Monthly Archives: ágúst 2013

Topp 5: Kvikmyndir um samkynhneigð

Til heiðurs samkynhneigðra og helgarinnar sem bíður þeirra fannst mér tilvalið að henda í smá lista yfir bestu kvikmyndir um samkynhneigð (sem ég hef séð). Það er til þó nokkur slatti af kvikmyndum sem fjallar um samkynhneigð á einn eða annan hátt en það sem ég hef séð er bara brotabrot af því úrvali sem til er.

# 5 The Kids Are All Right (2010)

the_kids_are_all_right031
Nic og Jules eru lesbískt par og eiga þær saman tvö börn, Laser og Joni. Systkinin vilja dag einn gjarnan finna sinn náttúrulega föður og er þau finna hann bjóða þau honum að hluta til inn í líf sitt sem var kannski ekki svo sniðugt eftir allt saman. Frábær og mannleg mynd sem nær að blanda saman gríni og alvöru með miklum sóma.

# 4 Mysterious Skin (2004)

Mysterious
Joseph Gordon-Levitt hefur skotist hratt upp á stjörnuhimininn á síðustu árum en hans helsti leiksigur hlýtur að vera í þessari kvikmynd þar sem hann leikur hinn ráðvillta Neil. Neil var misnotaður í æsku af þjálfara sínum ásamt öðrum dreng og eru afleiðingar þeirra gjörólíkar. Sumar senurnar í kvikmyndinni reyna mikið á en til að hafa í sig og á selur Neil sig og það eru í öllum tilvikum eldri menn með ólíkar nautnir. Þessi er ekki fyrir viðkvæma.

# 3 Brokeback Mountain (2005)

le-secret-de-brokeback-mountain-8
Brokeback Mountain er líklega ein umtalaðasta mynd seinni ára en hún vakti ansi sterk viðbrögð á sínum tíma og gerir sennilega enn. Jake Gyllenhaal og Heath Ledger heitinn voru rísandi stjörnur á þessum tíma og tóku mikinn séns með þessum hlutverkum en þeir komust svo sannarlega vel frá þeim. Jack Twist og Ennis Del Mar eru ráðnir sem fjárhirðar eitt sumarið í Wyoming og upp í fjallinu gerast hlutir sem þeim báðum óraði líklega ekki fyrir. Eftirminnileg mynd með frábærum leikurum og enn betri leikstjóra.

# 2 Milk (2008)

james-franco-penn_1788110b
Frammistaða Sean Penn í hlutverki Harvey Milk er óaðfinnanleg enda kom það engum á óvart er hann hlaut Óskarinn fyrir besta leik í aðalhlutverki. Harvey Milk var fyrsti viðurkenndi samkynhneigði stjórnmálamaðurinn í Kaliforníu og barðist hann fyrir réttindum samkynhneigðra allt til dauðadags. Myndin er falleg og í senn átakanleg en umfram allt gríðarlega vel leikin en ásamt Penn eru þarna drengir eins og James Franco, Emile Hirsch og Josh Brolin. Milk er skylduáhorf!

# 1 I Love You Phillip Morris (2009)

i-love-you-phillip-morris-www-whoisscout-com-4
Mín uppáhalds mynd um samkynhneigð er I Love You Phillip Morris sem skartar þeim Jim Carrey (my man) og Ewan McGregor (Obi-Wan Kenobi!) í aðalhlutverkum. Eftir að Steven Russell (Carrey) lendir í bílslysi hefst hjá honum nýtt líf sem samkynhneigður maður. Russell lifir hátt og nýtir þekkingu sína sem fyrrum lögregluþjónn til að svindla á kerfinu en að endingu kemst upp um gjörðir hans og hann settur í steininn. Þar kynnist hann Phillip Morris (McGregor) og fellur gjörsamlega fyrir honum. Ástin verður sterkari en frelsið sem Russell öðlast svo að nýju og heldur þá brandarinn áfram þegar hann kemur sér inn í fangelsið aftur með ýmsum brögðum til þess eins að vera með ástmanni sínum. Þó að þetta hljómi eins og algjört grín þá er Steven Russell til í alvörunni og afplánar nú sinn 140 ára fangelsisdóm.

– Torfi

Auglýsingar