Færslusafn

Bestu íslensku plöturnar 2014

Fyrir mér var íslenska tónlistarárið sterkara í lögum í þetta skiptið og aðeins tvær plötur sem mér þótti bera af. Restin var ekki eins sterk en átti þó afskaplega fína spretti.

# 10 M-Band – Haust 

m-band haust
Hörður sendi frá sér þessa fallegu plötu fyrr í haust og féll hún afar vel við árstíðina sem hún er kennd við.

Hápunktar: Ever Ending Never.

# 9 Rökkurró – Innra

Cover_For_I_Tunes
Innra og Haust eru dæmi um plötur sem vinna á með hverri hlustun og verða sífellt betri eftir því sem maður hlustar meira á þær. Það má því ekki dæma þær of snemma en báðar þessar plötur eiga eflaust eftir að láta að sér kveða enn frekar með tímanum.

Hápunktar: The Backbone, Hunger.

# 8 Knife Fights – I Need You to Go to Hell

knife fights
Sigurður Angantýsson, söngvari og gítarleikari Knife Fights afgreiddi mig nokkrum sinnum í Skífunni á árinu og fyrir það er ég þakklátur. En ég verð þó að skamma hann fyrir að hafa ekki mælt með þessari frábæru plötu sem hann á mikið í. Sem betur fer kom Dr. Gunni mér á sporið og reddaði þar með tilþrifalitlum strætóferðum mínum upp í vinnu.

Hápunktar: Stay Forever in Doubt, Underground.

# 7 Vio – Dive In

vio 2
Frumburður Vio var betri en ég hafði reiknað með og komu þeir mér á óvart með fjölbreyttum lagasmíðum sínum. Eina stundina eru þeir í léttum gír eins og í lögunum „Perfect Boys“ og „Wherever You May Be“ en aðra sýna þeir á sér alvarlegri hliðar eins og í „Empty Streets“ og „Dive In“. Það er enginn flýtibragur á þessu verki sem er í afar góðu jafnvægi.

Hápunktar: Wherever You May Be, You Lost It.

# 6 Mono Town – In the Eye of the Storm

mono
Á einhvern óskiljanlegan hátt hefur þessi plata ekki hlotið náð fyrir eyrum íslenskra fjölmiðla og tónlistarspekúlanta. Potturinn er hins vegar á öðru máli. Hér er um að ræða heilsteypta og fallega plötu sem rennur ljúft í gegn. Magnaður söngur Bjarka í laginu „Yesterday’s Feeling“ er svo sér kapituli útaf fyrir sig.

Hápunktar: Peacemaker, Yesterday’s Feeling.

# 5 GusGus – Mexico 

GusGus_-_Mexico
Það er alltaf ánægjuefni þegar GusGus ákveður að henda í plötu. Mexico fer ákaflega vel af stað og fyrstu fimm lögunum sýna meðlimir flokksins úr hverju þeir eru gerðir. Næstu þrjú lög eru ekki eins sterk en þeim tekst þó að loka plötunni með þriðja besta lagi ársins.

Hápunktar: Another Life, Crossfade, Obnoxiously Sexual, This Is What You Get When You Mess with Love.

# 4 Samaris – Silkidrangar

silkidrangar
Samaris fylgir á eftir frumburði sínum með Silkidröngum sem er alls ekki síðra verk. Platan hangir vel saman og hefur sveitinni tekist að mastera sinn einstaka stíl. Samaris vinnur svolítið á sömu uppskriftinni, seiðandi söng, klarínett, frábærum töktum og gömlum íslenskum textum sem gæti mistekist og orðið þreytandi en blessunarlega fer tríóið afskaplega vel með vopnabúrið sitt.

Hápunktar: Lífsins ólgusjór, Nótt, Tíbrá.

# 3 Teitur Magnússon – 27

teitur
Teitur hefur undanfarin ár gert það gott með Ojba Rasta en ákvað nú að gefa frá sér eina sóló. Teitur er 27 ára sem er ákaflega hættulegur aldur í tónlistarheiminum en sem betur fer er Húnvetningurinn sprelllifandi. Platan er virkilega skemmtileg og inniheldur frábæra texta og lög. Að auki tekur Teitur ábreiðu af „Háflóð“ eftir Bubba og gerir það að sínu og smellpassar það inn í stemninguna á plötunni. Eini gallinn við 27 er að hún er alltof stutt eða aðeins 27 mínútur og 36 sekúndur.

Hápunktar: Háflóð, Nenni, Vinur vina minna.

# 2 Prins Póló – Sorrí

Sorrí
Prinsinn gerði stormandi lukku í ár með Sorrí og tónlistinni úr París Norðursins. Hann heillaði landann með tónlist sinni og textum en þeir sem hafa fylgst með Prinsinum vita að eitthvað stórkostlegt var í vændum í ár eftir að hafa töfrað fram hvern slagarann á fætur öðrum árin 2012 og 2013. Prinsinn safnar saman gömlum hitturum á Sorrí og bætir við nokkrum nýjum svo úr verður ansi eigulegur gripur. Sorrí hefði hæglega getað endað í fyrsta sæti en undir lokin var þetta spurning um eitt lag sem var ekki í sama gæðaflokki og hin.

Hápunktar: Öll lögin fyrir utan „Vakúmpakkað líf“.

# 1 Grísalappalísa – Rökrétt framhald 

grísalappalísa
Rökrétt framhald er besta íslenska platan árið 2014 og látið engan fjölmiðil eða kjána út í bæ ljúga einhverju öðru að ykkur. Grísalappalísa gerði allt rétt á plötu nr. 2 og toppuðu að mínu mati ALI sem var alls ekki sjálfgefið. Sveitin bætti við sig meðlim í formi hins síkáta Rúnars Arnar og það virðist bara haft góð áhrif á lísurnar. Baldur er orðinn ansi lipur textahöfundur en hann er skráður fyrir 8 textum á plötunni en Gunnar semur hina þrjá textana með honum. Platan býr yfir góðum heildarbrag þrátt fyrir að lögin séu að mörgu leyti ólík. „Nóttin“ minnir um margt á Súkkat enda inniheldur lagið hin fleygu orð „það er vont en það venst“. Í „Þurz“ verður maður var við áhrif Þurzaflokksins á 2:20-3:06 sem er ein af þeim hljómsveitum sem veitti meðlimum tónlistarlegt uppeldi. Svo eru lög eins og „Flýja“ og „Vonin blíð“ sem ég fór yfir í síðustu færslu. Nú ef þú vilt upplifa þig eins og þú sért á einhverju sterku án þess þó að þurfa að innbyrða ólögleg efni mæli ég með því að þú hlustir á „ABC“ sem er gjörsamlega bilað lag. Það kennir sum sé ýmissa grasa á Rökrétta framhaldi Grísalappalísu og ég vona bara að biðin eftir næstu plötu verði ekki löng.

Hápunktar: Platan eins og hún leggur sig.

– Torfi Guðbrandsson

Auglýsingar

Bestu íslensku lögin 2014

Að vanda var mikil gróska í íslenskri tónlist í ár. Þau voru mörg lögin sem náðu athygli minni en þetta eru þau 25 sem mér þóttu best.

# 25 „Yfir hafið“ – Uniimog 


Nýjasta súpergrúppan með þeim Sigurði Guðmunds og Ásgeiri í broddi fylkingar með eitt afskaplega ljúft og fínt lag.

# 24 „Listamaður“ – Elín Helena

Skemmtilega kaldhæðið lag úr smiðju pönksveitarinnar Elínar Helenu.

# 23 „Hunger“ – Rökkurró

Áður óþekktur kraftur gerir vart við sig í þessu frábæra lagi frá Rökkurró sem stígur fastar á bensíngjöfina.

# 22 „All the Pretty Girls“ – Kaleo 

Kaleo nutu mikilla vinsælda í kjölfar fyrstu plötu sinnar og þetta lag gerir ekkert til að róa þær niður.

# 21 „Show Us“ – Oculus & Berndsen

Þrátt fyrir glæsilegt orðspor þessara drengja fór nú ekki mikið fyrir þessu lagi sem minnir svolítið á Röyksopp.

# 20 „Nótt“ – Samaris

Upphafslagið á Silkidrangar er geysilega sterkt og nýtur sín ekki síður á tónleikum sveitarinnar.

# 19 „Ever Ending Never“ – M-Band

Spikfeitt lag úr smiðju raftónlistarmannsins efnilega M-Band.

# 18 „Ótta“ – Sólstafir 

Sólstafir sýna hér sínar sterkustu hliðar með níu mínútna slagara af samnefndri plötu.

# 17 „Ryðgaður dans“ – Valdimar

Hugljúft og fallegt lag frá drengjunum í Valdimar.

# 16 „Fed All My Days“ – Máni Orrason

Máni kom eins og þruma úr heiðskíru lofti þegar hann sendi okkur Íslendingum þennan slagara úr svefnherberginu sínu á Spáni.

# 15 „Tvær plánetur“ – Úlfur Úlfur

Drengirnir í Úlfur Úlfur hafa verið duglegir að minna á sig á árinu en þetta lag verður að teljast þeirra besta til þessa.

# 14 „Yesterday’s Feeling“ – Mono Town

Feykilega fallegt lag frá Mono Town sem gerði það gott á árinu.

# 13 „Wherever You May Be“ – Vio 

Vio, sigurvegarar Músíktilrauna 2014 með lag sem bætir og kætir.

# 12 „Stjörnustríð“ – Shades of Reykjavík 

Það þarf ekkert að spyrja að leikslokum þegar að þú setur stef úr Star Wars saman við eina svölustu sveit landsins.

# 11 „Don’t Be a Man“ – Knife Fights

Þökk sé Snarlinum frá Dr. Gunna kynntist ég Knife Fights sem redduðu prófatíðinni í dimmum desember.

# 10 „Another Life“ – GusGus

GusGus með eitt af gamla skólanum. Algjörlega ómögulegt að hreyfa sig ekki þegar þetta lag hljómar.

# 9 „You Lost It“ – Vio 

Vio voru fljótir að sýna fram á verðskuldaðann sigur í Músíktilraunum.

# 8 „París norðursins“ – Prins Póló

Eins og það hafi ekki verið nóg að sefa þorsta aðdáenda með Sorrí þá þurfti Prinsinn endanlega að drekkja okkur með þessari snilld.

# 7 „Vonin blíð“ – Grísalappalísa

Lísan sýnir á sér nýja hlið með þessu magnaða lagi.

# 6 „Stay Forever in Doubt“ – Knife Fights

Annað lagið á listanum með Knife Fights og það er vel verðskuldað. Hér er allt til fyrirmyndar, meðferð á hljóðfærum sem og söngur Sigurðar. Og já, truflað lag!

# 5 „Nenni“ – Teitur Magnússon

Ofur einfaldur texti í boði Benedikts Gröndal gerir hér góða hluti í stórum og fjölbreyttum hljóðheimi Teits. Þó að textinn sé ekki flókinn segir hann samt svo margt og á alveg jafn vel við í dag eins og á dögum Benedikts. Fyrsta lagið sem ég mun hlusta á þegar ég er orðinn leiður á að skrifa ritgerð eða læra undir próf.

# 4 „Flýja“ – Grísalappalísa

Það er ekki hægt að flýja undan Grísalappalísu þegar hún er í þessu stuði. Strengjalísurnar hjálpa til við að gera lagið eitt af þeim bestu á árinu sem telur sjö mínútur og 24 sekúndur. Keyrsla sem fer rólega af stað en stigmagnast þegar lengra líður á og nær fallegu hámarki í restina. Topp stöff.

# 3 „This Is What You Get When You Mess with Love“ – GusGus

GusGus er ein af þessum sveitum sem gerir rólegum lögum alveg jafn góð skil líkt og þeim dansvænari. Daníel Ágúst er einn besti söngvari landsins að mínu mati og slíkur söngvari verður að fá að syngja falleg lög með fallegum texta. Það er tilfellið hér.

# 2 „Finn á mér“ – Prins Póló

Þegar ég hlustaði á þetta lag fyrst varð ég orðlaus í smá stund því að ég tengdi mig (að hluta til) við innihald textans. Það eitt og sér hefði samt ekki verið nóg til að skila laginu í annað sætið en það gerði frábær tónlistin sem ómar undir.

# 1 „Color Decay“ – Júníus Meyvant

„Color Decay“ er eitt af þessum lögum sem þú heyrir og telur þig fullvissan um að hér sé um erlendan tónlistarmann að ræða. Blessunarlega getum við Íslendingar eignað okkur þetta fallega lag. Hér smellur gjörsamlega allt saman, blásturs- og strengjahljóðfæri stækka hljóðheim lagsins svo um munar og einlægni Júníusar nýtur sín alveg í botn. Íslenskri dægurlagamenningu hefur fæðst enn einn demanturinn og það er hætta á því að Júníus eigi eftir að eigna sér næsta tónlistarár á Íslandi og vonandi víðar.

– Torfi Guðbrandsson

Airwaves ’14: Fimmtudagur

Fimmtudagskvöldið hófst á Frederiksen þar sem að CeaseTone var að spila. Þrátt fyrir að klukkan væri ekki margt var nokkuð af fólki á staðnum. Hafsteinn Þráinsson er aðalmaðurinn á bakvið CeaseTone en á tónleikum fær hann hljómsveit til stuðnings. Hafsteinn var valinn besti gítarleikarinn á Músíktilraununum í fyrra og stendur hann vel undir því. Lagasmíðar Hafsteins eru bara þó nokkuð góðar og skilaði hann ásamt hljómsveit sinni góðu dagsverki.

IMG_2896

Stefnan var tekin á Hörpuna þar sem að sigurvegarar Músíktilrauna í ár, Vio, opnuðu Silfurbergið. Ég var spenntur að sjá drengina en ég hafði séð þá á undanúrslitum Músíktilrauna í mars. „You Lost It“ er ennþá þeirra sterkasta lag en annars komust þeir nokkrum sinnum á gott flug með rokkaðari lögum sínum sem voru ágæt á tónleikunum en ekkert sérstaklega eftirminnileg. Framtíðin er þó björt og þeir hafa allt að bera til að vera flott hljómsveit í framtíðinni.

Ég færði mig yfir í Kaldaljós salinn til að sjá Alice Boman en hugurinn var þó á Húrra þar sem að Kött Grá Pjé var að spila á sama tíma en ég nennti hreinlega ekki að gera mér ferð þangað. Alice Boman hóf leikinn einsömul á „Waiting“ og flutti það lag með sóma. Salurinn var orðinn stappaður þegar að hljómsveitin hennar trítlaði á sviðið og spiluðu nokkur lög sem náðu þó ekki að rista neitt sérstaklega djúpt. Eftir flutninginn á „Over“ var ég orðinn þyrstur og ákvað því að yfirgefa Kaldaljós. Kvöldið hafði enn ekki náð neinu flugi.

Eftir að hafa vætt kverkarnar var komið að því að sjá Horse Thief en ég var nokkuð hrifinn af plötunni þeirra Fear In Bliss. Söngvarinn er með ansi sérstaka rödd sem minnir svolítið á Ezra Koenig í Vampire Weekend og hún naut sín nokkuð vel í Silfurberginu. Annars nutu lögin sín betur heima í stofu heldur en á tónleikum en það vantaði oft ris eða einhvern hápunkt til að gera mann agndofa. Tónleikarnir runnu annars bara nokkuð örugglega í gegn hjá Horse Thief en lögin voru þó flest í svipuðum dúr.

Harpan var yfirgefin og stefnan tekin á Gamla bíó þar sem að Megas hafði sameinast Grísalappalísu, ekki í fyrsta sinn og vonandi ekki í það síðasta. Það mátti búast við röð og því miður missti ég af einhverjum 10 mínútum en sem betur fer kom það ekki að sök. Stemningin var í allt öðrum klassa en á þeim tónleikum sem ég hafði farið á fyrr um kvöldið og á miðvikudaginn til samans. Þarna var Megas mættur, í fyrsta sinn á Airwaves ásamt bestu tónleikasveit landsins leyfi ég mér að fullyrða. Lög eins og „Paradísarfuglinn“, „Björg“ og „Ef þú smælar framan í heiminn“ fengu að hljóma og þau hljómuðu vel! Fólk dansaði og hélt Gunna á lofti þess á milli. Einhver leiðindi voru með hljóðið í míkrafónunum en þó ekki yfir alla tónleikana sem betur fer. Megas lét minna fyrir sér fara heldur en t.d. Gunnar enda talsvert eldri og lifaðri en var oft senuþjófur og þá sérstaklega í laginu „Ef þú smælar framan í heiminn“. Annars er ég bara í hálfgerðu sjokki yfir þessum hljóðfæraleikurum í Grísalappalísu sem eru allir fagmenn fram í fingurgóma. Saxófónninn er síðan auðvitað sér kapituli útaf fyrir sig en hann gerir alveg magnaða hluti fyrir þessa hljómsveit. Tvímælalaust bestu tónleikarnir hingað til.

IMG_2914

King Gizzard & the Lizard Wizard lokuðu fimmtudagskvöldinu með sýrusprengju en þeir voru vopnaðir tveimur trommuleikurum. Lögin voru flest í lengri kantinum og var aldrei slakað á. Ég var búinn að hlusta á plötuna þeirra Oddments fyrir tónleikana en það hefði ekki þurft, King Gizzard í stúdíó og King Gizzard á sviði er greinilega ekki sama dæmið og fengu melódíurnar að víkja fyrir hamagangi á sviðinu. Þrátt fyrir það var þetta ansi hressandi viðvera í Gamla bíói og ég hélt sáttur heim eftir fimmtudagskvöld sem hafði farið rólega af stað en endað í algjörri rússíbanareið.

– Torfi

Vio sigruðu Músíktilraunir 2014

IMG_1715

Það var hljómsveitin Vio frá Mosfellsbæ sem bar sigur úr bítum á Músíktilraunum þetta árið. Í öðru sæti lenti hljómsveitin Lucy in Blue og í því þriðja hafnaði Conflictions. Milkhouse var svo kosin hljómsveit fólksins.

Undirritaður var viðstaddur síðasta undanúrslitakvöldið og sá Vio komast áfram í úrslitin. Þeir voru með betri atriðum kvöldsins og er óhætt að segja að drengirnir þrír séu vel að sigrinum komnir.

Það eru því spennandi tímar framundan hjá Vio og verður fróðlegt að fylgjast með framgöngu þeirra á næstunni.

– Torfi