Category Archives: Bíó

Bíó: Hrútar (Rams)

Screen Shot 2015-05-29 at 11.00.46 AM

ENGLISH BELOW!

Kvikmyndin Hrútar eftir Grím Hákonarson var frumsýnd fyrr í þessum mánuði á hinni virtu kvikmyndahátíð í Cannes og gerði sér lítið fyrir og vann til Un Certain Regard verðlaunana. Myndin rataði svo í íslensk kvikmyndahús í gær og ákvað ég að skella mér á myndina ásamt föður mínum sem er mikill áhugamaður um íslensku sauðkindina enda uppalinn í sveit.

Hrútar segir frá tveimur bræðrum sem hafa ekki talast við í 40 ár þrátt fyrir að búa á sömu lóð. Þeir eru færir bændur og vinna reglulega til verðlauna fyrir öfluga hrúta sína. En þegar riðuveiki gerir vart við sig í stofninum hjá öðrum bróðurnum reynir enn meira á stirt samband þeirra en áður.

Sigurður Sigurjónsson og Theódór Júlíusson leika bræðurna og það er ekki hægt að hugsa sér betri kandídata í hlutverkin á þessari stundu. Báðir tveir eru algjörlega að toppa hvað varðar kvikmyndaleik og þá sérstaklega Siggi Sigurjóns sem hefur verið að sýna á sér áður óséðar hliðar í Borgríki-myndunum. Skjátími Sigurðar er lengri en Theódórs enda fylgist áhorfandinn með sögunni í gegnum hann og hvílir myndin því meira á hans herðum heldur en Tedda. Sigurður fer létt með að sæta þeirri ábyrgð enda ofboðslega viðkunnanlegur náungi sem getur gert mikið úr litlu. Það má í raun segja að hann hafi verið fæddur í þetta hlutverk og virkilega sannfærandi sem einstæður bóndi sem á ekkert annað að en elsku kindurnar sínar. Reyndar fékk hann góða upphitun fyrir ca. 30 árum  í Dalalíf sem hinn ógleymanlegi sveitaunnandi JR.

Aðrir leikarar stoppa stutt við og fá óumflýjanlega úr litlu að moða. Helst má nefna Svein Ólaf Gunnarsson sem stendur alltaf fyrir sínu og er hér í hlutverki lögfræðingsins Bjarna, Gunnar Jónsson sem smellpassar í hlutverk sitt sem bóndinn Grímur, Charlotte Bøving sem leikur Katrínu dýralækni og hrútaþuklara og svo Þorleif Einarsson sem útskrifaðist af leikarabraut frá LHÍ fyrir ekki svo löngu síðan og sýnir hér lipra takta. En Jón Friðrik Benónýsson ber af aukaleikurunum sem Runólfur enda fékk hann úr mestu að moða og gerði það einkar vel með sinni einstöku rödd og útliti. Mér þótti svo Jörundur Ragnarsson illa nýttur í sínu hlutverki og á leikari af því kalíberi meira skilið.

Hrútar er að mínu mati laus við alla tilgerð og gerir íslensku sauðkindinni góð skil. Myndin dregur upp raunhæfa mynd af lífi bóndans sem er ekki alltaf dans á rósum. Ég er pínu hræddur um að þeir sem ekki hafa alist uppí sveit eða fengið að kynnast lífinu þar af neinu viti átti sig á þeim mögnuðu tengslum sem að bóndinn og hans fólk á það til að mynda með kindunum. Sjálfum fannst mér það ótrúlegt að þeir bændur og sveitamenn sem ég hef kynnst segjast þekkja hverja einustu kind sína með nafni en þegar ég horfi á þær þá eru þær allar eins! Þeirra líf veltur á heilbrigðum kindastofni og maður getur varla ímyndað sér hversu mikið áfall það er fyrir bændur þegar smitsjúkdómur líkt og riða gerir vart við sig á þeirra jörð. Aðstandendum Hrúta hefur hins vegar tekist að draga upp raunsæja mynd af slíku áfalli og í leiðinni búið til fallega kvikmynd um tvo bræður sem að lokum þurfa að reiða sig á hvorn annan til að halda í það sem þeim er kærast.

Niðurstaða: Loksins er íslensku sauðkindinni gerð þau skil sem hún á skilið á hvíta tjaldinu án þess þó að ætla að gera lítið úr Dalalífi Þráins Bertelssonar. Sigurður Sigurjónsson eldist eins og gott rauðvín og verður bara betri með aldrinum og það sama má segja um Theódór Júlíusson. Myndin á verðlaunin á Cannes svo sannarlega skilið og verður gaman að fylgjast með gengi hennar úti í heimi.


 

Earlier this month Grímur Hákonarson Rams (Hrútar) was premiered at the Cannes Film Festival and received the Un Certain Regard prize in the same catalogue. It was premiered in Icelandic movie theaters yesterday and I went with my dad who happens to be very enthusiastic about sheeps.

Rams tells of two brothers who haven’t spoken in 40 years despite the fact that they live next door to each other. They’re very good farmers and get regular awards for their rams but when scrapie infests on their farm the brothers must rely on each other as never before.

The roles of the brothers are in the hands of Sigurður Sigurjónsson and Theódór Júlíusson and you can’t think of any better candidates to do the job at this moment. Both of them are on the top of their careers especially Siggi Sigurjóns who has been showing people that he is more than a comedy actor with his interpretation of the spoiled cop Margeir in the City State’s movies. The viewers watch the story through the eyes of Siggi who carries the movie on his shoulders. That job is well done by Sigurður as he is such a likeable guy who can do very much with very little. In fact you can say he was born into this role as he is so convincing as this singular farmer who loves nothing more than his sheeps. Let’s not forget that he got a little warm up 30 years ago when he played the unforgettable JP character in Dalalíf.

Other actors get little time as you can expect but most of them do a very good job. Sveinn Ólafur Gunnarsson delivers a good performance as you can always expect from him as the lawyer Bjarni, Gunnar Jónsson fits perfectly in his role as the farmer Grímur, Charlotte Bøving does a good job as the veterinarian and Þorleifur Einarsson shows his good moves as a new and upcoming actor. But the one that stands out of this lot is Jón Friðrik Benónýsson as Runólfur who gets the best lines when he presents the awards for the best ramp and tells the other farmers about the verdict on the scrapie test. He has such a unique voice and looks and it is strange that no director has noticed this gem of an actor before.

In my opinion Rams is unpretentious and draws a very realistic image of the Icelandic sheep and the farmer’s life which can get tough at times. I’m afraid that people who didn’t grow up in this environment or at least didn’t get a taste of it don’t realize the great bond that the farmer and his people happen to create with the sheeps. The fact that most of the farmers know all of their sheeps by name is crazy, for me they look all the same but for the farmers, sheeps have their own identity. Farmers make a living out of their sheeps and when something bad as a scrapie gets to their farm you can only imagine the consequences. The people behind Rams has succeded in showing us how blow of that kind can affect the man behind the farmer by creating this beautiful film about two brothers who in the end have to rely on each other to hold on to what’s dearest to them.

Conclusion: Finally the Icelandic sheep get’s the film she deserves without saying anything bad about Dalalíf. Sigurður Sigurjónsson is like a red wine, the older – the better and you can say the same about Theódór Júlíusson. Rams is a deserved winner of the Un Certain Regard prize and it will be interesting to see how she fares in the big world.

– Torfi Guðbrandsson

Auglýsingar

Þessir munu leika í Star Wars: Episode VII

star_wars_39787

Nú rétt í þessu var staðfest hvaða leikarar koma til með að leika í nýjustu Star Wars myndinni sem væntanleg er á hvíta tjaldið á næsta ári en mikil leynd hefur hvílt yfir leikaravalinu fram að þessu. Nokkrir af gömlu leikurunum munu endurtaka rullur sínar í bland við ný andlit en Harrison Ford er þar á meðal. Einnig verða þarna kempur eins og Max von Sydow og Andy Serkis ásamt Oscar Isaac og Adam Driver sem léku saman í Inside Llewyn Davis. John Williams sér svo um tónlistina enda ekki hægt að bjóða upp á aðra Star Wars mynd án hans.

Gömlu brýnin:

Harrison Ford (Han Solo)
Carrie Fisher (Leia Solo)
Mark Hamill (Luke Skywalker)
Anthony Daniels (C-3PO)
Peter Mayhew (Chewbacca)
Kenny Baker (R2-D2)

Þessir koma svo nýir inn:

Oscar Isaac
John Boyega
Daisy Ridley
Adam Driver
Andy Serkis
Domhnall Gleeson
Max von Sydow

– Torfi

Bíó: Inside Llewyn Davis

Inside-Llewyn-Davis-Oscar-Isaac

Inside Llewyn Davis er nýjasta kvikmynd Coen bræðra og fjallar í stuttu máli um strögglandi tónlistarmann í New York árið 1961.

Oscar Isaac leikur tónlistarmanninn Llewyn Davis og leysir það hlutverk með miklum sóma. Hann fetar sömu fótspor og Joaquin Phoenix gerði í Walk the Line og syngur öll lögin sín í myndinni sjálfur og gerir það ótrúlega vel. Oscar er svo umkringdur flottum leikurum á borð við Carey Mulligan, Justin Timberlake, John Goodman og F. Murray Abraham.

Án þess að ætla að reifa söguþráð myndarinnar í löngu máli er allt í lagi að fara yfir það helsta.

  • Llewyn Davis (Oscar Isaac) er farinn að reyna fyrir sér sem sóló listamaður eftir að hafa verið áður í dúett.
  • Umbinn hans er kominn á aldur, gerir lítið gagn og sólóplatan selst illa.
  • Davis á hvergi heima og fær að gista hjá vinum og ættingjum.
  • Fyrrverandi kærastan Jean (Carey Mulligan) er með barni og er ekki viss hvort að Davis sé pabbinn eða nýi kærastinn, Jim (Justin Timberlake).
  • Ofan á þetta allt saman er veturinn harður og Davis á engan frakka.

Sem sagt, allt í rugli hjá Davis greyinu. Tónlistin er það eina sem hann á en honum virðist einhvern veginn vera fyrirmunað að gera sér lifibrauð úr henni.

Ég verð að segja að ég skemmti mér ótrúlega vel á myndinni fyrir hlé. Það var svo gaman að fylgjast með hrakförum Davis og það virtist ekkert falla með honum alveg sama hvað það var. Lögin voru einnig afskaplega góð og þá ber helst að nefna „Hang Me, Oh Hang Me“, „Fare Thee Well (Dink’s Song)“, „The Last Thing On My Mind“ og „Five Hundred Miles“. Atriðið þar sem að Davis tekur lagið með Jim og Al Cody var stórskemmtilegt og var það aðallega tilburðum þess síðastnefnda að þakka. Þá var ég ótrúlega ánægður með það hve lögin nutu sín vel í myndinni og fengu að lifa alveg til enda en það vill oft verða í svona tónlistarmyndum að maður fær bara að heyra brot úr lögunum.

Myndin var ekki alveg eins sterk eftir hlé og þá er aðallega um að kenna drepleiðinlegu ferðalagi Davis til Chicago með súrustu ferðafélögum kvikmyndasögunnar, þeim Roland Turner (John Goodman) og Johnny Five (Garrett Hedlund). Eftir þennan dapra kafla í myndinni fannst mér hún aldrei ná sér almennilega aftur á flug og var maður farinn að finna til með Davis greyinu. Þó að innri tími myndarinnar sé ein vika má alveg gera ráð fyrir því að framtíð Davis hafi ekki verið í tónlistinni, allavega ekki sem sólólistamaður. Mér fannst eitt af síðustu atriðum myndarinnar gefa það til kynna að róðurinn yrði erfiður enda var sjálfur Bob Dylan næstur upp á svið á eftir Davis. Eitthvað segir mér það að útsendarar útgáfufyrirtækjanna hafi frekar heillast af tónlist Dylan frekar en Davis. 

Hinir mjög svo súru ferðafélagar.

Hinir mjög svo súru ferðafélagar.

Nú veit ég að Llewyn Davis var ekki til í raun og veru þó að hugmyndin af myndinni hafi komið í gegnum bók eftir tónlistarmanninn Dave Van Rock. En örlög Llewyn Davis minna mig svolítið á Sixto Rodriguez og hljómsveitina Anvil sem hlutu endurnýjun lífdaga með heimildarmyndunum Searching for Sugar Man og Anvil: The Story of Anvil. Llewyn Davis er ekki ósvipaður Sixto en báðir eru þeir ekki hreinræktaðir Bandaríkjamenn og semja alveg ótrúlega fína tónlist sem nær af einhverjum völdum ekki að hitta í mark neins staðar. Að vísu hitti Sixto í mark í S-Afríku en þið vitið hvert ég er að fara. Eins með Anvil sem hafði allt að bera en tókst ekki að heilla útgefendur. Þá minnir Llewis mig á grínþættina Flight of the Conchords þar sem að tveimur Nýsjálendingum gengur illa að slá í gegn í New York þrátt fyrir afbragðs fína tónlist og hefur þar umboðsmaðurinn mikið að segja.

Það er örugglega til slatti af tónlistarmönnum eins og Llewyn Davis sem reyndu að harka í þessum grimma bransa en höfðu ekki erindi sem erfiði og þurftu á endanum að snúa sér að öðru til að hafa í sig og á. Ímyndaðu þér að vera að koma fram á undan eða eftir mönnum eins og Bob Dylan. Þú bara keppir ekkert við það.

Niðurstaða: Góð en hefði getað verið enn betri. Tónlistin frábær og flutningur leikara á lögunum til fyrirmyndar. Skylduáhorf fyrir þá sem hafa gaman af þjóðlagatónlist.

Torfi Guðbrandsson

Bíó: Ekkert svo ótrúlegur Wonderstone

Það var með jákvæðum hug sem ég fór á grínmyndina The Incredible Burt Wonderstone sem skartar ansi sjóuðum grínleikurum í aðalhlutverkum eða þeim Steve Carell og Buscemi sem og Jim Carrey. Ég fór reyndar bara á myndina til þess að sjá þann síðastnefnda enda verið einlægur aðdáandi hans síðan ég sá Dumb and Dumber í fyrsta sinn.

Burt (Carell) og Anton (Buscemi) voru sameinaðir í æsku er sá fyrrnefndi var að æfa sig í töfrabrögðum í skólanum. Eftir það var ekki aftur snúið og mynduðu þeir sterka vináttu sem fólst aðallega í því að stunda töfrabrögð. Á fullorðinsaldri verða þeir ráðnir sem töframenn á Aztec spilavítinu í Las Vegas sem er í eigu Doug Munny (James Gandolfini). Eftir 10 ár af sömu sýningunni minnkar aðsóknin smátt og smátt og ekki hjálpar hinn ferski Steve Gray (Carrey) til. Gray (skopstæling á Criss Angel) er einhvers konar götulistamaður og fær alveg brjálaðar hugmyndir, eins og að halda í sér þvagi til langs tíma og sofa ber að ofan á brennandi heitum kolum. Það er ljóst að til þess að auka miðasöluna þurfa æskuvinirnir að fara í naflaskoðun og gera róttækar breytingar á sýningu sinni.

Steve Gray

Og þannig hljómar söguþráðurinn í stuttu máli eða fyrri parturinn allavega. Myndin er ansi fyrirsjáanleg og maður veit alltaf hvað gerist næst, sem hefði verið í góðu lagi ef hún hefði á annað borð verið fyndin. Mínum manni til varnar var hann lítið í mynd en honum tókst líklega best af öllum að fá mig til að hlæja.

Því miður er ég búinn að missa þolinmæðina á Steve Carell, hann var ekkert fyndinn og ástæðan fyrir því er líklega sú að hann lifir ennþá á gömlu látbrögðunum og töktunum. Fyrir mér hefur hann ekkert þróast sem grínleikari síðan að ég sá hann fyrst í Bruce Almighty. Gömlu brandararnir virka ekki lengur og maður vorkenndi meistara Buscemi að þurfa standa þarna hliðina á honum í flestum atriðum sínum. Svo ég tali nú ekki um Alan Arkin sem nýverið sló í gegn í Argo þar sem hann lék á móti John Goodman, maðurinn hefur líklega þurft á áfallahjálp að halda eftir að hafa leikið í senunum með Carell. Persónuleikabreytingar Carells voru einnig ódýrar en til að byrja með var hann þessi graða týpa sem stígur ekki beint í vitið en breytist svo í afskaplega umhyggjusaman einstakling á elliheimilinu Grund. Fyrirgefið en ég var ekki að kaupa þetta og húmorinn og handritsgerð á ansi lágu plani þarna.

Augnayndið Olivia Wilde gerði veru mína í Álfabakka ögn skárri enda glæsileg kona í alla staði. James Gandolfini átti ágætis spretti sem og greyið Buscemi en það eitt að horfa á hann var nóg til þess að hlæja smá. Annars voru það atriðin með Jim Carrey sem stóðu upp úr og hann hreinlega neitar að gefast upp í þessum annars miskunnarlausa bransa. Að vísu fékk hann úr alltof litlu að moða og hefði myndin verið betur sett hefði hann fengið fleiri mínútur.

Jane

Olivia sæta að framkvæma töfrabragð.

The Incredible Burt Wonderstone er ekki nógu fyndin og á köflum smekklaus og ef ekki væri fyrir nærveru Jim Carrey og Oliviu Wilde og innkomulag Burt og Antons „Abracadabra“ með Steve Miller Band væri ég búinn að gleyma henni.

– Torfi

51 árs Jim Carrey væntanlegur á hvíta tjaldið í ár

Á mínum yngri árum var ég mikill aðdáandi Jim Carrey og er enn. Ég hef lagt það í vana minn að horfa á eina mynd með honum á afmælisdaginn hans, 17. janúar og gærdagurinn var þar engin undantekning. The Truman Show varð fyrir valinu að þessu sinni en hún er með betri myndum grínleikarans geðþekka.

Hann var hvergi sjáanlegur á hvíta tjaldinu í fyrra en í ár verður þar breyting á því að hann mun leika í kvikmyndunum The Incredible Burt Wonderstone og Kick-Ass 2. Í fyrrnefndu myndinni leikur hann töframanninn Steve Gray (sem minnir svolítið á Kid Rock) en þar leikur hann á móti Steve Carell en þeir léku einmitt saman í Bruce Almighty þar sem að Carell fór á kostum. Stiklan fyrir myndina lítur gríðarlega vel út en gaman verður að fylgjast með gömlu kempunum og sjá hvort að þeir geti ekki enn kitlað hláturtaugar fólks.

getImageByAdminMovieIdÍ Kick-Ass 2 leikur hann svo ofursta en það verður spennandi að sjá hvernig hann tekur sig út í henni en Nicolas Cage var til að mynda frábær í fyrri myndinni og sýndi á sér glænýja hlið. Á næsta ári má svo búast við framhaldi af kvikmyndinni sem breytti ferli Jim Carrey á sínum tíma eða Dumb and Dumber. Það eru blendnar tilfinningar í gangi hjá mér varðandi númer tvö en hún verður annað hvort stórkostleg eða hræðileg en samt aldrei verri en Dumb and Dumberer: When Harry Met Lloyd sem hlýtur að vera ein versta mynd allra tíma!

Sum sé, tvær áhugaverðar myndir framundan hjá einum besta grínleikara síðari ára.

– Torfi

Bíó: The Impossible

the-impossible-naomi-watts-1-e1353426328398

Það var óumflýjanlegt að fara með kærustunni á kvikmyndina The Impossible en maður hafði heyrt sögur af fólki sem kæmi ekki einungis útgrenjað af myndinni heldur einnig blautt í fæturna eftir herlegheitin.

Kvikmyndin segir frá fjölskyldu einni sem varð fyrir þeirri ömurlegu lífsreynslu að upplifa flóðbylgjuna miklu árið 2004. Það sem meira er að sagan er sönn en þó ákvað leikstjórinn að breyta þjóðerni fjölskyldunnar. Með hlutverk foreldranna fara þau Ewan McGregor og Naomi Watts og standa þau svo sannarlega fyrir sínu.

Myndin er afar vel gerð og er flóðið svo raunverulegt að það mætti halda að leikstjórinn hafi verið á staðnum með myndavélina þegar herlegheitin riðu yfir. En flóðið er ekki lengi í mynd og var maður hálf stressaður að manni myndi leiðast þegar því var lokið en svo var aldeilis ekki. Við tók hjartnæm saga þar sem að sorg og gleði skiptust á að græta mann og gleðja.

Eftir flóðið fær áhorfandinn að fylgjast með sjónarhornum föðursins og elsta sonarins. Meira er eiginlega ekki hægt að segja án þess að spilla fyrir fólki sem ekki hefur séð myndina en það er alveg hreint magnað að fylgjast með afdrifum þeirra eftir flóð.

The Impossible er kvikmynd sem tekur á en dregur upp fallega mynd af kærleikanum og sýnir úr hverju maðurinn er gerður.

Ps. Í guðanna bænum verið búin að byrgja ykkur upp af pappírsþurrkum áður en gengið er inn í sal!

Torfi

Joaquin Phoenix snýr aftur á hvíta tjaldið

Jú þið heyrðuð rétt, Joaquin Phoenix er væntanlegur á hvíta tjaldið í október en hann hefur verið fjarverandi í fjögur ár eða síðan að kvikmyndin Two Lovers kom út. Að vísu kom heimildarháðmyndin I’m Still Here út árið 2010 en þar þóttist hann hafa gefist upp á kvikmyndum og hugðist snúa sér alfarið að rappi. Virkilega súr mynd ef út í það er farið.

En nú er J.P. mættur aftur til leiks í Hollywood en hann leikur á móti kanónunni Philip Seymour Hoffman í The Master eftir leikstjórann og handritshöfundinn Paul Thomas Anderson. Sá maður á nú ekkert slæman feril að baki en hann hefur t.d. leikstýrt og skrifað myndir á borð við Boogie NightsMagnolia og There Will Be Blood. Það má því alveg búast við sprengju enda eru J.P. og P.S.H. með betri leikurum samtímans á góðum degi. 

Always two there are, no more, no less. A master and an apprentice.

Phoenix leikur fyrrverandi hermann sem er nokkuð ráðvilltur eftir herþjónustu sína og kemur þá trúarleiðtoginn Lancaster Dodd (Hoffman) til sögunnar og tekur hann uppá arminn. Lancaster fer fyrir trúfélaginu ‘The Cause’ sem sprettur upp í kjölfar seinni heimsstyrjaldarinnar. Meira veit ég nú ekki um innihald myndarinnar en Phoenix virðist ætla að nota sömu greiðslu og í Walk the Line sem er fagnaðarerindi enda smekkleg með eindæmum.

Til gamans má geta að Johnny Greenwood úr Radiohead samdi tónlistina fyrir myndina og er hægt að hlusta á tóndæmi hér.

– Torfi