Bestu íslensku lögin 2018 #20-11

 

Íslenska tónlistarárið 2018 var nokkuð gjöfult eins og við var að búast. Rappið heldur áfram sigurgöngu sinni og virðist ekki stefna í neina lægð í þeim efnum á næstunni. Listi minn yfir bestu lögin í ár er litaður af rappinu en þó slæðast inn lög hér og þar úr öðrum áttum. Ég kenni vinnunni minni um þetta en unglingarnir vilja ekki heyra neitt nema rapp! Ég fjalla um 20 bestu lögin að mínu mati og skipti þeim upp í tvö blögg.

# 20 STEPMOM – „I’M YOUR NEW STEPMOM“
STEPMOM er hliðarverkefni Jóhönnu Rakelar sem er meðlimur í Reykjarvíkurdætrum og CYBER. Fyrr á árinu gaf hún út stuttskífu sem innihélt þrjú lög og þar náði þetta lag mestum vinsældum. Lagið er ögrandi en á sama tíma skemmtilegt og grípandi. Myndbandið er líka snilld og afar óíslenskt.

# 19 Tómas Jónsson – „Breiðholt“
Þetta lag var ofboðslega nálægt því að fara framhjá mér. Lagið er að finna á safnplötunni This Is Icelandic Indie Music safnskífunni sem kom út í ár. Hér fer Tómas Jónsson fögrum höndum um píanóið og öllu sem því fylgir. Það er einhver vísindaskáldskapsfýlingur í „Breiðholti“ og það myndi án efa sóma sér vel sem lokalag í þætti eða kvikmynd af þeim toga. Meira svona!

# 18 Julian Civilian – „Dans á rósum“
Skúli Jónsson er maðurinn á bakvið Julian Civilian sem gaf út glimrandi fína plötu í ár. Þetta lag hins vegar stóð upp úr og gítarleikurinn í því minnir um margt á Lou Reed og félaga í The Velvet Underground. Afslappaður flutningur Skúla á míkrafóninum gerir svo útslagið.

# 17 Jungle House – „What’s Going On“
Ég var í sakleysi mínu að keyra í Kópavoginum með Rás 2 í gangi þegar þetta lag fékk að óma. Lagið náði mér strax en það kom mér á óvart þegar Doddi kynnti lagið eftir á að það var ekki eftir þekktan tónlistarmann þó að lagið sé sungið af þekktri íslenskri söngkonu. Sumarsmellur sem þú færð á heilann.

# 16 Rari Boys – „Hlaupa hratt (feat. Yung Nigo Drippin’)“
Það er skrítið að rapphljómsveit á borð við Rari Boys hafi ekki náð meiri útbreiðslu hér á landi. Það er ekkert við tónlistina að sakast heldur frekar offramboð af íslensku rappi þar sem stóru strákarnir einoka markaðinn. Lagið „Hlaupa hratt“ er eitt af sterkari lögum Rari Boys og það sést kannski best á því að Joey Christ sá eitthvað við lagið. Upprunalega útgáfan er þó betri!

# 15 Herra Hnetusmjör – „Keyra“
Það var fátt sem að Árni lét ógert í ár en maðurinn hefur líklega lítið sofið síðustu mánuði. Fyrir utan að vera grimmur að gefa út lög, stofnaði hann eigin útgáfu, henti í nýtt hnetusmjör og sagði skilið við Joe Frazier. Í staðinn kom Þormóður (JóiPé og Króli) og strax í fyrsta lagi nýju plötunnar heyrast áhrifin frá kauða. Taktur Þormóðs fellur gífurlega vel að Hnetunni og ekki ólíklegt að hann verði eigingjarn á Þormóð í framtíðinni.

# 14 Ásgeir – „Myndir“
Ég var byrjaður að sakna þess að heyra Ásgeir syngja á íslensku. Tvö ný lög fengu að líta dagsins ljós úr herbúðum Ásgeirs í ár og bæði á okkar ylhýra móðurmáli. „Myndir“ er vottur um að Ásgeir er ennþá fullfær um að semja lög sem minna á gamla efnið hans og það eru góðar fréttir. Ásgeir og íslenskir textar er samband sem má aldrei slitna!

# 13 Hjálmar – „Aðeins eitt kyn“
Hjálmar hafa verið að taka við sér síðasta árið og gefið út nokkur lög sem minna á gömlu góðu tímana. „Aðeins eitt kyn“ er eitt af þeim og alveg hreint frábært lag. Mjúkir reggítónarnir renna ljúft í gegn og hnyttni þeirra í textagerð er aldrei langt frá. Það er óskandi að fá nýja plötu frá þeim á næsta ári.

# 12 ClubDub – „Clubbed Up“
Það er ekki á hverjum degi sem listamenn spretta upp úr engu og slá samstundis í gegn en þannig var það með piltana í ClubDub sem gerðu gott mót á Secret Solstice hátíðinni og eftir það var ekki aftur snúið. „Clubbed Up“ var lagið sem sló svo eftirminnilega í gegn og hefur ómað í hverju einasta partý á Íslandi síðan það kom út.

# 11 Birnir – „Fáviti“
Eitt af mörgum frábærum lögum af frumburði Birnis. „Fáviti“ stingur í stúf við önnur lög Birnis enda leiðist það út í hálfgerðan teknókokteil í lokin í anda The Prodigy. Magnaður kokteill í boði Birnis og Bngrboy!

Torfi Guðbrandsson

Auglýsingar

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s