Plötudómar

Áður fyrr er Monitor var nett blað skrifaði ég plötudóma þar. Það voru engin laun í boði en ég fékk að eiga diskana sem ég gagnrýndi og fyrir plötufíkil eins og mig var það ásættanlegt. Ég ætla að gamni mínu að hafa þá hér til sýnis ef einhver skyldi hafa áhuga á að lesa.

Torfi

Atomstation – Exile Republic (2008)

70%

Atomstation eða Atómstöðin hefur látið lítið fyrir sér fara síðustu ár eða allar götur síðan að hún gaf út frumburð sinn New York – Bagdad – Reykjavík árið 2003. Hljómsveitin hefur þó ekki setið auðum höndum heldur hefur hún verið að vinna að nýjustu afurð sinni Exile Republic.

Hljómur Atomstation hefur breyst til hins betra. Hljómsveitin er orðin mun þéttari og sjóaðri í spilamennsku og ljóst er að liðsmenn sveitarinnar hafa bætt sig mikið. Einnig þykir mér söngur Gumma vera stórgóður.

Platan er rúmlega hálftími að lengd og á henni eru tíu lög. Fyrsta lag plötunnar „Credo“ gefur strax tóninn fyrir það sem koma skal, alvöru rokk og ról. Því er svo fylgt eftir með hinu hraðskreiða og þétta „Mace“ og einu besta lagi plötunnar „Think No“. Næstu tvö lög skilja svo lítið eftir sig en platan kemst aftur á flug með hinu stórgóða „Kill Us All“ þar sem Gummi fer á kostum. Hamagangurinn og rokkið heldur svo áfram í næstu þremur lögum og í síðasta lagi plötunnar gíra þeir sig svo aðeins niður í laginu „Lifetime“ þar sem þeir loka plötunni með pompi og prakt.

Strákarnir í Atomstation geta borið höfuðið hátt því loksins er komin út alvöru íslensk rokkplata með skítugum textum og einu smekklegasta plötuumslagi sem undirritaður man eftir!

Lykillög: Mace, Think No, Kill Us All, Lifetime.

_______________________________________________________________________

Boys in a Band – Black Diamond Train (2008)

75%

Frumburði Boys in a Band hefur verið beðið eftir með talsverði eftirvæntingu. Færeysku strákarnir hafa vakið mikla athygli undanfarið en árið 2007 urðu þeir sigurvegarar í Global Battle of the Band. Nú hefur þeirra fyrsta breiðskífa litið dagsins ljós en stenst hún væntingar?

Já, platan er gríðarlega safarík og bjóða strákarnir upp á virkilega fersk og grípandi indí rokk lög. Pætur Zachariasson býr yfir geysilega hressandi og kraftmikilli rödd og eru hann og Heini töframenn þegar kemur að krefjandi gítarlínum, reyndar spila þeir allir óaðfinnanlega á hljóðfærin sín. Heildarsvipurinn á plötunni er virkilega góður og nær hvergi slær við slakan tón. Það sem kemur líka einna mest á óvart er hve mikið er af góðum slögurum sem ættu að geta ratað beint inn á öldur ljósvakans. Á plötunni eru fá feilspor stigin þó að meiri fjölbreytni hefði ekki skemmt fyrir. Einnig getur keyrslan á disknum gert mann þreyttan í eyrunum til lengdar.

Það ætti enginn að verða svikinn af þessari plötu. Strákarnir hafa búið til ansi skemmtilegan hljóm sem ætti að koma hverjum sem er í stuðið.

Vert er að minnast á það að Boys in a Band eiga að koma fram á Iceland Airwaves hátíðinni og því um að gera að undirbúa sig fyrir herlegheitin, reima skóna, hlaupa út í næstu búð og tryggja sér eintak!

Lykillög: Before the Flood, The Curtain, Dance in the Pale Moonlight, Deliver Us From Evil.

_______________________________________________________________________

Garðar Thór Cortes – When You Say You Love Me (2008)

45%

Stórtenórinn Garðar Thór Cortes er án efa einn fremsti klassíski söngvarinn á Íslandi í dag. Hann hefur komið fram víða og gert það afar gott út í Bretlandi þar sem hann býr.

When You Say You Love Me er hans þriðja plata og hefur hún að geyma 14 lög og þar af eitt íslenskt. Lögin eru flest öll mjög falleg og gríðarlega vel sungin af Garðari en fyrir utan hápunkta plötunnar þá eru lögin mörg hver svipuð og renna flest í sömu súpuna sem verður heldur bragðlaus.

Garðar syngur öll lögin sjálfur nema lagið „The Prayer“ en þar syngur hann dúett með velsku söngkonunni Natasha Marsh. Það heppnast einstaklega vel og er á meðal bestu laga plötunnar. Ítalska lagið „Mattinata“ er gríðarlega öflugt lag sem Garðar syngur eins og sannur herforingi og maður gæti séð það fyrir sér spilað undir í auglýsingu. Rúsínan í pylsuendanum er svo vögguvísa Jóhanns Sigurjónssonar, „Sofðu unga ástin mín“ en þar er Garðar í s-inu sínu.

Platan rennur ljúflega í gegn án þess þó að skilja mikið eftir sig, er þó fín ábót fyrir aðdáendur Garðars Cortes, en fyrir nýja aðdáendur mæli ég með fyrri verkum hans. Fróðlegt verður að fylgjast með honum í framtíðinni þar sem samstarf hans og Einars Bárða „umboðsmanns Íslands“ er lokið.

Lykillög: Mattinata, The Prayer, Sofðu unga ástin mín.

_______________________________________________________________________

Jóhann Kristinsson – Call Jimmy (2008)

70%

Call Jimmy er frumburður hins tvítuga Jóhanns Kristinssonar. Platan mun vera nokkurs konar samansafn laga sem hann hefur verið að semja undanfarin 2 ár. Acoustic, lo-fi og folk eru orð sem mætti nota yfir tónlist Jóhanns.

Þrátt fyrir enga menntun í tónlist kemur það ekki niður á gæðum laganna og það er merkilegt að Jóhann spilar á öll hljóðfærin á plötunni sjálfur fyrir utan smá hjálp í „Waiters & Bellboys“. Einnig semur hann alla textana sjálfur en í þeim felast oft skemmtilegar sögur og ádeilur.

Platan rennur þægilega í gegn og hvergi sér maður ástæðu til þess að skipta um lag. „The Trip“ fyllir mann vellíðan og gæti fengið hvern sem er til að raula með. „Throw Me Into the Sea“ gefur manni hroll og mjög svo skemmtilegur bragur yfir því lagi. „Átt þú loftið?“ fjallar um lands vors náttúru og er textinn áhugaverður í samanburði við allt það fár sem á sér stað í kringum íslenska náttúru í dag. Þetta eru verðlaunasætin á plötunni en restin er ekki langt undan.

Jóhann er ekki að finna upp hjólið heldur er hann samur við sig og skilar frumburði sínum býsna vel frá sér. Vonandi verður biðin eftir næstu plötu ekki löng.

Lykillög: Átt þú loftið?, Throw Me Into the Sea, The Trip.


Lay Low – Farewell Good Night’s Sleep (2008)

82%

Lay Low er án efa eitt heitasta númerið á íslenskum tónlistarmarkaði í dag. Frægðarsól hennar hefur risið jafnt og þétt og eru erlendir útgefendur farnir að renna til hennar hýru auga. Nýjasta afurð hennar stenst algjörlega allar væntingar sem til hennar voru gerðar.

Hljómur Lovísu hefur tekið miklum framförum miðað við fyrstu plötu hennar og hefur kannski samstarf hennar við erlenda músíkanta eitthvað um það að segja. Músíkin er líka breytt, blúsinn sem einmitt einkennir stílinn hennar er ekki eins yfirborðskenndur eins og hann var áður.

Platan byrjar á hinu eitursvala „I Forget It’s There“ en spilamennska og útsetning eru þar í hæsta gæðaflokki. Sömu sögu má segja um næsta lag „By and By“ sem fengið hefur góða spilun í útvarpi landans. „Last Time Around“ nýtur þess heiðurs að vera hressasta lagið á plötunni þar sem kántrí fýlingurinn svífur yfir vötnum. Þetta eru hápunktarnir, en hér sannast að molar eru líka brauð því restin er ljómandi góð og lyftir plötunni á hærra plan.

Farewell Good Night’s Sleep hentar fólki á öllum aldri og ættu vögguvísurnar hennar Lovísu að lyfta okkur upp í skammdeginu.

Lykillög: By and By, Days Have Been, I Forget It’s There, Last Time Around.


Nýdönsk – Turninn (2008)

50%

Turninn er áttunda hljóðversplatan frá Nýdönsk og sú fyrsta í heil 15 ár með Daníel Ágúst innanborðs. Töffarinn virðist vera á útopnu þessa dagana en auk endurkomunnar er hann að gera fína hluti í hljómsveitinni Esju. En nær hann að vekja gömlu félagana til lífsins?

Fyrsti fjórðungur plötunnar lætur vel að eyrum og ber þá helst að nefna lögin „Biðin“ og „Alla tíð“ en skemmtileg textasmíð prýðir hið fyrrnefnda. Næstu fjögur lög eru heldur auðgleymanleg fyrir utan lagið „Askan“ sem er hið ágætasta. Daníel Ágúst minnir á sig í laginu „Eðlileg“ en þar býður hann uppá fínustu lagasmíð með grípandi viðlagi. Hann er svo aftur að verki í laginu „Taktu mig fastan“ sem er óneitanlega besta lagið á plötunni og þar sýna liðsmenn hvað í þeim býr.

Niðurstaðan er sú að annað hvert lag á plötunni er gott og er það ekki ásættanlegt miðað við getu liðsmanna. Textarnir eru líka flestir lítið fyrir eyrað og allar tilvitnanir í krepputíð eru fráhrindandi. Björn Jörundur má þó eiga heiðurinn af bestu textunum á plötunni.

Daníel Ágúst kemur sterkur inn en það er því miður ekki nóg. Nýdönsk bjóða hér því aðeins uppá plötu í meðallagi sem skilur lítið eftir sig.

Lykillög: Alla tíð, Biðin, Eðlileg, Taktu mig fastan.


Oasis – Dig Out Your Soul (2008)

70%

Ferill Oasis hefur verið með misjöfnu móti undanfarin ár og má segja að hann hafi legið niðrá við með hverri plötunni sme þeir hafa gefið út. En það hindrar ekki hrokagikkina í að halda áfram og senda þeir hér frá sér sína sjöundu plötu.

Noel hafði orð á því að engu yrði til sparað við gerð nýju plötunnar og hann hefði helst viljað hafa 100 manna sinfoníuhljómsveit á bakvið sig, kóra og allan fjandann. Það sést strax á fyrsta lagi plötunnar „Bag It Up“ að honum er alvara en þar er um ansi öflugt lag að ræða. Áfram heldur rokkið og halda þeir hlustandanum við efnið. „The Shock of the Lightning“ er vel heppnuð lagasmíð en toppar þó ekki hið dramatíska „Falling Down“ sem er án efa besta lagið á plötunni og jafnvel þeirra besta í langa tíð. Restin er svo örugg og lokalagið „Soldier On“ eftir Liam er hreint afbragð og sést það vel að hann er mun rólegri lagasmiður heldur en bróðir sinn (á þessari plötu allavega).

Fólk bjóst kannski ekki við miklu frá kokhraustu Manchester strákunum en þeir geta gengið býsna stoltir frá þessari plötu. Hún er líka flottur efniviður í tónleikahald og verða tilvonandi áhorfendur varla sviknir af þeim miðakaupum.

Lykillög: Bag It Up, Falling Down, The Shock of the Lightning, Soldier On.


Retro Stefson – Montana (2008)

80%

Retro Stefson er ein áhugaverðasta sveit sem hefur komið upp í íslenska tónlistarlífi síðustu ár. Hljómsveitin er þekkt fyrir að búa til frábæra stemningu á tónleikum og gerðu þau það virkilega gott á síðustu Airwaves hátíð. En stóra spurning er sú hvort meðlimum takist slíkt hið sama í græjunum heima hjá fólki.

Á plötunni er að finna fullt af afbragðs lögum. Tvær útgáfur eru af laginu „Papa Paulo III“ sem kom Stefson á bragðið. Nýrri útgáfan er talsvert öflugri og ná þau að endurlífga lagið svo um munar með góðri keyrslu og skemmtilegri spilamennsku. „Luna“ er kósí rómantísk ballaða og „Ísland í dag“ kemur skemmtilega á óvart. Hið 12 mínútna „Senseni“ er æðisgengið lag sem líður ekki fyrir lengd sína og „Life“ lokar svo plötunni með stæl! Aðeins eitt lag þjónar engum tilgangi á plötunni en það er lagið „Tælandi“, stutt lag sem virkar eins og það sé tekið á tónleikum og endar í rauninni áður en það byrjar.

Lof Retro Stefson á rétt á sér en önnur eins frumlegheit hjá íslenskri sveit hafa sjaldan heyrst. Þau bjóða uppá allan fjandann af stefnum og ná að meðhöndla það fagmannlega. Montana er einn öflugasti frumburður síðari ára og blessunarlega eru þau rétt að byrja!

Lykillög: Ísland í dag, Life, Pape Paulo III (re-edit), Senseni.


The Streets – Everything Is Borrowed (2008)

60%

Rapparinn Mike Skinner (The Streets) á býsna farsælan feril að baki og er Everything Is Borrowed hans fjórða hljóðversplata.

Mikið hefur gengið á við undirbúning plötunnar, t.d. henti Skinner út öllu efni sem hann hafði samið, þar sem honum þótti það ekki nógu gott á plötuna. Einnig lak á netið lag sem hann hafði tekið upp með hljómsveitinni Muse en það er þó ekki að finna á plötunni.

Platan byrjar þrusuvel á titillaginu „Everything Is Borrowed“ sem er einkar töff og grípandi lag. „Heaven for the Weather“ fylgir þar á eftir og er það mjög svo breskt og skemmtilegt. Því miður er restin af plötunni ekki jafn sterk og maður átti von á fyrir utan ágætis lög eins og „I Love You More (Than You Like Me)“, „The Sherry End“ og „The Escapist“. Lögin eru alls ekki leiðinleg en það vantar bara allan þéttleika og sjarma sem einmitt einkennir lögin hjá The Streets.

Mike Skinner er staddur á byrjunarreit í nýrri þróun á ferli sínum og greinilegt er að hann er farinn að pæla í meiru en bara hversdagsleikanum sem er góðs viti. Af þeim sökum má búast við því að næsta plata verði mun betri, ef Skinner tekst að þróa feril sinn í rétta átt.

Vert er að minnast á íslenskar myndskreytingar á plötunni en hinn fagri Skógarfoss prýðir t.d. plötuumslagið.

Lykillög: Everything Is Borrowed, Heaven for the Weather, The Escapist.


Wanker of the 1st Degree – Retrograde! (2008)

20%

Wanker of the 1st Degree er listamannsnafn Jósef Karls Gunnarssonar en hann er 25 ára að aldri. Tónlist Jósefs má lýsa sem einhverri blöndu af raftónlist og tölvupoppi.

Retrograde! mætti kalla nokkurs konar heimabrugg hjá Jósef en hún er hans fyrsta plata sem kemur út fyrir almenning. Plötuna gefur hann út sjálfur og auk þess myndskreytir hann plötuumslagið. Jósef semur öll lögin á plötunni og notar til þess tónlistarforritið Ableton Live 7.0 ásamt tölvuhljómborði sem kallast Micro Korg. Það er svo í umsjá George nokkurs Kent að mixa og mastera plötuna.

Platan er ekki mikið fyrir eyrað og nær hún sér aldrei á strik. Reyndar klórar hún aðeins í bakkann þegar líða fer á seinni hlutann en aldrei nóg til þess að koma plötunni til. Ástæðan er sú að lögin hljóma eins og þau séu á algjöru frumstigi. Sum þeirra lofa þó stundum góðu en það er bókstaflega drepið í þeim því þau líða fyrir það að vera alltof stutt. Söngur Jósefs virkar falskur og textarnir eru heldur slappir.

Maður verður því frekar feginn þegar síðasta lagi plötunnar lýkur því þetta er ekki plata sem hægt er að hlusta á oftar en einu sinni.

Á Myspace síðu Jósefs segir að hann hafi ekki lært á hljóðfæri heldur spili hann aðeins eftir eyranu. Myndi því mæla með að hann sæki um í tónlistarskóla og taki jafnvel stutt söngnámsskeið í leiðinni.

Lykillög: Friend or Foe?, Life Is an Enigma.


Weapons – A Ditch in Time (2008)

65%

Weapons er ung og efnileg hljómsveit sem samanstendur af þremur drengjum. Þeir demba sér hér útí íslensku tónlistarflóruna með frumburð sinn í farteskinu.

Upptökur og útsetningar voru í höndum drengjanna sjálfra en Gordon Raphael sá um hljóðblöndun en sá kauði hefur meðal annars unnið með sveitum á borð við The Strokes og Regina Spektor. Þó meðlimir séu aðeins þrír eru þeir ansi þétt spilandi band og hæfilega hráir en lýsa má tónlist drengjanna sem hrærigraut af rokki, pönki og indí.

Lögin eru að mestu leyti frekar hress og mikið um læti í þeim öllum sem gerir það að verkum að þau verða mörg hver svolítið keimlík. Hinsvegar eru lög sem standa þó nokkuð uppúr og rísa hærra en önnur. Lögin sem um ræðir eru „What’s Going on?“, „Sweetest Beat“, „Area 51“ og „Up Tight“ sem er fáránlega skemmtileg og grípandi lagasmíð, besta lagið án efa. Restin er svo í anda en bara ekki jafn melódísk.

Helsti kosturinn við tónlist Weapons er að hún er býsna einföld og skotheld en þeir eru lausir við alla tilgerð. Þeir gera þetta með hjartanu og það liggur við að maður heyri hjartsláttinn í þeim líka.

Lykillög: Area 51, Sweetest beat, Up Tight, Whatðs Going on?.

 

 

Auglýsingar

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s