Færslusafn

Bestu erlendu lögin 2015

Screen Shot 2015-12-26 at 4.46.36 PM

Þá er kominn tími á að kryfja tónlistarárið 2015 til mergjar. Ætla að byrja á því að fara yfir bestu erlendu lögin sem verða 20 talsins að þessu sinni.

# 20 „Ship to Wreck“ – Florence + the Machine 

Upphafslag þriðju breiðskífu Florence + the Machine er sterkt og grípandi alveg eins og öll upphafslög ættu að vera.

# 19 „S.O.B.“ – Nathaniel Rateliff & the Night Sweats 

Nathaniel Rateliff er mikill töffari með hörku rödd sem nýtur sín vel í þessu frábæra lagi.

# 18 „Dreams“ – Beck

Eftir rólegheitin í fyrra hendir Beck í öflugan slagara sem býr yfir sömu orku og lögin „Loser“ og „Sexx Laws“.

# 17 „Best Fake Smile“ – James Bay

James Bay er alveg ofboðslega skemmtilegur listamaður og góður flytjandi, þetta lag hefur mikið skemmtanagildi og ætti að koma öllum í stuð.

# 16 „Kill V. Maim“ – Grimes

Ólíkindatólið Grimes hendir hér í eitt sturlað lag sem er óður til Al Pacino úr The Godfather Pt. II.

# 15 „Mountain At My Gates“ – Foals

Foals sýna mátt sinn og megin í þessum indí rokk slagara.

# 14 „King“ – Years & Years

Feykisterkt lag sem er í raun tímalaust, virkar vel árið 2015 en hefði líka getað slegið í gegn árið 1990.

# 13 „The Night Josh Tillman Came to Our Apartment“ – Father John Misty

Frábært lag úr smiðju Father John Misty sem átti gott ár. Dáleiðandi lag sem minnir eilítið á örlí John Grant.

# 12 „Fourth of July“ – Sufjan Stevens

Ákaflega fallegt frá Sufjan Stevens en lagið er einskonar samtal á milli hans og móður hans er hún lá á dánarbeðinu.

# 11 „The Less I Know the Better“ – Tame Impala

Kevin Parker fangar þá tilfinningu að sjá ástina í örmum einhvers annars í þessu kyngimagnaða lagi.

# 10 „You Should’ve Gone to School“ – BC Camplight

Frábært lag frá Íslandsvininum BC Camplight sem byrjaði tónleika sína á Iceland Airwaves í ár á þessu lagi. Topp stöff!

# 9 „Need You Now“ – Hot Chip

Platan Why Make Sense? er ekki eins sterk og fyrri verk Hot Chip en þetta lag kemst klárlega í hóp með bestu lögum hljómsveitarinnar.

# 8 „I’m an Outlaw“ – Kurt Vile

Banjó er mögulega svalasta hljóðfæri í heimi og hér plokkar Kurt Vile strengina af mikilli snilld.

# 7 „High by the Beach“ – Lana Del Rey

Lana er með þeim svalari í bransanum og hún býr til ákaflega svala tónlist. „High by Beach“ er hennar svalasta lag til þessa.

# 6 „Go“ – The Chemical Brothers

Sennilega það lag sem ég hef hlýtt á oftast árið 2015. The Chemical Brothers í sínu allra besta formi.

# 5 „King Kunta“ – Kendrick Lamar

Kendrick sýnir á sér nýjar hliðar með því að bjóða fönkinu í kaffi. Lag sem maður getur hlustað á aftur og aftur án þess að fá leið á því.

# 4 „Multi-Love“ – Unknown Mortal Orchestra

Titillag nýju plötunnar hjá UMO er ákaflega vel samið. Sýna hér hvers vegna þeir eru stundum kallaðir Bítlar nútímans.

# 3 „Holy Shit“ – Father John Misty 

Ég kolféll endanlega fyrir Father John Misty eftir tónleika hans á Airwaves í nóvember. Þetta lag hitti mig beint í hjartastað en laglínan er ofboðslega grípandi, söngurinn óaðfinnanlegur og yrkisefnið fallegt.

# 2 „The Blacker the Berry“ – Kendrick Lamar

Alvöru áróður frá meistara Kendrick þar sem hann talar um uppruna sinn, rasisma og hversu miklir hræsnarar svartir menn geta verið. Fullorðins stöff.

# 1 „Let It Happen“ – Tame Impala

Upphafslag Currents er að mínu mati besta erlenda lag ársins. Telur 7 mínútur og 46 sekúndur og ekki ein sekúnda fer til spillis! Það er óvenjulegt að ég taki ástfóstri við lög í þessari lengd en það er ekki annað hægt varðandi þetta lag. Ofboðslega vel úthugsað og samið lag og nokkuð ljóst að Kevin Parker hefur eytt einhverjum tíma í stúdíóinu við gerð þessa lags.

Lög sem voru nálægt því að komast á topp 20:

„Can’t Keep Checking My Phone“ – Unknown Mortal Orchestra
„Dream Lover“ – The Vaccines
„Global Warming“ – John Grant
„High Enough to Carry You Over“ – CHVRCHES
„Hotline Bling“ – Drake
„Huarache Lights“ – Hot Chip
„Lean On (feat. MØ)“ – Major Lazer & DJ Snake
„Miniskirt“ – BRAIDS
„No No No“ – Beirut
„Oino“ – LA Priest
„Ong Ong“ – Blur
„Only One (feat. Paul McCartney)“ – Kanye West
„Whole Lot of Love“ – Duffy

Torfi Guðbrandsson

Auglýsingar

Rock Werchter 2015: Fimmtudagur

Ég endurnýjaði kynni mín við Rock Werchter hátíðina í ár og braut þar af leiðandi gamlan eið sem ég gerði við sjálfan mig um að sækja aldrei sömu tónlistarhátíðina erlendis tvisvar. Síðast sótti ég hátíðina árið 2012 og líkaði nokkuð vel en hægt er að lesa um hana einmitt hér á Pottinum.

Fimmtudagurinn byrjaði nákvæmlega eins og fimmtudagurinn 2012 sem var að standa í röð fyrir utan tónleikasvæðið í u.þ.b. klukkustund. Fyrstu plön dagsins fóru því útum þúfur en planið var að sjá Years & Years, First Aid Kit og Eagles of Death Metal. Ég rétt svo náði í rassgatið á EoDM en gat þó huggað mig við það að sjá að Joshua Homme var ekki með þeim á tónleikunum. Keyptir voru matarmiðar og hlustað á fyrstu tóna Royal Blood á aðalsviðinu. Það var grátlegt að þurfa að yfirgefa tónleika þeirra en James Bay var væntanlegur í Hlöðuna og ég ætlaði ekki að missa af honum.

Fyrir hátíðina var ég einna spenntastur fyrir James Bay en hann gaf út frábæra plötu fyrr á árinu og það er mikið látið með hann í heimalandinu hans. James Bay olli engum vonbrigðum og sýndi ansi góða takta á sviðinu með þétt band á bakvið sig. Bay renndi í öll helstu lögin af plötunni sinni en þó má kannski segja að hápunktur tónleikana hafi verið flutningur hans á laginu „If I Ain’t Got You“ eftir Aliciu Keys en þar sýndi hann mögnuð tilþrif, bæði á gítarinn og í söngnum. Það var svo nokkuð fyrirséð að hann myndi enda tónleikana á aðal smellinum sínum, „Hold Back the River“ sem fór vel ofan í gestina. James Bay setti standardinn því nokkuð hátt fyrir aðrar hljómsveitir á hátíðinni og það var nokkuð ljóst að tónleikar hans yrðu ekki toppaðir auðveldlega.

Næst var röðin komin að Jungle á KluB C en ég var ennþá í smá fýlu út í hljómsveitina fyrir að hafa afboðað komu sína á síðustu Airwaves hátíð. Ég náði ca. helmingnum af tónleikum þeirra sem litu afskaplega vel út. Blessunarlega náði ég að sjá mitt uppáhalds lag, „Lucky I Got What I Want“ og má einmitt segja að ég hafi verið heppinn að fá það sem ég vildi. Auk þess náði ég að sjá tvö af þeirra bestu lögum, „Busy Earnin'“ og „Time“ og gat ég því gengið nokkuð sáttur út þó að vissulega hefði verið skemmtilegra að ná öllum tónleikunum þeirra.

Þar sem að Foo Fighters þurfti að aflýsa tónleikum sínum á Rock Werchter riðlaðist dagskráin á fimmtudeginum aðeins í kjölfarið. Florence + the Machine var til að mynda seinkað um klukkutíma sem setti mig í þá erfiðu stöðu að þurfa að velja á milli hennar og Hot Chip. Það gerði ákvörðunina auðveldari að hafa séð Florence tvisvar sinnum áður en aldrei Hot Chip. Reyndar náði ég tveimur fyrstu lögunum með Florence og var annað þeirra „Ship to Wreck“ sem ég er að fýla vel þessa dagana.

Það hafði sín áhrif á KluB C að Florence væri að spila á aðalsviðinu en þrátt fyrir það var fínasta mæting á Hot Chip. Breska sveitin renndi í nokkuð pottþétt prógram og tók lög af öllum breiðskífum sínum nema þeirri fyrstu. Ég var sérstaklega ánægður að heyra þau taka „I Feel Better“ og „Flutes“. Nýju lögin voru einnig að koma virkilega vel út og þá sérstaklega „Need You Know“. Frekar öryggir tónleikar hjá Hot Chip en ekkert meira en það.

IMG_3619

Eftir smá pásu var komið að því að kíkja á SBTRKT. Ég sá SBTRKT taka „New Dorp. New York“ og „Pharaohs“ sem er í miklu uppáhaldi en missti því miður af „Wildfire“ sökum kamraferðar. Töff tónleikar samt sem áður og SBTRKT svalari en enginn.

The Chemical Brothers lokaði fimmtudagskvöldinu á aðalsviðinu og var ég spenntur að sjá hvað þeir hefðu uppá að bjóða. Þeir buðu uppá taktfasta tóna, flott sjónarspil og þó nokkur lög sem maður þekkti. Þeir sem voru þolinmóðir og kláruðu tónleikana voru verðlaunaðir þar sem að tvö af síðustu þremur lögunum voru „Galvanize“ og „Block Rockin’ Beats“. Aðrir hápunktar var „Go“ af nýju plötunni og „Swoon“. The Chemical Brothers sendu því gesti útí nóttina vel metta og fulla af orku með vel heppnuðum tónleikum sínum. Góður endir á góðum degi og byrjunin á Rock Werchter 2015 ansi sterk!

Torfi Guðbrandsson

Rock Werchter: Sunnudagur + uppgjör

Síðasti dagur hátíðarinnar var runninn upp en á pappírnum var hann ekki jafn feitur og fyrri dagarnir. Ég hóf daginn á bresku hljómsveitinni The Vaccines en í henni er bassaleikarinn Árni Hjörvar. The Vaccines spilar pönkskotið indí rokk og voru þeir hrárri en ég bjóst við. Þeir spiluðu lög af plötunni sinni What Did You Expect from the Vaccines? og einnig lög af væntanlegri plötu, Come of Age, en hún kemur út 3. september næstkomandi. Það var góð keyrsla á strákunum og náðu þeir að hita mann ágætlega upp fyrir daginn.

Eftir tveggja tíma pásu var komið að Noel Gallagher’s High Flying Birds. Kóngurinn mætti í rándýrum leðurjakka og átti gjörsamlega sviðið. Noel og félagar léku lög af sínum ferli og einnig fengu að fljóta með nokkur lög með Oasis. Það var sniðugt hjá þeim enda finnst mér lögin hjá High Flying Birds frekar einhæf. Toppurinn á tónleikunum og jafnvel hátíðinni allri var lokalagið, „Don’t Look Back in Anger“, sem hann tileinkaði Vincent Kompany, fyrirliða og miðverði Manchester City. Allur skarinn tók undir og var ég með gæsahúð allan tímann! Fínustu tónleikar sem enduðu með sprengju.

Vincent Komapany & Noel Gallagher eru miklir mátar.

Þegar Noel hafði lokið sér af voru þrjú kortér í Florence + the Machine og þá var ekkert annað að gera en að fikra sig áfram nær sviðinu. Fjögur ár voru síðan að ég sá Florence Welch og vélina troða upp í Listasafni Reykjavíkur á Iceland Airwaves. Ýmislegt hefur gengið á síðan þá og fara þau létt með að fylla hallir og leikvanga í dag. Loks flykktust þau inná sviðið við mikinn fögnuð viðstaddra og byrjuðu tónleikana á „Only If for a Night“. Enn gerði gæsahúðin vart við sig á nokkrum stöðum en fyrir mér hefði Florence mátt gera meira af því að syngja og minna af því að tala. Frægðin hefur greinilega farið illa með hana sem og áfengið og vímuefnin en hún bullar tóma vitleysu sem ekkert vit er í. En hvað um það, tíminn sem hljómsveitin fékk var að mínu mati of stuttur eða kannski nýttu þau hann bara illa. Þau tóku ekki nema níu lög, sex af Ceremonials og þrú af Lungs. Ég vildi fá meira sem og líklega flest allir sem voru á tónleikunum en Florence var orðin þyrst og þar með var það búið.

Ég var ekkert að stressa mig yfir því að fylgjast vel með Snow Patrol en ég nýtti tímann til að hlaða símann minn og þá var ágætt að hafa eitthvað til að horfa á. Þeir fengu til sín gesti eins og til að mynda Ed Sheeran sem var ágætis bónus þar sem ég missti af honum. Einu lögin sem ég þekki annars með Snow Patrol eru „Run“ og „Chasing Cars“ og tóku þeir þau bæði sem var kannski fyrirsjáanlegt en engu að síður hápunktar á annars flötum og auðgleymanlegum tónleikum.

Red Hot Chili Peppers voru næstir á svið og reyndar síðastir líka en þeir lokuðu hátíðinni í ár. Eins og margir var ég með æði fyrir þeim fyrir nokkrum árum en daginn í dag er ég lítið gefinn fyrir þá og ekki bætti úr skák þegar að gítarleikarinn John Frusciantes yfirgaf sveitina. Þeir komu mér hinsvegar skemmtilegt á óvart enda tóku þeir mörg af sínum bestu lögum. Nýji gítarleikarinn Josh Klinghoffer var feykilega öflugur og lítið hægt að kvarta undan honum. Flea og Chad Smith voru samir við sig og einnig Anthony Kiedis söngvari. Þeir voru líka í stuði en oft á milli laga kom einhver djamm syrpa af handahófi frá Josh, Flea og Chad. Maður sá að þeir voru að skemmta sér og auðvitað smitaði það út frá sér. Djammið endaði svo á laginu „Give It Away“ sem átti vel við enda allir að kveðja Rock Wercter 2012.

Uppgjör

Rock Werchter var þriðja tónlistarhátíðin mín en ég fór á Reading í Bretlandi 2009 og FIB á Spáni í fyrra. Allar þessar hátíðir eru ólíkar og kannski helst FIB sem sker sig úr enda minni í sníðum.

Það er ekki hægt að kvarta yfir mörgu á RW en ég hef þó samt nokkrar kvartanir.

  • Það var mjög svo pirrandi að þurfa að standa í röð á fimmtudeginum og bíða eftir því að fá armbandið. Þetta varð til þess að ég missti af einni hljómsveit sem ég var heitur fyrir. Á Reading og FIB var þetta afgreitt um leið og mætt var á svæðið.
  • Á RW eru þrjú svið, aðalsviðið, Hlaðan og Pýramídinn. Pýramídinn er hræðilegur. Það tekur núll eina að fylla hann og tjaldið nær svo lágt að þeir sem eru fyrir utan eiga mjög erfitt með að sjá listamennina á sviðinu. Ég veit að það er skjár fyrir utan en maður vill nú oftast geta séð fólkið lifandi líka. Til þess er maður nú að fara á svona hátíð.
  • Manni líður stundum eins og Simba og Múfasa í gnýjahjörðinni en fjöldinn af fólkinu þarna er rosalegur. Þú þarft að skipuleggja þig vel ef þú þarft að hoppa frá einum listamanni yfir í annan eins og ég þurfti að gera þegar Beirut og Pearl Jam voru að spila.

Kostina þarf ekkert að fjölyrða um enda alveg ástæða fyrir því að hátíðin sé í topp 5 yfir stærstu hátíðir í Evrópu.

Bestu tónleikarnir og þar sem allt gekk upp voru að mínu mati þessir (í stafrófsröð).

  • Beirut
  • Justice
  • M83

Fleiri orð ætla ég nú ekki að hafa um þessa ágætu hátíð en ég er nú þegar farinn að huga að næsta sumri. Hvaða hátíð skyldi verða fyrir valinu þá?