Category Archives: Nýtt

Samheldin fjölskylda gefur út sumarsmellinn 2014

Three Beat Slide
Sumarsmellurinn 2014 er fundinn og kemur hann heldur betur úr óvæntri átt. Lagið heitir „Summertime is Great“ og er eftir hljómsveitina Three Beat Slide, munið þetta nafn, Three Beat Slide sem samanstendur af tveimur systkinum og líklegast og vonandi föður þeirra. Lagið kom á YouTube 15. mars síðastliðinn og hefur á ca. þremur vikum fengið rúmlega 700,000 áhorf sem er nokkuð gott miðað við algjörlega óþekkt nafn.

Lagið sjálft er einlægt og einfalt rétt eins og myndbandið sem skartar fjölskyldunni í góðum gír í sumarskapi. Þeim tekst að breiða út boðskap sumarsins með gleði, grilli og grænu grasi svo eitthvað sé nefnt. Ég vara ykkur samt við, viðlagið á það til að setjast algjörlega að í heilabúinu ykkar. „It’s summertime and isn´t it great….“.

– Torfi

Auglýsingar

Elín Helena gefur út Til þeirra er málið varðar

Elín til

Þann 1. apríl síðastliðinn kom út frumburður pönk hljómsveitarinnar Elín Helena sem ber hið skemmtilega heiti Til þeirra er málið varðar. Ekki láta nafn sveitarinnar plata ykkur því að hér er um alvöru pönk að ræða, það mikið pönk reyndar að meðlimir hafa ákveðið að kalla tónlistina sína pönk-pönk sem er tvisvar sinnum meira pönk en venjulegt pönk.

Platan er komin í helstu plötubúðir landsins, á geisladisk og vínyl, og inniheldur 18 frumsamin lög á okkar ylhýra tungumáli. Lögin eru ekki bara góð heldur er umslagið afar fallegt og gerir plötuna ennþá eigulegri fyrir vikið. Ljósmyndin sem prýðir umslagið var tekin af Bjarnleifi Bjarnleifssyni blaðaljósmyndara og skartar körfuboltaköppum í kröppum dansi.

Það er því ekki möguleiki á því að fermingarbörnin í ár blóti saklausum ömmum sínum fyrir að gefa sér þessa plötu í fermingargjöf, standandi í þeirri trú um að hér sé um huggulega popptónlist að ræða.

Torfi 

GusGus gefur út nýtt lag

Já það virðist allt vera að gerast í heimi danstónlistarinnar hér á landi en eins og flestir ættu að vita hefur DJ MuscleBoy gert allt vitlaust með hinu Scooter-skotna „LOUDER“ sem er að nálgast 200,000 hlustanir á YouTube. Nú hafa hins vegar drottnarar danstónlistarinnar á Íslandi, GusGus, gefið út sóðalega flott lag sem aðdáendur hafa jafnvel heyrt á tónleikum þeirra undanfarna mánuði.

Þá er það bara spurningin, tekst þeim að toppa Arabíska hestinn með næstu plötu? Af þessu lagi að dæma segi ég já!

– Torfi 

Highlands hitar upp fyrir Sónar með glænýju myndbandi

Hljómsveitin Highlands með þeim Loga Pedro (Retro Stefson, Pedro Pilatus) og Karin Sveinsdóttur hefur gefið út myndband við lagið „Hearts“ sem kom út í nóvember í fyrra. Leikstjórn er í höndum Narva Creative og skartar þeim Atla Óskari Fjalarssyni og Heru Hilmars í aðalhlutverkum.

Highlands kemur einmitt fram á Sónar hátíðinni sem hefst í kvöld en þau eiga leik á laugardag kl. 20:00 í Norðurljósasal Hörpu. EP platan Highlands – n°1 er svo væntanleg næsta mánudag og verður hægt að hala henni frítt niður á soundcloud síðunni þeirra.

Góða helgi og skemmtun á Sónar þið sem eruð að fara!

– Torfi

Allt að gerast hjá John Grant

John Grant á góðum degi.

John Grant á góðum degi.

Þá er það komið á hreint, næsta plata John Grant sem hefur fengið nafnið Pale Green Ghosts kemur út í mars á næsta ári og var jafnframt titillag plötunnar opinberað í gær með myndbandi. Eins og kunnugt er hefur Grant dvalið hér á landi síðan í byrjun þessa árs og hefur hann verið iðinn við tónleikahald auk þess sem hann hefur verið að vinna að næstu plötu ásamt Bigga Veiru úr GusGus.

Af nýja laginu að dæma hefur Biggi haft rafræn áhrif á John sem eru góðar fréttir og hljómar lagið eftir því. Ég ætla samt að vona að einhver af lögunum sem að John flutti í Austurbæ í sumar fái að fylgja með en þar voru nokkrar afbragðs lagasmíðar í gangi. Mér sýnist á öllu að myndbandið hafi verið skotið á Íslandi en það má vel vera að ég hafi rangt fyrir mér.

Torfi

Atoms for Peace: Traveling Wilburys dagsins í dag

Atoms-For-Peace

Meðlimir Atoms for Peace á góðum degi.

Undanfarin ár hef ég beitt mér fyrir því að vera vel vakandi fyrir góðri tónlist. En auðvitað sefur maður á verðinum enda þyrfti ég líklega að vera í 100% vinnu við það eitt að fjalla um og fylgjast með tónlist ef mér ætti að takast að innbyrða allt sem er í gangi.

Hljómsveitin Atoms for Peace er gott dæmi um þetta. Súpergrúppa sem inniheldur meðal annars Thom Yorke og Flea. Hefur hún verið starfandi síðan 2009 en þeir sem standa á bakvið sveitina eru þeir sömu og spiluðu með Thom Yorke á plötunni The Eraser sem kom út 2006.

Í lok febrúar á næsta ári mun sveitin gefa út sína fyrstu plötu sem hefur fengið nafnið Amok en hún mun innilhalda níu lög og er þegar hægt að gæða sér á fyrsta síngúlnum, „Default“.

Ef restin af plötunni er í sama klassa og „Default“ má alveg búast við þrusu plötu frá Atoms for Peace. Reyndar stóðu upptökur einungis yfir í þrjá daga sem er heldur lítið en þar sem bandið er svona vel mannað hef ég engar áhyggjur.

– Torfi

Tame Impala: Sjóðandi heitir Ástralar

Meðlimir Tame Impala stilla sér upp.

Ástralía hefur í gegnum tíðina alið af sér frábæra listamenn eins og AC/DC, Men at Work, Nick Cave og Russell Crowe (djók) og nú nýlega hefur hljómsveitin Tame Impala rutt sér til rúms bæði á heimavelli og útivelli. Það hefur sveitin gert með annarri breiðskífu sinni, Lonerism, sem slegið hefur í gegn hjá gagnrýnendum á þessu ári. Eitt lag af plötunni hefur verið í mikilli spilun á X-inu en það er „Elephant“ og situr lagið í 7. sæti Pepsi Max listans þegar að þetta er skrifað.

Helsti munurinn á Lonerism og frumburðinum Innerspeaker sem kom út fyrir tveimur árum er að hún er talsvert poppaðri og virðist poppið falla vel að sýrurokkinu sem að Tame Impala býður upp á. Kevin Parker söngvari og aðal lagahöfundur TI var undir miklum áhrifum frá Todd Rundgren við gerð plötunnar en tónlistin minnir einnig á sveitir eins og MGMT, Flaming Lips og jafnvel Bítlanna hvað söng og raddanir varða. Ekki amalegur hrærigrautur eins og þið heyrið en það má einnig bæta því við að Britney Spears var Parker ofarlega í huga á meðan hann vann að plötunni enda var hann í miklum popp hugleiðingum.

Tame Impala þýðir á íslensku tamin Impala sem er Antilóputegund.

Lonerism hefur fengið afbragðs dóma og fær hún meðal annars fjórar stjörnur hjá Rolling Stone, Mojo, Uncut og Q. Þeim hefur einnig vegnað vel í heimalandinu en þeir fengu Joð verðlaunin í ár fyrir bestu plötu ársins en það er útvarpsstöðin Triple J sem stendur fyrir verðlaununum. Ekki nóg með að vinna í ár heldur unnu þeir verðlaunin einnig árið 2010 fyrir Innerspeaker og er það met þar á bæ því engin hljómsveit hefur unnið tvisvar. Nú fer senn að líða að því að helstu tímarit og fjölmiðlar heims fari að senda frá sér árslista og má gera ráð fyrir því að Lonerism sé á þeim mörgum.

Bestu lögin á plötunni: Elephant, Enders Toi, Feels Like We Only Go Backwards, Keep on Lying.

– Torfi

God’s Lonely Man gengin út

Já það hlaut að koma að því, Pétur Ben hefur gefið út breiðskífu númer tvö, God’s Lonely Man. Liðin eru heil sex ár síðan að frumburðurinn Wine for My Weakness kom út og því löngu kominn tími á aðra plötu. Að vísu má ekki gleyma því að Pétur hefur verið upptekinn við ýmislegt annað en hann spilar auðvitað með mörgum listamönnum, gerir lög fyrir kvikmyndir og gaf út plötu í fyrra ásamt Eberg.

God’s Lonely Man hefur að geyma níu frumsamin lög sem öll eru sungin á ensku. Hvorki meira né minna en þrjú lög ná yfir sjö mínútna múrinn og er það merki um metnaðarfullar lagasmíðar. Ég er sérstaklega ánægður með að sjá lagið „Tomorrows Rain“ á plötunni en ég heyrði það fyrst á Airwaves hátíðinni árið 2010 og varð stundvís ástfanginn. Einnig er þarna að finna lagið „Cold War Baby“ sem er eitt af betri lögum plötunnar.

Í lýsingunni á gogoyoko er talað um að platan svipi til hljómsveitarinnar Velvet Underground og gæti ég ekki verið meira sammála en í hvert skipti sem ég hef heyrt Pétur spila nýtt efni að undanförnu hefur Lou Reed oftar en ekki komið upp í hugann.

Ábreiðan á God’s Lonely Man.

Pétur Ben gefur plötuna út sjálfur og hefur söfnun verið í gangi en þegar þetta er skrifað hefur hann náð að safna rúmlega helming af þeirri upphæð sem hann lagði upp með. Það er ósk mín að fólk styrki Pétur enda frábær listamaður hér á ferð. Þangað til getið þið notið plötunnar hér á gogoyoko.

– Torfi 

Sundsprettur í nýju myndbandi The xx

Romy Madley Croft á bólakafi!

Hljómsveitin The xx sendi frá sér myndband í dag við lagið „Chained“ af plötunni Coexist sem kom út í síðasta mánuði. Mun þetta vera fyrsta lagið á plötunni sem gert er myndband við af einhverju viti. Leikstjórn var í höndum framleiðslufyrirtækisins Young Replicant en þeir gerðu meðal annars myndbandið við lagið „We Own the Sky“ með M83.

Í þessu myndbandi stinga allir þrír meðlimir The xx sér til sunds. Buslugangur og loftkúlur eru þannig í aðalhlutverki en einnig er mikið um fallega liti í myndbandinu eins og sjá má á skýjunum sem svipar mikið til umbúðanna á plötunni.

– Torfi

Nýtt myndband frá Vigra

Síðastliðinn sunnudag birti Vigri nýtt myndband við lagið „Animals“ á YouTube.

Ragnar Snorrason leikstýrði myndbandinu en það var tekið upp í Sandvík á Reykjanesi. Ungi og ráðvillti drengurinn er leikinn af Atla en hann er einmitt bróðir Ragnars. Þyrí Huld Árnadóttir, dansari með meiru, sér svo um mótleikinn.

Þetta er annað myndband Vigra en einnig er til myndband við lagið  „Sleep“ sem var tekið upp í öskufallinu af Eyjafjallajökli. Það er áferðafagurt líkt og hið nýja og leggja Vigra menn greinilega mikið upp úr því að hafa myndefnið við lögin sín almennilegt.

Vigri gaf út frumburð sinn í fyrra, Pink Boats, en bæði lögin má finna á henni sem og önnur góðgæti.

Torfi