Monthly Archives: júlí 2014

Tónleikadómur: Útgáfutónleikar Grísalappalísu

Undanfarið ár hefur Grísalappalísa verið rómuð sem ein öflugasta tónleikasveit landsins. Á einhvern óskiljanlegan hátt hafði ég ekki notið þess heiðurs að sjá sveitina á tónleikum og þegar ég frétti af útgáfutónleikum í tilefni Rökrétts framhalds var ég staðráðinn í því að gefa mig á þeirra vald.

IMG_2317

Kvöldið byrjaði á Arnarhóli þar sem stóð til að frumflytja nýjan þjóðhátíðarsöng. Flutningurinn var í höndum Rúnars gítarleikara sem söng og spilaði undir á gítar. Rúnar bað gesti um að fylgjast vel með textanum svo þeir gætu sungið með síðar. Mér leist vel á þennan nýja þjóðhátíðarsöng enda innihélt textinn nær allt sem mér þykir vænt um: Ísland, Coca-Cola, Grísalappalísu og Arsenal! Rúnar leiddi svo rúmlega 50 manns niður á Húrra syngjandi og spilandi þjóðhátíðarsönginn.

Húrra var vel skreyttur að innan og engu líkara en að maður væri að fara á prom. Andrúmsloftið var afar hlýlegt og vinalegt og greinilegt að liðsmenn Grísalappalísu höfðu lagt metnað í umgjörðina.

IMG_2321

IMG_2322

IMG_2323

dj. flugvél og geimskip, upphitunaratriði kvöldsins, hóf leik upp úr 22 og tók gesti með sér um víðan völl. Steinunn er afbragðs sögumaður og býr til flotta stemningu í kringum lögin sín með reykvél, ljósum og leikrænum tilburðum. Hún tók nokkur lög og þótti mér „Ráðabrugg villikattanna“ og „Trommuþrællinn“ standa upp úr.

Ekki löngu síðar mætti Grísalappalísa á svið og taldi í upphafslagið á Rökréttu framhaldi, „Sambýlismannablús“. Í kjölfarið fylgdu lög á borð við „ABC“ og „Allt Má (Má Út) II: Íslands Er Lag“ var góð keyrsla á sveitinni í byrjun og fækkaði hnepptum tölum á skyrtunni hans Gunnars ört. Leikar róuðust svo niður og vildi Gunnar meina að hressleikinn og lætin til þessa gæfu ekki góða mynd af hinu sanna sjálfi meðlimanna. Rólegri lögin á plötunni fengu því næst að njóta sín. Alfreð gítarleikari og Sigurður trommari höfðu hlutverkaskipti í laginu „Melankólía“ þar sem Baldur fór á kostum í flutningi sínum. Fleiri Lísur bættust svo við því að Strengjalappalísur spiluðu undir í „Flýja“ og „Sá Mig í Spegli (Káinn)“. Að því loknu lögðu meðlimir hljóðfærin frá sér og héldu afsíðis en það var eitthvað sem sagði mér að tónleikagestir væru ekki búnir að fá skammtinn sinn.

IMG_2340

IMG_2344

Það þurfti ekki að hafa mikið fyrir því að klappa Grísalappalísu upp því þeir snéru fljótt aftur og gerðu allt vitlaust á Húrra með vel heppnuðu lagavali og ótrúlegri sviðsframkomu. „Björg“ eftir Megas var fyrsta lagið eftir uppklapp og svo fylgdu nokkrir slagarar af ALI með sem gladdi mig mikið enda var ég hræddur um að ég hefði misst af tækifærinu að sjá þau lög í lifandi flutningi. Gunnar, Baldur og Rúnar voru duglegir að stíga niður af sviðinu við mikinn fögnuð viðstaddra sem báru þá uppi reglulega. Gunnar er greinilega orðinn vanur sviðsdýfari enda synti hann hálfpartinn skriðsund ofan á skaranum, mögnuð sjón. Skemmtileg og kæruleysisleg útgáfa af „Skrítin birta“ var síðasta lag kvöldsins og voru tónleikagestir sem og meðlimir Grísalappalísu fullnægðir leyfi ég mér að segja.

Útgáfutónleikar Grísalappalísu eru mögulega bestu tónleikar sem ég hef farið á með íslenskri sveit. Sviðsframkoma drengjanna er geysilega öflug og nálægðin við aðdáendur og lætin verða svo mikil að þér líður eins og litlum fiski í stórri fiskitorfu. Þannig var allavega upplifun mín á köflum í gær. En þó að sviðsframkoma fleyti mönnum ansi langt þá þarf meira til og þá er ég að tala um tónlistina sjálfa. Ég vissi fullvel að Grísalappalísa ætti urmul af góðum lögum og eru ALI og Rökrétt Framhald lifandi sönnun þess en ég var spenntur að sjá hvort að þeir næðu að koma tónlistinni eins vel til skila á tónleikum líkt og í stúdíónu. Já er svarið við því. Það er nefnilega fullkomið jafnvægi á hljómsveitinni þar sem að frontmennirnir þrír (Gunnar, Baldur og Rúnar) sjá um mestu lætin á meðan hinir fjórir sjá um að gera tónlistinni góð skil. Þeir standa þó alls ekki kjurrir en fara þó ekki eins langt frá hljóðfærum sínum og mögnurum eins og hinir.

Það er eitthvað sem segir mér að þessi sveit eigi eftir að ná langt erlendis og ég vona svo innilega að eftir 20 ár geti ég státað mig af því að hafa séð Grísalappalísu spila áður en þeir urðu heimsfrægir.

– Torfi Guðbrandsson

Auglýsingar

Þegar ég fór á tónleika með Metallica

Egilshöll

Í dag eru 10 ár liðin frá tónleikum Metallica í Egilshöll. Þá var árið 2004 og ég þá 14 ára unglingur með æði fyrir Metallica og nokkrar bólur á bakinu. Miðasalan fór fram þann 15. maí í verslun OgVodafone í Síðumúla og fórum við nokkrir bekkjarbræður í röðina kvöldið áður vopnaðir tjaldi og nesti. Foreldrar okkar voru duglegir að fylgjast með okkur fram eftir kvöldi með símhringingum og sms skilaboðum en sofnuðu sem betur fer á kristilegum tíma. Þá upplifðum við íslenska sumarnótt í fyrsta skipti sem ekki verður reifuð hér neitt frekar.

Það er löngu vitað að Íslendingar kunna ekki að bíða í röð en það sannaðist enn og aftur er hurðin á versluninni var við það að opna. Allt í einu breyttist röðin í stóra hrúgu og stóð gaurinn sem kom síðastur inn í röðina allt í einu hliðina á þeim sem kom fyrstur á svæðið. Ég náði inn í tæka tíð og keypti fjóra miða á B-svæði sem er auðvitað alveg óskiljanlegt en foreldrar mínir treystu mér sennilega ekki fyrir að geyma meiri pening.

Timinn leið og þann 4. júlí opnaði Egilshöll sig fyrir 18.000 gestum sem enn hefur ekki verið toppað. Ég kom mér fyrir framarlega á B-svæðinu ásamt föður mínum, bróður hans og syni hans sem er einu ári yngri en ég. Næstu mínútur einkenndust af mikilli bið og ótrúlegum hita en ég var staðráðinn í að halda þetta út. Brain Police og Mínus sáu um upphitun en Krummi virtist ekki alveg vita hvað hann ætti að gera við míkrafóninn sinn og tróð honum ýmist ofan í buxurnar eða langt upp í kok.

Þegar Mínus hafði lokið sér af sagðist pabbi ætla að fá sér hressingu með bróður sínum og spurði hvort ég vildi eitthvað. Ég afþakkaði boðið og kallaði svo á eftir honum „þið þurfið svo ekkert að koma aftur“. Ég gat ekki haft meira rangt fyrir mér því að ég þurfti svo sannarlega á þeim að halda nokkru síðar. Biðin var orðin þreytandi en hitinn var orðinn mér um megn og mig var farið að svima duglega. Ég var því lifandis feginn þegar ég sá glitta í pabba að nýju. „Pabbi!“ stundi ég út úr mér og brosið á pabba breyttist í mikinn áhyggjusvip er hann leit mig augum. Andlit mitt var náfölt og datt ég bókstaflega í fangið hans pabba. Allt í einu heyrðust fagnaðarlæti í gestunum, Metallica voru komnir á svið og ég var á hraðferð í átt að súrefni. Svei þér Metallica!

Eftir að hafa komist í súrefni og innbyrt smá pítsu og kók var komið að því að njóta loksins uppáhalds hljómsveitarinnar minnar í órafjarlægð. Upplifunin mín var ekki alveg eins og ég hafði ímyndað mér en ég hafði reiknað með að hoppa mikið og sveifla höfðinu fram og aftur. Það var ekki heilsa til staðar fyrir neitt svoleiðis rugl og stóð ég teinréttur upp í stúku og bar þannig goðin augum restina af tónleikunum.

Já Metallicu tókst að gera frónið að heitasta helvíti þetta sunnudagskvöld og það var alltof heitt fyrir mig. Það að þetta hafi verið fyrstu tónleikarnir í Egilshöll segir kannski alla söguna enda ekki komin reynsla á tónleika í húsnæðinu og hvað þá af þessari stærðargráðu. Þegar ég kom svo heim og kveikti á sjónvarpinu sá ég að Grikkir voru orðnir Evrópumeistarar. Þetta kvöld var greinilega ekkert að fara að skána svo það var ekkert annað í stöðunni en að leggjast bara á koddann og fara að sofa.

– Torfi Guðbrandsson