Kvikmyndir

17/09/12 – 23/09/12

Kvikmyndin The Guns of Navarone frá árinu 1961 er góð skemmtun. Myndin er byggð á samnefndri bók eftir Alistair MacLean og segir frá ævintýralegum leiðangri sex manna á vegum breska hersins sem fá það verðuga verkefni að eyðileggja tvær öflugar byssur hjá nasistum á eyjunni Navarón. Byssurnar gera það að verkum að ekki er hægt að bjarga 2000 breskum hermönnum sem eru í sjálfheldu á annarri eyju skammt frá. Mallory sem leikinn er af Gregory Peck fer fyrir flokknum og gerir það vel. Þó að myndin sé gömul og tæknin eins gamaldags og hún er lifir maður sig samt sem áður inn í atburðarásina enda frábær saga hér á ferð. Stjörnuleikur Gregory Peck gerir sitt gagn einnig að ógleymdum Anthony Quinn. Það má ekki gleyma gömlu myndunum enda oft um safarík handrit og góðan leik að ræða þar. Tæknibrellurúnkið sem einkennir stórar myndir í dag er víðs fjarri og þannig vill maður hafa það.

Frábært atriði úr myndinni

Grískt brúðkaup og auðvitað er sungið

10/09/12 – 16/09/12

Mér áskotnaðist lengri útgáfa af kvikmyndinni Almost Famous um daginn á blu-ray en liðin eru nokkur ár síðan ég sá hana síðast. Myndin gerist árið 1973 og segir frá ungum dreng sem hefur brennandi áhuga á tónlist og er í þokkabót afar góður penni. Hann kynnist grúppíunni Penny Lane (Kate Hudson) og fer á ferðalag með upphitunarbandi Black Sabbath, Stillwater. Hann fær það verðuga verkefni að skrifa grein um hljómsveitina fyrir þungavigtaritið Rolling Stone og er það nú enginn hægðarleikur þegar meðlimir byrja að vingast við drenginn. Almost Famous inniheldur frábæra tónlist frá tímabilinu í kringum hana en þarna voru listamenn á borð við Led Zeppelin, Black Sabbath, David Bowie og The Who að gera það gott. Atriðið í rútunni þegar allir taka undir með Elton John í laginu „Tiny Dancer“ er mögulega það frægasta í myndinni. Mér þótti hins vegar senan í flugvélinni æðisleg en þá fara alls kyns játningar á flug þegar rellan lendir í stormi. Almost Famous er draumur fyrir þá sem hafa í alvöru gaman af tónlist en hún ætti að gefa ágætis mynd af bransanum á þessum tíma.

Atriðið í rútunni

Atriðið í flugvélinni

03/09/12 – 09/09/12

Simon Pegg er gull af manni enda glóir kollurinn hans í takt við það. Hann fer á kostum í kvikmyndinni How to Lose Friends & Alienate People. Sidney Young er breskur blaðamaður sem fær tækifæri til að vinna hjá einu helsta tímaritinu í New York sem er ritstýrt er af Clayton Harding (Jeff Bridges). Sidney kemst oft í hann krappan í starfi sínu og þarf hann sko að hafa fyrir hlutunum. Það er hrein unun að fylgjast með kauða reyna að fóta sig í hinum miskunnarlausa blaðaheimi og erfitt er að halda í sér hlátrinum enda Simon Pegg afar laginn við að kitla hláturtaugarnar. Hin umdeilda Megan Fox bregður fyrir í myndinni en á IMDb mætti alveg titla hana sem „Herself“ í staðinn fyrir Sophie Maes. Kirsten Dunst er svo mótefnið gegn Megan Fox enda náttúruleg með meðfædda hæfileika. How to Lose Friends & Alienate People fellur vitaskuld í skuggann af myndum eins og Hot Fuzz og Shaun of the Dead en henni tekst alveg jafn vel og þeim að koma manni til að hlægja. Maður biður ekki um meira.

Magnaður trailer sem búinn var til fyrir myndina.

Simon Pegg fer á kostum á dansgólfinu!

27/08/12 – 02/09/12

Það hefur alltaf farið frekar lítið fyrir kvikmyndinni Auto Focus en hún er í miklum metum hjá Pottinum. Myndin segir frá vinskap leikarans Bob Crane (Greg Kinnear) og John H. Carpenter (Willem Dafoe) sölumanns. Segja má að vinátta þeirra hafi snúist mikið um það að stunda kynlíf með konum og taka það upp en Bob Crane öðlaðist frægð eftir að hafa leikið í þáttunum Hogan’s Heroes. Að því leytinu til er myndin áhugaverð en handritið er byggt á bókinni The Murder of Bob Crane. Eins og titillinn gefur til kynna var leikarinn myrtur og hafa flestir bendlað John Carpenter við morðið en það er ekki enn sannað og verður líklega aldrei gert. Auto Focus gefur líklega ágætis innsýn inní líf þessara manna og eru þeir Greg Kinnear og Willem Dafoe flottir saman enda báðir góðir í sínu fagi. Það er kannski engin tilviljun að myndin fái svo 6,6 í einkunn á IMDb enda svolítið um kynlíf í henni.

Aðeins er hægt að finna trailera á YouTube svo ég læt nokkrar ódauðlega tilvitnarnir fylgja.

Bob Crane: A day without sex…
John Carpenter: …is a day wasted!

John Carpenter: You know what time it is? It’s FUCK time!

Bob Crane: What is that on my ass?
John Carpenter: That is my hand.

20/08/12 – 26/08/12

Það kemur fátt annað til greina þessa vikuna en að velja eina af myndum Tony Scotts en það fellur í hlut True Romance að þessu sinni enda stórkostleg mynd. Myndin er hlaðin góðum leikurum en það þykir kannski fyndið í dag að Christian Slater af öllum mönnum hafi hreppt aðalhlutverkið enda gert lítið af viti síðan. Upphaflega stóð til að handritshöfundur myndarinnar, Quentin Tarantino, myndi leikstýra en úr því varð ekki og má því segja að það hafi verið eilítil pressa á Tony Scott að skila frá sér góðu verki. Það tókst svo sannarlega því myndin er hlaðin spennu, rómantík og ljúfum tónum frá Hans Zimmer. Handritið er vel skrifað eins og við mátti búast og Tony Scott fer vel með efnið þó að hann hafi breytt endinum aðeins (til hins betra að mínu mati). Einnig verður að minnast á leikaravalið en menn eins og Christopher Walken og Gary Oldman hafa sjaldan verið betri sem og C. Slater og fleiri. Ef þú fýlar kók, ást og peninga þá er True Romance eitthvað fyrir þig!

Walken og Hopper spjalla.

Brad Pitt, beygla og Soundgarden, hvað viltu meira?

mán. 13 – sun. 19. ágúst 2012

This is Spinal Tap er klárlega ein besta gamanmynd allra tíma. Hún er í svokölluðu „Mockumentary“ formi og fjallar um rokkhljómsveitina Spinal Tap sem stendur á krossgötum. Vinsældir sveitarinnar hafa nefnilega dvínað mikið frá fyrri tíð og spila meðlimir nú fyrir færra fólk en þeir gerðu eitt sinn, á minni tónleikastöðum og fyrir minni pening. Þeir hafa þó enn barnslega trú á eigin ágæti og gleðin við að spila rokktónlist skín af þeim, sveitin ætlar sér aftur á toppinn þrátt fyrir að leiðin virðist ógreiðfær og þyrnum stráð. Niðurstaðan er bráðfyndin mynd sem vinnur áhorfendur á sitt band með einlægni sinni og húmor, hér fyrir neðan er þrjár klippur…

„These go to eleven“ – Nigel Tufunel

„How much more black could this be? And the answer is none. None more black.“ – Nigel Tufnel

„I’m really influenced by Mozart and Bach, and it’s sort of in between those, really. It’s like a Mach piece, really.“ – Nigel Tufnel

mán. 6 – sun. 12. ágúst 2012

Kvikmyndinni A History of Violence hlotnast sá heiður að vera fyrsta kvikmynd vikunnar, heiður sem jafnast á við þær Óskarstilnefningar sem myndin hlaut á sínum tíma. Hún fjallar um fjölskyldumanninn Tom Stall (Viggo Mortensen) sem rekur lítið veitingahús og er dáður af fjölskyldu og þorpsbúum. Myndin fer rólega af stað og maður spyr sig hvernig tilvísun í ofbeldi í heiti myndarinnar sé réttlætanlegt, þegar allt breytist í einni svipan. Tveir ribbaldar reka á fjörur vetingastaðarins og neyðist smáborgarinn Tom Stall til þess að sækja í fortíð sem hann hafði snúið baki við tuttugu árum áður, þarna fer af stað mikil atburðarás en áðurnefnd sena er vendipunktur í myndinni og geta áhugasamir tjekkað á henni hér fyrir neðan.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s