Monthly Archives: nóvember 2013

James Franco & Seth Rogen – Bound 3

Leikararnir James Franco og Seth Rogen hafa tekið sig til og apað eftir nýjasta myndbandi Kanye West við lagið „Bound 2“, skot fyrir skot. Franco tekur að sér hlutverk Kanye en Rogen er fáklæddur rétt eins og Kim Kardashian. Já, það er alltaf stutt í grínið hjá þeim bræðrum!

– Torfi

Auglýsingar

Airwaves ’13: Laugardagur & Kraftwerk (+lagalisti)

Það var stórleikur í ensku úrvalsdeildinni sem setti smá strik í reikninginn til að byrja með á laugardaginn en hann hófst kl. 17:30. Ég var svo sem ekki búinn að ákveða að sjá neitt yfir þann leiktíma en þó hefði verið gaman að kíkja á Vigra í Iðnó eða Nolo í Listasafninu.

En aðalmálið þetta kvöld var að sjálfsögðu Mac DeMarco frá Kanada. Það var svona sá listamaður sem ég var búinn að kynna mér mest fyrir hátíðina og gerðist meira að segja svo kræfur að fjárfesta í plötunni hans 2. Mac DeMarco kom fram í Silfurbergi kl. 21:00 og hóf leikinn á einu uppáhalds laginu mínu með honum, „Cooking Up Something Good“. Leikin voru aðallega lög af þeirri plötu en einnig fengu að hljóma nokkur af Rock and Roll Night Club. Ég held að ég sé ekkert að ýkja þegar að ég segi að Mac DeMarco og félagar hafi farið á kostum á tónleikum sínum og þá aðallega Mac sjálfur. Maðurinn hlýtur að vera með einhverja greiningu og hættur að taka inn lyfin sín eða þá á kafi í einhverju sterku því að orkan sem stafaði frá honum var fáránleg. Fyrir utan að leika sitt eigið efni tóku þeir syrpu af þekktum lögum eins og „Enter Sandman“, „Takin’ Care of Business“ og „Blackbird“ og sló það algjörlega í gegn hjá áhorfendum enda stundum gott að fá þekkta hittara í kroppinn svona við og við á Airwaves. Mac DeMarco sleit streng og crowd surfaði þannig að hann stóðst rokkaraprófið og vel það. Frábærir tónleikar og með þeim betri sem ég hef séð á Airwaves svei mér þá.

IMG_1127

Breska hljómsveitin Money átti leik strax á eftir Mac í Norðurljósi en þar er á ferðinni helvíti efnileg hljómsveit sem gaf út frábæra plötu á þessu ári, Shadow of Heaven. Söngvarinn býr yfir fallegri rödd sem er bæði björt og sterk og minnti mann stundum á Jónsa í Sigur Rós. Tónlistin er grafalvarleg og naut sín vel í Norðurljósasalnum en það var samt létt yfir söngvaranum sem að spilaði í smá stund með bjórdós á hausnum. Fyrir áhugasama bendi ég fólki á að kíkja á lögin „Hold Me Forever“ og „Cold Water“ en við munum líklega heyra meira af þeim í framtíðinni.

IMG_1146

Þá var komið að Midlake sem ég hafði fyrirfram alveg góða tilfinningu fyrir. Jesús minn almáttugur hvað þeir voru slappir. Ég geispaði og geispaði á meðan tónleikunum stóð og var liggur við sofnaður í lokin og það standandi. John Grant hugsa ég þegjandi þörfina fyrir að hafa dregið þessa hljómsveit til Íslands.

Það má vera að Midlake hafi dregið úr mér kraftinn og stemninguna því að næst á svið var Jon Hopkins sem svona flestir sem ég kannast við kunna vel að meta. Ég var hins vegar í engum gír fyrir svona hávaða leyfi ég mér að segja en þrátt fyrir að standa aftast í salnum var ég að ærast. Að lokum gafst ég upp og yfirgaf salinn og ljóst að það hefði kannski verið sterkari leikur hjá mér að sjá Gold Panda og Savages í Listasafninu.

Síðasta atriðið sem ég sá þetta kvöld var Zola Jesus í Gamla bíó en því miður náði hún ekki að keyra kvöldið í gang að nýju. Hún er með svakalega rödd en það þýðir ekki að hún þurfi að syngja hástöfum í öllum lögum. Aðeins of mikið af því góða í mín eyru og gekk ég út áður en hún kláraði. Næsti viðkomustaður var rúmið mitt enda gjörsamlega búinn á því í eyrum og fótum. Laugardagurinn því viss vonbrigði og auðvitað ekki við neinn að sakast nema sjálfan mig en ég hefði átt að vita betur hvað átti að sjá og hvað ekki.

Í gær var það svo auðvitað Kraftwerk í Hörpunni. Þeir tónleikar voru í einu orði sagt epískir með 3D sýningu, suddalegu hljóðkerfi í Eldborgarsalnum og fjórum meðlimum Kraftwerks í spandex galla. Klukkan átta breyttist Harpan í geimskip og gestir fóru í rúmlega tveggja klst. ferðalag um geiminn með Kraftwerk sem gaf tóninn með laginu „The Robots“. Lagavalið var vandað og gat hreinlega ekki verið betra en segja má að þeir hafi tekið rjómann af ferlinum. 3D sýningin var að virka mjög vel þó að grafíkin hafi stundum litið út fyrir að vera á frumstigi en mér fannst það samt tóna vel við Kraftwerk sem er auðvitað aldursforseti raftónlistarinnar. Ég hafði sérstaklega gaman af því þegar að mynd af Íslandi birtist í laginu „Spacelab“ en það uppskar mikið lófaklapp gesta eins og við mátti búast. Kraftwerk spilaði í rúma tvo tíma áður en þrír af fjórum meðlimum sýndu snilli sína og hurfu hver af fætur öðrum af sviðinu þangað til að Ralf Hutter stóð einn eftir og þakkaði fyrir sig að lokum með orðunum „Thank you. Auf wiedersehen“. Gestir klöppuðu, stóðu upp og klöppuðu meira alveg þangað til að meðlimir birtust að nýju og tóku þrjú lög til viðbótar. Geimskipið var lent og gengu geimfarar sáttir út í myrkrið eftir vægast ótrúlega upplifun!

Lagalisti kvöldsins:

The Robots
Metropolis
Numbers / Computer World
Home Computer
Computer Love
The Man Machine 
Spacelab
Das Modell
Neon Lights
Autobahn
Tour De France 1983
Chrono
Tour De France 2003
Airwaves / News 
Geiger Counter / Radioactivity 
Trans-Europe Express / Abzug / Metal on Metal
Boing Boom Tschak / Musique Non Stop / Techno Pop 

Aéro Dynamik
Expo 2000
Planet of Visions

IMG_1159

IMG_1160

IMG_1161

Takk fyrir mig þú yndislega Airwaves hátíð!

– Torfi

Airwaves ’13: Föstudagur

Ég byrjaði föstudaginn snemma með því að mæta í röðina fyrir miða á Kraftwerk. Blessunarlega var ég mættur í fyrra fallinu eða 09:15 og náði röðinni þegar hún var ennþá inni í Hörpu. Tíminn leið sem betur fer hratt og var það að mörgu leyti skemmtilegum félagsskap í röðinni að þakka. Miðarnir voru svo afhentir á réttum tíma og náði ég miðum á 13 bekk.

Smá brot af röðinni sem var fyrir utan.

Smá brot af röðinni sem var fyrir utan.

Föstudagurinn hófst á hótelinu Kvosin þar sem vegleg off-venue dagskrá var í gangi. Er ég kom voru danirnir í Shiny Darkly að spila og var ansi stappað af fólki inni í portinu. Dagskránni hafði augljóslega seinkað og náði ég því fleiri lögum með dönunum en ég átti von á. Þeir voru ekki mikið fyrir að spjalla, spiluðu bara tónlistina sína og fóru svo en það hlýtur bara að vera partur af programmet hjá þeim. Annars minntu þeir mig svolítið á Joy Division sem er að sjálfsögðu bara jákvætt en ég vona samt að söngvarinn hengi sig ekki.

Þá var komið að vonbrigðum Airwaves 2013 hingað til, Carmen Villain frá Noregi. Guð minn almáttugur hvað það var pínlegt að fylgjast með henni og tveimur öðrum meðlimum stilla upp. Að vísu var einn meðlimurinn tilbúinn löngu á undan hinum en það var samt algjör óþarfi hjá honum að spila stefið í „Lifeissin“ trekk í trekk á meðan. Að endingu fór þetta svo loksins í gang en mér fannst þetta vera full slappt. Þrír gítarar og lágstemd tónlistin gerðu ekki neitt fyrir mig og eina lagið sem ég fýlaði var búið að eyðileggja fyrir mér áður en tónleikarnir hófust.

Belgarnir í Girls in Hawaii voru sem betur fer næstir en ég batt miklar vonir við þá enda diskurinn þeirra From Here to There frá árinu 2005 afskaplega fínn. Þeir tóku nú ekki mörg lög af honum en það var allt í lagi, þeir eiga greinilega fleiri góð lög því að þeir stóðu sig virkilega vel, reyndar var kannski ekki erfitt að heilla eftir vonbrigðin hjá Carmen Villain. Þeir rifu allavega upp stemninguna í Kvosinni og skiluðu mér ánægðum út á on-venue dagskránna og ég get bara ekki beðið um meira en það.

Girls in Hawaii voru í miklu stuði.

Girls in Hawaii voru í miklu stuði.

Gamla bíó var fyrsti áfangastaður en þar var íslenska sveitin Tilbury að fara að stíga á stokk. Það var frekar erfitt fyrir mig að hlusta á Þormóð söngvarann tala eftir að hafa horft á þættina um Hulla en ég var ekki kominn til að hlusta á hann tala heldur syngja. Tilbury voru frábærir, vel spilandi og öruggir í öllum sínum aðgerðum. Nýja efnið fékk að hljóma en mér til mikillar gleði fengu „Tenderloin“ og „Drama“ einnig að fylgja með og gekk ég afar sáttur út úr dyrum.

Þorri í hlutverki sínu í Hulla.

Þorri í hlutverki sínu í Hulla.

Nú lá leiðin á Listasafnið en þar var bandaríska hljómsveitin Papa að fara að stíga á svið. Þeir komu heldur betur á óvart og sigruðu þá áhorfendur sem mættir voru. Söngvarinn tók Phil Collins á þetta en hann sá um trommuleik einnig. Papa eiga nokkur alveg ótrúlega skemmtileg lög en til að krydda upp á þetta hjóluðu þeir í „Because of the Night“ eftir Patti Smith og Bruce Springsteen til að gjörsamlega toppa þessa glæsilegu tónleika.

Drengirnir í Papa komu skemmtilega á óvart.

Drengirnir í Papa komu skemmtilega á óvart.

Eftir stopp á Bæjarins beztu var stefnan tekin á Hörpuna. Þar sá ég John Grant í þriðja skiptið en í fyrsta sinn í Hörpunni. Hann var góður en ögn rólegur miðað við stuðið sem ég var í. „Black Belt“ og „GMF“ voru því algjörir hápunktar enda lang hressustu lögin sem fengu að hljóma hjá mínum manni. John Grant er samt alltaf flottur en það þurfti eitthvað meira og það fékk ég heldur betur frá næsta atriði.

Það var enginn annar en Omar Souleyman frá Sýrlandi. Hann kom sá og sigraði þetta kvöld en ég hef aldrei heyrt aðra eins tónlist á minni ævi og var hún að virka ótrúlega vel. Silfurbergið var stappað og það var varla kjaftur sem ekki hreyfði sig í takt við tóna Omars. Sviðsframkoma Omars gekk eiginlega bara út handahreyfingar, klapp og labb um sviðið en þetta var allt mjög áhrifaríkt enda maðurinn klæddur eins og hann var með sólgleraugu og rándýra mottu. Omar Souleyman er ótrúlegur listamaður sem býður upp á nýja upplifun af tónlist sem nær að hreyfa við fólki og jafnvel fara með þau í hugarflug til fjarlægra og framandi landa. Ég spái því að hann eigi eftir að hafa mikil áhrif á vestrænan heim músíkanta og tónlistar unnendur víða um heim en það er allavega morgunljóst að tónleikar hans í Silfurbergi 1. nóvember 2013 gleymast seint.

Omar Souleyman átti Silfurbergið í u.þ.b. 40 mínútur.

Omar Souleyman átti Silfurbergið í u.þ.b. 40 mínútur.

Hljómsveitin AlunaGeorge frá Bretlandi lokaði svo föstudagskvöldinu hjá mér. Eftir rólegan fyrri hálfleik var öllu til tjaldað í þeim seinni en þá fékk smellurinn „Attracting Files“ að hljóma sem og þeirra útgáfa af „White Noise“ með Disclosure en hún söng inn á það lag. Fínustu tónleikar svona þegar leið á þá en Aluna Francis gerði mikið fyrir tónleikana enda afskaplega myndarleg stúlka. Botninn þar með sleginn í föstudagskvöldið sem var afar fjölbreytt og skemmtilegt að þessu sinni.

– Torfi

Airwaves ’13: Fimmtudagur

Á fimmtudaginn ákvað ég að byrja snemma og nýta mér off-venue dagskrána til þess að sjá bönd sem ég bjóst ekki við að ná on-venue. Stúdentakjallarinn varð fyrir valinu en þar fóru fram tónleikar undir yfirskriftinni Blast from Canada. Dagskránni hafði seinkað eitthvað en þegar ég mætti voru Royal Canoe að klára en það litla sem ég sá frá þeim leit bara nokkuð vel út.

Hljómsveitin Cousins var næst á svið en hún innihélt aðeins tvo meðlimi, kvenkyns trommara og ungan mann sem söng og spilaði á gítar. Ég get ekki sagt að ég hafi búist við miklu þegar ég sá þau tvö stilla upp en þau komu mér heldur betur á óvart með keyrslu sinni og þokkalegustu lögum.

Þegar Cousins hafði lokið sér af var komið að The Balconies. Þau komu mér á óvart rétt eins og hin og þá aðallega frúin í bandinu sem fór á kostum uppi á sviðinu og hefur greinilega æft hreyfingarnar sínar eitthvað heima fyrir. Spilagleðin skein af sveitinni og það kom lítið á óvart að þau ætli sér að koma alls átta sinnum fram á hátíðinni.

Síðasta sveitin á dagskrá í kjallaranum var We Are Wolves, þrír mjög svo ólíkir menn með mikla hæfileika. Þeir voru flottir og viðhéldu keyrslunni og orkunni sem hafði einkennt kanadísku hljómsveitirnar til þessa. Í lokin tóku þeir ábreiðu af „Paranoid“ með Black Sabbath sem hentaði stíl þeirra og rödd söngvarans fáránlega vel. Ég fór því vel gíraður og sáttur inn í miðbæinn þar sem leið mín lá á Listasafnið en yfirskriftin á Stúdentakjallaranum stóð svo sannarlega undir nafni, þetta var algjör sprengja frá Kanada!

Fyrsta sveit á svið var hin frábæra Sometime sem hefur gefið út tvær afbragðs fínar plötur á síðustu árum. Diva de la Rosa var söm við sig hvað dressið varðar og henni til halds og trausts var Danni sem sá um músíkina. Tónleikarnir voru flottir og nutu tónarnir sín vel í Listasafninu en þeir hefðu þó verið ennþá betri hefðu þau tekið „Désormais“.

Hin bandaríska Caveman áttu næsta leik en ég var frekar spenntur fyrir þeirri hljómsveit svona fyrirfram. Þrátt fyrir að hafa tekið bæði lögin sem ég vildi heyra fannst mér þeir ekkert fara á kostum. Lögin svona heilt yfir voru öll frekar svipuð, vel flutt en samt voða lítill munur á milli laga. Viss vonbrigði frá heillisbúunum.

Ojba Rasta flokkurinn var næstur á svið en hann hefur pungað út tveimur plötum á tveimur árum sem er aðdáunarvert fyrir íslenska sveit. Það á greinilega að reyna að selja Friðinn yfir hátíðina en þau vörpuðu upp stórri mynd af plötu umslaginu ásamt því að henda út þremur diskum í áhorfendur í lok tónleika. Tónleikarnir sjálfir voru þokkalegir en ég er ennþá að venjast nýja efninu fyrir utan auðvitað „Einhvern veginn svona“ sem er í hópi bestu laga ársins á Íslandi. Að fá smá reggí í kroppinn var líka ágætis tilbreyting frá öllu hinu.

IMG_1034

Fyrir hátíðina var einn mesti valkvíðinn að velja á milli Jagwar Ma og Yo La Tengo. Ég kaus hressleikann fram yfir gæðin kannski og ég sé ekki eftir því. Jagwar Ma er nokkuð ný hljómsveit sem blandar saman raftónlist og (indí)rokki. Þeir lögðu allt í tónleikana og kannski full mikið á köflum en stundum ærðist maður vegna hávaða frá þeim. Jagwar Ma eiga nokkur alveg helvíti fín lög en ég spái þeim mikilli velgengni á komandi árum og alls ekki ólíklegt að maður noti einhvern tímann frasann „Já ég sá þá á Airwaves“.

IMG_1042

Ég kláraði að vísu ekki tónleikana hjá Jagwar Ma en tvö önnur nöfn áttu huga minn en það voru Anna von Hausswolff og The Young Fathers. Daman varð fyrir valinu og lenti ég smá röð fyrir utan Gamla bíó en þá voru liðnar 20 mínútur af tónleikum Önnu. Salurinn var stappaður og því þurfti ég að gera mér það að góðu að sitja á gólfinu um stund en það var allt í lagi því að Anna kynnti næsta lag sitt sem „hit song“ og það var að sjálfsögðu hið frábæra „Mountains Grave“ og ákvörðunin um að hafa valið Önnu hafði strax borgað sig. Tónlist hennar naut sín vel í Gamla bíói (eins og öll tónlist gerir) og fór hún á kostum rétt eins og hljómsveitin hennar. Anna hefur yfir ótrúlegri rödd að ráða og hefur ekkert fyrir því að fara með hana upp í hæstu hæðir. Ótrúlegur listamaður sem ég var svo heppinn að fá að sjá í bestu mögulegu aðstæðum.

Ég var saddur eftir þetta og hélt heim á leið eftir frábæran Airwaves fimmtudag!