel og þetta hér. Ungur og hæfileikaríkur rappari sem er umvafinn rafrettureyk líkt og nánast hver einasti aðdáandi hans. Fjólublái tónninn gerir svo útslagið.

# 2 Pink Street Boys – Smells Like Boys 

Umslagið fyrir fyrstu plötu Pink Street Boys var sturlað og klárlega það flottasta árið 2015. Umslagið fyrir nýju plötuna er sömuleiðis sturlað og afar lýsandi fyrir tónlist Pink Street Boys.

# 1 Elli Grill – Þykk fitan vol. 5

Sigurvegari ársins kemur kannski úr óvæntri átt enda platan ekki fáanleg í föstu formi en sigurinn ætti ekki að koma á óvart þegar umslagið er skoðað. Það er teiknimyndasögufýlingur í þessu umslagi og augljóslega vandað til verka.

 

Torfi Guðbrandsson

Topp 5: Bestu íslensku plöturnar 2016

Það er svolítið liðið á árið og ég ætlaði að láta það vera að gera fleiri árslista. Ég hef hins vegar ekki náð almennilegum svefni þar sem mér finnst ég eiga eftir óklárað verk, ég verð hreinlega að koma þessu frá mér. Ég ætla hins vegar að hafa þetta einfalt og stutt.

# 5 Kaleo – A/B 

kaleo-a-b

A/B er fyrsta plata Kaleo fyrir alheimsmarkað. Fyrir okkur Íslendingum er hún bæði gömul og ný enda fjögur lög að finna af frumburði Kaleo og sex ný lög sem ekki hafa komið út á plötu áður. Kaleo tekst að púsla þessu vel saman og ákveður að skipta plötunni hálfpartinn í tvennt. Á a-hliðinni er meira um rokk og ról á meðan b-hliðin er á rólegri nótunum. Persónulega set ég b-hliðina oftar á heima í stofu. Feykifín plata frá Mosfellingunum sem útlendingurinn ætti að taka vel í.

Lykillög: All the Pretty Girls, Save Yourself, Way Down We Go.

# 4 Júníus Meyvant – Floating Harmonies 

junius-meyvant-floating-harmonies

Þessari plötu hafði ég beðið eftir lengi. Á meðan biðinni stóð hafði Júníus Meyvant gefið út 4 lög sem var hvert öðru betra þó að hann hafi aldrei náð að toppa „Color Decay“ að mínu mati. Platan er nokkuð þægileg áheyrnar þó að við og við komi fram öflugt brass. Viðurkenni þó að ég bjóst við meiri epík.

Lykillög: Color Decay, Gold Laces, Mighty Backbone.

# 3 Emmsjé Gauti – Vagg & velta

vaggogvelta

Rétt eins og með plötu Júníusar hafði maður beðið eftir þessari í nokkra mánuði. Emmsjé Gauti nýtti sér meðbyrinn frá rappárinu mikla 2015 og gaf út tvær plötur! Vagg & velta var hins vegar platan sem allir voru að bíða eftir. Platan er góð en líður þó fyrir lengd sína sem gerir það að verkum að hún hafnar í 3. sæti. Að mínu mati eru fjórir farþegar á plötunni sem hefðu mátt lenda á klippiborðinu. Restin dugar þó í að skila Vagg & veltu í bronssætið.

Lykillög: Djammæli, Loftsteinn, Reykjavík, Silfurskotta, Strákarnir.

# 2 GKR – GKR EP 

gkr

Einn mánudagsmorgun leit þessi 9 laga EP plata dagsins ljós sem enginn bjóst við en allir voru hins vegar til í. GKR fór óhefðbundna leið í útgáfu en fyrst og fremst var það innihaldið sem skipti máli. GKR klikkaði ekki á því. Slagarana „Morgunmatur“ og „Tala um“ var að sjálfsögðu að finna ásamt fleiri afbragðslögum. GKR sker sig úr í rappsenunni á Íslandi og hefur sinn einstaka stíl sem er eilítið hallærislegur en á sama tíma grjótharður.

Lykillög: Meira, Morgunmatur, Tala um, Velkomin

# 1 Aron Can – Þekkir stráginn 

aroncan

Það er eiginlega rannsóknarefni hvernig 16 ára piltur getur bara mætt á svæðið og toppað allt sem er í gangi í íslenskri tónlistarsenu. Flestir á þessum aldri hafa vit á því að bíða í nokkur ár og nýta tímann í að æfa sig meira, fá meiri reynslu og þroska sig sem tónlistarmenn en það er ekki tilfellið með Aron Can. Drengurinn hefur allan pakkann, útlitið, röddina og lögin. Velgengnin hefur fært honum frægð og frama sem hefur stigið honum eilítið til höfuðs undanfarið en er við öðru að búast þegar maður getur státað sig af lagi eins og „Rúllupp“ tveimur árum eftir fermingu? Stjörnustælarnir munu eldast af honum en við skulum vona að hæfileiki hans til að skapa tónlist fari ekki neitt.

Lykillög: Enginn mórall, Rúllupp, Þekkir stráginn.

Torfi Guðbrandsson

 

 

Topp 5: Lánsmyndir í vanskilum

Það er ekki tekið út með sældinni að vera DVD-safnari í dag. Það er í raun óskiljanlegt að einhver hafi sig út í slíka vitleysu enda getur áhugamálið verið dýrt og plássfrekt á heimilinu. En það eru bara sumar myndir sem maður verður að eiga og hafa til taks þegar upp kemur sú staða að það er ekkert að gera. Ég er þó ekki það slæmur þó ég segi sjálfur frá og gæti átt helmingi fleiri myndir ef það væri ekki stoppari á mér sem er yfirleitt kærasta mín.

Það er þó annar galli á þessu áhugamáli sem er talsvert verri en kostnaðurinn og plássleysið. Það munu vera vinirnir eða ættingjarnir sem vilja fá myndir úr safninu lánaðar. Ég hef frekar slæma reynslu af þessu enda ekki eins mikil pressa á að skila myndinni til vinar síns eins og að skila henni daginn eftir á videoleiguna sem fer nú brátt að heyra sögunni til. Til að sporna við þessu vandamáli tók ég uppá því að skrá niður lánsmyndir á word skjal þar sem ég litaði nafn myndarinnar gult og skrifaði nafn þess sem fékk hana lánaða fyrir aftan. Þannig gat ég alltaf fylgst með hvar myndirnar mínar voru niðurkomnar og haft samband við viðkomandi þegar lánið hafði staðið yfir alltof lengi. Það dugði þó ekki til með þær myndir sem ég mun fara yfir hér á topp 5 listanum. Þær myndir hafa ekki enn skilað sér og í öllum tilvikum nema einu hef ég þurft að fjárfesta í nýju eintaki af þeim.

Ég segi við þá sem að eru að hugsa um að fara út í það að safna myndum á einhverju formi að halda fast utan um þær og ekki undir nokkrum kringumstæðum missa myndirnar út fyrir dyr heimilisins í hendur vina eða ættingja sem lofa öllu fögru á staðnum en svíkja svo loforðið þegar fram líða stundir. Þetta er stórvarasamt fólk þegar kemur að akkúrat þessu og því skuluð þið helst ekki hafa myndirnar fyrir allra augum en nú geymi ég mínar myndir í læstum skáp. En vindum okkur í listann.

# 5 Djöflaeyjan – Pétur Andreas Maack

d5_d__0_DevilsIsland_grande
Pétur fékk myndina lánaða snemma í fyrra en það gerði ég með miklum trega enda reynslan af því að lána myndir ekki góð. Ég ákvað þó að gera undantekningu enda Pétur drengur góður og hann kom reglulega í klippingu hjá frúnni. En eitthvað hefur dregið úr vexti hársins enda hefur Pétur ekki látið sjá sig síðan. Myndin hefur því ekki enn skilað sér í hús og þar með er ég opinberlega hættur að lána myndir.

# 4 Godzilla – SBS

godzilla
Ég geri mér fulla grein fyrir því að Godzilla frá árinu 1998 er ekki góð mynd. En fólk verður að taka það með í reikninginn að ég var að verða 9 ára þegar myndin var frumsýnd og ég var með mikið risaeðlublæti á þeim tíma. Staðan er hins vegar sú að á sama tíma og ég lánaði SBS Godzilla fékk ég That Thing You Do! lánaða frá honum sem ég hef ekki heldur skilað. Við erum því jafn sekir í þessu og ef hann er að lesa þetta þá er ég tilbúinn að skila honum myndinni gegn því skilyrði að ég fái mína til baka.

# 3 Baby Boy – Sigurður Edgar 

Baby_boy
Eina VHS myndin á þessum lista er Baby Boy frá árinu 2001 sem er jafnframt fyrsta kvikmynd Tyrese Gibson. Sennilega sú mynd sem ég horfði mest á unglingsárum mínum þangað til að frændi minn, Sigurður Edgar fékk hana lánaða og skilaði aldrei aftur. Til allrar hamingju fann ég myndina á Laugarásvideo um daginn á DVD og keypti hana á 600 krónur. Það var góð tilfinning að setja myndina í tækið eftir 14 ára fjarveru og leið mér eins og ég væri orðinn 13 ára aftur. Lærdómurinn sem ég dró af þessu útláni er að ekki er heldur hægt að treysta frændfólki sínu og er það ekki síður óáreiðanlegt og vinir manns þegar kemur að þessu.

# 2 A Clockwork Orange – Kristófer Rósinkranz 

aclock
Við Kristófer áttum samleið árið 2007 þegar við vorum saman í leikriti og hljómsveit. Afar viðkunnanlegur náungi. Einhvern tímann barst talið að uppáhalds kvikmyndunum okkar og ég ljóstraði því upp að mín væri A Clockwork Orange. Hann hafði ekki séð hana áður en hafði keypt sér nýtt sjónvarp á þeim tíma og fannst tilvalið að vígja nýja sjónvarpið með meistaraverki Kubrick. Það versta var að ég hafði slæma tilfinningu fyrir útláninu og gerði ráð fyrir að sjá hana aldrei aftur. Ég beið því ekki lengi eftir því að bæta henni við í safnið að nýju og fjárfesti í henni í annað skiptið þegar ég sá hana til sölu í kaupfélaginu á Hellu sumarið 2007.

# 1 Star Wars: Episode II – Attack of the Clones – Anton Bjarni

swii
Ástæðan fyrir því að þessi vonda mynd situr á toppi listans er sú að hún hefur verið lengst í útláni fyrir utan Baby Boy en þar sem SWII er DVD-mynd hefur hún vinninginnLengi hefur Star Wars safnið mitt verið ófullkomnað vegna fjarveru þessarar en til allrar hamingju fann ég eintak af henni á litlar 300 krónur um daginn og gat því loksins fullkomnað safnið. Það verður þó að segjast að hún hefur versnað með árunum og er hún að mínu mati sísta Stjörnustríðsmyndin. Myndina fékk ég í jólagjöf frá frænku minni jólin 2002 og horfði ég á hana oft og mörgum sinnum næsta árið. Anton fékk hana svo lánaða 2004 og hefur hún verið í hans fórum síðan.

Eins og sjá má á þessum lista getur líf DVD-safnarans verið erfitt. Ég reiknaði gróflega hvað ég hef tapað miklu á því að lána þessar myndir út og fer upphæðin sem ég hef eytt í myndirnar „aftur“ uppí rúmlega 4000 krónur. Fyrir utan SWII keypti ég allar hinar á sínum tíma og þá dýrara verði enda flestar glænýjar svo að sá kostnaður er ennþá hærri en 4000 krónurnar. Þannig að safnarinn tapar gríðarlegum fjármunum þegar vinirnir fá myndir lánaðar og skila þeim ekki.

Ég ítreka enn og aftur áhættuna sem fylgir því að lána myndir úr safninu sínu. Þú átt á hættu að sjá þær aldrei aftur. Næst þegar vinur ykkar kemur í heimsókn og spyr hvort að hann megi fá mynd lánaða spyrjið þá á móti: „Fá hana lánaða? Meinarðu ekki frekar að má ég eiga hana?“. Hinn möguleikinn er að stinga uppá því að horfa á myndina saman í sömu heimsókninni eða þá fara með myndina til viðkomandi þegar þið hittist næst og horfa á hana saman.

Ég vona að þetta blogg og þessi ráð nýtist ykkur söfnurunum þarna úti og þið hin sem eruð með myndir í vanskilum, vinsamlegast skilið þeim í hvelli.

Torfi Guðbrandsson

Topp 5: Plötuumslög ársins 2014

Plötuumslög geta skipt miklu máli. Plata sem er falleg að utan getur nefnilega verið ansi vond að innan en þá er einmitt mikilvægt að ná til hlustandans í skamma stund og enn betra ef hann kaupir plötuna út í búð þó hann verði fyrir vonbrigðum þegar heim er komið. Blessunarlega eru eftirfarandi listamenn á þessum lista lausir við það að gera vonda tónlist en eiga það allir sameiginlegt að pakka tónlistinni sinni inn í fallegar umbúðir.

# 5 Skálmöld – Með vættum

skalmold_med_vaettum_filnal_cover-2-600x600
Ég er í miklu víkingastuði þessa dagana þökk sé þáttunum Vikings. Umhverfið á þessu umslagi er því kunnuglegt.

# 4 Prins Póló – Sorrí 

Sorrí
Einkennismerki prinsins er svo ótrúlega einfalt og skemmtilegt en oft er einfaldleikinn bestur. Hann skilar umslagi prinsins að þessu sinni í 4. sæti.

# 3 The Vintage Caravan – Voyage

the-vintage-caravan_voyage
Endurútgáfa Nuclear Blast Records af plötunni Voyage sem kom upphaflega út árið 2012 er litrík og má alveg ímynda sér að meðlimir séu staddir inn í þessum tryllta vagni á hraðferð út í ruglið.

# 2 Samaris – Silkidrangar 

silkidrangar
Þetta gulllitaða kattardýr náði mér strax rétt eins og tónlist Samaris. Ekkert meira um það að segja svo sem.

# 1 Elín Helena – Til þeirra er málið varðar 

Elín til
Hér eru körfuboltamenn í kröppum dansi en eins og við sjáum á hártísku og búningum eru allnokkur ár síðan að Bjarnleifur Bjarnleifsson smellti af. Afar lýsandi mynd fyrir innihaldið.

Þessi voru einnig heit:

Börn – s/t
Grísalappalísa – Rökrétt framhald
Mono Town – In the Eye of the Storm
Rökkurró – Innra
Teitur Magnússon – 27
Vio – Dive In

– Torfi

Topp 5: Góð Eurovision lög

Það eru skiptar skoðanir um Eurovision, annað hvort elskaru keppnina eða hatar. Ég viðurkenni það að ég hef gaman af keppninni þó að meirihlutinn af lögunum sé voðalega vondur. En það leynast þó inn á milli virkilega fín lög og nú hef tekið saman lista yfir 5 lög sem gefa ekki endilega góða mynd af Eurovision formúlunni.

# 5 Lena – „Taken by a Stranger“ (Þýskaland 2011)

Screen Shot 2014-05-10 at 1.21.06 PM
Lena vann keppnina árið áður með ansi leiðinlegu lagi en snéri til baka með helmingi betra lag. Lagið er sjóðandi heitt og það minnir mig alltaf á Air. 10 sæti var hins vegar hlutskipti Lenu þetta árið með 107 stig.

# 4 Twin Twin – „Moustache“ (Frakkland 2014)

Twin-Twin-Moustache-France-Eurovision-2014-600x400
Besta lagið í keppninni í ár er framlag Frakka. Það keppir enginn við franska tungumálið og franska taktinn en samt ætla einhver 25 atriði að gera það í kvöld.

# 3 Dr. Spock – „Hvar ertu nú?“ (Ísland 2008)

Dr Spock - Iceland Airwaves (6)
Lagið var því miður ekki framlag Íslands í Eurovision sem er synd og skömm enda hrikalega sterkt lag hér á ferðinni. En sex árum síðar eru þrír meðlimir Dr. Spocks að fara að stíga á stóra sviðið undir merkjum Henson og Pollapönks.

# 2 Wig Wam – „In My Dreams“ (Noregur 2005)

wigwam2

Glysrokkararnir í Wig Wam slógu eftirminnilega í gegn árið 2005 með þessum slagara sínum og nutu gífurlegra vinsælda í heimalandi sínu í kjölfarið. Fólk var að fýla þetta og þeir enduðu í 9. sæti með 125 stig.

#1 Sébastien Tellier – „Divine“ (Frakkland 2008)

Screen Shot 2014-05-10 at 12.35.42 PM
Franski tónlistarmaðurinn heillaði mig árið 2008 með þessu lagi sínu. Við nánari athugun kom í ljós að Sébastien er alvöru og var til að mynda platan hans Sexuality pródúseruð af Guy-Manuel úr Daft Punk. Lagið endaði í 19. sæti með 47 stig.

 

Topp 5: Plötuumslög ársins 2013

Þá er Potturinn kominn í árslistafýling og ætlar m.a. að útnefna plötur ársins og lög ársins. Aldrei áður hefur höfundur þó útbúið lista yfir plötuumslög ársins sem er náttúrulega algjör synd enda verður að hæla því eins og innihaldinu. Hér koma fimm bestu plötuumslög ársins.

# 5 Hymnalaya – Hymns 

Hymnalaya

Fyrsta plata hljómsveitarinnar Hymnalaya er afskaplega ljúf hlustunar og að sama skapi er plötuumslagið fallegt og gefur manni í raun strax hugmynd um að fyrir innan leynist eitthvað huggulegt. Heiðurinn af verkinu á Gísli Hrafn Magnússon en hann er einmitt meðlimur í Hymnalaya og spilar á gítar.

# 4 Dj. Flugvél og Geimskip – Glamúr í geimnum

Dj. Flugvél

Þegar maður heyrir nafnið á plötunni „Glamúr í geimnum“ er myndin sem maður fær upp í hugann bara nokkuð líkleg til þess að líta út eins og á viðkomandi plötuumslagi. Steinunn Eldflaug Harðardóttir sem er manneskjan á bakvið Dj. Flugvél og geimskip er bílstjóri ferðarinnar út í geim og það er erfitt að neita tilboðinu.

# 3 Berndsen – Planet Earth 

Berndsen

Það er ekki endilega vegna framhliðarinnar sem að Planet Earth hlýtur atkvæði mitt en opnan er ekki síður falleg og gerir plötuna að enn eigulegri grip. Framhliðin minnir mann svolítið á umhverfið í gömlu Tron myndinni og hefur maður eilitlar áhyggjur af Berndsen þarna hinum megin við skjáinn.

# 2 Tilbury – Northern Comfort

Tilbury___Northe_5272377cb8447

Annað árið í röð fær Hugleikur Dagsson það verkefni að búa til umslag fyrir bróðir sinn í Tilbury og eins og í fyrra tekst honum vel til. Myndin grípur augað strax með fallegum lit og geimfara á villigötum. Tilbury þurfa að vera duglegir að gefa út plötur til að halda þessum fallega myndaflokki gangandi.

# 1 Ojba Rasta – Friður 

Ojba_Rasta___Fri_525eeee5c927c

Það var náttúrulega aldrei spurning hvaða plata væri með fallegasta umslagið í ár. Ragnar Fjalar Lárusson nær að toppa sig frá því í fyrra en það plötuumslag var ekki síður fallegt og nokkuð ljóst að hann á eftir að láta mikið að sér kveða á næstu árum. Platan fer til spillis inn í plötuskáp og ætti að fara beint í ramma og upp á vegg.

Topp 5: Kvikmyndir um samkynhneigð

Til heiðurs samkynhneigðra og helgarinnar sem bíður þeirra fannst mér tilvalið að henda í smá lista yfir bestu kvikmyndir um samkynhneigð (sem ég hef séð). Það er til þó nokkur slatti af kvikmyndum sem fjallar um samkynhneigð á einn eða annan hátt en það sem ég hef séð er bara brotabrot af því úrvali sem til er.

# 5 The Kids Are All Right (2010)

the_kids_are_all_right031
Nic og Jules eru lesbískt par og eiga þær saman tvö börn, Laser og Joni. Systkinin vilja dag einn gjarnan finna sinn náttúrulega föður og er þau finna hann bjóða þau honum að hluta til inn í líf sitt sem var kannski ekki svo sniðugt eftir allt saman. Frábær og mannleg mynd sem nær að blanda saman gríni og alvöru með miklum sóma.

# 4 Mysterious Skin (2004)

Mysterious
Joseph Gordon-Levitt hefur skotist hratt upp á stjörnuhimininn á síðustu árum en hans helsti leiksigur hlýtur að vera í þessari kvikmynd þar sem hann leikur hinn ráðvillta Neil. Neil var misnotaður í æsku af þjálfara sínum ásamt öðrum dreng og eru afleiðingar þeirra gjörólíkar. Sumar senurnar í kvikmyndinni reyna mikið á en til að hafa í sig og á selur Neil sig og það eru í öllum tilvikum eldri menn með ólíkar nautnir. Þessi er ekki fyrir viðkvæma.

# 3 Brokeback Mountain (2005)

le-secret-de-brokeback-mountain-8
Brokeback Mountain er líklega ein umtalaðasta mynd seinni ára en hún vakti ansi sterk viðbrögð á sínum tíma og gerir sennilega enn. Jake Gyllenhaal og Heath Ledger heitinn voru rísandi stjörnur á þessum tíma og tóku mikinn séns með þessum hlutverkum en þeir komust svo sannarlega vel frá þeim. Jack Twist og Ennis Del Mar eru ráðnir sem fjárhirðar eitt sumarið í Wyoming og upp í fjallinu gerast hlutir sem þeim báðum óraði líklega ekki fyrir. Eftirminnileg mynd með frábærum leikurum og enn betri leikstjóra.

# 2 Milk (2008)

james-franco-penn_1788110b
Frammistaða Sean Penn í hlutverki Harvey Milk er óaðfinnanleg enda kom það engum á óvart er hann hlaut Óskarinn fyrir besta leik í aðalhlutverki. Harvey Milk var fyrsti viðurkenndi samkynhneigði stjórnmálamaðurinn í Kaliforníu og barðist hann fyrir réttindum samkynhneigðra allt til dauðadags. Myndin er falleg og í senn átakanleg en umfram allt gríðarlega vel leikin en ásamt Penn eru þarna drengir eins og James Franco, Emile Hirsch og Josh Brolin. Milk er skylduáhorf!

# 1 I Love You Phillip Morris (2009)

i-love-you-phillip-morris-www-whoisscout-com-4
Mín uppáhalds mynd um samkynhneigð er I Love You Phillip Morris sem skartar þeim Jim Carrey (my man) og Ewan McGregor (Obi-Wan Kenobi!) í aðalhlutverkum. Eftir að Steven Russell (Carrey) lendir í bílslysi hefst hjá honum nýtt líf sem samkynhneigður maður. Russell lifir hátt og nýtir þekkingu sína sem fyrrum lögregluþjónn til að svindla á kerfinu en að endingu kemst upp um gjörðir hans og hann settur í steininn. Þar kynnist hann Phillip Morris (McGregor) og fellur gjörsamlega fyrir honum. Ástin verður sterkari en frelsið sem Russell öðlast svo að nýju og heldur þá brandarinn áfram þegar hann kemur sér inn í fangelsið aftur með ýmsum brögðum til þess eins að vera með ástmanni sínum. Þó að þetta hljómi eins og algjört grín þá er Steven Russell til í alvörunni og afplánar nú sinn 140 ára fangelsisdóm.

– Torfi

Topp 5: Huldumenn í tónlistinni

Sumir tónlistarmenn hafa farið þá leið að hylja andlit sín og eru ástæðurnar mismunandi eftir hverjum og einum. Potturinn fór í smá rannsóknarvinnu og leitaði af þeim helstu sem eru þekktari fyrir grímurnar sínar heldur en sín eigin andlit.

# 5 The Knife

The Knife III The Knife II
Sænsku systkinin hafa reyndar ekki stuðst við grímurnar alfarið en eru þó líklegri til að þess að setja þær upp ef eitthvað stendur til. Þau eru ekki mikið gefin fyrir athyglina og vilja síður fara í viðtöl eða koma fram á opinberum vettvangi. Systirin er einnig þekkt undir nafninu Fever Ray og er hún óþekkjanleg þsr sem fyrr.

# 4 SBTRKT

música/TUMBALONG Bon Chat, Bon Rat (AUS), Electric Wire Hustle (NZ), Ghostpoet (UK), LUNICE (CAN), Mitzi (AUS), SBTRKT (UK), Simon Caldwell (AUS), Tiger & Woods (ITA) sbtrkt-608x608
Tónlistamaðurinn Aaron Jerome sem kallar sig SBTRKT skartar grímu í frumbyggjalegum stíl er hann kemur fram á tónleikum. Aaron vill aðskilja sig og sína persónu frá tónlistinni og hefur leyst það með þessari laglegu grímu.

# 3 Deadmau5

deadmau5-live
Stærstu grímuna á listanum ber sjálfur Joel Thomas Zimmerman sem er betur þekktur sem Deadmau5. Hann bjó til lógóið „mau5head“ sem varð svo að grímu eftir að vinur hans hafði bent honum á þann möguleika. Gríman hefur marga útlitsmöguleika og er sjón víst sögu ríkari á tónleikum Deadmau5.

# 2 Slipknot

Slipknot-metal-755631_1100_770
Grímurnar hjá meðlimum Slipknot er eins og samansafn af öllum óhugnalegustu grímunum í hryllingsmyndum Hollywood. Meðlimir í dag eru átta talsins og koma þeir ekki fram nema með grímu og í kraftgalla. Grímurnar hjálpa til við að koma tónlistinni til skila enda er hún oft á tíðum mjög svo aggressív og kraftmikil. Grímurnar þróast og breytast með tímanum og er greinilega mikil vinna lögð í að þær líti sem best út.

# 1 Daft Punk

Daft-Punk-Album-Giorgio-Moroder
Franski dúettinn Daft Punk eru að mínu mati með lang smekklegustu og svölustu grímurnar. Árið 1999 breyttust þeir að eigin sögn í vélmenni og hafa þeir ekki litið um öxl síðan. Að þeirra sögn á áherslan að vera á tónlistina eins og hjá fleirum hér fyrir ofan og leiðist þeim fátt meira en tónlistarfólk með sínar „rokk & ról“ pósur og viðhorf.

GabríelVið Íslendingar eigum einn grímuklæddan tónlistarmann en það er hann Gabríel sem er reyndar dulnefni listamannsins. Í viðtali við Monitor fyrir ári síðan hafði hann þetta að segja um orsök grímunnar og nafnleyndarinnar: „Þegar ég ákvað loks að drífa í mig því (hip hoppinu) fannst mér tilvalið að koma fram undir öðrum formerkjum, öðru nafni en áður og með grímu til að aðskilja mig algjörlega frá öðru sem ég hef gert í tónlist. Þess vegna langaði mig að stimpla mig inn sem eitthvað alveg nýtt og alveg ferskt og leyfa fólki þar með að dæma mig eingöngu út frá því nýja en ekki einhverju gömlu sem fólk myndi hugsanlega tengja mig við væri ég grímulaus“.

Hljómar eins og Gabríel hafi eitthvað að fela og hafi jafnvel skítuga sögu í tónlistinni, djók. Gott og blessað hjá kauða en ég held ég viti hver maðurinn á bakvið kauða er og er það meðlimur í Hjálmum, Baggalút og annar helmingur greiningardeildar Hljómskálans, Guðmundur Kristinn Jónsson. Já þið sem vissuð það ekki fyrir heyrðuð það fyrst hér á Pottinum og verði ykkur barasta að góðu!

Er þetta Gabríel?

Er þetta Gabríel?

– Torfi

Topp 5: Verstu diska viðskiptin

Ég hef safnað geisladiskum frá því að ég var polli og spannar safnið nær 400 diska í dag. En tónlistarsmekkur minn var lengi í þróun enda fékk ég enga leiðsögn í þessum málum. Þannig að ég gerði um tíma ekki greinarmun á góðri og vondri tónlist, sem skilaði sér stundum í slæmum kaupum eða skiptum. Hér eru topp 5 slæm viðskipti!

# 5

Creed_My_Own_Prison Human_Clay_Cover Weathered_Cover
Diskarnir með Creed.

Ég fýlaði Creed um nokkurt skeið og fjárfesti í öllum diskunum þeirra (á sínum tíma). Þeim pening hefði getað verið varið betur eins og t.d. í 10 pulsutilboð í Bettís eða eitthvað álíka. Það er samt spurning hvort er verra, peningurinn sem maður eyddi í þetta eða tímanum sem maður eyddi í að hlusta á þetta.

# 4

Nirvana
Fyrsti Nirvana diskurinn minn, bara ekki Nirvana sem innihélt Kurt Cobain.

Ég fékk Nirvana delluna í 9. bekk þegar að Elfar (annar helmingur Pottsins) kynnti mig fyrir þeim. Stuttu síðar var ég staddur á Perlumarkaðnum í ‘N’ deildinni þegar ég sá þennan disk merktan Nirvana. Ég keypti gripinn en þegar ég setti diskinn í tækið heima kannaðist ég ekkert við lögin og hvað þá tónlistina. Þá komst ég að því að þetta var hin breska Nirvana sem var iðin við kolann á árunum 1965-1971. Fyrir áhugasama heitir þessi gripur IV (Lost in the Vault).

# 3

Alleyezonme March+2002-+Thierry+Henry,+Robert+Pires+and+Sol+Campbell+of+Arsenal+celebrate+winning+the+league+at+Highbury+against+Everton
All Eyez on Me með 2Pac skipt út fyrir nokkrar útprentaðar Arsenal myndir.

Á mínum yngri árum safnaði ég myndum með Arsenal og klippti þær út úr öllum þeim dagblöðum sem ég fann. Það var ekki tölva á heimili mínu og þar af leiðandi ekki hægt að skoða né prenta út myndir af Arsenal mönnum. Íris bekkjarsystir mín sem var einnig stuðningsmaður Arsenal kom eitt sinn með útprentaðar myndir í lit í skólann. Þetta var eitthvað sem mig langaði í og þar sem blekið var dýrt bauðst ég til þess að láta hana fá All Eyez on Me diskinn í skiptum fyrir 10 útprentaðar myndir en 2Pac var mjög heitur á þessum tíma. Íris tók þessu tilboði enda varla hægt að landa betri díl. 

# 2

Rid_of_Me Creed_Greatest_Hits
Rid of Me með PJ Harvey skipt út fyrir Greatest Hits með Creed.

Elskuleg frænka mín vissi að ég væri mikið gefinn fyrir tónlist og fór í Skífuna fyrir ein jólin í þeim tilgangi að finna eitthvern góðann disk handa mér. Eftir að hafa fengið ráð hjá starfsmanni verslunarinnar fékk hún í hendurnar diskinn Rid of Me með PJ Harvey sem hefur oft verið talað um sem hennar besta verk. Ég opnaði pakkann frá henni og þekkti listamanninn ekki. Í stað þess að sýna þakklæti og gefa PJ Harvey allavega séns skundaði ég með diskinn upp í Kringlu og fékk honum skipt út fyrir Greatest Hits með Creed!

# 1

Nickelback_-_Silver_Side_Up_-_CD_cover Curb-2002
Nickelback diskarnir sem ég keypti. 

Eitt sinn var ég ástfanginn af laginu „How You Remind Me“ og keypti þá diskinn Silver Side Up. „Never Forget“ var hitt lagið sem ég hlustaði á af disknum og eitthvern veginn sá ég ástæðu til að kaupa annan disk með þeim seinna. Þetta eru án efa verstu fjárfestingar á mínum ferli enda hefur hljómsveitin gefið út sama lagið ár eftir ár.

Torfi