Færslusafn

Bestu erlendu plöturnar 2013

Tónlistarárið 2013 var ekki aðeins gott á Íslandi heldur einnig úti í heimi. Það er samt alltaf jafn erfitt að fylgjast með og sér maður það best þegar árslistarnir hrannast inn frá hinum og þessum tónlistarmiðlum. Þó að maður sé nokkurn veginn á sama máli með topp 10 er samt heill hellingur sem maður hefur ekki heyrt af eða ekki komist í að hlusta á. En þá er alltaf gaman í janúar, febrúar því að þá getur maður skoðað það sem framhjá manni fór árið áður. En ég hef gert upp hug minn og þetta eru þær 10 sem stóðu framar öðrum sem ég hlustaði á árið 2013.

# 10 Trouble Will Find Me – The National

Print
Hljómsveitin The National hefur hægt og bítandi skapað sér sess sem ein frambærilegasta rokksveit heims með frábærum plötum (The Boxer og High Violet). Trouble Will Find Me er ekki eins góð og þær, heilt yfir miklu rólegri og færri smellir en í heildina rennur hún ljúft í gegn.

Hápunktar: Demons, I Need My Girl, I Should Live in Salt.

# 9 Pale Green Ghosts – John Grant

john-grant-pale-green-ghosts
Þessi á næstum því heima á íslenska listanum enda vann John Grant plötuna mikið með Íslendingum. Biggi Viera setur sinn svip á plötuna sem er býsna frábrugðin Queen of Denmark og fer þessi nýji rafstíll John Grant einstaklega vel.

Hápunktar: Black Belt, Glacier, GMF.

# 8 …Like Clockwork – Queens of the Stone Age

like-clockwork-album-cover-image
Það var kominn tími á góða plötu frá QOTSA eftir vonbrigðin í Era Vulgaris. Joshua Homme og félagar hafa fundið sjarmann sem einkenndi þá á dögum Songs for the Deaf og eru það virkilega góð tíðindi.

Hápunktar: I Sat by the Ocean, If I Had a Tail, My God Is the Sun.

# 7 Yeezus – Kanye West

1-Yeezus_304x304
Sama hversu umdeildur Kanye er verður hann aldrei sakaður um að búa til lélega tónlist. Kanye er fjölbreyttur listamaður sem sýnir sig best í því hversu ólíkar plöturnar hans eru. Yeezus er harðari en fyrri verk Kanye og jafnvel aðeins hrárri á köflum og plötuumslagið sýnir kannski hráleikann best. Meðferð Kanye á laginu „Strange Fruit“ í flutningi Ninu Simone er svo algjörlega epísk.

Hápunktar: Black Skinhead, Blood on the Leaves, Bound 2, New Slaves.

# 6 Random Access Memories – Daft Punk

daft-punk-random-access-memories-cover
Líklega best markaðsetta plata ársins sem tókst að búa til óbærilega spennu eftir henni og gerði það að verkum að þegar hún kom út var eiginlega bannað að fýla hana ekki. Þegar leið á sumarið og maður búinn að liggja yfir henni þá gat maður metið kosti hennar og galla. Kostirnir eru þeir að lögin eru flest afbragðs góð en gallarnir kannski þeir að hún er óDaft Punklegasta platan til þessa þar sem að listamennirnir setja ótrúlega mikinn svip á hana. Hún hljómar þá kannski frekar eins og Daft Punk plata þar sem aðrir listamenn gera sínar útgáfur af lögunum þeirra. Gott dæmi um þetta er „Instant Crush“ sem hljómar eins og lag eftir The Strokes og „Get Lucky“ sem er óneitanlega eign Nile Rodgers. En auðvitað er þetta samstarfsplata sem gengur vel upp og Daft Punk valdi svo sannarlega þá listamenn sem féllu vel að þeirra stíl.

Hápunktar: Contact, Get Lucky, Giorgio by Moroder, Give Life Back to Music, Instant Crush.

# 5 Modern Vampires of the City – Vampire Weekend

Vampire_Weekend_-_Modern_Vampires_of_the_City
Vampire Weekend komu þvílíkt ferskir inn í árið 2008 með lygilega góðum frumburði. Contra sem kom út tveimur árum síðar var ákveðin vonbrigði en með Modern Vampires of the City hafa þeir náð að fullmóta sinn stíl og gefa hér frá sér ótrúlega heilsteypt verk með slögurum sem geta staðið einir og sér. Á góðum degi getur Vampire Weekend verið skemmtilegasta hljómsveitin í bransanum og hún var það svo sannarlega í ár. Stubbasöngurinn í „Ya Hey“ er samt pirrandi og fellir plötuna í 5. sæti.

Hápunktar: Diane Young, Step, Unbelievers.

# 4 Reflektor – Arcade Fire

arcade-fire-reflektor-cover-500x500 (1)
Það tók mig smá tíma að venjast nýja hljóm uppáhalds hljómsveitarinnar minnar en eftir að hafa gefið henni tíma tókst mér að meta hana að verðleikum. Platan er stór og flest lögin einnig en Arcade Fire höndlar stærðina með miklum ágætum enda stórt band og vel mannað. Þrátt fyrir að handbragð James Murphy liti plötuna er gamla góða Arcade Fire aldrei langt undan.

Hápunktar: Afterlife, Here Comes the Night Time, Reflektor, We Exist.

# 3 Settle – Disclosure 

disclosure-settle-album
Bræðurnir í Disclosure eiga hrós skilið fyrir að hafa sent frá sér eins góðan frumburð og Settle er og vera ekki eldri en þetta en það er eins og þeir hafi verið í þessum bransa í fleiri fleiri ár. Þeir sýna ótrúlega mikinn þroska miðað við aldur á plötunni sem hljómar gjörsamlega óaðfinnanlega og eru þeir líklega margir í house geiranum sem öfunda bræðurna af Settle. Til að gefa fólki ágætis mynd af gæðum plötunnar hafa verið gefnir út sex smellir út frá henni en vanalega eru þeir í kringum þrjá.

Hápunktar: F for You, Latch, When a Fire Starts to Burn, White Noise.

# 2 Overgrown – James Blake

james-blake-overgrown-410
James Blake fylgir hér á eftir fyrstu plötunni sinni með ennþá betra verki. Lagið „Retrograde“ gaf strax tóninn fyrir eitthvað stærra hjá James Blake og frammistaða hans á Sónar Reykjavík sýndi að hann er með frambærilegri listamönnum nútímans þar sem hann blandar allskonar stílum saman og býr þar að auki yfir afar fallegri rödd. Tónlist James Blake hentar vel fyrir rappara eins og sést vel á „Take a Fall For Me“ þar sem RZA rappar og svo „Life Around Here“ þar sem Chance the Rapper tekur til máls en þá útgáfu er reyndar ekki að finna á plötunni.

Hápunktar: I Am Sold, Life Around Here, Retrograde, To the Last.

# 1 AM – Arctic Monkeys 

Arctic+Monkeys+AM
Arctic Monkeys hafa loksins fundið sig á ný eftir að hafa verið afvegaleiddir á hinum misgóðu Humbug og Suck It and See. Platan er fjölbreytt og sneisafull af góðum lögum. Umhverfið í LA hefur líklega haft einhver áhrif á Alex Turner og félaga þar sem r&b og hipp hopp áhrifin leyna sér ekki á plötunni. Rokkið er samt alltaf númer 1, 2 og 3 og þá skiptir engu hvort að þeir séu í rólegri kantinum eða ekki, þeir gera það alveg jafn vel og þá helst Alex Turner sem nýtur sín ofboðslega vel í lögum eins og „Mad Sounds“ og „I Wanna Be Yours“ sem eru algjör unaður á að hlusta. Eitt uppáhalds lagið mitt á plötunni er „Fireside“ þar sem trommarinn er í aðalhlutverki í frábærum slætti og Alex Turner afslappaður og svalur. AM er afskaplega fjölbreytt plata sem maður mun seint fá leið á og þau sem héldu að þeir gætu aldrei toppað fyrstu tvær plöturnar sínar hafa mögulega haft rangt fyrir sér.

Hápunktar: Platan eins og hún leggur sig.

Torfi Guðbrandsson

Auglýsingar

Bestu erlendu lögin 2013

# 20 „Lean“ – The National

Þrátt fyrir að The National hafi gefið út ágætis plötu í ár með nokkrum fínum lögum fannst mér lagið „Lean“ sem þeir sömdu fyrir The Hunger Games: Catching Fire standa þeim framar. Hæfilega stórt og fallegt lag sem passar vel við Hungurleikana.

# 19 „In the Kingdom“ – Mazzy Star

Titillag nýju plötunnar með Mazzy Star sem lét aðdáendur sína bíða alltof lengi eftir nýju efni. En biðin var þess virði en mikið eyrnakonfekt hér á ferð.

# 18 „Another Love“ – Tom Odell

Langbesta lagið með Tom Odell ásamt kannski „Can’t Pretend“. Platan hans var svolítið flöt en þetta lag situr fast eftir í kollinum. Rólegt í byrjun en byggist svo alltaf meir og meir upp og sterk rödd Tom Odells nýtur sín vel.

# 17 „Last of the Summer Wine“ – Palma Violets 

Grípandi og letilegt rokk í anda The Strokes og The Libertines.

# 16 „Sweater Weather“ – The Neighbourhood

Lag sem var feyki vinsælt hér á landi og í mikilli spilun á X-inu. Hipp og kúl og algjört æði.

# 15 „Name Written in the Water“ – Cass McCombs

Cass McCombs leiðist ekki að gefa út lög en á síðustu þremur árum hefur hann gefið út rúmlega 40 lög. Cass er með afar viðkunnalega rödd og ekki skemmir fyrir skemmtilegur takturinn í laginu.

# 14 „We Exist“ – Arcade Fire

Eitt af mörgum frábærum lögum frá Arcade Fire af plötunni Reflektor.

# 13 „If I Had a Tail“ – Queens of the Stone Age

Það var kominn tími á gott efni frá Josh Homme og félögum og hér eru þeir í s-inu sínu.

# 12 „Shuggie“ – Foxygen

Ég skil ekki alveg hvernig þessi hljómsveit fór framhjá útvarpsmönnum landsins en ég minnist þess ekki að hafa heyrt einasta lag með þeim í útvarpinu. Þetta hefði t.d. átt full erindi á aldir ljósvakans.

# 11 „Unbelievers“ – Vampire Weekend

Vampire Weekend minntu heldur betur á sig í ár og hér er eitt frábært frá þeim.

# 10 „One Way Trigger“ – The Strokes 

Lag sem sýnir tvær hliðar á Julian Casablancas, þessa léttleikandi og kæruleysislegu hlið og svo hina eitursvölu og ögn lágstemdari hlið.

# 9 „Kemosabe“ – Everything Everything 

Íslandsvinirnir í Everything Everything hræra hér mörgum stílum saman í einn graut sem skilar sér í afskaplega sturluðu og góðu lagi. Líklega besta lag sem samið hefur verið um Tonto.

# 8 „Life Around Here“ – James Blake

Frábært lag úr smiðju James Blake sem er líka vinsæll hjá röppurum en til er útgáfa af laginu þar sem Chance the Rapper lætur nokkur vel valin orð falla.

# 7 „My Number“ – Foals

Lag sem einkenndi sumarið mitt í Noregi en þegar ég heyri þetta lag sé ég fyrir mér norska hraðbraut þar sem sólin sleikir malbikið.

# 6 „Don’t Save Me“ – Haim

Það var ótrúlega spennandi að fylgjast með framgöngu systranna í Haim í ár eftir æðislega tónleika á Airwaves í fyrra. „Don’t Save Me“ er vitnisburður um spádóma margra, þær eru einfaldlega með þetta!

# 5 „White Noise“ – Disclosure (ásamt AlunaGeorge)

Hér fá bræðurnir í Disclosure góða hjálp frá tvíeykinu í AlunaGeorge og saman sjóða þau í einn besta hittara ársins. 

# 4 „Instant Crush“ – Daft Punk (ásamt Julian Casablancas)

„Get Lucky“ skyggði að sjálfsögðu á öll hin lögin af Random Access Memories en persónulega myndi ég allan daginn kjósa Julian Casablancas fram yfir Pharrell Williams.

# 3 „Hold On, We’re Going Home“ – Drake

Ég er nú ekki mikill Drake maður en með þessu lagi hittir hann mig beint í hjartastað. Ábreiðan sem Arctic Monkeys gerði af laginu er einnig ógleymanleg.

# 2 „Why’d You Only Call Me When You’re High?“ – Arctic Monkeys 

Alex Turner og félagar sýna á sér nýjar hliðar sem svipa svolítið mikið til hipp-hoppsins og það fer þeim lygilega vel.

# 1 „GMF“ – John Grant

„GMF“ heyrði ég fyrst í Austurbæjabíói sumarið 2012 og heyrði það ekki aftur fyrr en í febrúar/mars á þessu ári þegar hægt var að hlusta á plötuna frítt á soundcloud. Ég held að ég hafi hlustað á það svona 10 sinnum það kvöld enda hef ég aldrei upplifað aðra eins bið en vanalega getur maður smellt lagi sem maður heyrir á tónleikum strax á fóninn þegar heim er komið. Lagið hefur alla þá kosti sem prýðir frábær lög, það er grípandi og ekki bara viðlagið, textinn er snilld, lengdin á laginu er fullkomin en það vill oft verða þannig að lög sem grípa mig strax eru alltof stutt, flutningurinn hjá John Grant er frábær og nýtingin á Sinead O’Connor er líka góð. Sannkallað fimm stjörnu lag.

Sónar: Laugardagur

Stefnan var að byrja á Ólafi Arnalds en því miður náði ég aðeins restinni af tónleikum hans. Þegar að ég kom var Arnar úr Agent Fresco að syngja ásamt fiðluleikara og sellóleikara. Ólafur endaði samt tónleikana einn á lagi sem hann samdi til heiðurs ömmu sinnar. Virkilega fallegt en klámhringitónn hjá tónleikagesti eyðilagði samt fallega stund.

Eftir Ólaf ákvað ég að vera grand og bjóða kærustunni út að borða á Munnhörpuna. Að máltíð lokinni lá leiðin á Silfurberg þar sem að við vildum ekki taka neina sénsa á biðröðum eða veseni í kringum tónleika James Blake. DJ Andrés sá um að þeyta skífum þangað til en fyrir mér var það ekkert annað en truflun á samræðum við skemmtilegt fólk.

Loks kom James Blake og var salurinn alltaf þéttari og þéttari. James Blake bauð upp á skemmtilega fjölbreytt prógramm. Lög af plötunni James Blake fengu að hljóma ásamt glænýjum lögum og öðrum héðan og þaðan af stuttum en glæstum ferli Blakes. Ég var virkilega hrifinn af því hvernig Blake tók sjálfan sig upp í sumum lögum og spilaði svo upptökuna undir sem innihélt oft öskur og læti áhorfenda í stað þess að nota playback. Blake var annars yfirvegaður og spjallaði eilítið við áhorfendur. Hann sló svo botninn með nýja laginu „Retrograde“ við mikinn fögnuð gesta og batt þar með enda á bestu tónleika Sónar 2013 að mínu mati.

Næsta atriði í Silfurbergi var nokkuð skemmtilegt og öðruvísi en þá voru Gluteus Maximus mættir á svið ásamt nokkrum stæltum skrokkum sem lyftu lóðum uppi á sviði, heldur betur óvænt uppákoma! Daníel Ágúst birtist svo í fyrsta laginu og á eftir honum kom Högni og stóðu þeir sína plikt eins og búast mátti við. Ég lét mér þó nægja að sjá byrjunina og keypti mér bjór og fékk mér sæti fyrir utan salinn alveg þangað til að ég heyrði að Squarepusher væri mættur.

Squarepusher eða Tom Jenkinson mætti með hjálm og virkaði á mann eins og þriðji Daft Punk bróðirinn. Á hjálminum birtist sama mynd sem var á risaskjánum fyrir aftan hann og borðinu fyrir framan hann. Tónlist Squarepusher er líst á alnetinu sem drill ‘n’ bass tónlist og get ég alveg tekið undir það. Hún minnti mig einnig á tölvuleikjatónlist á sterum og meina ég það ekki á neikvæðan hátt. Sýningin var rosaleg og get ég rétt ímyndað mér hvernig hún fór ofan í fólk sem var á einhverju sterkara en bjórþambi. Klárlega einn af hápunktum hátíðarinnar en ég vildi óska þess að heilsan mín hafi verið betri því þá hefði ég dansað af mér rassgatið á þessum tónleikum!

Squarepusher helmet

Þá var komið að því að kíkja á Mugison en hann var með tónleika í Norðurljósum en fyrirfram var það vitað að þeir væru í takt við Sónar, sem sagt rafrænir. Hann var þarna mættur með heimatilbúna hljóðfærið sitt sem mér skilst að hann kalli minstrument. Honum til aðstoðar voru þrír meðlimir Ensíma og mátti glögglega greina áhrif þeirra í nokkrum lögum. Hann tók svo tvö lög af Mugiboogie í nýjum búning sem féll vel í kramið hjá áhorfendum. Eftir ca. fimm lög var mér farið að verkja það mikið í hægri hælnum að ég naut tónlistarinnar ekki lengur og neyddist því til þess að labba út.

Eftir smá slökun gerði ég mig líklegan til þess að fara á Pachanga Boys í kjallaranum en ég nennti engan veginn að bíða í röð fyrir eitthvað sem ég var ekkert svo spenntur fyrir í hræðilegum hljómgæðum í þessum blessaða bílakjallara. Þar með lauk þátttöku minni á Sónar 2013.

Niðurstaða

Sónar var mín heiðarlega tilraun til þess að kynnast þessum raftónlistarheimi betur. Yfir helgina komst ég að tvennu, ég er ekki mikið fyrir DJ-sett og til þess að fýla svona harða raftónlist þarf maður að vera annað hvort blindfullur eða á einhverju. Að þessu sinni var ég ekki í standi til þess að djamma af einhverju ráði og tel ég að það hafi komið niður á skemmtanagildi hátíðarinnar fyrir mér.

15.000 krónur finnst mér svo mikill peningur fyrir svona hátíð þar sem að flestir stóru gæjarnir komu bara til DJ-a og lítið var úr erlendum atriðum að moða. Ef maður ber svo hátíðina saman við Iceland Airwaves sem er fimm daga hátíð og miðaverð á hana er 16.500 er þetta ansi há upphæð.

Ég er ekki viss um að ég leggi leið mína aftur á Sónar á næsta ári en ef ég geri það mun ég klárlega fá mér meira að drekka.

Ætla að enda þetta á nokkrum gullkornum frá reiðum gestum hátíðarinnar.

„Verð bara að segja að ég er ekki sáttur með að hafa borgað rúmlega 17 þúsund kall fyrir yfirselda tónleika, endalausar raðir og að sjá Hörpuna í sinni skítugustu mynd. Ég er alls ekki sáttur og ég held að fólk sem hafi þarna fyrir tónlistina en ekki sukkið sé sammála mér.“

„Ótrúlegt hvernig það birtast alltaf allt í einu fleiri miðar á hátíð sem var uppseld. Hversu oft hefur „selst upp“ á sónar 2013 síðustu vikur? Mér leið eins og rollu á leið í réttir þarna inni, þetta var viðbjóðslegt og jólagjöfin frá kæró ónýt.“

– Torfi

Sónar: Föstudagur

Það er fátt skemmtilegra en að skella sér á tónlistarhátíð í skammdeginu á Íslandi í febrúar og því er Sónar kærkomin viðbót við íslenskt tónlistarlíf. Harpan, móðir tónlistarhúsa á Íslandi sér um hýsingu og það veit upp á gott hvað varðar hljómgæði og aðstöðu. Hins vegar er dropinn dýr en lítill bjór selst á 800 krónur! En hvað um það, snúum okkur að föstudagskvöldi hátíðarinnar.

Ég var mættur í fyrra fallinu í Silfurberg en þar var Pedro Pilatus eða Logi litli bassaleikari Retro Stefson að hefja leik. Hann spilaði í rúmar 50 mínútur og er greinilega mikið efni innan þessa geira. Skemmtilegar pælingar í gangi sem nutu sín vel í Silfurberginu.

Sísí Ey voru næst á svið en ég verð að viðurkenna að fyrir tónleikana hafði ég ekkert sérstaklega góðar minningar af þeim er þær hituðu upp fyrir John Grant í Austurbæjabíó í fyrra sumar. Nú var hins vegar allt annað á ferðinni. Oculus hefur séð um að búa til grípandi takta fyrir systurnar og þær sjá um að gæða þá lífi með fallegum söng. Tónlistin minnir um margt á GusGus á góðum degi og skemmti ég mér konunglega á tónleikum þeirra. Unnsteinn Stefson birtist svo á sviðinu á lokakaflanum og var hressandi viðbót.

Eftir smá pásu var komið að hljómsveitinni sem fiskaði margan manninn á hátíðina eða Modeselektor frá Berlín. Ég ætla bara að taka það fram strax að ég var ekki í þeim hópi en ákvað samt að sjá þá enda eitt af stærri atriðum hátíðarinnar. Það var ljóst frá fyrstu mínútu að bjór var ekki rétta meðalið við tónlist Modeselektor og er ég viss um að þeir sem hafi verið á sterkari efnum en ég hafi skemmt sér konunglega. Þetta var hins vegar einum of mikið af því góða fyrir minn smekk. Í lokin róaðist þetta þó aðeins og hefði verið gaman að sjá þá bara slaka. Annars verð ég að hrósa sviðsmyndinni en það gerir miklu meira fyrir svona tónlist að hafa eitthvað myndrænt á bakvið.

Þar sem að Modeselektor voru ákveðin vonbrigði fyrir mér lagði ég allt mitt traust á GusGus og að þeir myndu redda kvöldinu. Þeir spiluðu lög af Arabian Horse ásamt tveimur nýjum lögum en fyrra lagið var einstaklega gott og í takt við það besta sem hefur komið frá hljómsveitinni. Daníel Ágúst og Högni eru skemmtilega ólíkar týpur og vega hvorn annan upp á sviðinu með sviðsframkomu sinni og söng. GusGus klikka seint og ef ekki hefði verið fyrir krossbandsaðgerð fyrir mánuði síðan hefði verið trítilóður eins og flestir á dansgólfinu.

Því miður var GusGus síðasti hjartslátturinn en mér fannst Silfurbergið tæmast óvenju fljótt eftir þeirra tónleika og sérstaklega þar sem að hin breska Simian Mobile Disco var næst á svið. Það voru ekki nema kannski 200 hræður í það mesta þegar þeir hófu leika og sá maður fljótt að þeir sem höfðu lagt leið sína eitthvert annað höfðu tekið rétta ákvörðun. SMD voru skráðir sem DJ atriði en hefðu þeir verið með live sett er ég viss um að meira hefði verið um manninn í Silfurbergi.

James Ford og Jas Shaw voru orðnir syfjaðir þegar klukkuna vantaði hálf 2.

James Ford og Jas Shaw voru orðnir syfjaðir þegar klukkuna vantaði hálf 2.

Það var ekkert annað í stöðunni en að kíkja í næsta sal á Trentemöller en hann hafði ég séð einu sinni áður á Iceland Airwaves og því ekki í forgangi að horfa á kauða. Norðurljós iðuðu sem betur fer af meira lífi en Silfurberg og var fólk almennt í góðum gír. En fætur mínir voru að þrotum komnir og því lá leiðin niður í bílakjallara þar sem að James Blake þeytti skífum.

Tónleikagestir voru greinilega spenntari fyrir James Blake heldur en Simian Mobile Disco en eftir á tel ég að þeir síðarnefndu hefðu notið sín betur í kjallaranum. Ég var alls ekki í þeim gír að nenna að troða mér eitthvað framarlega enda James Blake að fara að troða upp í Silfurbergi í kvöld þar sem hann kemur fram ásamt hljómsveit. Bílakjallarinn var þar með mín endastöð og fyrra Sónar kvöldið viss vonbrigði þó ekki hafi verið hægt að setja neitt út á íslensku listamennina.

Torfi 

James Blake með nýtt myndband og lag

james-blake-music11

Nú er farið að styttast í Sónar hátíðina sem hefst næsta föstudag. James Blake hefur ekkert gert til þess að minnka spennuna en fyrir stuttu sendi hann frá sér lagið „Retrograde“. Í gær póstaði hann svo á facebook síðu sinni nýju myndbandi við lagið sem er ekki síður fallegt.

„Retrograde“ er jafnframt fyrsti smellurinn af væntanlegri plötu sem hefur fengið nafnið Overgrown og kemur út þann 8. apríl næstkomandi. Seinasta breiðskífa Blake kom út árið 2011 og fékk hún frábæra dóma hvarvetna.

James Blake mun þeyta skífum í bílakjallaranum í Hörpu á föstudaginn kl. 02:00 og spilar svo daginn eftir í Silfurbergi kl. 20:45.

Torfi