Monthly Archives: júní 2015

Kaleo hitar upp fyrir Kings of Leon

maxresdefault
Kaleo kemur til með að hita upp fyrir Kings of Leon sem kemur fram á stórtónleikum í Laugardalshöllinni þann 13. ágúst næstkomandi en þetta kemur fram í tilkynningu frá Senu á heimasíðu þeirra. Valið kemur ekki á óvart enda Kaleo búin að ryðja sér til rúms sem ein fremsta rokkhljómsveit landsins og svipar tónlistinni hennar oft til suðurríkjarokksins í landi tækifæranna. Hljómsveitin er einmitt að túra um Bandaríkin þessa dagana og reynir að heilla Kanann með tónlist sinni og miðað við það sem að Kaleo hefur uppá að bjóða ætti það að takast vel.

Tónleikar þeirra í Laugardalshöllinni 13. ágúst hljóta að verða þeir stærstu í sögu sveitarinnar enda von á 10.000 gestum. Þá er aldrei að vita nema að Caleb Followill og félagar taki ástfóstri við Kaleo og bjóði þeim að hita upp fyrir sig á fleiri tónleikum víðsvegar um heiminn. Kaleo er svo væntanleg til landsins seinna í sumar og mun halda tónleika í Gamla bíói þann 11. júlí næstkomandi.

– Torfi Guðbrandsson

Auglýsingar