Færslusafn

Bestu erlendu plöturnar 2013

Tónlistarárið 2013 var ekki aðeins gott á Íslandi heldur einnig úti í heimi. Það er samt alltaf jafn erfitt að fylgjast með og sér maður það best þegar árslistarnir hrannast inn frá hinum og þessum tónlistarmiðlum. Þó að maður sé nokkurn veginn á sama máli með topp 10 er samt heill hellingur sem maður hefur ekki heyrt af eða ekki komist í að hlusta á. En þá er alltaf gaman í janúar, febrúar því að þá getur maður skoðað það sem framhjá manni fór árið áður. En ég hef gert upp hug minn og þetta eru þær 10 sem stóðu framar öðrum sem ég hlustaði á árið 2013.

# 10 Trouble Will Find Me – The National

Print
Hljómsveitin The National hefur hægt og bítandi skapað sér sess sem ein frambærilegasta rokksveit heims með frábærum plötum (The Boxer og High Violet). Trouble Will Find Me er ekki eins góð og þær, heilt yfir miklu rólegri og færri smellir en í heildina rennur hún ljúft í gegn.

Hápunktar: Demons, I Need My Girl, I Should Live in Salt.

# 9 Pale Green Ghosts – John Grant

john-grant-pale-green-ghosts
Þessi á næstum því heima á íslenska listanum enda vann John Grant plötuna mikið með Íslendingum. Biggi Viera setur sinn svip á plötuna sem er býsna frábrugðin Queen of Denmark og fer þessi nýji rafstíll John Grant einstaklega vel.

Hápunktar: Black Belt, Glacier, GMF.

# 8 …Like Clockwork – Queens of the Stone Age

like-clockwork-album-cover-image
Það var kominn tími á góða plötu frá QOTSA eftir vonbrigðin í Era Vulgaris. Joshua Homme og félagar hafa fundið sjarmann sem einkenndi þá á dögum Songs for the Deaf og eru það virkilega góð tíðindi.

Hápunktar: I Sat by the Ocean, If I Had a Tail, My God Is the Sun.

# 7 Yeezus – Kanye West

1-Yeezus_304x304
Sama hversu umdeildur Kanye er verður hann aldrei sakaður um að búa til lélega tónlist. Kanye er fjölbreyttur listamaður sem sýnir sig best í því hversu ólíkar plöturnar hans eru. Yeezus er harðari en fyrri verk Kanye og jafnvel aðeins hrárri á köflum og plötuumslagið sýnir kannski hráleikann best. Meðferð Kanye á laginu „Strange Fruit“ í flutningi Ninu Simone er svo algjörlega epísk.

Hápunktar: Black Skinhead, Blood on the Leaves, Bound 2, New Slaves.

# 6 Random Access Memories – Daft Punk

daft-punk-random-access-memories-cover
Líklega best markaðsetta plata ársins sem tókst að búa til óbærilega spennu eftir henni og gerði það að verkum að þegar hún kom út var eiginlega bannað að fýla hana ekki. Þegar leið á sumarið og maður búinn að liggja yfir henni þá gat maður metið kosti hennar og galla. Kostirnir eru þeir að lögin eru flest afbragðs góð en gallarnir kannski þeir að hún er óDaft Punklegasta platan til þessa þar sem að listamennirnir setja ótrúlega mikinn svip á hana. Hún hljómar þá kannski frekar eins og Daft Punk plata þar sem aðrir listamenn gera sínar útgáfur af lögunum þeirra. Gott dæmi um þetta er „Instant Crush“ sem hljómar eins og lag eftir The Strokes og „Get Lucky“ sem er óneitanlega eign Nile Rodgers. En auðvitað er þetta samstarfsplata sem gengur vel upp og Daft Punk valdi svo sannarlega þá listamenn sem féllu vel að þeirra stíl.

Hápunktar: Contact, Get Lucky, Giorgio by Moroder, Give Life Back to Music, Instant Crush.

# 5 Modern Vampires of the City – Vampire Weekend

Vampire_Weekend_-_Modern_Vampires_of_the_City
Vampire Weekend komu þvílíkt ferskir inn í árið 2008 með lygilega góðum frumburði. Contra sem kom út tveimur árum síðar var ákveðin vonbrigði en með Modern Vampires of the City hafa þeir náð að fullmóta sinn stíl og gefa hér frá sér ótrúlega heilsteypt verk með slögurum sem geta staðið einir og sér. Á góðum degi getur Vampire Weekend verið skemmtilegasta hljómsveitin í bransanum og hún var það svo sannarlega í ár. Stubbasöngurinn í „Ya Hey“ er samt pirrandi og fellir plötuna í 5. sæti.

Hápunktar: Diane Young, Step, Unbelievers.

# 4 Reflektor – Arcade Fire

arcade-fire-reflektor-cover-500x500 (1)
Það tók mig smá tíma að venjast nýja hljóm uppáhalds hljómsveitarinnar minnar en eftir að hafa gefið henni tíma tókst mér að meta hana að verðleikum. Platan er stór og flest lögin einnig en Arcade Fire höndlar stærðina með miklum ágætum enda stórt band og vel mannað. Þrátt fyrir að handbragð James Murphy liti plötuna er gamla góða Arcade Fire aldrei langt undan.

Hápunktar: Afterlife, Here Comes the Night Time, Reflektor, We Exist.

# 3 Settle – Disclosure 

disclosure-settle-album
Bræðurnir í Disclosure eiga hrós skilið fyrir að hafa sent frá sér eins góðan frumburð og Settle er og vera ekki eldri en þetta en það er eins og þeir hafi verið í þessum bransa í fleiri fleiri ár. Þeir sýna ótrúlega mikinn þroska miðað við aldur á plötunni sem hljómar gjörsamlega óaðfinnanlega og eru þeir líklega margir í house geiranum sem öfunda bræðurna af Settle. Til að gefa fólki ágætis mynd af gæðum plötunnar hafa verið gefnir út sex smellir út frá henni en vanalega eru þeir í kringum þrjá.

Hápunktar: F for You, Latch, When a Fire Starts to Burn, White Noise.

# 2 Overgrown – James Blake

james-blake-overgrown-410
James Blake fylgir hér á eftir fyrstu plötunni sinni með ennþá betra verki. Lagið „Retrograde“ gaf strax tóninn fyrir eitthvað stærra hjá James Blake og frammistaða hans á Sónar Reykjavík sýndi að hann er með frambærilegri listamönnum nútímans þar sem hann blandar allskonar stílum saman og býr þar að auki yfir afar fallegri rödd. Tónlist James Blake hentar vel fyrir rappara eins og sést vel á „Take a Fall For Me“ þar sem RZA rappar og svo „Life Around Here“ þar sem Chance the Rapper tekur til máls en þá útgáfu er reyndar ekki að finna á plötunni.

Hápunktar: I Am Sold, Life Around Here, Retrograde, To the Last.

# 1 AM – Arctic Monkeys 

Arctic+Monkeys+AM
Arctic Monkeys hafa loksins fundið sig á ný eftir að hafa verið afvegaleiddir á hinum misgóðu Humbug og Suck It and See. Platan er fjölbreytt og sneisafull af góðum lögum. Umhverfið í LA hefur líklega haft einhver áhrif á Alex Turner og félaga þar sem r&b og hipp hopp áhrifin leyna sér ekki á plötunni. Rokkið er samt alltaf númer 1, 2 og 3 og þá skiptir engu hvort að þeir séu í rólegri kantinum eða ekki, þeir gera það alveg jafn vel og þá helst Alex Turner sem nýtur sín ofboðslega vel í lögum eins og „Mad Sounds“ og „I Wanna Be Yours“ sem eru algjör unaður á að hlusta. Eitt uppáhalds lagið mitt á plötunni er „Fireside“ þar sem trommarinn er í aðalhlutverki í frábærum slætti og Alex Turner afslappaður og svalur. AM er afskaplega fjölbreytt plata sem maður mun seint fá leið á og þau sem héldu að þeir gætu aldrei toppað fyrstu tvær plöturnar sínar hafa mögulega haft rangt fyrir sér.

Hápunktar: Platan eins og hún leggur sig.

Torfi Guðbrandsson

Auglýsingar

Bestu erlendu lögin 2013

# 20 „Lean“ – The National

Þrátt fyrir að The National hafi gefið út ágætis plötu í ár með nokkrum fínum lögum fannst mér lagið „Lean“ sem þeir sömdu fyrir The Hunger Games: Catching Fire standa þeim framar. Hæfilega stórt og fallegt lag sem passar vel við Hungurleikana.

# 19 „In the Kingdom“ – Mazzy Star

Titillag nýju plötunnar með Mazzy Star sem lét aðdáendur sína bíða alltof lengi eftir nýju efni. En biðin var þess virði en mikið eyrnakonfekt hér á ferð.

# 18 „Another Love“ – Tom Odell

Langbesta lagið með Tom Odell ásamt kannski „Can’t Pretend“. Platan hans var svolítið flöt en þetta lag situr fast eftir í kollinum. Rólegt í byrjun en byggist svo alltaf meir og meir upp og sterk rödd Tom Odells nýtur sín vel.

# 17 „Last of the Summer Wine“ – Palma Violets 

Grípandi og letilegt rokk í anda The Strokes og The Libertines.

# 16 „Sweater Weather“ – The Neighbourhood

Lag sem var feyki vinsælt hér á landi og í mikilli spilun á X-inu. Hipp og kúl og algjört æði.

# 15 „Name Written in the Water“ – Cass McCombs

Cass McCombs leiðist ekki að gefa út lög en á síðustu þremur árum hefur hann gefið út rúmlega 40 lög. Cass er með afar viðkunnalega rödd og ekki skemmir fyrir skemmtilegur takturinn í laginu.

# 14 „We Exist“ – Arcade Fire

Eitt af mörgum frábærum lögum frá Arcade Fire af plötunni Reflektor.

# 13 „If I Had a Tail“ – Queens of the Stone Age

Það var kominn tími á gott efni frá Josh Homme og félögum og hér eru þeir í s-inu sínu.

# 12 „Shuggie“ – Foxygen

Ég skil ekki alveg hvernig þessi hljómsveit fór framhjá útvarpsmönnum landsins en ég minnist þess ekki að hafa heyrt einasta lag með þeim í útvarpinu. Þetta hefði t.d. átt full erindi á aldir ljósvakans.

# 11 „Unbelievers“ – Vampire Weekend

Vampire Weekend minntu heldur betur á sig í ár og hér er eitt frábært frá þeim.

# 10 „One Way Trigger“ – The Strokes 

Lag sem sýnir tvær hliðar á Julian Casablancas, þessa léttleikandi og kæruleysislegu hlið og svo hina eitursvölu og ögn lágstemdari hlið.

# 9 „Kemosabe“ – Everything Everything 

Íslandsvinirnir í Everything Everything hræra hér mörgum stílum saman í einn graut sem skilar sér í afskaplega sturluðu og góðu lagi. Líklega besta lag sem samið hefur verið um Tonto.

# 8 „Life Around Here“ – James Blake

Frábært lag úr smiðju James Blake sem er líka vinsæll hjá röppurum en til er útgáfa af laginu þar sem Chance the Rapper lætur nokkur vel valin orð falla.

# 7 „My Number“ – Foals

Lag sem einkenndi sumarið mitt í Noregi en þegar ég heyri þetta lag sé ég fyrir mér norska hraðbraut þar sem sólin sleikir malbikið.

# 6 „Don’t Save Me“ – Haim

Það var ótrúlega spennandi að fylgjast með framgöngu systranna í Haim í ár eftir æðislega tónleika á Airwaves í fyrra. „Don’t Save Me“ er vitnisburður um spádóma margra, þær eru einfaldlega með þetta!

# 5 „White Noise“ – Disclosure (ásamt AlunaGeorge)

Hér fá bræðurnir í Disclosure góða hjálp frá tvíeykinu í AlunaGeorge og saman sjóða þau í einn besta hittara ársins. 

# 4 „Instant Crush“ – Daft Punk (ásamt Julian Casablancas)

„Get Lucky“ skyggði að sjálfsögðu á öll hin lögin af Random Access Memories en persónulega myndi ég allan daginn kjósa Julian Casablancas fram yfir Pharrell Williams.

# 3 „Hold On, We’re Going Home“ – Drake

Ég er nú ekki mikill Drake maður en með þessu lagi hittir hann mig beint í hjartastað. Ábreiðan sem Arctic Monkeys gerði af laginu er einnig ógleymanleg.

# 2 „Why’d You Only Call Me When You’re High?“ – Arctic Monkeys 

Alex Turner og félagar sýna á sér nýjar hliðar sem svipa svolítið mikið til hipp-hoppsins og það fer þeim lygilega vel.

# 1 „GMF“ – John Grant

„GMF“ heyrði ég fyrst í Austurbæjabíói sumarið 2012 og heyrði það ekki aftur fyrr en í febrúar/mars á þessu ári þegar hægt var að hlusta á plötuna frítt á soundcloud. Ég held að ég hafi hlustað á það svona 10 sinnum það kvöld enda hef ég aldrei upplifað aðra eins bið en vanalega getur maður smellt lagi sem maður heyrir á tónleikum strax á fóninn þegar heim er komið. Lagið hefur alla þá kosti sem prýðir frábær lög, það er grípandi og ekki bara viðlagið, textinn er snilld, lengdin á laginu er fullkomin en það vill oft verða þannig að lög sem grípa mig strax eru alltof stutt, flutningurinn hjá John Grant er frábær og nýtingin á Sinead O’Connor er líka góð. Sannkallað fimm stjörnu lag.

Airwaves ’13: Föstudagur

Ég byrjaði föstudaginn snemma með því að mæta í röðina fyrir miða á Kraftwerk. Blessunarlega var ég mættur í fyrra fallinu eða 09:15 og náði röðinni þegar hún var ennþá inni í Hörpu. Tíminn leið sem betur fer hratt og var það að mörgu leyti skemmtilegum félagsskap í röðinni að þakka. Miðarnir voru svo afhentir á réttum tíma og náði ég miðum á 13 bekk.

Smá brot af röðinni sem var fyrir utan.

Smá brot af röðinni sem var fyrir utan.

Föstudagurinn hófst á hótelinu Kvosin þar sem vegleg off-venue dagskrá var í gangi. Er ég kom voru danirnir í Shiny Darkly að spila og var ansi stappað af fólki inni í portinu. Dagskránni hafði augljóslega seinkað og náði ég því fleiri lögum með dönunum en ég átti von á. Þeir voru ekki mikið fyrir að spjalla, spiluðu bara tónlistina sína og fóru svo en það hlýtur bara að vera partur af programmet hjá þeim. Annars minntu þeir mig svolítið á Joy Division sem er að sjálfsögðu bara jákvætt en ég vona samt að söngvarinn hengi sig ekki.

Þá var komið að vonbrigðum Airwaves 2013 hingað til, Carmen Villain frá Noregi. Guð minn almáttugur hvað það var pínlegt að fylgjast með henni og tveimur öðrum meðlimum stilla upp. Að vísu var einn meðlimurinn tilbúinn löngu á undan hinum en það var samt algjör óþarfi hjá honum að spila stefið í „Lifeissin“ trekk í trekk á meðan. Að endingu fór þetta svo loksins í gang en mér fannst þetta vera full slappt. Þrír gítarar og lágstemd tónlistin gerðu ekki neitt fyrir mig og eina lagið sem ég fýlaði var búið að eyðileggja fyrir mér áður en tónleikarnir hófust.

Belgarnir í Girls in Hawaii voru sem betur fer næstir en ég batt miklar vonir við þá enda diskurinn þeirra From Here to There frá árinu 2005 afskaplega fínn. Þeir tóku nú ekki mörg lög af honum en það var allt í lagi, þeir eiga greinilega fleiri góð lög því að þeir stóðu sig virkilega vel, reyndar var kannski ekki erfitt að heilla eftir vonbrigðin hjá Carmen Villain. Þeir rifu allavega upp stemninguna í Kvosinni og skiluðu mér ánægðum út á on-venue dagskránna og ég get bara ekki beðið um meira en það.

Girls in Hawaii voru í miklu stuði.

Girls in Hawaii voru í miklu stuði.

Gamla bíó var fyrsti áfangastaður en þar var íslenska sveitin Tilbury að fara að stíga á stokk. Það var frekar erfitt fyrir mig að hlusta á Þormóð söngvarann tala eftir að hafa horft á þættina um Hulla en ég var ekki kominn til að hlusta á hann tala heldur syngja. Tilbury voru frábærir, vel spilandi og öruggir í öllum sínum aðgerðum. Nýja efnið fékk að hljóma en mér til mikillar gleði fengu „Tenderloin“ og „Drama“ einnig að fylgja með og gekk ég afar sáttur út úr dyrum.

Þorri í hlutverki sínu í Hulla.

Þorri í hlutverki sínu í Hulla.

Nú lá leiðin á Listasafnið en þar var bandaríska hljómsveitin Papa að fara að stíga á svið. Þeir komu heldur betur á óvart og sigruðu þá áhorfendur sem mættir voru. Söngvarinn tók Phil Collins á þetta en hann sá um trommuleik einnig. Papa eiga nokkur alveg ótrúlega skemmtileg lög en til að krydda upp á þetta hjóluðu þeir í „Because of the Night“ eftir Patti Smith og Bruce Springsteen til að gjörsamlega toppa þessa glæsilegu tónleika.

Drengirnir í Papa komu skemmtilega á óvart.

Drengirnir í Papa komu skemmtilega á óvart.

Eftir stopp á Bæjarins beztu var stefnan tekin á Hörpuna. Þar sá ég John Grant í þriðja skiptið en í fyrsta sinn í Hörpunni. Hann var góður en ögn rólegur miðað við stuðið sem ég var í. „Black Belt“ og „GMF“ voru því algjörir hápunktar enda lang hressustu lögin sem fengu að hljóma hjá mínum manni. John Grant er samt alltaf flottur en það þurfti eitthvað meira og það fékk ég heldur betur frá næsta atriði.

Það var enginn annar en Omar Souleyman frá Sýrlandi. Hann kom sá og sigraði þetta kvöld en ég hef aldrei heyrt aðra eins tónlist á minni ævi og var hún að virka ótrúlega vel. Silfurbergið var stappað og það var varla kjaftur sem ekki hreyfði sig í takt við tóna Omars. Sviðsframkoma Omars gekk eiginlega bara út handahreyfingar, klapp og labb um sviðið en þetta var allt mjög áhrifaríkt enda maðurinn klæddur eins og hann var með sólgleraugu og rándýra mottu. Omar Souleyman er ótrúlegur listamaður sem býður upp á nýja upplifun af tónlist sem nær að hreyfa við fólki og jafnvel fara með þau í hugarflug til fjarlægra og framandi landa. Ég spái því að hann eigi eftir að hafa mikil áhrif á vestrænan heim músíkanta og tónlistar unnendur víða um heim en það er allavega morgunljóst að tónleikar hans í Silfurbergi 1. nóvember 2013 gleymast seint.

Omar Souleyman átti Silfurbergið í u.þ.b. 40 mínútur.

Omar Souleyman átti Silfurbergið í u.þ.b. 40 mínútur.

Hljómsveitin AlunaGeorge frá Bretlandi lokaði svo föstudagskvöldinu hjá mér. Eftir rólegan fyrri hálfleik var öllu til tjaldað í þeim seinni en þá fékk smellurinn „Attracting Files“ að hljóma sem og þeirra útgáfa af „White Noise“ með Disclosure en hún söng inn á það lag. Fínustu tónleikar svona þegar leið á þá en Aluna Francis gerði mikið fyrir tónleikana enda afskaplega myndarleg stúlka. Botninn þar með sleginn í föstudagskvöldið sem var afar fjölbreytt og skemmtilegt að þessu sinni.

– Torfi

Airwaves upphitun: Anna von Hausswolff – Jagwar Ma – Mac DeMarco

Það fer að styttast í bestu tónlistarhátíðina á Íslandi og það er ekki úr vegi að fara að hita aðeins upp. Erlendu atriðin í ár eru í kringum 60 og eru þau stödd á misjöfnum stað á ferlinum. Í fyrstu voru ekki mörg nöfn sem maður kannaðist við, Kraftwerk er auðvitað lang stærsta hljómsveitin í ár, John Grant snýr aftur en hann spilaði einnig á hátíðinni árið 2011, bandið sem spilaði undir fyrstu plötunni hans er líka á dagskrá en hún heitir Midlake og svo keypti ég disk með belgísku hljómsveitinni Girls in Hawaii fyrir einhverjum árum síðan og þá eru hljómsveitirnar sem ég þekkti fyrir nánast upptaldar. En þá hófst rannsóknarvinna sem stendur enn yfir og hef ég ákveðið að kynna til leiks þrjá listamenn sem munu troða upp á hátíðinni í ár.

Anna von Hausswolff
Anna Aðdáendur á Facebook: 
9.064
Breiðskífur: 2
Hvar: Gamla bíó á fimmtudegi kl. 23:40
Rekst á: No Joy, Yo La Tengo, Bárujárn, Sólstafi

Anna von Hausswolff er hörku söngkona og píanisti sem kemur frá nágrannaþjóð okkar, Svíþjóð. Tónlist hennar er ansi dramatísk og drungaleg og gefa kannski titlar diskanna hennar það til kynna, Singing from the Grave og Ceremony. Seinni platan er virkilega góð en hún var meðal annars tilnefnd til Nordic Music Prize sem besta norræna platan 2012. Þegar ég hlustaði á plötuna minnti söngur Önnu mig svolítið á hina stórkostlegu Kate Bush og er það ekki leiðum að líkjast. Gamla bíó ætti að henta henni vel en það er spurning hvort hún geri hljóðmönnum Airwaves erfitt fyrir og flytji inn orgel til landsins þó ég stórefi það.

Jagwar Ma
Jagwar
 Aðdáendur á Facebook: 23.753
Breiðskífur: 1
Hvar: Listasafnið á fimmtudegi kl. 23:00
Rekst á: No Joy, Yo La Tengo og smá á Önnu von Hausswolff

Áströlsku stuðboltarnir í Jagwar Ma voru í seinasta hollinu inn á Airwaves hátíðina í ár og eiginlega var það þeirra vegna sem ég ákvað endanlega að verða mér útum miða. Meðlimir eru þrír og spila þeir allir á hefðbundin hljóðfæri eins og gítar, bassa og trommur en þeir nýta sér líka syntha, loopa og trommuvél sem gerir tónlistina þeirra bæði áheyrilegri og dansvænni. Ég er allavega á því að þetta séu tónleikar sem maður er að fara að dilla sér á enda eru ástralskir listamenn þekktir fyrir það að koma fólki til að dansa (Cut Copy, Empire of the Sun). Platan þeirra Howlin’ kom út í sumar og hefur fengið góða dóma hjá t.d. Pitchfork og Allmusic. Upphafslag plötunnar, „What Love“ var til að mynda að finna í tölvuleiknum Fifa 13 en það er ágætis árangur að ná lagi þar inn enda einn vinsælasti tölvuleikur heims og fá mörg eyru að kenna á tónlistinni sem í honum hljómar. Það verður fróðlegt að sjá hversu margir mæta í Listasafnið þar sem að Yo La Tengo, eitt af stærri nöfnum hátíðarinnar er að spila á sama tíma en það verður að minnsta kosti einn á Listasafninu klukkan ellefu á fimmtudagskvöld.

Mac DeMarco
Mac_DeMarco
 Aðdáendur á Facebook: 33.478
Breiðskífur: 2
Hvar: Silfurbergi í Hörpu kl. 21:00
Rekst á: Fears, Ghostigital, Sarah MacDougall, We Are Wolves

Mac DeMarco er ungur flippköttur frá Kanada sem er veikur fyrir varalitum og almennu flippi enda ekki skrítið, maðurinn er 23 ára. DeMarco hefur unnið hörðum höndum að því að meika það sem tónlistarmaður frá árinu 2008 en það var loks í fyrra sem hann fékk plötusamning við útgáfufyrirtækið Captured Tracks. Þá gaf hann út tvær plötur, eina í mars sem hlaut náð fyrir augum útgáfunnar sem í kjölfarið bauð honum samning og í október skilaði hann plötunni frá sér. Plöturnar tvær eru góðar þó að sú seinni sé talsvert betri enda munur á því að komast í alvöru stúdíó með tilheyrandi græjum og fíneríi. Á köflum minnir DeMarco mig á Kurt Vile þó aðallega í laginu „Ode to Viceroy“ en gítarinn spilar stóra rullu í tónlist DeMarco sem er í suðrænari kantinum. Ég geri ráð fyrir stórskemmtilegum tónleikum hjá honum í Hörpu og ég ráðlegg fólki að leggja leið sína þangað tímanlega á laugardagskvöldið.

– Torfi

Plötudómur: John Grant – Pale Green Ghosts

Pale-Green-Ghosts-596x300

Þá er Pale Green Ghosts loksins komin í mínar hendur en ég hef beðið óþreyjufullur eftir henni alla daga síðan að John Grant tróð upp í Austurbæ síðasta sumar. Tónleikagestir nutu þess heiður að vera þeir fyrstu í veröldinni til að hlýða á nýjustu lög JG en blessunarlega enduðu þau öll fjögur á plötunni nýju.

Strax á fyrstu tveimur lögum plötunnar greinir maður áhrif Bigga Veiru (GusGus) og er það mikið stökk frá frumburðinum Queen of Denmark. John Grant fetar nýjar slóðir en það er merkilegt hvað hann passar vel inn í raftóna Bigga enda ætti sá maður að þekkja það best hverjir virka í þessum geira en Daníel Ágúst og Högni eru lifandi dæmi um það.

Eftir hið dansvæna „Black Belt“ róast leikurinn aðeins niður  með laginu „GMF“ sem er þessa stundina mitt uppáhalds lag á plötunni. Ástæðan er einfaldlega sú að textinn er bráðskemmtilegur og melódían og þá sérstaklega í viðlaginu er eftirminnileg. „GMF“ ásamt „It Doesn’t Matter to Him“ og „I Hate This Town“ eru lög sem eru í takt við gamla efnið hjá John Grant en restin af plötunni er smituð af Bigga Veiru.

„Why Don’t You Love Me“ er afar óeftirminnilegt lag og í raun eini veiki bletturinn á plötunni. „You Don’t Have To“ býr yfir yfirveguðum takti og seyðandi rödd JG dáleiða mann hreinlega, eftir lagið er maður hálf endurnærður. Næsta lag, „Sensitive New Guy“ krefst þess hins vegar að þú rísir á fætur og baðir höndunum út í loftið en í því lagi gefur Biggi í og einnig John Grant en söngur hans í laginu minnir svolítið á James Murphy (LCD Soundsystem) þegar sá maður er í essinu sínu. „Earnest Borgnine“ er í svipuðum fýling og „You Don’t Have To“ en Earnest Borgnine var leikari sem lést í fyrra og lifði víst tímana tvenna en samkvæmt textanum hitti JG þennan mann.

Platan endar svo á hinu stóra og fallega lagi „Glacier“ en jökull var víst of þjált í framburði að mati JG þannig að hann ákvað að nota enska orðið í staðinn. Jökullinn er myndlíking við sársaukann sem fylgir því að verða fyrir barðinu á þeim sem eru móti samkynhneigð en það mætti segja að lagið sé einhvers konar áróður til þeirra.

John Grant sýnir mikið hugrekki á þessari plötu því að hann fer í óvænta átt miðað við frumburð sinn Queen of Denmark. Gamli kærastinn heldur áfram að vera honum innblástur í textagerð og það er spurning hvort að hann endist í fleiri plötur eða John Grant finni upp á einhverju öðru til að semja um, eins og t.d. hvernig kaffið smakkast á Súfistanum.

John er mikill hvalreki fyrir íslensku tónlistarsenuna og það er ofar mínum skilningi hvernig Sónar-hátíðinni tókst að líta framhjá honum í febrúar! Að lokum vil ég minnast á huggulegu myndirnar sem prýða umslagið og bæklinginn sem skarta íslenskri náttúru og inniveru og uppáhalds namminu mínu, gúmmí hauskúpunum.

Niðurstaða: Pale Green Ghosts er frábrugðin fyrri verkum John Grant þó að innihald textana sé svipað. Samstarf hans og Bigga Veiru gengur vel upp og verður spennandi að sjá hvað John gerir næst.

Torfi

Allt að gerast hjá John Grant

John Grant á góðum degi.

John Grant á góðum degi.

Þá er það komið á hreint, næsta plata John Grant sem hefur fengið nafnið Pale Green Ghosts kemur út í mars á næsta ári og var jafnframt titillag plötunnar opinberað í gær með myndbandi. Eins og kunnugt er hefur Grant dvalið hér á landi síðan í byrjun þessa árs og hefur hann verið iðinn við tónleikahald auk þess sem hann hefur verið að vinna að næstu plötu ásamt Bigga Veiru úr GusGus.

Af nýja laginu að dæma hefur Biggi haft rafræn áhrif á John sem eru góðar fréttir og hljómar lagið eftir því. Ég ætla samt að vona að einhver af lögunum sem að John flutti í Austurbæ í sumar fái að fylgja með en þar voru nokkrar afbragðs lagasmíðar í gangi. Mér sýnist á öllu að myndbandið hafi verið skotið á Íslandi en það má vel vera að ég hafi rangt fyrir mér.

Torfi

Tónleikadómur: Á trúnó með John Grant í Austurbæ

Síðastliðinn fimmtudag hélt John Grant frábæra tónleika í Austurbæ. Ég lét mig að sjálfsögðu ekki vanta.

Fyrir þessa tónleika hafði Grant haldið tvenna tónleika hér á landi. Fyrst kom hann fram á Airwaves hátíðinni í fyrra en í þeirri heimsókn kolféll hann fyrir landi og þjóð. Hann hélt svo aðra tónleika í Edrúhöllinni þann 17. janúar sem lesa má um hér.

Í þetta sinnið var hann mættur með fullskipaða hljómsveit og því mátti búast við allt öðruvísi tónleikum en áður. Hann nýtti sér íslenskt vinnuafl því að í sveitinni voru þeir Jakob Smári Magnússon (bassi), Pétur Hallgrímsson (gítar/bakrödd) og Arnar Geir Ómarsson (trommur). Þar að auki var mættur Chris Pemberton (píanó/bakrödd) sem hefur verið John Grant til halds og trausts síðustu tvö ár.

Lagaval kvöldsins var fjölbreytt og skemmtilegt. Leikin voru flest öll lögin af Queen of Denmark sem kom út 2010, ásamt glænýjum lögum af væntanlegri plötu en gestir kvöldsins voru þeir fyrstu í heiminum sem fengu á þau að hlýða. Ofan á þetta bættust við fjögur lög eftir hljómsveitina sem Grant var í áður en hann hóf sólóferil sinn, The Czars. Ekki má svo gleyma „Ástarsorg“ eftir Jóhann Helgason.

Hápunktar kvöldsins voru að mínu flutningurinn á „Queen of Denmark“ sem var í einu orði sagt epískur. Hið nýja „Greatest Motherfucker“ var sérlega grípandi og skemmtilegt og í raun algjör synd að geta ekki sett það á fóninn fyrr en í janúar á næsta ári! Svo er ég alltaf mjög hrifinn af því hvernig Grant tekur „Little Pink House“ á tónleikum en sú útgáfa er talsvert áhrifameiri heldur en stúdíóútgáfa The Czars. Annars var allur flutningur og spilamennska til fyrirmyndar.

John Grant og félagar voru svo klappaðir upp tvisvar sinnum. Í fyrra skiptið snéri sveitin fullskipuð til baka og tók „Caramel“ en í seinna skiptið settist Grant einn við flygilinn rétt eins og í Edrúhöllinni og tók þrjú lög eftir The Czars og gerði því áhorfendur pakksadda.

Það sem skilur John Grant að frá öðrum listamönnum sem ég hef séð er hvernig hann tekur sér góðan tíma í að ræða um tónlist sína og á opinskáan hátt. En þegar ég fer á tónleika finnst mér alltaf skemmtilegast þegar menn taka sér tíma í að kynna lögin sín og láta kannski fylgja með sögur eða ástæðurnar á bakvið þau. Í kjölfarið verður upplifun áhorfandans allt önnur en mér líður pínu eins og ég hafi verið á trúnó með John Grant þetta ágæta fimmtudagskvöld.

Lagalisti

Where Dreams Go to Die
Sigourney Weaver
G.M.F.
It Doesn’t Matter
I Hate This Town
Marz
TC and Honeybear
Ástarsorg
Outer Space
Chicken Bones
Queen of Denmark
Paint the Moon
It’s Easier
Glacier

Caramel

Drug
L.O.S.
Little Pink House

-Torfi