Monthly Archives: október 2015

Tónleikadómur: Ríó tríó í hálfa öld (+ lagalisti)

Mynd tekin af facebook síðu Dægurflugunnar.

Mynd tekin af facebook síðu Dægurflugunnar.

Ríó tríó hélt upp á 50 ára starfsafmæli sitt í Hörpu síðastliðinn föstudag í Eldborgarsal Hörpu og var engu til sparað við að gera tónleikana sem glæsilegasta. Helgi Pétursson og Ágúst Atlason fóru fremstir í flokki ásamt Snorra Helgasyni sem tók stöðu Óla heitins í tríóinu að þessu sinni. Þeim til halds og trausts voru Gunnar Þórðarson og Björn Thoroddsen en þeir hafa lengi verið kenndir við Ríó tríóið. Auk þeirra var hljómsveit undir stjórn GÞ sem sá um að spila á öll helstu hljóðfærin til að gera tónlist Ríó tríó enn betri skil.

Tónleikarnir hófust á laginu „Létt“ af plötunni Ekki vill það batna og var það spilað af öllum þeim sem tóku þátt í að leika tónlist Ríó tríó þetta kvöldið. Að því loknu yfirgaf „húsbandið“ sviðið og stóðu þá eftir Helgi, Ágúst, Snorri, Björn og Gunnar ásamt tveimur hljóðfæraleikurum sem sáu um að slá taktinn. Fram að hléi voru leikin eldri lög af ferli sveitarinnar þar sem einkennin voru snyrtilegur gítarleikur, fallegur söngur og kímnir textar. Snorri spilaði á banjó í laginu „Verst af öllu“ og gerði það listavel enda vel menntaður í þjóðlagatónlistinni. Björn Thoroddsen sá um krúsídúllurnar í gítarleik kvöldsins og sýndi snilli sína t.d. í laginu „Ég sé það nú“. Óla heitins var minnst fyrir flutninginn á laginu „Tár í tómið“ sem hann var vanur að syngja og sem fyrr var það Snorri Helga sem leysti hann af hólmi og gerði það vel. Á milli laga flutti Helgi Pé gamanmál og uppskar mikil hlátrasköll í kjölfarið. Jónas Friðrik aðaltextasmiður sveitarinnar var með erindi fyrir hlé og stóð þar hæst ferðin fræga til Dyflinnar, höfuðborgar Írlands þar sem Helgi leitaði að úlpu á Snorra litla Helgason með dyggri aðstoð nokkurra fílefldra karlmanna. Síðasta lag fyrir hlé var „Eitthvað undarlegt“, eitt sterkasta lag tríósins enda samið af Gunna, Helga og Óla.

Í hléinu var það mál manna að tónleikarnir hefðu heppnast vel hingað til og var þá sérstaklega talað um hæfileika Björns Thoroddsen á gítarinn. Einnig var minnst á skemmtilegt innslag frá Jónasi Friðriki sem þótti vel lukkað og hressandi viðbót í prógramið.

Eftir hlé snéri „húsbandið“ aftur ásamt hetjunum fimm og var talið í lagið „Ástarsaga“. Andri Ólafsson úr Moses Hightower var nú kominn á bassann og gat Helgi því hvílt kontrabassann sinn og einbeitt sér að söngnum. Lög af síðari hluta ferilsins fengu að njóta sín og þá aðallega af plötunum Ekki vill það batna og Landið fýkur burt. Þegar þarna er komið við sögu víkur áberandi gítarleikurinn fyrir skemmtaranum fræga og verð ég að viðurkenna að eldra efni sveitarinnar sem var á boðstólnum fyrir hlé höfðar betur til mín. Þó leynast þarna inná milli hressandi lög eins og „Á pöbbinn“, „Dýrið gengur laust“ og „Landið fýkur burt“ sem hefur alltaf náð að snerta einhverja suðræna taug í mér. Þó að mér hafi alls ekki leiðst þegar þessi yngri lög voru leikin var ég ánægður að heyra eldri lögin aftur en það var í 9 laga syrpu svokallaðri þar sem slagarar á borð við „Flaskan mín fríð“, „Ó, Gunna“, „Romm og kókakóla“ og „Flagarabragur“ fengu að hljóma. Að syrpunni lokinni var fararsnið á tríóinu sem og „húsbandinu“ og tóku gestir sig þá til, risu úr sætum sínum og klöppuðu tríóið upp. Það var pláss fyrir tvö lög í viðbót og það voru einmitt lögin sem ég held að flest allir gestirnir hafi saknað, „Ég sá þig snemma dags“ og „Við viljum lifa“ og tók salurinn vel undir bæði lög. Það var ljóst að þar með var þessum flottu tónleikum og afmælishátíð lokið og gengu gestir út með bros á vör.

Nú kann einhver að spyrja sig hvað 26 ára gamall áhugamaður um tónlist sjái í svona gömlum körlum eins og þeim sem Ríó tríóið inniheldur. Það eru nokkrar ástæður fyrir því sem ég ætla ekki að reifa hér í þessum tónleikadómi en þó finnst mér vert að tala um eina af þessum ástæðum. Fjölskylda mín í föðurleggnum er þekkt fyrir að bresta saman í söng á mannamótum og skiptir þá engu hvort að tilefnið er lítið eins og barnaafmæli eða stórt eins og Bryggjuhátíð á Drangsnesi. Í gegnum tíðina hafa verið sungin þekkt lög með íslenskum texta burtséð frá því hvort að lögin eigi uppruna sinn hér á landi eða annars staðar. Án þess að vita það sjálfur (hér áður fyrr) hafa alltaf verið allavega 2-3 Ríó tríó lög á lagalistanum og má því segja að ég hafi verið alinn upp við þessi lög án þess að gera mér grein fyrir því þá. Eftir að hafa hlustað á plötur með Ríó tríó í seinni tíð komst ég að því að ég hafði heyrt mörg af þessum lögum áður á fyrrnefndum mannamótum í fjölskyldunni og ekki leiddist mér þá og hvað þá þegar ég heyrði Ríó tríó flytja lögin. Svo þarf auðvitað ekki að tíunda neitt um það hvað það hefur hjálpað sveitinni mikið að vera frá Kópavogi!

Lagalisti kvöldsins:

Létt
Verst af öllu
Kópavogsbragur
Tár í tómið
Nonni sjóari
Ég sé það nú
Vetrarnótt
Eina nótt
Eitthvað undarlegt

Hlé

Ástarsaga
Það reddast
Svona er ástin
Á pöbbinn
Í nótt
Síðasti dans
Dýrið gengur laust
Fröken Reykjavík
Landið fýkur burt
Syrpa: Flagarabragur – Ó, Gunna – Óli Jó – Stebbi og Lína – Siggi Jóns – Romm og kókakóla – Flagarabragur – Veizlan á Hóli – Allir eru að gera það

Uppklapp

Ég sá þig snemma dags
Við viljum lifa

– Torfi Guðbrandsson

Auglýsingar