Monthly Archives: júní 2014

Plötudómur: Prins Póló – Sorrí

Sorrí

Í fyrra skrifaði ég á Pottinn að ein mestu vonbrigðin árið 2013 hafi verið þau að Prins Póló hafi ekki gefið út plötu en miðað við lagið „Bragðarefir“ væri von á góðu í ár. Prinsinn fékk skilaboðin og var ekki nema 4 og hálfan mánuð að bregðast við með plötunni Sorrí en ég er afar hrifinn af nafngiftinni og tek hana til mín enda tel ég að Prinsinn sé að afsaka plötuleysið í fyrra.

Sorrí er þriðja plata Prins Póló og án efa sú besta þó að hinar tvær hafi verið afar skemmtilegar. Áður hafa komið út stuttskífan Einn heima (2009) og breiðskífan Jukk (2010). Lögin á Sorrí eru misgömul en það kemur ekki að sök og heildarbragur plötunnar er góður. Hér mæta til leiks frábær lög eins og „Bragðarefir“, „Tipp Topp“ og „Föstudagsmessa“ og hefði maður nú haldið að erfitt væri að halda í við þau. En Prinsinn er frjór í sköpun sinni og hleypir nokkrum skotum af í viðbót með lögum eins og „Hamstra sjarma“, „Ég kem með kremið“ og „Finn á mér“ sem er í uppáhaldi þessa dagana hjá þeim sem ritar.

Á þessari plötu er komið aðeins meira kjöt á beinið en á Jukk en hér er hljóðheimurinn orðinn stærri og takturinn fastari. Það gæti verið að Sexy Schidt útfærslan á „Niðrá strönd“ hafi opnað augu Prinsins og sýnt honum fram á það að hann gæti búið til lög sem ættu heima á sveittustu dansgólfum bæjarins. Plötusnúðar landsins hafa allavega úr nokkrum lögum að velja á Sorrí. 

Eins og áður eru textarnir fyrirferðamiklir og það er bara eitthvað að ef Svavar verður ekki tilnefndur sem textahöfundur ársins á Íslensku tónlistarverðlaununum fyrir árið 2014. Textarnir eru að sjálfsögðu á íslensku (fyrir utan smá útlensku í „Lúxuslíf“) og afskaplega vel samdir og skemmtilegir. Hlustendur fá því nokkuð mikið fyrir sinn snúð en ekki nóg með það að lögin séu hressandi og vel samin að þá hitta textarnir einnig í mark.

Þróun Prins Póló er ekki ósvipuð og hjá dúettnum Súkkat sem gaf á sínum tíma út þrjár plötur. Þeir félagar höfðu nokkuð hægt um sig á fyrstu tveimur plötunum sínum, Dúettinn Súkkat og Fjap en keyrðu svo allt í gang á þriðju plötunni sinni, Ull. Textarnir þeirra voru einmitt þeirra aðalsmerki og er því margt líkt með þessum tveimur hljómsveitum og hvet ég unnendur Prins Póló til að hlusta á Súkkat.

Niðurstaða: Prins Póló hefur tekist að toppa forvera sína og það með stæl. Eldri lögin hafa loksins fengið heimili og njóta góðs félagsskaps af nýjum lögum sem eru alls ekki síðri. Sorrí verður í bílnum þínum í allt sumar og ofarlega á árslistunum í vetur.

Ps. Hvort á maður að skrifa Prins Póló eða Prinspóló?

– Torfi Guðbrandsson

 

 

Auglýsingar