Monthly Archives: júlí 2012

Tónleikadómur: Á trúnó með John Grant í Austurbæ

Síðastliðinn fimmtudag hélt John Grant frábæra tónleika í Austurbæ. Ég lét mig að sjálfsögðu ekki vanta.

Fyrir þessa tónleika hafði Grant haldið tvenna tónleika hér á landi. Fyrst kom hann fram á Airwaves hátíðinni í fyrra en í þeirri heimsókn kolféll hann fyrir landi og þjóð. Hann hélt svo aðra tónleika í Edrúhöllinni þann 17. janúar sem lesa má um hér.

Í þetta sinnið var hann mættur með fullskipaða hljómsveit og því mátti búast við allt öðruvísi tónleikum en áður. Hann nýtti sér íslenskt vinnuafl því að í sveitinni voru þeir Jakob Smári Magnússon (bassi), Pétur Hallgrímsson (gítar/bakrödd) og Arnar Geir Ómarsson (trommur). Þar að auki var mættur Chris Pemberton (píanó/bakrödd) sem hefur verið John Grant til halds og trausts síðustu tvö ár.

Lagaval kvöldsins var fjölbreytt og skemmtilegt. Leikin voru flest öll lögin af Queen of Denmark sem kom út 2010, ásamt glænýjum lögum af væntanlegri plötu en gestir kvöldsins voru þeir fyrstu í heiminum sem fengu á þau að hlýða. Ofan á þetta bættust við fjögur lög eftir hljómsveitina sem Grant var í áður en hann hóf sólóferil sinn, The Czars. Ekki má svo gleyma „Ástarsorg“ eftir Jóhann Helgason.

Hápunktar kvöldsins voru að mínu flutningurinn á „Queen of Denmark“ sem var í einu orði sagt epískur. Hið nýja „Greatest Motherfucker“ var sérlega grípandi og skemmtilegt og í raun algjör synd að geta ekki sett það á fóninn fyrr en í janúar á næsta ári! Svo er ég alltaf mjög hrifinn af því hvernig Grant tekur „Little Pink House“ á tónleikum en sú útgáfa er talsvert áhrifameiri heldur en stúdíóútgáfa The Czars. Annars var allur flutningur og spilamennska til fyrirmyndar.

John Grant og félagar voru svo klappaðir upp tvisvar sinnum. Í fyrra skiptið snéri sveitin fullskipuð til baka og tók „Caramel“ en í seinna skiptið settist Grant einn við flygilinn rétt eins og í Edrúhöllinni og tók þrjú lög eftir The Czars og gerði því áhorfendur pakksadda.

Það sem skilur John Grant að frá öðrum listamönnum sem ég hef séð er hvernig hann tekur sér góðan tíma í að ræða um tónlist sína og á opinskáan hátt. En þegar ég fer á tónleika finnst mér alltaf skemmtilegast þegar menn taka sér tíma í að kynna lögin sín og láta kannski fylgja með sögur eða ástæðurnar á bakvið þau. Í kjölfarið verður upplifun áhorfandans allt önnur en mér líður pínu eins og ég hafi verið á trúnó með John Grant þetta ágæta fimmtudagskvöld.

Lagalisti

Where Dreams Go to Die
Sigourney Weaver
G.M.F.
It Doesn’t Matter
I Hate This Town
Marz
TC and Honeybear
Ástarsorg
Outer Space
Chicken Bones
Queen of Denmark
Paint the Moon
It’s Easier
Glacier

Caramel

Drug
L.O.S.
Little Pink House

-Torfi

Auglýsingar

Potturinn orðinn heitur

Það er mér sönn ánægja að tilkynna nýja vefsíðu fyrir heiminum. Síðan er hugmyndasmíð okkar Elfars Freys og hér verður fjallað um músík og myndir. Kvikmyndaumfjöllun verður í höndum Elfars á meðan ég sé um tónlistina en það verða samt vonandi engin leiðindi þó að við bregðum útaf laginu stöku sinnum. Ef síðan gengur vel er líklegt að við færum okkur yfir á almennilegt lén!

Svo verið dugleg að kíkja í pottinn því að hér verður ýmislegt rætt og ritað.

Image

Torfi