Monthly Archives: maí 2015

Bíó: Hrútar (Rams)

Screen Shot 2015-05-29 at 11.00.46 AM

ENGLISH BELOW!

Kvikmyndin Hrútar eftir Grím Hákonarson var frumsýnd fyrr í þessum mánuði á hinni virtu kvikmyndahátíð í Cannes og gerði sér lítið fyrir og vann til Un Certain Regard verðlaunana. Myndin rataði svo í íslensk kvikmyndahús í gær og ákvað ég að skella mér á myndina ásamt föður mínum sem er mikill áhugamaður um íslensku sauðkindina enda uppalinn í sveit.

Hrútar segir frá tveimur bræðrum sem hafa ekki talast við í 40 ár þrátt fyrir að búa á sömu lóð. Þeir eru færir bændur og vinna reglulega til verðlauna fyrir öfluga hrúta sína. En þegar riðuveiki gerir vart við sig í stofninum hjá öðrum bróðurnum reynir enn meira á stirt samband þeirra en áður.

Sigurður Sigurjónsson og Theódór Júlíusson leika bræðurna og það er ekki hægt að hugsa sér betri kandídata í hlutverkin á þessari stundu. Báðir tveir eru algjörlega að toppa hvað varðar kvikmyndaleik og þá sérstaklega Siggi Sigurjóns sem hefur verið að sýna á sér áður óséðar hliðar í Borgríki-myndunum. Skjátími Sigurðar er lengri en Theódórs enda fylgist áhorfandinn með sögunni í gegnum hann og hvílir myndin því meira á hans herðum heldur en Tedda. Sigurður fer létt með að sæta þeirri ábyrgð enda ofboðslega viðkunnanlegur náungi sem getur gert mikið úr litlu. Það má í raun segja að hann hafi verið fæddur í þetta hlutverk og virkilega sannfærandi sem einstæður bóndi sem á ekkert annað að en elsku kindurnar sínar. Reyndar fékk hann góða upphitun fyrir ca. 30 árum  í Dalalíf sem hinn ógleymanlegi sveitaunnandi JR.

Aðrir leikarar stoppa stutt við og fá óumflýjanlega úr litlu að moða. Helst má nefna Svein Ólaf Gunnarsson sem stendur alltaf fyrir sínu og er hér í hlutverki lögfræðingsins Bjarna, Gunnar Jónsson sem smellpassar í hlutverk sitt sem bóndinn Grímur, Charlotte Bøving sem leikur Katrínu dýralækni og hrútaþuklara og svo Þorleif Einarsson sem útskrifaðist af leikarabraut frá LHÍ fyrir ekki svo löngu síðan og sýnir hér lipra takta. En Jón Friðrik Benónýsson ber af aukaleikurunum sem Runólfur enda fékk hann úr mestu að moða og gerði það einkar vel með sinni einstöku rödd og útliti. Mér þótti svo Jörundur Ragnarsson illa nýttur í sínu hlutverki og á leikari af því kalíberi meira skilið.

Hrútar er að mínu mati laus við alla tilgerð og gerir íslensku sauðkindinni góð skil. Myndin dregur upp raunhæfa mynd af lífi bóndans sem er ekki alltaf dans á rósum. Ég er pínu hræddur um að þeir sem ekki hafa alist uppí sveit eða fengið að kynnast lífinu þar af neinu viti átti sig á þeim mögnuðu tengslum sem að bóndinn og hans fólk á það til að mynda með kindunum. Sjálfum fannst mér það ótrúlegt að þeir bændur og sveitamenn sem ég hef kynnst segjast þekkja hverja einustu kind sína með nafni en þegar ég horfi á þær þá eru þær allar eins! Þeirra líf veltur á heilbrigðum kindastofni og maður getur varla ímyndað sér hversu mikið áfall það er fyrir bændur þegar smitsjúkdómur líkt og riða gerir vart við sig á þeirra jörð. Aðstandendum Hrúta hefur hins vegar tekist að draga upp raunsæja mynd af slíku áfalli og í leiðinni búið til fallega kvikmynd um tvo bræður sem að lokum þurfa að reiða sig á hvorn annan til að halda í það sem þeim er kærast.

Niðurstaða: Loksins er íslensku sauðkindinni gerð þau skil sem hún á skilið á hvíta tjaldinu án þess þó að ætla að gera lítið úr Dalalífi Þráins Bertelssonar. Sigurður Sigurjónsson eldist eins og gott rauðvín og verður bara betri með aldrinum og það sama má segja um Theódór Júlíusson. Myndin á verðlaunin á Cannes svo sannarlega skilið og verður gaman að fylgjast með gengi hennar úti í heimi.


 

Earlier this month Grímur Hákonarson Rams (Hrútar) was premiered at the Cannes Film Festival and received the Un Certain Regard prize in the same catalogue. It was premiered in Icelandic movie theaters yesterday and I went with my dad who happens to be very enthusiastic about sheeps.

Rams tells of two brothers who haven’t spoken in 40 years despite the fact that they live next door to each other. They’re very good farmers and get regular awards for their rams but when scrapie infests on their farm the brothers must rely on each other as never before.

The roles of the brothers are in the hands of Sigurður Sigurjónsson and Theódór Júlíusson and you can’t think of any better candidates to do the job at this moment. Both of them are on the top of their careers especially Siggi Sigurjóns who has been showing people that he is more than a comedy actor with his interpretation of the spoiled cop Margeir in the City State’s movies. The viewers watch the story through the eyes of Siggi who carries the movie on his shoulders. That job is well done by Sigurður as he is such a likeable guy who can do very much with very little. In fact you can say he was born into this role as he is so convincing as this singular farmer who loves nothing more than his sheeps. Let’s not forget that he got a little warm up 30 years ago when he played the unforgettable JP character in Dalalíf.

Other actors get little time as you can expect but most of them do a very good job. Sveinn Ólafur Gunnarsson delivers a good performance as you can always expect from him as the lawyer Bjarni, Gunnar Jónsson fits perfectly in his role as the farmer Grímur, Charlotte Bøving does a good job as the veterinarian and Þorleifur Einarsson shows his good moves as a new and upcoming actor. But the one that stands out of this lot is Jón Friðrik Benónýsson as Runólfur who gets the best lines when he presents the awards for the best ramp and tells the other farmers about the verdict on the scrapie test. He has such a unique voice and looks and it is strange that no director has noticed this gem of an actor before.

In my opinion Rams is unpretentious and draws a very realistic image of the Icelandic sheep and the farmer’s life which can get tough at times. I’m afraid that people who didn’t grow up in this environment or at least didn’t get a taste of it don’t realize the great bond that the farmer and his people happen to create with the sheeps. The fact that most of the farmers know all of their sheeps by name is crazy, for me they look all the same but for the farmers, sheeps have their own identity. Farmers make a living out of their sheeps and when something bad as a scrapie gets to their farm you can only imagine the consequences. The people behind Rams has succeded in showing us how blow of that kind can affect the man behind the farmer by creating this beautiful film about two brothers who in the end have to rely on each other to hold on to what’s dearest to them.

Conclusion: Finally the Icelandic sheep get’s the film she deserves without saying anything bad about Dalalíf. Sigurður Sigurjónsson is like a red wine, the older – the better and you can say the same about Theódór Júlíusson. Rams is a deserved winner of the Un Certain Regard prize and it will be interesting to see how she fares in the big world.

– Torfi Guðbrandsson

Auglýsingar

Kveðjutónleikar The Vintage Caravan

Síðastliðið fimmtudagskvöld hélt hljómsveitin The Vintage Caravan kveðjutónleika fyrir rokkþyrsta aðdáendur á Gauknum. Þriðja plata þeirra, Arrival, leit svo dagsins ljós daginn eftir en þeir halda út til Danmerkur í dag til þess að fylgja plötunni eftir með tónleikum víðsvegar um Evrópu.

Lucy in Blue sá um upphitun en þeir lentu í 2. sæti á Músíktilraunum í fyrra á eftir Vio. Hljómsveitina skipa fjórir drengir sem spila sýrurokk í anda Pink Floyd. Hljómsveitin sýndi lipra takta á sviðinu og bauð gestum með sér í óvænt ferðalag. Plata er væntanleg frá sveitinni á næstunni og verður þetta lag m.a. á henni.

En flestir voru nú mættir til að kveðja strákana í The Vintage Caravan og heyra þá taka einhver lög af nýju plötunni. Þeir héldu tvenna tónleika fyrr á árinu í febrúar en síðan þá hefur orðið mannabreyting. Trommarinn öflugi Guðjón Reynisson hefur sagt skilið við sveitina og í hans stað er mættur Stefán Ari Stefánsson sem lemur oftast húðir með Gone Postal. Guðjón var í miklu uppáhaldi hjá mér enda frábær trommari með magnaða tilburði á sviði og brotthvarfið kom mér í opna skjöldu. Án þess að vita það þurfti Stefán Ari því að sanna sig á þessum kveðjutónleikum og sýna að hann væri rétti maðurinn til að taka við kjuðunum.

Drengirnir hófu tónleikana á tveimur eldri lögum, „Midnight Meditation“ og „Craving“ og það var ekki annað að sjá en að sveitin væri vel æfð og samstillt. Tvö ný lög fylgdu í kjölfarið, „Babylon“ og „Shaking Beliefs“ sem eru á pari við eldra efni sveitarinnar. Hægt var örlítið á ferðinni en þó ekki nema í örfáar mínútur með „Winterland“ en TVC kunna þó betur við sig í hraðanum og hentu því í eitt sígilt og gott í „Let Me Be“. Þá var komið að hápunkti kvöldsins og það þurfti aðstoð við slíka epík því að einhver Magnús Jóhann var fenginn uppá svið til að aðstoða við flutning lagsins. „Last Day of Light“ heitir lagið og er upphafslag nýju plötunnar og þvílíkt og annað eins lag! Það má segja að á þessum tímapunkti hafi hljómsveitin rifið nýtt rassgat á gesti Gauksins þetta kvöldið og tónleikarnir fóru í ákveðna flughæð sem er ábyggilega ekki talin æskileg fyrir jarðarbúa. Eftir lagið lét Magnús sig hverfa á ný og hinir þrír tóku annað nýtt lag, „Crazy Horses“ sem féll þó eilítið í skuggann af hinni geðveikinni.

IMG_3544

Meðlimir voru duglegir að benda á básinn til hliðar þar sem seldur var varningur með hljómsveitinni og grínaðist Óskar með það að þar væri selt dóp sem var ansi fyndið í ljósi þess að móðir hans sá m.a. um söluna. Þetta grín átti þó rétt á sér þar sem að næsta lag í röðinni var „Cocaine Sally“ sem Óskar söng með tilþrifum. „The King’s Voyage“ og hittarinn „Expand Your Mind“ voru síðustu lög kvöldsins en það var ekki séns í helvíti að gestir myndu sætta sig við þau endalok. Hljómsveitin var því klöppuð upp að nýju og spurði Óskar gestina einfaldlega: „Hvað viljiði heyra?“. Það var fátt um svör enda eyru gestanna ekki lengur næm fyrir tali og ákvað sveitin því að taka tvö lög til viðbótar, eitt nýtt („Carousel“) og eitt gamalt („M.A.R.S.W.A.T.T.) og að þeim loknum gátu allir farið meira en sáttir heim.

The Vintage Caravan er gædd alveg bullandi hæfileikum og það er ekkert skrítið að hún sé að njóta velgengni á erlendri grundu. Þó að mikill missir sé í brotthvarfi Guðjóns er ekki hægt að segja annað en að Stefán Ari sé rétti arftakinn en hann sló ekki feiltakt alla tónleikana. Þeir sem eru á leiðinni á Hróaskeldu skulu endilega hafa það á bakvið eyrað að kíkja á þessa drengi og sýna þeim verðskuldaðan stuðning!

Lagalisti kvöldsins:

Midnight Meditation
Craving
Babylon
Shaking Beliefs
Winterland
Let Me Be
Last Day of Light
Crazy Horses
Cocaine Sally
The King’s Voyage
Expand Your Mind

Uppklapp

Carousel
M.A.R.S.W.A.T.T.

Stórgóðir afmælistónleikar Kópavogs

Þá er Potturinn loksins kominn í sumarfrí frá skólanum og skrifin geta haldið áfram. Helgin sem var að líða var viðburðarík í meira lagi og var hún helguð Kópavogi frá föstudegi til sunnudags.

Á föstudaginn mætti undirritaður á sinn gamla heimavöll, Ekkó í Kársnesskóla þar sem að félagsmiðstöðvarhátíðin fór fram með pompi og prakt. Annar toppmaður sem mætti á sinn gamla heimavöll var sjálfur BlazRoca, konungur rapptónlistar á Íslandi sem gekk menntaveginn að hluta til í Kársnesskóla eða Þinghólsskóla sem hann hét þá og kom þar einmitt kornungur fram í fyrsta skipti. BlazRoca var þægilegur og náði upp góðri stemningu hjá unga fólkinu og það var magnað að vera viðstaddur á þessum merka viðburði.

Laugardagurinn fór í sjálfa árshátíðina sem verður ekki útlistuð nánar hér og hendum við okkur því beint í sunnudaginn þar sem að haldið var uppá 60 ára afmæli Kópavogs í Kórnum.

Ég rétt missti af Skólahljómsveit Kópavogs sem að flutti Þursafóníuna og gerði henni víst ansi góð skil. Fjöldinn allur af listamönnum steig á svið og var tónlistin fjölbreytt, allt frá hráu pönki Fræbbblana til óperusöngs Gissurar Páls. Ég var þó einna mest spenntastur fyrir framkomu Ríó Tríó og fyrir utan smá bresti í hljóðkerfi hússins var flutningur þeirra á lögunum sínum tveim óaðfinnanlegur. Að sjálfsögðu var „Kópavogsbragurinn“ leikinn og sló hjartað mitt græna nokkur aukaslög í kjölfarið.

rio
Þetta var fjölskylduhátíð en á tímabili var ég smeykur um að músíkin myndi aðeins höfða til eldri áhorfenda. Þeim áhyggjum var sópað burt á augabragði þegar að Doktorinn mætti á sviðið og tók „Prumpulagið“ við mikinn fögnuð yngri gestanna. Honum til halds og trausts voru Salka Sól og BlazRoca sem fór hamförum í prumpuhljóðum.

Gerpla kom með gott innslag þar sem að þær þeystust í allar áttir á sviðinu og dundi frumlegur tónlistargjörningur Sigtryggs Baldurssonar undir sem gerði atriðið ennþá meira töff.

Eyþór Ingi sýndi Kópavogsbúum að hann er einn allra besti söngvari sem við eigum þegar hann tók lagið „Dimmar rósir“ með ótrúlegum tilþrifum en það er ekki hægt að minnast á það atriði án þess að hrósa húsbandi dagsins fyrir sem sá að mestu um allan undirleik á tónleikunum og voru þéttir.

Undir lokin var komið að sameinuðum kór sem taldi um 300 börn sem sungu undir handleiðslu Tótu kórstjóra og tónmenntakennara sem hefur sett svip sinn á tónlistaruppeldi ungdómsins í Kópavogi um árabil. Tóta sýndi gestum að hún veit nákvæmlega hvað hún er að gera og lét það ekki nægja að láta krakkana þenja raddböndin heldur stjórnaði hún einnig hreyfingum barnanna í takt við lögin sem var mikið sjónarspil og gerði meira útúr flutningnum.

Er kórinn hafði lokið við að syngja tvö lög hélt húsbandið áfram að spila og fóru tónlistarmennirnir í hálfgert boðhlaup þar sem þeir skipust á að syngja brot úr vel þekktum lögum með eða án aðstoðar kórsins. Það kom nú samt alltaf betur út þegar kórinn fékk að vera með. Hápunkturinn var þó án efa þegar að BlazRoca tók „Hvítir skór“ þar sem að Gissur Páll aðstoðaði hann í Ásgeirs partinum. Það var eitthvað ótrúlega fyndið við það að heyra hinn virðulega Gissur Pál syngja „Á engar krónur en þeir kalla mig kóng, á engar hórur en þeir kalla mig dólg“ í fínu jakkafötunum sínum.

Sum sé flennifín skemmtun og vel heppnaðir tónleikar sem sýndu enn og aftur að Kópavogurinn er nafli alheimsins og elur af sér gæðafólk!

Torfi Guðbrandsson