Monthly Archives: febrúar 2015

Stálu Kaleo frá Rage Against the Machine?

Untitled

Reglulega gerist það í heimi tónlistarinnar að lag þykir keimlíkt eldra lagi. Nýlegt dæmi er til að mynda lagið „Stay with Me“ með Sam Smith sem minnti ansi mikið á „I Won’t Back Down“ eftir Tom Petty og Jeff Lynne. Reyndar þótti lagið svo líkt að Tom Petty leitaði réttar síns og á nú ásamt Jeff Lynne félaga sínum 12,5% í laginu. En nóg um það.

Kaleo, sú ágæta hljómsveit, gæti átt von á símtali úr herbúðum Rage Against the Machine fari svo að þeir meiki það í landi tækifæranna í náinni framtíð. Ástæðan er lagið „Rock ‘n’ Roller“. Þegar ég heyrði lagið fyrst þótti mér riffið í laginu hljóma ansi kunnuglega. Ég gat þó ómögulega komið því fyrir mig hvar ég hafði heyrt það áður. Þangað til í dag!

Ég var í sakleysi mínu að keyra í höfuðborginni með stillt á X-inu þegar að allt í einu byrjaði lag sem minnti óneitanlega á „Rock ‘n’ Roller“ og í smá tíma hélt ég að um breytta útgáfu væri að ræða. En það var ekki svo gott. Lagið tók aðra stefnu og allt í einu heyrðist í Zack de la Rocha söngvara Rage Against the Machine. Lagið sem um ræðir heitir „Sleep Now in the Fire“ og kom út 4. nóvember 1999 og er að finna á þriðju plötu RAtM, The Battle of Los Angeles.

Ég geri nú ráð fyrir því að það séu meiri tónlistarspekúlantar þarna úti sem hafa fyrir löngu komið auga á líkindin en ég hvet ykkur hin til þess að leggja við hlustir og gera ykkar eigið mat.

– Torfi Guðbrandsson

Auglýsingar