Monthly Archives: október 2013

Airwaves ’13: Miðvikudagur

Þá er biðinni lokið, stærsta og skemmtilegasta tónlistarhátíð Íslands er gengin í garð og er hátíðin númer 15 í röðinni. Á miðvikudeginum eiga íslensku listamennirnir sviðið sem er þeim ansi mikilvægt myndi ég telja enda eignast þeir nýja aðdáendur og hljóta vonandi náð fyrir augum pressunnar. En nóg um það, ég skellti mér í Hörpuna rétt fyrir klukkan 20 og var stefnan tekin á Silfurbergið.

Fyrstir á svið voru strákarnir í Lockerbie. Ég hafði aldrei hlustað á þá af neinu ráði þó aðeins heyrt lög með þeim í útvarpinu. Áður en þeir gengu á svið var búið að bregða upp mynd af nafni sveitarinnar með silkimjúkum tónum undir en þeir voru duglegir að nýta sér myndvarpann í gegnum settið sitt. Lockerbie er svona poppaðari myndin af Sigur Rós og má segja að stór umgjörð eins og er að finna í Silfurbergi henti þeim vel. Fínustu tónleikar hjá drengjunum sem byrjuðu kvöldið mitt af miklum krafti.

Næstir á svið voru reynsluboltarnir í Leaves sem nýverið gáfu út sína fjórðu plötu. Þeir byrjuðu einmitt tónleika sína á lagi af henni, „The Sensualist“, kraftmikið og grípandi lag. Því miður fannst mér tónleikarnir detta niður eftir það og ég vildi fá að heyra meira rokk sem varð svo raunin þegar þeir töldu í hið stórgóða „Ocean“. Þessi tvö lög voru ljósu punktarnir að þessu sinni en lagaval hefði mátt vera þekktara að mínu mati.

Salurinn fór langt með að fyllast þegar að hún Sóley mætti á sviðið en þessir rúmlega 160.000 fylgjendur á facebook hjá henni eru greinilega engin tilviljun. Sóley er alltaf söm við sig, með sína yndislegu nærveru og fallegu tónlist. Lög af plötunni We Sink í bland við ný fengu að hljóma („Halloween“) og verður spennandi að heyra meira. Ætla má að Sóley hafi verið á tónleikum James Blake á Sónar í ár enda sýndi hún svipaða takta með því taka sjálfa sig upp og spila aftur sem kom rosalega vel út. Nú bíð ég bara eftir Sóley og Sinfó í Eldborg.

Samaris áttu næsta leik en hún hefur verið að gera það gott alla daga síðan að hún vann Músíktilraunir. Ég missti af þeim í fyrra en ég ætlaði ekki að gera sömu mistök aftur. Þau byrjuðu af miklum krafti og settu strax tóninn fyrir það sem koma skildi. Samaris búa yfir vel heppnaðri blöndu af raftónlist, klarinetti og seiðandi rödd Jófríðar. Stemningin var dularfull og drungaleg en bauð líka upp á danspor en kannski ekki á miðvikudagskvöldi. Fallegir textarnir á íslenskri tungu gerðu svo útslagið. Ég er allavega farinn beint út í næstu plötubúð að tryggja mér eintak af plötunni þeirra.

Þá var það Bloodgroup en ég verð bara að viðurkenna að ég hef aldrei fýlað þau neitt sérstaklega. Þau voru samt vel gíruð og þá sérstaklega Janus sem getur varla stillt sig í eitt augnablik. Það var mikill kraftur í Bloodgroup en kannski full mikil keyrsla fyrir minn smekk svona á kristilegum tíma á miðvikudegi og var ég farinn að lengja eftir Emilíönu Torrini.

Skiptingin á milli Bloodgroup og Emilíönu Torrini tók sinn tíma enda mikið magn af græjum sem fylgir báðum sveitum. Þannig að Torrini hóf ekki leik fyrr en 10 mínútum eftir áætlaðan tíma en það var ekki erfitt að fyrirgefa snót eins og henni enda einstök í allri sinni framkomu. Hún var mætt með sex manna hljómsveit sem kunni sitt fag og meir en það. Þau töldu í lög af nýju plötunni TookahMe and Armini og líka Fisherman’s Woman. Á milli þess ræddi hún við gesti á íslensku og er maður hálf ástfanginn af henni svona eftir á. Það er engin tilviljun að hún hafi náð eins langt og raun ber vitni enda afar hreinn og beinn listamaður sem er óhrædd við að tjá tilfinningar sínar í lögum sínum og á tónleikum. Hún syngur sig inn í hjörtu fólks sem er ekki á færi margra og tekur mann með sér í ferðalag tilfinninga. Það eru afar miklur líkur á því að bestu tónleikar Airwaves 2013 séu þegar afstaðnir!

IMG_0997

Emilíana Torrini í allri sinni dýrð í Silfurbergi.

– Torfi

Auglýsingar