Monthly Archives: september 2013

Airwaves upphitun: Anna von Hausswolff – Jagwar Ma – Mac DeMarco

Það fer að styttast í bestu tónlistarhátíðina á Íslandi og það er ekki úr vegi að fara að hita aðeins upp. Erlendu atriðin í ár eru í kringum 60 og eru þau stödd á misjöfnum stað á ferlinum. Í fyrstu voru ekki mörg nöfn sem maður kannaðist við, Kraftwerk er auðvitað lang stærsta hljómsveitin í ár, John Grant snýr aftur en hann spilaði einnig á hátíðinni árið 2011, bandið sem spilaði undir fyrstu plötunni hans er líka á dagskrá en hún heitir Midlake og svo keypti ég disk með belgísku hljómsveitinni Girls in Hawaii fyrir einhverjum árum síðan og þá eru hljómsveitirnar sem ég þekkti fyrir nánast upptaldar. En þá hófst rannsóknarvinna sem stendur enn yfir og hef ég ákveðið að kynna til leiks þrjá listamenn sem munu troða upp á hátíðinni í ár.

Anna von Hausswolff
Anna Aðdáendur á Facebook: 
9.064
Breiðskífur: 2
Hvar: Gamla bíó á fimmtudegi kl. 23:40
Rekst á: No Joy, Yo La Tengo, Bárujárn, Sólstafi

Anna von Hausswolff er hörku söngkona og píanisti sem kemur frá nágrannaþjóð okkar, Svíþjóð. Tónlist hennar er ansi dramatísk og drungaleg og gefa kannski titlar diskanna hennar það til kynna, Singing from the Grave og Ceremony. Seinni platan er virkilega góð en hún var meðal annars tilnefnd til Nordic Music Prize sem besta norræna platan 2012. Þegar ég hlustaði á plötuna minnti söngur Önnu mig svolítið á hina stórkostlegu Kate Bush og er það ekki leiðum að líkjast. Gamla bíó ætti að henta henni vel en það er spurning hvort hún geri hljóðmönnum Airwaves erfitt fyrir og flytji inn orgel til landsins þó ég stórefi það.

Jagwar Ma
Jagwar
 Aðdáendur á Facebook: 23.753
Breiðskífur: 1
Hvar: Listasafnið á fimmtudegi kl. 23:00
Rekst á: No Joy, Yo La Tengo og smá á Önnu von Hausswolff

Áströlsku stuðboltarnir í Jagwar Ma voru í seinasta hollinu inn á Airwaves hátíðina í ár og eiginlega var það þeirra vegna sem ég ákvað endanlega að verða mér útum miða. Meðlimir eru þrír og spila þeir allir á hefðbundin hljóðfæri eins og gítar, bassa og trommur en þeir nýta sér líka syntha, loopa og trommuvél sem gerir tónlistina þeirra bæði áheyrilegri og dansvænni. Ég er allavega á því að þetta séu tónleikar sem maður er að fara að dilla sér á enda eru ástralskir listamenn þekktir fyrir það að koma fólki til að dansa (Cut Copy, Empire of the Sun). Platan þeirra Howlin’ kom út í sumar og hefur fengið góða dóma hjá t.d. Pitchfork og Allmusic. Upphafslag plötunnar, „What Love“ var til að mynda að finna í tölvuleiknum Fifa 13 en það er ágætis árangur að ná lagi þar inn enda einn vinsælasti tölvuleikur heims og fá mörg eyru að kenna á tónlistinni sem í honum hljómar. Það verður fróðlegt að sjá hversu margir mæta í Listasafnið þar sem að Yo La Tengo, eitt af stærri nöfnum hátíðarinnar er að spila á sama tíma en það verður að minnsta kosti einn á Listasafninu klukkan ellefu á fimmtudagskvöld.

Mac DeMarco
Mac_DeMarco
 Aðdáendur á Facebook: 33.478
Breiðskífur: 2
Hvar: Silfurbergi í Hörpu kl. 21:00
Rekst á: Fears, Ghostigital, Sarah MacDougall, We Are Wolves

Mac DeMarco er ungur flippköttur frá Kanada sem er veikur fyrir varalitum og almennu flippi enda ekki skrítið, maðurinn er 23 ára. DeMarco hefur unnið hörðum höndum að því að meika það sem tónlistarmaður frá árinu 2008 en það var loks í fyrra sem hann fékk plötusamning við útgáfufyrirtækið Captured Tracks. Þá gaf hann út tvær plötur, eina í mars sem hlaut náð fyrir augum útgáfunnar sem í kjölfarið bauð honum samning og í október skilaði hann plötunni frá sér. Plöturnar tvær eru góðar þó að sú seinni sé talsvert betri enda munur á því að komast í alvöru stúdíó með tilheyrandi græjum og fíneríi. Á köflum minnir DeMarco mig á Kurt Vile þó aðallega í laginu „Ode to Viceroy“ en gítarinn spilar stóra rullu í tónlist DeMarco sem er í suðrænari kantinum. Ég geri ráð fyrir stórskemmtilegum tónleikum hjá honum í Hörpu og ég ráðlegg fólki að leggja leið sína þangað tímanlega á laugardagskvöldið.

– Torfi

Auglýsingar