Category Archives: Fréttir

Kaleo hitar upp fyrir Kings of Leon

maxresdefault
Kaleo kemur til með að hita upp fyrir Kings of Leon sem kemur fram á stórtónleikum í Laugardalshöllinni þann 13. ágúst næstkomandi en þetta kemur fram í tilkynningu frá Senu á heimasíðu þeirra. Valið kemur ekki á óvart enda Kaleo búin að ryðja sér til rúms sem ein fremsta rokkhljómsveit landsins og svipar tónlistinni hennar oft til suðurríkjarokksins í landi tækifæranna. Hljómsveitin er einmitt að túra um Bandaríkin þessa dagana og reynir að heilla Kanann með tónlist sinni og miðað við það sem að Kaleo hefur uppá að bjóða ætti það að takast vel.

Tónleikar þeirra í Laugardalshöllinni 13. ágúst hljóta að verða þeir stærstu í sögu sveitarinnar enda von á 10.000 gestum. Þá er aldrei að vita nema að Caleb Followill og félagar taki ástfóstri við Kaleo og bjóði þeim að hita upp fyrir sig á fleiri tónleikum víðsvegar um heiminn. Kaleo er svo væntanleg til landsins seinna í sumar og mun halda tónleika í Gamla bíói þann 11. júlí næstkomandi.

– Torfi Guðbrandsson

Auglýsingar

Þessir munu leika í Star Wars: Episode VII

star_wars_39787

Nú rétt í þessu var staðfest hvaða leikarar koma til með að leika í nýjustu Star Wars myndinni sem væntanleg er á hvíta tjaldið á næsta ári en mikil leynd hefur hvílt yfir leikaravalinu fram að þessu. Nokkrir af gömlu leikurunum munu endurtaka rullur sínar í bland við ný andlit en Harrison Ford er þar á meðal. Einnig verða þarna kempur eins og Max von Sydow og Andy Serkis ásamt Oscar Isaac og Adam Driver sem léku saman í Inside Llewyn Davis. John Williams sér svo um tónlistina enda ekki hægt að bjóða upp á aðra Star Wars mynd án hans.

Gömlu brýnin:

Harrison Ford (Han Solo)
Carrie Fisher (Leia Solo)
Mark Hamill (Luke Skywalker)
Anthony Daniels (C-3PO)
Peter Mayhew (Chewbacca)
Kenny Baker (R2-D2)

Þessir koma svo nýir inn:

Oscar Isaac
John Boyega
Daisy Ridley
Adam Driver
Andy Serkis
Domhnall Gleeson
Max von Sydow

– Torfi

Elín Helena gefur út Til þeirra er málið varðar

Elín til

Þann 1. apríl síðastliðinn kom út frumburður pönk hljómsveitarinnar Elín Helena sem ber hið skemmtilega heiti Til þeirra er málið varðar. Ekki láta nafn sveitarinnar plata ykkur því að hér er um alvöru pönk að ræða, það mikið pönk reyndar að meðlimir hafa ákveðið að kalla tónlistina sína pönk-pönk sem er tvisvar sinnum meira pönk en venjulegt pönk.

Platan er komin í helstu plötubúðir landsins, á geisladisk og vínyl, og inniheldur 18 frumsamin lög á okkar ylhýra tungumáli. Lögin eru ekki bara góð heldur er umslagið afar fallegt og gerir plötuna ennþá eigulegri fyrir vikið. Ljósmyndin sem prýðir umslagið var tekin af Bjarnleifi Bjarnleifssyni blaðaljósmyndara og skartar körfuboltaköppum í kröppum dansi.

Það er því ekki möguleiki á því að fermingarbörnin í ár blóti saklausum ömmum sínum fyrir að gefa sér þessa plötu í fermingargjöf, standandi í þeirri trú um að hér sé um huggulega popptónlist að ræða.

Torfi 

Sönghópurinn Olga í útrás

OLGAA

Alþjóðlegi sönghópurinn Olga ætlar sér stóra hluti í sumar og hyggst gefa út plötu og túra um Ísland. Í hópnum eru tveir Íslendingar, þeir Bjarni Guðmundsson (fyrsti tenór) og Pétur Oddbergur Heimisson (bass-barítón). Ásamt þeim eru Hollendingarnir Gulian van Nierop (barítón) og Jonathan Ploeg (annar tenór) og Rússinn Philip Barkhudarov (bassi). Hópurinn kynntist í Tónlistarskóla HKU í Utrecht í Hollandi en þar nema þeir söng undir handleiðslu Jóns Þorsteinssonar.

Olga varð til árið 2012 og komu drengirnir meðal annars hingað til Íslands í fyrra og héldu fimm tónleika víðsvegar um landið. Undirritaður skellti sér á síðustu tónleikana sem haldnir voru í Fríkirkjunni og komu þeir skemmtilega á óvart. „A capella“ tónleikar eiga það til að vera þurrir og svæfandi en það er ekki raunin hjá Olgu. Þeir hafa húmor fyrir sjálfum sér, taka fjölbreytt lög og koma gestum á óvart með ýmsum uppátækjum oft í miðjum flutningi. Gestirnir í Fríkirkjunni gengu allavega sáttir til dyra að tónleikum loknum eftir mikil hlátrasköll, lófaklöpp og uppklöpp.

Nú ætla þeir að leggja land undir fót að nýju og hafa með sér glænýja plötu í farteskinu. En það kostar peninga að ferðast og því ætla Olgumenn að treysta á almenning og nota Karolina Fund til þess að fjármagna ferðalagið. Fyrir utan Ísland eru fyrirhugaðir tónleikar víða um Evrópu og má þar nefna tónleika í Frakklandi, Þýskalandi, Austurríki og að sjálfsögðu Hollandi.

Þó að meirihlutinn í hópnum sé af erlendu bergi brotinn eru menn ekkert að veigra sér við að taka íslensk lög. Íslendingarnir í hópnum hafa greinilega kennt félögum sínum vel því að það má varla heyra mun á flutningi íslensku piltana og þeirra erlendu. „Heyr, himna smiður“ er gott dæmi um það.

Til gamans má geta komust Bjarni og Pétur í fréttirnar fyrir tveimur árum er þeir tóku óvænt þátt í karókí keppni undir berum himni í Berlín. Drengirnir voru á bakpokaferðalagi um Evrópu og áttu leið hjá Mauregarðinum þar í borg. Þeir gáfu sér samt tíma í að þenja raddböndin aðeins og fluttu Elvis slagarann „Can’t Help Falling In Love“ við mikinn fögnuð viðstaddra. Í kjölfarið unnu þeir sér inn hina frægu 15 mínútna frægð á Íslandi.

Ég hvet fólk eindregið til að fylgjast vel með Olgu á komandi mánuðum því að treystið mér, hér eru á ferðinni mikil gæðablóð sem finnst fátt skemmtilegra en að gleðja fólk með fögrum söng.

Tónleikarnir sem þeir ætla að halda á Íslandi:

Fimmtudagurinn 26. júní – Tjarnarborg, Ólafsfjörður
Sunnudagurinn 29. júní – Hvollinn, Hvolsvöllur
Þriðjudagurinn 1. júlí – Langholtskirkja, Reykjavík
Miðvikudagurinn 2. júlí – Bláa kirkjan, Seyðisfjörður
Föstudagurinn 4. júlí – Hafnarkirkja, Höfn í Hornafirði

Heimasíða Olgu: http://www.olgavocalensemble.com

Olga á Facebook: http://www.facebook.com/olgavocalensemble

Leggðu Olgu lið hér: http://www.karolinafund.com/project/view/309

Torfi Guðbrandsson

James Blake með nýtt myndband og lag

james-blake-music11

Nú er farið að styttast í Sónar hátíðina sem hefst næsta föstudag. James Blake hefur ekkert gert til þess að minnka spennuna en fyrir stuttu sendi hann frá sér lagið „Retrograde“. Í gær póstaði hann svo á facebook síðu sinni nýju myndbandi við lagið sem er ekki síður fallegt.

„Retrograde“ er jafnframt fyrsti smellurinn af væntanlegri plötu sem hefur fengið nafnið Overgrown og kemur út þann 8. apríl næstkomandi. Seinasta breiðskífa Blake kom út árið 2011 og fékk hún frábæra dóma hvarvetna.

James Blake mun þeyta skífum í bílakjallaranum í Hörpu á föstudaginn kl. 02:00 og spilar svo daginn eftir í Silfurbergi kl. 20:45.

Torfi

51 árs Jim Carrey væntanlegur á hvíta tjaldið í ár

Á mínum yngri árum var ég mikill aðdáandi Jim Carrey og er enn. Ég hef lagt það í vana minn að horfa á eina mynd með honum á afmælisdaginn hans, 17. janúar og gærdagurinn var þar engin undantekning. The Truman Show varð fyrir valinu að þessu sinni en hún er með betri myndum grínleikarans geðþekka.

Hann var hvergi sjáanlegur á hvíta tjaldinu í fyrra en í ár verður þar breyting á því að hann mun leika í kvikmyndunum The Incredible Burt Wonderstone og Kick-Ass 2. Í fyrrnefndu myndinni leikur hann töframanninn Steve Gray (sem minnir svolítið á Kid Rock) en þar leikur hann á móti Steve Carell en þeir léku einmitt saman í Bruce Almighty þar sem að Carell fór á kostum. Stiklan fyrir myndina lítur gríðarlega vel út en gaman verður að fylgjast með gömlu kempunum og sjá hvort að þeir geti ekki enn kitlað hláturtaugar fólks.

getImageByAdminMovieIdÍ Kick-Ass 2 leikur hann svo ofursta en það verður spennandi að sjá hvernig hann tekur sig út í henni en Nicolas Cage var til að mynda frábær í fyrri myndinni og sýndi á sér glænýja hlið. Á næsta ári má svo búast við framhaldi af kvikmyndinni sem breytti ferli Jim Carrey á sínum tíma eða Dumb and Dumber. Það eru blendnar tilfinningar í gangi hjá mér varðandi númer tvö en hún verður annað hvort stórkostleg eða hræðileg en samt aldrei verri en Dumb and Dumberer: When Harry Met Lloyd sem hlýtur að vera ein versta mynd allra tíma!

Sum sé, tvær áhugaverðar myndir framundan hjá einum besta grínleikara síðari ára.

– Torfi

Allt að gerast hjá John Grant

John Grant á góðum degi.

John Grant á góðum degi.

Þá er það komið á hreint, næsta plata John Grant sem hefur fengið nafnið Pale Green Ghosts kemur út í mars á næsta ári og var jafnframt titillag plötunnar opinberað í gær með myndbandi. Eins og kunnugt er hefur Grant dvalið hér á landi síðan í byrjun þessa árs og hefur hann verið iðinn við tónleikahald auk þess sem hann hefur verið að vinna að næstu plötu ásamt Bigga Veiru úr GusGus.

Af nýja laginu að dæma hefur Biggi haft rafræn áhrif á John sem eru góðar fréttir og hljómar lagið eftir því. Ég ætla samt að vona að einhver af lögunum sem að John flutti í Austurbæ í sumar fái að fylgja með en þar voru nokkrar afbragðs lagasmíðar í gangi. Mér sýnist á öllu að myndbandið hafi verið skotið á Íslandi en það má vel vera að ég hafi rangt fyrir mér.

Torfi

Atoms for Peace: Traveling Wilburys dagsins í dag

Atoms-For-Peace

Meðlimir Atoms for Peace á góðum degi.

Undanfarin ár hef ég beitt mér fyrir því að vera vel vakandi fyrir góðri tónlist. En auðvitað sefur maður á verðinum enda þyrfti ég líklega að vera í 100% vinnu við það eitt að fjalla um og fylgjast með tónlist ef mér ætti að takast að innbyrða allt sem er í gangi.

Hljómsveitin Atoms for Peace er gott dæmi um þetta. Súpergrúppa sem inniheldur meðal annars Thom Yorke og Flea. Hefur hún verið starfandi síðan 2009 en þeir sem standa á bakvið sveitina eru þeir sömu og spiluðu með Thom Yorke á plötunni The Eraser sem kom út 2006.

Í lok febrúar á næsta ári mun sveitin gefa út sína fyrstu plötu sem hefur fengið nafnið Amok en hún mun innilhalda níu lög og er þegar hægt að gæða sér á fyrsta síngúlnum, „Default“.

Ef restin af plötunni er í sama klassa og „Default“ má alveg búast við þrusu plötu frá Atoms for Peace. Reyndar stóðu upptökur einungis yfir í þrjá daga sem er heldur lítið en þar sem bandið er svona vel mannað hef ég engar áhyggjur.

– Torfi

God’s Lonely Man gengin út

Já það hlaut að koma að því, Pétur Ben hefur gefið út breiðskífu númer tvö, God’s Lonely Man. Liðin eru heil sex ár síðan að frumburðurinn Wine for My Weakness kom út og því löngu kominn tími á aðra plötu. Að vísu má ekki gleyma því að Pétur hefur verið upptekinn við ýmislegt annað en hann spilar auðvitað með mörgum listamönnum, gerir lög fyrir kvikmyndir og gaf út plötu í fyrra ásamt Eberg.

God’s Lonely Man hefur að geyma níu frumsamin lög sem öll eru sungin á ensku. Hvorki meira né minna en þrjú lög ná yfir sjö mínútna múrinn og er það merki um metnaðarfullar lagasmíðar. Ég er sérstaklega ánægður með að sjá lagið „Tomorrows Rain“ á plötunni en ég heyrði það fyrst á Airwaves hátíðinni árið 2010 og varð stundvís ástfanginn. Einnig er þarna að finna lagið „Cold War Baby“ sem er eitt af betri lögum plötunnar.

Í lýsingunni á gogoyoko er talað um að platan svipi til hljómsveitarinnar Velvet Underground og gæti ég ekki verið meira sammála en í hvert skipti sem ég hef heyrt Pétur spila nýtt efni að undanförnu hefur Lou Reed oftar en ekki komið upp í hugann.

Ábreiðan á God’s Lonely Man.

Pétur Ben gefur plötuna út sjálfur og hefur söfnun verið í gangi en þegar þetta er skrifað hefur hann náð að safna rúmlega helming af þeirri upphæð sem hann lagði upp með. Það er ósk mín að fólk styrki Pétur enda frábær listamaður hér á ferð. Þangað til getið þið notið plötunnar hér á gogoyoko.

– Torfi 

Joaquin Phoenix snýr aftur á hvíta tjaldið

Jú þið heyrðuð rétt, Joaquin Phoenix er væntanlegur á hvíta tjaldið í október en hann hefur verið fjarverandi í fjögur ár eða síðan að kvikmyndin Two Lovers kom út. Að vísu kom heimildarháðmyndin I’m Still Here út árið 2010 en þar þóttist hann hafa gefist upp á kvikmyndum og hugðist snúa sér alfarið að rappi. Virkilega súr mynd ef út í það er farið.

En nú er J.P. mættur aftur til leiks í Hollywood en hann leikur á móti kanónunni Philip Seymour Hoffman í The Master eftir leikstjórann og handritshöfundinn Paul Thomas Anderson. Sá maður á nú ekkert slæman feril að baki en hann hefur t.d. leikstýrt og skrifað myndir á borð við Boogie NightsMagnolia og There Will Be Blood. Það má því alveg búast við sprengju enda eru J.P. og P.S.H. með betri leikurum samtímans á góðum degi. 

Always two there are, no more, no less. A master and an apprentice.

Phoenix leikur fyrrverandi hermann sem er nokkuð ráðvilltur eftir herþjónustu sína og kemur þá trúarleiðtoginn Lancaster Dodd (Hoffman) til sögunnar og tekur hann uppá arminn. Lancaster fer fyrir trúfélaginu ‘The Cause’ sem sprettur upp í kjölfar seinni heimsstyrjaldarinnar. Meira veit ég nú ekki um innihald myndarinnar en Phoenix virðist ætla að nota sömu greiðslu og í Walk the Line sem er fagnaðarerindi enda smekkleg með eindæmum.

Til gamans má geta að Johnny Greenwood úr Radiohead samdi tónlistina fyrir myndina og er hægt að hlusta á tóndæmi hér.

– Torfi