Færslusafn

Tónleikadómur: Ríó tríó í hálfa öld (+ lagalisti)

Mynd tekin af facebook síðu Dægurflugunnar.

Mynd tekin af facebook síðu Dægurflugunnar.

Ríó tríó hélt upp á 50 ára starfsafmæli sitt í Hörpu síðastliðinn föstudag í Eldborgarsal Hörpu og var engu til sparað við að gera tónleikana sem glæsilegasta. Helgi Pétursson og Ágúst Atlason fóru fremstir í flokki ásamt Snorra Helgasyni sem tók stöðu Óla heitins í tríóinu að þessu sinni. Þeim til halds og trausts voru Gunnar Þórðarson og Björn Thoroddsen en þeir hafa lengi verið kenndir við Ríó tríóið. Auk þeirra var hljómsveit undir stjórn GÞ sem sá um að spila á öll helstu hljóðfærin til að gera tónlist Ríó tríó enn betri skil.

Tónleikarnir hófust á laginu „Létt“ af plötunni Ekki vill það batna og var það spilað af öllum þeim sem tóku þátt í að leika tónlist Ríó tríó þetta kvöldið. Að því loknu yfirgaf „húsbandið“ sviðið og stóðu þá eftir Helgi, Ágúst, Snorri, Björn og Gunnar ásamt tveimur hljóðfæraleikurum sem sáu um að slá taktinn. Fram að hléi voru leikin eldri lög af ferli sveitarinnar þar sem einkennin voru snyrtilegur gítarleikur, fallegur söngur og kímnir textar. Snorri spilaði á banjó í laginu „Verst af öllu“ og gerði það listavel enda vel menntaður í þjóðlagatónlistinni. Björn Thoroddsen sá um krúsídúllurnar í gítarleik kvöldsins og sýndi snilli sína t.d. í laginu „Ég sé það nú“. Óla heitins var minnst fyrir flutninginn á laginu „Tár í tómið“ sem hann var vanur að syngja og sem fyrr var það Snorri Helga sem leysti hann af hólmi og gerði það vel. Á milli laga flutti Helgi Pé gamanmál og uppskar mikil hlátrasköll í kjölfarið. Jónas Friðrik aðaltextasmiður sveitarinnar var með erindi fyrir hlé og stóð þar hæst ferðin fræga til Dyflinnar, höfuðborgar Írlands þar sem Helgi leitaði að úlpu á Snorra litla Helgason með dyggri aðstoð nokkurra fílefldra karlmanna. Síðasta lag fyrir hlé var „Eitthvað undarlegt“, eitt sterkasta lag tríósins enda samið af Gunna, Helga og Óla.

Í hléinu var það mál manna að tónleikarnir hefðu heppnast vel hingað til og var þá sérstaklega talað um hæfileika Björns Thoroddsen á gítarinn. Einnig var minnst á skemmtilegt innslag frá Jónasi Friðriki sem þótti vel lukkað og hressandi viðbót í prógramið.

Eftir hlé snéri „húsbandið“ aftur ásamt hetjunum fimm og var talið í lagið „Ástarsaga“. Andri Ólafsson úr Moses Hightower var nú kominn á bassann og gat Helgi því hvílt kontrabassann sinn og einbeitt sér að söngnum. Lög af síðari hluta ferilsins fengu að njóta sín og þá aðallega af plötunum Ekki vill það batna og Landið fýkur burt. Þegar þarna er komið við sögu víkur áberandi gítarleikurinn fyrir skemmtaranum fræga og verð ég að viðurkenna að eldra efni sveitarinnar sem var á boðstólnum fyrir hlé höfðar betur til mín. Þó leynast þarna inná milli hressandi lög eins og „Á pöbbinn“, „Dýrið gengur laust“ og „Landið fýkur burt“ sem hefur alltaf náð að snerta einhverja suðræna taug í mér. Þó að mér hafi alls ekki leiðst þegar þessi yngri lög voru leikin var ég ánægður að heyra eldri lögin aftur en það var í 9 laga syrpu svokallaðri þar sem slagarar á borð við „Flaskan mín fríð“, „Ó, Gunna“, „Romm og kókakóla“ og „Flagarabragur“ fengu að hljóma. Að syrpunni lokinni var fararsnið á tríóinu sem og „húsbandinu“ og tóku gestir sig þá til, risu úr sætum sínum og klöppuðu tríóið upp. Það var pláss fyrir tvö lög í viðbót og það voru einmitt lögin sem ég held að flest allir gestirnir hafi saknað, „Ég sá þig snemma dags“ og „Við viljum lifa“ og tók salurinn vel undir bæði lög. Það var ljóst að þar með var þessum flottu tónleikum og afmælishátíð lokið og gengu gestir út með bros á vör.

Nú kann einhver að spyrja sig hvað 26 ára gamall áhugamaður um tónlist sjái í svona gömlum körlum eins og þeim sem Ríó tríóið inniheldur. Það eru nokkrar ástæður fyrir því sem ég ætla ekki að reifa hér í þessum tónleikadómi en þó finnst mér vert að tala um eina af þessum ástæðum. Fjölskylda mín í föðurleggnum er þekkt fyrir að bresta saman í söng á mannamótum og skiptir þá engu hvort að tilefnið er lítið eins og barnaafmæli eða stórt eins og Bryggjuhátíð á Drangsnesi. Í gegnum tíðina hafa verið sungin þekkt lög með íslenskum texta burtséð frá því hvort að lögin eigi uppruna sinn hér á landi eða annars staðar. Án þess að vita það sjálfur (hér áður fyrr) hafa alltaf verið allavega 2-3 Ríó tríó lög á lagalistanum og má því segja að ég hafi verið alinn upp við þessi lög án þess að gera mér grein fyrir því þá. Eftir að hafa hlustað á plötur með Ríó tríó í seinni tíð komst ég að því að ég hafði heyrt mörg af þessum lögum áður á fyrrnefndum mannamótum í fjölskyldunni og ekki leiddist mér þá og hvað þá þegar ég heyrði Ríó tríó flytja lögin. Svo þarf auðvitað ekki að tíunda neitt um það hvað það hefur hjálpað sveitinni mikið að vera frá Kópavogi!

Lagalisti kvöldsins:

Létt
Verst af öllu
Kópavogsbragur
Tár í tómið
Nonni sjóari
Ég sé það nú
Vetrarnótt
Eina nótt
Eitthvað undarlegt

Hlé

Ástarsaga
Það reddast
Svona er ástin
Á pöbbinn
Í nótt
Síðasti dans
Dýrið gengur laust
Fröken Reykjavík
Landið fýkur burt
Syrpa: Flagarabragur – Ó, Gunna – Óli Jó – Stebbi og Lína – Siggi Jóns – Romm og kókakóla – Flagarabragur – Veizlan á Hóli – Allir eru að gera það

Uppklapp

Ég sá þig snemma dags
Við viljum lifa

– Torfi Guðbrandsson

Auglýsingar

Árslisti: Bestu íslensku plöturnar 2012

Eins og ég hef komið inn á áður þá var íslenska tónlistarárið afar safaríkt og man ég ekki eftir betra ári hvað plötur varðar. Hér eru 10 bestu plötur ársins að mati Pottsins.

Star Crossed# 10

Þórunn Antonía – Star Crossed

Hér sameinast fingur Davíðs Berndsen og silkimjúk rödd Þórunnar Antoníu. Platan er vel poppuð og gamaldags en það sem kannski háir henni er hversu ófjölbreytt hún er.

Helstu lög: Lovers in the Night, So High og Too Late.

Tilbury - Exorcise# 9

Tilbury – Exorcise

Frumburður stjörnusveitarinnar Tilbury gerði ágætis lukku á árinu og eru nokkrar helvíti fínar lagasmíðar á Exorcise, þær hefðu bara mátt vera fleiri.

Helstu lög: Drama, Slow Motion Fighter, Sunblinds og Tenderloin.

Ojba Rasta# 8

Ojba Rasta – Obja Rasta

Það var kominn tími á að einhver önnur reggí sveit en Hjálmar stigi fram og það gerðu liðsmenn Ojba Rasta svo sannarlega með reggí-döbb frumburðinum sínum. Skemmtilegir textar í bland við glaðværa tónlist klikkar seint!

Helstu lög: Gjafir jarðar, Hreppstjórinn og Jolly Good.

valdimar---um-stund# 7

Valdimar – Um stund

Undraland var afar vel heppnuð plata og það má segja að það hafi verið smá pressa á Valdimar að fylgja henni eftir. Um stund er ögn rólegri og heilsteyptara verk en það vantar samt fleiri hittara.

Helstu lög: Beðið eftir skömminni, Sýn og Yfir borgina.

nora - himinbrim# 6

Nóra – Himinbrim

Hér er um að ræða metnaðarfulla plötu frá hljómsveitinni Nóru. Lögin eru stór og minna stundum á sveitir eins og Arcade Fire. Þú byrjar ekkert að hlusta á þessa nema að þú gerir það til enda.

Helstu lög: Himinbrim, Kolbítur og Sporvagnar.

sigur-ros-valtari-cd-packshot-lst097077# 5

Sigur Rós – Valtari

Enn einn osturinn frá okkar ástkæru Sigur Rós. Ekki besta platan þeirra en persónulega er ég meira fyrir Takk… og Ágætis byrjun plöturnar en þessi er meira í takt við (). Róleg og sveimandi sem hlýjar í kuldanum.

Helstu lög: Dauðalogn, Rembihnútur og Varúð.

Moses_Hightower__5020f334e3b5f# 4

Moses Hightower – Önnur Mósebók

Hressasta hljómsveit landsins, það er ekki spurning. Þeir halda hér vel á spöðunum en hér er um rökrétt framhald að ræða frá Búum til börn. Hnittnir textarnir passa svo vel við vandaðan og undurfagran hljóðfæraleikinn að það hálfa væri hellingur.

Helstu lög: Háa c, Sjáum hvað setur og Stutt skref.

Petur# 3

Pétur Ben – God’s Lonely Man

Ó hve lengi ég beið þín segi ég nú bara. Sex ár liðin frá síðustu plötu sem gerði góða lukku. Pési hefur þroskast mikið sem lagahöfundur og hljómar platan eftir því. Pétur Ben minnir mig svolítið á Lou Reed áður en hann missti það og er ég ekki fær um að hrósa meir en það.

Helstu lög: Cold War Baby, Tomorrows Rain og Yellow Flower.

Dyrd# 2

Ásgeir Trausti – Dýrð í dauðaþögn

Ásgeir „Stormsveipur“ Trausti þarf enga kynningu en ég man ekki eftir öðrum eins sigurfara í íslenskri tónlistarsenu. Hugljúfar lagasmíðarnar og björt röddin með íslensku textunum er eitthvað sem virkar á alla Íslendinga.

Helstu lög: Dýrð í dauðaþögn, Hljóða nótt, Hærra og Nýfallið regn.

Enter 4# 1

Hjaltalín – Enter 4

Mögulega síðasta platan sem kom út á árinu og hvað það er nú gaman þegar að svona konfektmoli kemur óvænt úr kassanum. Besta plata Hjaltalín hingað til en samstarf Högna og GusGus hefur líklega gert honum gott og má heyra áhrif hér og þar á plötunni. Hjaltalín er mögulega ein best mannaðasta sveit á Íslandi í dag með sjálfan Jesú Krist (Högni) í fararbroddi. Svona mannskapur veitir einfaldlega bara á gott!

Torfi

Árslisti: Bestu íslensku lögin 2012

Mig grunar að íslenskir tónlistarmenn hafi verið frekar smeykir við að heimurinn myndi enda 20. desember í ár og því hafi þeir haft hraðar hendur og gefið frá sér miklu betri lög í kjölfarið. Það var því úr nógu að velja úr góðum íslenskum lagasmíðum en þetta eru þau tíu lög sem stóður upp úr að mínu mati.

Ásgeir Trausti – „Dýrð í dauðaþögn“

Þeir eru fáir sem hafa komið inn í íslenskt tónlistarlíf á jafn hvítum hesti og Ásgeir Trausti gerði í ár. „Dýrð í dauðaþögn“ er eitt af mörgum frábærum lögum á samnefndri plötu en með aðeins meiri vídd og tilþrifum en restin.

BlazRoca & Ásgeir Trausti – „Hvítir skór“

Þetta lag heillaði mig ekki við fyrstu hlustun en svo tók ég húmorinn á þetta og fór að meta lagið upp á nýtt. Þrátt fyrir að hafa komið seint út á árinu er þetta eitt af mest spiluðu lögunum á iPodinum mínum.

Hjaltalín – „We“

Frábært lag frá einni heitustu hljómsveit landans undanfarin ár. Lagið er stórt og mætti það alveg vera lengra fyrir mér.

Legend – „City“

Krummi sýnir á sér nýjar hliðar og tekst það einkar vel því að hann er greinilega sniðinn fyrir raftónlistina.

Moses Hightower – „Sjáum hvað setur“

Ein skemmtilegasta hljómsveit sem Ísland hefur alið af sér í langan tíma. Þeir sem hafa ekki farið á tónleika með þessum gleðigjöfum eru heppnir að heimurinn endaði ekki fyrir þremur dögum.

Ojba Rasta – „Hreppstjórinn“

Ég varð ekki var við hljómsveitina Ojba Rasta fyrr en á þessu ári og þvílíkur dýrðardagur sem það var þegar ég lagði hlustir á „Hreppstjórann“ og „Jolly Good“. Það er bara synd að þeir hafi ekki hent laginu á YouTube því lagið þeirra bitnar á fegurð þessarar færslu.

Pétur Ben – „Tomorrows Rain“

http://www.gogoyoko.com/song/799641

Ekki er Pétur Ben skárri en lagið hans er hvorki að fínna á Souncloud né YouTube. En lagið er engu að síður gott og kannski pínu svindl að það fái að fljóta með þar sem það er gamalt. En það vegur víst þyngra þegar lagið er formlega gefið út heldur en spilað á tónleikum.

Sin Fang – „Only Eyes“

Sindri Sin Fang er duglegur í tónlistarsköpun og gefur reglulega út lög undir ýmsum nöfnum, þó aðallega Sin Fang og Pojke um þessar mundir. „Only Eyes“ er ofboðslega hressandi og áferðafalleg lagasmíð og ekki sekúndubrot sem fer til spillis. Það má búast við því að Sindri verði atkvæðamikill á næsta ári.

Tilbury – „Tenderloin“

Fyrsti síngúllinn úr smiðju súpergrúppunar Tilbury. Það er einhver gamall andi yfir laginu sem er svo heimilislegur og þægilegur og hefur afslappaður söngur Þormóðs þar mikið að segja. Vonandi verður hann fyrirmynd fyrir aðra trommara sem dreymir um að stíga aðeins framar á sviðið en þora ekki að taka af skarið.

Þórunn Antonía – „Too Late“

Það er við hæfi að enda þetta á ísdrottningunni sjálfri Þórunni Antoníu. Lagið hefði gert það gott á níunda áratugnum get ég ímyndað mér og gallinn sem Tóta skartar í myndbandinu og dans tilþrifin hefðu einnig fengið góðar undirtektir. En það hefur einnig erindi nú árið 2012 enda frábært lag, frábært myndband og frábærir listamenn hér á ferð.

Torfi