Monthly Archives: október 2012

Jonas Alaska syngur um október

Fyrir rúmlega ári síðan uppgvötvaði ég norskan tónlistarmann sem kallaði sig Jonas Alaska. Ég var að vinna í Noregi á þessum tíma og var hann með tvö lög í spilun í útvarpinu. Eitt þeirra snart mig mjög en það heitir einfaldlega „October“. Þar syngur hann um unga menn sem fórust á sjónum. Ég er ekki viss hvort að textinn sé byggður á raunverulegum atburðum en mér þykir það líklegt.

Svona talar Jonas um október.

Annars mæli ég með því að fólk tékki betur á honum Jónasi en hann gaf út ágætis plötu í fyrra. Þetta er líka þægilegt í kuldanum.

Torfi

Auglýsingar

Sundsprettur í nýju myndbandi The xx

Romy Madley Croft á bólakafi!

Hljómsveitin The xx sendi frá sér myndband í dag við lagið „Chained“ af plötunni Coexist sem kom út í síðasta mánuði. Mun þetta vera fyrsta lagið á plötunni sem gert er myndband við af einhverju viti. Leikstjórn var í höndum framleiðslufyrirtækisins Young Replicant en þeir gerðu meðal annars myndbandið við lagið „We Own the Sky“ með M83.

Í þessu myndbandi stinga allir þrír meðlimir The xx sér til sunds. Buslugangur og loftkúlur eru þannig í aðalhlutverki en einnig er mikið um fallega liti í myndbandinu eins og sjá má á skýjunum sem svipar mikið til umbúðanna á plötunni.

– Torfi

Airwaves upphitun: Django Django

Kvartettinn Django Django kemur frá Bretlandi/Skotlandi og spilar tilraunakennt rokk með elektrónískum blæ. Þeir gáfu út sína fyrstu plötu í janúar á þessu ári sem bar einfaldlega nafn hljómsveitarinnar. Platan hefur fengið góða dóma víðast hvar og er meðal annars tilnefnd til Mercury verðlaunanna.

Því miður fá þeir óheppilega tímasetningu á Airwaves en þeir spila á sama tíma og Dirty Projectors sem er eitt af stærri atriðum hátíðarinnar. Ég er samt ákveðinn í því að sjá Django Django enda lítið fyrir DP. GusGus eru síðan næstir á svið á eftir Django svo það er um að gera að koma sér vel fyrir í Hörpunni!

– Torfi