Category Archives: Tónleikar

Tónleikadómur: Írafár 20 ára

Síðastliðið laugardagskvöld hélt Írafár tvenna tónleika í Eldborgarsal í Hörpu til að fagna 20 ára starfsafmæli sínu. Undirritaður var staddur á þeim seinni. Síðustu jól ákvað ég að lauma tveimur miðum á tónleikana í jólapakkann hjá kærustunni en hún var eldheitur aðdáandi Írafárs á sínum yngri árum. Blessunarlega ákvað hún svo að bjóða mér hinn miðann.

Þegar í Hörpu var komið tóku á móti okkur gestir fyrri tónleikanna og þar á meðal voru kunnugleg andlit vinafólks. Það var ákveðinn spillir (e. spoiler) í því enda fékk maður að heyra hvernig tónleikarnir hefðu verið, hvaða lag hefði verið tekið eftir uppklapp, að tónleikarnir hafi verið betri eftir hlé og þar fram eftir götunum. Við ákváðum þó að reyna að leiða þessa dóma hjá okkur og fara inn í sal með opinn hug.

Stærðarinnar tjald hékk úr loftinu fyrir framan sviðið þegar inn var komið og var gömlum myndum af meðlimum sveitarinnar varpað á tjaldið á meðan gestir biðu. Tónleikarnir hófust svo á smá sögustund um hljómsveitina og myndirnar breyttust í myndefni frá ferli sveitarinnar. Salurinn orðinn vel heitur og á bakvið tjaldið gengu meðlimir á svið og töldu í opnunarlag tónleikanna „Ég missi alla stjórn“ sem er einmitt upphafslag þriðju breiðskífu sveitarinnar. Það þurfti svo ekki að bíða lengi eftir hittara en hið ódauðlega lag „Fingur“ kom strax í kjölfarið.

Hljómsveitin var greinilega vel æfð og það var enginn sveitaballsbragur á Írafári þetta kvöldið, hvorki í spilamennsku né umgjörð á sviði. Heiða Ólafs og Margrét Eir sáu um bakraddir, fjórir strengjaleikarar kíktu við og við á sviðið ásamt tveimur brassleikurum. Búningablæti Páls Óskars á stórtónleikum sínum í fyrra hafði svo líklega áhrif á Birgittu sem skartaði að mig minnir fjórum ólíkum en glæsilegum dressum.

Vendipunktur tónleikanna var án efa innkoma leynigests kvöldsins. Vignir og Birgitta töluðu sín á milli að þau hefðu sennilega átt einhvern þátt í því að koma ónefndum leynigesti á kortið er þau fengu hann til að leika í myndbandinu við lagið „Lífið“. Die-hard aðdáendur Írafárs vissu auðvitað um hvern var að ræða en við hin þurftum smá upprifjun. Þau töldu svo í lagið og myndbandið birtist á sviðinu og skartaði engum öðrum en Jóni Jónssyni, 17 ára nýkomnum frá tannréttingalækni sínum með strípur í hárinu. Það var ekki mikið liðið á lagið þegar að hljómsveitin stoppaði skyndilega og Birgitta sagði að það væri eiginlega ekki hægt að gera þetta nema með manninum sem „mæmaði“ lagið í myndbandinu. Sá ágæti maður var staddur í salnum og var kallaður upp á svið við mikil fagnaðarlæti tónleikagesta. Í þetta skiptið fékk hann að syngja lagið ásamt Birgittu og gerði það vel. Jón Jónsson smitaði salinn af orkunni og sinnti svo hlutverki pepparans það sem eftir lifði tónleikanna og var uppspretta stuðningslaga í garð sveitarinnar trekk í trekk.

Fljótlega var gert hlé á tónleikunum og mál manna að hingað til væri þetta feykilega vel heppnað hjá Birgittu og félögum og hljómsveitin í fantaformi.

Í seinni hálfleik var áfram haldið þétt á spöðunum og hver smellurinn á fætum öðrum fékk að hljóma. Stíflan brast svo að lokum og gestir risu úr sætum og sungu hástöfum með þegar Írafár henti í líklega sitt besta lag, „Eldur í mér“. Gestir voru svo ekki á þeim buxunum að setjast aftur í bráð þar sem að Írafár hentu í hvern smellinn á fætur öðrum, má þar nefna „Stórir hringir“, „Ég sjálf“ og „Allt sem ég sé“. Hljómsveitin var svo að sjálfsögðu klöppuð upp og lauk stórgóðum tónleikum sínum á „Fáum aldrei nóg“.

Frábæru dagsverki lokið og meðlimir geta svo sannarlega gengið sáttir frá borði. Vignir kom mér óvart og fær sennilega ekki það lof sem hann á skilið sem frábær gítarleikari og lagahöfundur. Hann stal ófáum sinnum sviðsljósinu af Birgittu þegar hann tók gítarsóló þar sem þau áttu heima og skilaði þeim af sér með miklum glæsibrag. Sömuleiðis er dýrmætt fyrir sveitina að hafa í sínum röðum eins öflugan trommara og Arnar Þór Gíslason er sem keyrði upp stemninguna hvað eftir annað ásamt Vigni. Sigurður Rúnar Samúelsson bassaleikari og Andri Guðmundsson hljómborðsleikari stóðu svo sína plikt en voru töluvert rólegri í tíðinni þegar kom að sviðsframkomu. Strengir og brass stækkuðu svo hljóðheiminn enn meira og bættu miklu við í þeim lögum sem þeir liðsinntu í.

Birgitta Haukdal er svo sér kapituli útaf fyrir sig og líklega stærsta ástæðan fyrir því að þarna var kominn herskari af stúlkum að bera gömlu hetjuna sína augum. Ekkert skal tekið af herramönnunum sem standa á bakvið hana en hún færir hljómsveitinni i-ið undir punktinn. Ég get ímyndað mér að fólk hafi saknað Írafárs-Birgittu enda er hún glerharður töffari sem er einlæg í list sinni. Á sínum tíma var hún í guðatölu hjá ungum stúlkum og þakti marga veggina í herbergjum þeirra og geisladiskarnir seldust í bílförmum. Birgitta var (og er) frábær fyrirmynd sem sýndi að stelpur gátu líka spilað með strákunum og staðið jafnfætis þeim og gott betur. Hún var óumdeilanlega stjarna kvöldsins og ég hef sjaldan orðið vitni að annarri eins aðdáun líkt og hún fékk hjá kynsystrum sínum í Eldborg þetta kvöldið. Allar jólagjafir héðan í frá munu blikna í samanburði við þessa.

Lagalisti kvöldsins:

Ég missi alla stjórn
Fingur
Hvar er ég?
Alla tíð
Þú vilt mig aftur
Draumur
Lífið
Aldrei mun ég
Annan dag
Að eilífu

Hlé

Stel frá þér
Leyndarmál
Eldur í mér
Stjörnuryk
Ég sjálf
Stórir hringir
Allt sem ég sé 

Uppklapp

Fáum aldrei nóg

Torfi Guðbrandsson

Auglýsingar

Tónleikadómur: Palli í Höllinni + Lagalisti

Páll Óskar er engum líkur. Sennilega vinsælasti tónlistarmaður landsins og alls ekki margir sem geta boðið upp á tónleika af þeirri stærðargráðu sem hann gerði síðastliðinn laugardag. Bubbi Morthens fór langt með að fylla Höllina fyrir 11 árum á 50 ára afmælistónleikum sínum en umgjörðin var ekki sú sama.

Það var öllu tjaldað til á þessum tónleikum, hvort sem það snéri að hljómsveit, dönsurum, LED skjáum, ljósum eða búningum Páls Óskars. Nýtingin á þessu öllu saman var vægast sagt góð og það kom mér á óvart að þeir LED skjáir sem ég taldi að ættu að sýna Palla í nærmynd voru nýttir í að þjóna sviðsmyndinni og grafíkinni. Enginn bömmer fyrir mann sem nær 187 sm upp í loft en fyrir fólk undir 170sm á gólfinu var það mögulega fúlt.

Eftir upphitun liðsmanna Áttunar tók við 30 mínútna bið í Palla. Talið var niður í tónleikana þegar að 10 mínútur voru eftir af biðinni. Hljómsveitin kom sér fyrir á sviðinu og var hún vel mönnuð og ein stærsta ástæðan fyrir því að ég ákvað að skella mér. Allir voru klæddir í gulllituð jakkaföt og voru þeir hinir glæsilegustu. Palli birtist fyrst á skjáunum en mætti síðan á sviðið í nýja 5kg speglabúningnum sínum sem hann skartar á umslagi nýjustu plötu sinnar. Honum var að sjálfsögðu vel tekið og það var ljóst strax frá upphafi að þetta yrði mikið sjónarspil.

Palli á haug af góðum lögum og þau fengu svo sannarlega að njóta sín í flutningi hljómsveitarinnar. Eins og við mátti búast voru tekin mörg lög af nýjustu afurðinni frá Palla og ég verð að segja að þau leggjast alltaf betur og betur í mig. Hittarar frá fyrri tíð fengu vitaskuld að hljóma líka enda af nógu að taka á glæsilegum ferli Palla.

Hápunktar tónleikanna voru að mínu mati tveir, annars vegar flutningurinn á „Minn hinsti dans“ sem var gjörsamlega fullkominn að öllu leyti. Ekki skemmdi fyrir mögnuð frammistaða dansara og Palla þar sem að sjálfsögðu var sótt í gömlu góðu sófastemninguna. Hinn hápunkturinn var flutningur Palla á „Ást við fyrstu sýn“ sem sýndi á kristaltæru hversu ofboðslega góður söngvari hann er. Gæsahúð fyrir allan peninginn í báðum tilfellum. 

Palli var brögðóttur á tónleikum sínum og sviðsetti m.a. rafmagnsleysi á miðjum tónleikum. Flestir töldu að um grín væri að ræða en eftir því sem biðin eftir rafmagni varð lengri stóð fólki ekki á sama. Við inngöngu í Höllina fyrir tónleika fengu gestir gefins armbönd sem þeir voru svo beðnir um að skila eftir tónleika og gera mátti ráð fyrir að þessi armbönd yrðu hluti að showinu. Þegar á meintu rafmagnsleysi stóð tjáði Palli áhorfendum að nú reyndi á þá að sýna samstöðu og bað salinn um að rétta upp hendur. Sekúndu síðar kviknaði ljós á öllum armböndum og salurinn ærðist. Rafmagnsleysið var sviðsett og Palli og hljómsveit hófu samstundis flutning á næsta lagi.

„Eru þetta ekki stórtónleikar? Á maður ekki að crowdsurfa á stórtónleikum?“ spurði Palli áhorfendur þegar að tónleikarnir stóðu sem hæst. Í stað þess að crowdsurfa eins og meðalmaðurinn komu sviðsmenn með slöngubát upp á svið. Palli bað áhorfendur um að flytja sig á slöngubátnum í hálfhring í tvígang og tók hann sig gríðarlega vel út í ljósabúningnum sínum sem minnti svolítið á klæðnað Daft Punk.

Palli var ekki hættur að koma á óvart. Hann kvaðst ekki vilja taka aðeins sín lög á meðan byrjunarstefið í „Hvað með það?“ með Daða Frey hljómaði undir sem er í miklu uppáhaldi hjá honum að eigin sögn. Eftir að hafa séð um byrjunina á laginu birtist Daði allt í einu upp úr þurru á sviðinu í einkennis peysunni sinni sem var búið að „Palla“ aðeins upp og kláraði lagið með Palla. Þetta uppátæki fór ákaflega vel í áhorfendur enda Daði í fersku minni eftir frammistöðu sína í undankeppni Eurovision. Lagið féll þar að auki afskaplega vel að prógramminu og má alveg segja að það blundi nettur Palli í því.

image

Það er hægt að týna ansi margt til úr þessum tónleikum en það er sama hversu mikið af orðum þú notar til að lýsa þeim, þau munu aldrei fyllilega koma því til skila sem fram fór í Laugardalshöllinni þetta kvöld. Fyrir utan það að vera einstakur listamaður er Palli falleg manneskja og frábær fyrirmynd og þetta fékk allt saman að njóta sín á þessum einstöku tónleikum. Palla tókst ætlunarverk sitt sem var að halda stórtónleika í Laugardalshöllinni fyrir fullu húsi og það er akkúrat það sem þessi tónleikadómur fær í einkunn, fullt hús!

Lagalisti:

Intro
Einn dans
Bundinn fastur
Ljúfa líf
Jafnvel þó við þekkjumst ekki neitt
Þá mætir þú til mín
Líður aðeins betur
Stanslaust stuð (gamla útgáfan)
Stanslaust stuð (nýja útgáfan)
Minn hinsti dans
Meistarinn
Er þetta ást?
Kraftaverk
Ást við fyrstu sýn
Yndislegt líf
Söngurinn um lífið
Ég elska þig til baka
Þetta var bara einn dans
Hvað með það?
Betra líf
Megi það byrja með mér
Þú komst við hjartað í mér
Vinnum þetta fyrirfram
Líttu upp í ljós
Allt fyrir ástina
International
La Dolce Vita
Ég er eins og ég er
Gordjöss

Torfi Guðbrandsson

Tónleikadómur: Útgáfutónleikar The Diversion Sessions

Síðastliðinn fimmtudag skellti ég mér á útgáfutónleika The Diversion Sessions. Platan þeirra The Truth, the Love, the Life kom reyndar út í fyrra á netinu og geisladisk en kom svo út á þriðja forminu, fallegum hvítum vínyl í maí. Það er óhætt að segja að ég hafi beðið lengi eftir bæði vínylnum og útgáfutónleikum The Diversion Session enda er ég ofboðslega hrifinn af því sem Markús og félagar eru að gera.

Tónleikarnir fóru fram í Tjarnarbíói og hef ég ekki farið leynt með dálæti mitt á þeim stað eins og sést á síðustu færslu. Aðgangseyrir 2700 kr. sem var ekki neitt miðað við dagskrána sem Markús kynnti í byrjun.

Tónlistarkonan Þóra Björk hóf leik og lék tvö lög, „Sólarylur“ eftir sjálfa sig og „As Long As I Have You“ sem er frægast í flutningi Elvis Presley. Þóra býr yfir mikilli útgeislun og var ég sérstaklega hrifinn af því hvernig hún fór með „Elvis“ lagið sem hún gerði að sínu eigin. Slagorðið „minna er meira“ á vel við upphitun Þóru sem gerði gott mót og setti tóninn fyrir kvöldið.

Næstur á svið var Marteinn Sindri sem er einmitt meðlimur í The Diversion Sessions. Hann hefur undanfarið verið að semja tónlist og lék fyrir áhorfendur tvö frumsamin lög. Fyrra lagið, „Heim til míns hjarta“ flutti hann með litlu systur sinni. Fallegt lag þar sem Marteinn fór vel með gítarinn og sýndi að hann er engu síðri gítarleikari en píanóleikari. Í seinna laginu sem nefnist „Storm Blows Over“ (minnir mig) skipti hann yfir á píanóið. Þar er um sterkara lag að ræða sem væri gaman að fá að heyra aftur. Í stúdíó með þig Marteinn!

Þá var komið að aðal númeri kvöldsins. Meðlimir The Diversion Sessions týndust á sviðið ásamt gestahljóðfæraleikurum. Flestir voru klæddir hvítum fötum í stíl við umslag plötunnar og vínylinn. TDS tóku fyrst „Mónóey“ en það er einmitt upphafslag plötunnar. Eitthvað var ekki alveg að virka og þótti mér sveitin ekki koma laginu nógu vel til skila. Það var þó engin ástæða til að örvænta. Næsta lag var „Now I Know“, lag nr. 7 á plötunni og greinilegt að meðlimir ætluðu ekki að halda tryggð við númeraröðina á plötunni. Fjögur lög voru tekin til viðbótar fyrir hlé, m.a. hið stórskemmtilega „13th Floor“ og hið epíska lokalag „Slow Boat“ þar sem að Hildur Ársælsdóttir fór á kostum á fiðlu og sög. Síðasta lag fyrir hlé var hið Tom Waits skotna „Blessed“ sem kom afar vel út í lifandi flutningi þökk sé m.a. frábærum bakröddum úr Vox Populi.

IMG_4620

Eftir hlé voru leikin eldri lög í bland við ný. Slagarinn „Ég bisst assökunar“ var tekinn auk „Decent Times“ þar sem að Sigrún Sif Jóelsdóttir aðstoðaði Markús með sönginn. Að mínu mati voru það þó nýju lögin sem reyndust vera senuþjófar kvöldsins. Þá sérstaklega lögin „Very Lightly“ sem mér skilst að Markús deili með vini sínum og síðasta lag kvöldsins sem ég gef mér það bessaleyfi að kalla „The Days Ahead“. Nýja uppáhalds lagið mitt með sveitinni og ef Guð lofar kemur það út seinna í sumar. Ábreiðan af „Blue Motorbike“ var einnig nokkrum númerum of svöl.

Í stuttu máli voru tónleikarnir ákaflega vel heppnaðir þar sem að gestir fengu nóg fyrir peninginn, heil 15 lög! Gestahljóðfæraleikarar ásamt gestasöngkonunum þrem stóðu sig öll með glans og hífðu lögin upp á hærra plan. Útlitið er gott fyrir framhaldið og vonandi verður biðin ekki löng eftir nýju lögunum.

Lagalisti kvöldsins:

Mónóey
Now I Know
13th Floor
Get a Party Going
Slow Boat
Blessed 

Hlé

Dead End Job
É bisst assökunar
Decent Times
The Truth the Love the Life
Hlýnun jarðar
Very Lightly
Picture a Painting 

Uppklapp

Blue Motorbike (ábreiða)
The Days Ahead

Torfi Guðbrandsson

Tónleikadómur: Útgáfutónleikar Noise

FullSizeRender
Hljómsveitin Noise gaf út plötuna Echoes 15. apríl síðastliðinn og hélt af því tilefni útgáfutónleika í Tjarnarbíó á laugardaginn. Einnig eru fyrirhugaðir útgáfutónleikar á Græna hattinum á Akureyri þann 20. maí. Platan er sú fjórða frá sveitinni en fyrri plötur sveitarinnar eru Pretty Ugly (2003), Wicked (2006) og Divided (2010).

Echoes er frábrugðin fyrri verkum sveitarinnar en á plötunni má finna órafmagnaðar útgáfur af eldri lögum þeirra. Lagið „Quiet“ er fyrsti smellurinn af plötunni og er lagið búið að vera á repeat hjá mér síðustu vikurnar. Er ég heyrði svo af útgáfutónleikunum var það aldrei spurning um að skella sér enda kunni ég að meta þennan nýja hljóm.

Ekki skemmdi valið á tónleikastaðnum fyrir enda hefur Tjarnarbíó mikið tilfinningalegt gildi fyrir mig persónulega og leynast miklir töfrar í húsinu. Salurinn var nokkuð þétt setinn og ljóst að framundan var gott kvöld.

Er flestir gestirnir höfðu komið sér fyrir birtust meðlimir Noise á sviðinu og töldu strax í fyrsta lagið af plötunni, „Dark Days“. Ljóst var að sveitin var vel æfð og greinilegt að menn ætluðu að vanda til verka. Eftir lagið heilsaði Einar Vilberg uppá salinn en ljóst var að tímanum yrði ekki eytt í óþarfa blaður og var því næst rennt í smellinn „Quiet“. Ég naut þess vel að fá loksins að heyra lagið í lifandi flutningi en var örlítið smeykur um að hápunkturinn hefði komið of snemma. Það var þó engin ástæða til að örvænta.

Þriðja lag kvöldsins var „Paranoid Parasite“ sem er einmitt fyrsta lagið sem ég heyrði með hljómsveitinni og eitt þekktasta lag sveitarinnar. Lagið var vel útfært þar sem að hljómborðsleikur Valdimars Kristjónssonar var í aðalhlutverki.

Áfram hélt fjörið og „Out of Line“ var næst á dagskrá. Lagið byrjar af krafti og er þrusu gott og minnir svolítið á Jet Black Joe í viðlaginu. Einar Vilberg sýndi flotta takta á gítarnum sem og reyndar mest allt kvöldið en það var sérstaklega gaman að fylgjast með honum spila þetta lag. Valdimar hélt áfram að skila góðu dagsverki sem og Þorvaldur trymbill og Stefán bassaleikari. Þarna voru tónleikarnir komnir á gott flug.

Drengirnir hægðu þó aðeins á ferðinni í laginu „Sleepless“ þar sem söngur Einars fékk að njóta sín vel. Flott lag og ljóst að heilmikið er spunnið í Echoes. Noise voru þó ekki á þeim buxunum að fara að lenda strax og héldu áfram fluginu og léku næst lagið „Sea of Hurt“ af plötunni Divided.

Fyrir lagið „Fathead“ skipti Einar um gítar og fór úr kassagítarnum yfir í Gretsch gítar frá árinu 1959. Tjarnarbíó lætur ekki bjóða sér slíkan dýrgrip tvisvar og skilaði hljómunum frá Gretsch gamla afskaplega vel frá sér út í sal. Í plötukynningu sinni í Popplandi tala meðlimir um að lagið sé ótrúlega skemmtilegt tónleikalag og get ég alveg tekið undir það þó þetta sé ekki endilega besta lagið á plötunni.

Síðasta lagið af plötunni er lagið „So Long“ sem tekið er af Wicked. Verð ég að segja að lagið virkar mun betur á plötunni þar sem Noise nýtur stuðnings strengjasveitar Mark Lanegan. Beri maður lagið saman við sterkustu lög Echoes fellur það svolítið í skuggann. Ég var því ekki tilbúinn til að fara heim þrátt fyrir að Einar og félagar væru búnir að leggja frá sér hljóðfærin og farnir baksviðs.

Einar Vilberg, gítarleikari og söngvari Noise snéri aftur einn síns liðs og sagðist geta tekið eitt lag til viðbótar og náði í Gretsch gamla. Einar tók lagið „Stab in the Dark“, eitt af bestu lögum sveitarinnar sem er þó ekki að finna á Echoes og er það synd enda flutningur Einars á laginu frábær. Að laginu loknu mættu Valdimar, Stefán og Þorvaldur aftur á sviðið og aðstoðuðu Einar við að flytja „Dark Days“ í annað sinn og ljúka þar með vel lukkuðum tónleikum. Sjálfur hefði ég viljað heyra þá taka „Quiet“ í staðinn enda uppáhalds lagið þessa stundina en ég var þó sáttur við frammistöðu drengjanna sem eru með flotta plötu í höndunum í Echoes og mega vera stoltir af.

Þó það sé löngu orðið þreytt að bera hljómsveitir saman við aðrar hljómsveitir verður ekki hjá því komist að tala um Nirvana í sömu andrá og Noise. Þegar ég var að hlusta á Echoes leitaði hugurinn ósjálfrátt í MTV Unplugged in New York plötuna með Nirvana sem eins og heitið gefur til kynna inniheldur órafmagnaðan og lifandi flutning á lögum Nirvana ásamt ábreiðum. Plöturnar eiga það sameiginlegt að höfundar breyta útaf vananum og gefa lögum sínum nýtt líf með órafmögnuðum útsetningum. Þar að auki er grunge’ið í aðalhlutverki hjá báðum hljómsveitum.

Að mínu mati mættu fleiri leika sama leik og Noise, líta um öxl og taka upp órafmagnaðar útgáfur af lögunum sínum. Ég hef áður minnst á að ég væri til í að sjá Agent Fresco gera slíkt og þá almennilega enda hafa þeir sýnt fram á að það er góður grundvöllur fyrir því.

Annars hvet ég fólk til að næla sér í eintak af Echoes og skella sér á útgáfutónleikana á Akureyri þann 20. maí.

Lagalisti kvöldsins:

Dark Days
Quiet

Paranoid Parasite
Out of Line
Sleepless
Sea of Hurt
Fathead
So Long 

Uppklapp

Stab in the Dark
Dark Days

Torfi Guðbrandsson

Tónleikadómur: Ríó tríó í hálfa öld (+ lagalisti)

Mynd tekin af facebook síðu Dægurflugunnar.

Mynd tekin af facebook síðu Dægurflugunnar.

Ríó tríó hélt upp á 50 ára starfsafmæli sitt í Hörpu síðastliðinn föstudag í Eldborgarsal Hörpu og var engu til sparað við að gera tónleikana sem glæsilegasta. Helgi Pétursson og Ágúst Atlason fóru fremstir í flokki ásamt Snorra Helgasyni sem tók stöðu Óla heitins í tríóinu að þessu sinni. Þeim til halds og trausts voru Gunnar Þórðarson og Björn Thoroddsen en þeir hafa lengi verið kenndir við Ríó tríóið. Auk þeirra var hljómsveit undir stjórn GÞ sem sá um að spila á öll helstu hljóðfærin til að gera tónlist Ríó tríó enn betri skil.

Tónleikarnir hófust á laginu „Létt“ af plötunni Ekki vill það batna og var það spilað af öllum þeim sem tóku þátt í að leika tónlist Ríó tríó þetta kvöldið. Að því loknu yfirgaf „húsbandið“ sviðið og stóðu þá eftir Helgi, Ágúst, Snorri, Björn og Gunnar ásamt tveimur hljóðfæraleikurum sem sáu um að slá taktinn. Fram að hléi voru leikin eldri lög af ferli sveitarinnar þar sem einkennin voru snyrtilegur gítarleikur, fallegur söngur og kímnir textar. Snorri spilaði á banjó í laginu „Verst af öllu“ og gerði það listavel enda vel menntaður í þjóðlagatónlistinni. Björn Thoroddsen sá um krúsídúllurnar í gítarleik kvöldsins og sýndi snilli sína t.d. í laginu „Ég sé það nú“. Óla heitins var minnst fyrir flutninginn á laginu „Tár í tómið“ sem hann var vanur að syngja og sem fyrr var það Snorri Helga sem leysti hann af hólmi og gerði það vel. Á milli laga flutti Helgi Pé gamanmál og uppskar mikil hlátrasköll í kjölfarið. Jónas Friðrik aðaltextasmiður sveitarinnar var með erindi fyrir hlé og stóð þar hæst ferðin fræga til Dyflinnar, höfuðborgar Írlands þar sem Helgi leitaði að úlpu á Snorra litla Helgason með dyggri aðstoð nokkurra fílefldra karlmanna. Síðasta lag fyrir hlé var „Eitthvað undarlegt“, eitt sterkasta lag tríósins enda samið af Gunna, Helga og Óla.

Í hléinu var það mál manna að tónleikarnir hefðu heppnast vel hingað til og var þá sérstaklega talað um hæfileika Björns Thoroddsen á gítarinn. Einnig var minnst á skemmtilegt innslag frá Jónasi Friðriki sem þótti vel lukkað og hressandi viðbót í prógramið.

Eftir hlé snéri „húsbandið“ aftur ásamt hetjunum fimm og var talið í lagið „Ástarsaga“. Andri Ólafsson úr Moses Hightower var nú kominn á bassann og gat Helgi því hvílt kontrabassann sinn og einbeitt sér að söngnum. Lög af síðari hluta ferilsins fengu að njóta sín og þá aðallega af plötunum Ekki vill það batna og Landið fýkur burt. Þegar þarna er komið við sögu víkur áberandi gítarleikurinn fyrir skemmtaranum fræga og verð ég að viðurkenna að eldra efni sveitarinnar sem var á boðstólnum fyrir hlé höfðar betur til mín. Þó leynast þarna inná milli hressandi lög eins og „Á pöbbinn“, „Dýrið gengur laust“ og „Landið fýkur burt“ sem hefur alltaf náð að snerta einhverja suðræna taug í mér. Þó að mér hafi alls ekki leiðst þegar þessi yngri lög voru leikin var ég ánægður að heyra eldri lögin aftur en það var í 9 laga syrpu svokallaðri þar sem slagarar á borð við „Flaskan mín fríð“, „Ó, Gunna“, „Romm og kókakóla“ og „Flagarabragur“ fengu að hljóma. Að syrpunni lokinni var fararsnið á tríóinu sem og „húsbandinu“ og tóku gestir sig þá til, risu úr sætum sínum og klöppuðu tríóið upp. Það var pláss fyrir tvö lög í viðbót og það voru einmitt lögin sem ég held að flest allir gestirnir hafi saknað, „Ég sá þig snemma dags“ og „Við viljum lifa“ og tók salurinn vel undir bæði lög. Það var ljóst að þar með var þessum flottu tónleikum og afmælishátíð lokið og gengu gestir út með bros á vör.

Nú kann einhver að spyrja sig hvað 26 ára gamall áhugamaður um tónlist sjái í svona gömlum körlum eins og þeim sem Ríó tríóið inniheldur. Það eru nokkrar ástæður fyrir því sem ég ætla ekki að reifa hér í þessum tónleikadómi en þó finnst mér vert að tala um eina af þessum ástæðum. Fjölskylda mín í föðurleggnum er þekkt fyrir að bresta saman í söng á mannamótum og skiptir þá engu hvort að tilefnið er lítið eins og barnaafmæli eða stórt eins og Bryggjuhátíð á Drangsnesi. Í gegnum tíðina hafa verið sungin þekkt lög með íslenskum texta burtséð frá því hvort að lögin eigi uppruna sinn hér á landi eða annars staðar. Án þess að vita það sjálfur (hér áður fyrr) hafa alltaf verið allavega 2-3 Ríó tríó lög á lagalistanum og má því segja að ég hafi verið alinn upp við þessi lög án þess að gera mér grein fyrir því þá. Eftir að hafa hlustað á plötur með Ríó tríó í seinni tíð komst ég að því að ég hafði heyrt mörg af þessum lögum áður á fyrrnefndum mannamótum í fjölskyldunni og ekki leiddist mér þá og hvað þá þegar ég heyrði Ríó tríó flytja lögin. Svo þarf auðvitað ekki að tíunda neitt um það hvað það hefur hjálpað sveitinni mikið að vera frá Kópavogi!

Lagalisti kvöldsins:

Létt
Verst af öllu
Kópavogsbragur
Tár í tómið
Nonni sjóari
Ég sé það nú
Vetrarnótt
Eina nótt
Eitthvað undarlegt

Hlé

Ástarsaga
Það reddast
Svona er ástin
Á pöbbinn
Í nótt
Síðasti dans
Dýrið gengur laust
Fröken Reykjavík
Landið fýkur burt
Syrpa: Flagarabragur – Ó, Gunna – Óli Jó – Stebbi og Lína – Siggi Jóns – Romm og kókakóla – Flagarabragur – Veizlan á Hóli – Allir eru að gera það

Uppklapp

Ég sá þig snemma dags
Við viljum lifa

– Torfi Guðbrandsson

Rock Werchter 2015: Sunnudagur + uppgjör

IMG_3668

Það er alltaf svolítið súrt að vakna á sunnudegi og hugsa til þess að síðasti dagurinn sé runninn upp. Tíminn hefur liðið alltof hratt og maður er alls ekki tilbúinn í að gera eitthvað annað en að fara á tónleika og skemmta sér. Það var kannski helst þess vegna sem ég vildi gera sem mest úr deginum og mætti því snemma á tónleikasvæðið til að ná sem flestum tónleikum.

Dagurinn hófst á KluB C en þar var mættur guðspjalla- og sálarsöngvarinn Leon Bridges ásamt hljómsveit sinni. Leon er brakandi ferskur tónlistarmaður á besta aldri og gaf nýverið út frábæra plötu sem nefnist Coming Home. Honum þykir svipa mikið til Sam Cooke sem er ekki leiðinleg samlíking enda oft titlaður sem konungur sálartónlistarinnar. Tónleikarnir voru drullugóðir, Leon einbeitti sér að söngnum og léttum danshreyfingum á meðan hljómsveit hans sem vel á minnst er Texas-legasta hljómsveit sem ég hef séð sá um hljóðfæraleikinn. Í lokin náði Leon sér í gítar og rak alla af sviðinu nema bakraddarsöngkonuna sína og flutti með henni lagið „River“ sem var fallegur flutningur. Þar með var tónleikunum lokið og alveg ljóst að hér var á ferðinni ungur og upprennandi listamaður af gamla skólanum.

Eftir smá næringu ákvað ég að tylla mér á grasið fyrir framan aðalsviðið og fljótlega steig á sviðið hljómsveitin Enter Shikari frá Bretlandi. Ég hafði ekkert heyrt um þá og aldrei hlustað á þá en ég var tilbúinn að gefa þeim tækifæri og sjá hvað þeir hefðu uppá að bjóða. Það var hræðileg ákvörðun enda tónlistin afspyrnu vond. Hljómsveitin bauð uppá einhvern furðulegan bræðing af hörðu og tilraunakenndu rokki og raftónlist með hræðilegum árangri. Eftir 2-3 lög gafst ég upp og flúði inní hlöðuna en það var augljóst að ég hafði orðið vitni af lélagasta atriði Rock Werchter þetta árið.

Í hlöðunni var önnur bresk sveit að fara spila, Catfish and the Bottlemen frá Wales. Fyrir hátíðina hafði ég rennt plötunni þeirra einu sinni í gegn og vissi þar af leiðandi nokkurn veginn að hverju ég gengi í hlöðunni. Þrátt fyrir það náði hljómsveitin að koma mér á óvart og þá helst frontmaðurinn Van McCann sem geislaði af sjálfstrausti og vafði æstum kvenkynsaðdáendum um fingur sér. Þó að það hafi farið mest fyrir McCann þá má ekki gera lítið úr hinum meðlimunum enda væri frontmaðurinn lítið án þeirra. Það stafaði mikil orka af piltunum á sviðinu og alveg ljóst að sveitin er ung og gröð og í leit að frekari viðurkenningu. Þá átti hljómsveitin betri lög en mig minnti og má þar helst nefna „Kathleen“ og „Homesick“ sem hefur verið að fá mikla spilun á X-inu. Klárlega spútnik atriði hátíðarinnar ásamt Angus & Julia Stone.

Þar sem að Jessie J þurfti að aflýsa tónleikum sínum á Rock Werchter voru The Vaccines færðir yfir á aðalsviðið en upphaflega áttu þeir að spila í hlöðunni. Það voru gleðitíðindi enda hef ég alltaf haft gaman af sveitinni. Ég kíkti einmitt á þá fyrir þremur árum á RW og það má segja að þeir hafi þroskast og dafnað vel síðan þá og er nýja platan þeirra, English Graffiti góður vitnisburður um það. Hljómsveitin tók góða blöndu af gömlum og nýjum lögum og sýndu hversu góðir lagasmiðir þeir eru. Nýju lögin koma virkilega vel út og má þar helst nefna „Dream Lover“, „Give Me a Sign“ og „Minimal Affection“ sem minnir mikið á The Strokes. Gömlu lögin stóðu fyrir sínu og það er aldrei leiðinlegt að fá að heyra lög eins og „Wetsuit“, „All in White“ og „Nörgaard“ flutt lifandi á sviði. Ekkert uppá The Vaccines að kvarta þó mér finnist söngvarinn alltaf geta gert örlítið betur.

Counting Crows var næst í röðinni á aðalsviðinu en persónulega fannst mér þeir ekki eiga heima á hátíðinni. Þeir tóku slagarann sinn „Mr. Jones“ og einhver fleiri lög sem hljómuðu öll eins. Ekki merkilegir tónleikar. Í kjölfarið gerði ég heiðarlega tilraun ásamt Daða félaga mínum að sjá Alabama Shakes í hlöðunni en þar var fullt út úr öllum dyrum og gjörsamlega ómögulegt að komast inn. Pínu svekkelsi enda fátt annað merkilegt í boði á sama tíma.

Eftir góða pásu var komið að Kasabian en þeir fengu það hlutverk að „hita“ upp fyrir Muse. Sveitin er rómuð fyrir að vera ein besta tónleikasveit dagsins í dag en sitt sýnist hverjum. Þeir eru góðir en komast þó ekki í hóp þeirra allra bestu að mínu mati. Það fer þeim hins vegar vel að vera á undan stærstu nöfnunum eins og raunin var á Rock Werchter í ár. Platan þeirra 48:13 sem kom út í fyrra náði mér ekki og mér fannst hún hreinlega ekki ganga upp því miður. Þeir eiga þó fullt af góðum lögum af eldri plötunum sínum og m.a. þessa leikvangasmelli sem er svo mikilvægt að geta hent í eins og „Fire“, „Underdog“, „L.S.F.“ og „Club Foot“. Hápunkturinn á tónleikunum var þó ekki flutningur á lagi eftir þá heldur á laginu „People Are Strange“ eftir Jim Morrison og Robby Krieger meðlimum úr bestu hljómsveit í heims, The Doors. Mér fannst Kasabian sýna laginu mikla virðingu með því að taka það í heild sinni og spila það áreynslulaust út í gegn og bæta ekki við neinum krúsídúllum, lagið fékk að lifa eitt og sér og það þótti mér vænt um. Einnig var gaman að sjá þá taka hluta af Fatboy Slim slagaranum „Praise You“ og tengja það við „L.S.F.“. Ágætis tónleikar hjá Kasabian þó það séu kannski ekki bestu meðmæli í heimi að hápunktarnir á tónleikunum þínum séu ábreiður.

Þá var aðeins klukkutími í Muse og ekki seinna vænna en að fikra sig nær sviðinu. Það er svolítið síðan að ég steig niður af Muse vagninum en eftir plötuna Black Holes and Revelations missti ég áhugann. Mér fannst þó alltaf leiðinlegt að hafa ekki náð að sjá hljómsveitina uppá sitt besta á tónleikum en nú var komið tækifæri á að bæta úr því. Það var samt fullseint enda næstum því liðin 10 ár frá því að ég hlustaði síðast á Muse og hafði gaman af. Ég var einhvern veginn búinn að afskrifa þá fyrir tónleikana og allt þetta tal um að þeir væru búnir að finna ræturnar sínar aftur á nýju plötunni gáfu mér kjánahroll. En ég var tilbúinn að gefa þeim smá séns.

Tónleikarnir hófust á laginu „Psycho“ og þegar leið á lagið hugsaði ég með mér: „já okei, þetta er ágætt“ en þó þyrftu þeir að gera betur til að ná mér yfir á sitt band. Þeir voru ekki lengi að því vegna þess að næsta lag á dagskrá var „Supermassive Black Hole“ og losnaði heldur betur um stíflurnar hjá mér við að heyra það. Eftir það var ekki aftur snúið. Þó það væri skemmtilegra að heyra gömlu slagarana fannst mér nýju lögin falla vel að eldri lögunum og það var merkilega góður heildarbragur á tónleikunum. Muse sendi mig aftur til fortíðarinnar þegar ég var ca. 14 ára að reyna að finna sjálfan mig, ekki bara í tónlistinni heldur líka í tilverunni og það var mögnuð tilfinning. Smíðastofan í Kársnesskóla lifnaði við í huga mér en þar var hækkað vel í útvarpinu þegar að lög með Muse voru spiluð. Hápunkturinn á tónleikunum og jafnvel bara hátíðinni allri var þegar að þeir hentu í „Citizen Erased“ og fluttu það alveg eins og á Origin of Symmetry. Það var mjög langt síðan að ég hafði hlustað á lagið og það langt síðan að ég var búinn að gleyma því að það væri uppáhalds lagið mitt með þeim. Fleira góðgæti var á boðstólnum eins og „Stockholm Syndrome“, „Time Is Running Out“, „Hysteria“ og „Micro Cuts“. Uppklappslögin þrjú voru svo sér á báti og þá sérstaklega síðustu tvö, „Starlight“ og „Knights of Cydonia“. Þar með hafði Muse lokið sínu verki sem var að loka Rock Werchter hátíðinni 2015. Reyndar var eitthvað eftir af tímanum en ég er hræddur um að enginn geti kvartað enda tónleikarnir ákaflega vel heppnaðir og hiklaust þeir bestu á hátíðinni. Það var svo við hæfi hjá skipuleggjendum hátíðarinnar að kveðja tónleikagesti með Air laginu „How Does It Make You Feel?“ og flugeldasýningu. Hátíðinni þar með formlega slitið.

Uppgjör

Nú ef maður gerir hátíðina upp þá vegur að sjálfsögðu hæst óþarflega há tíðni af listamönnum sem þurftu að aflýsa komu sinni. Við erum að tala um Foo Fighters, Sam Smith, Ben Howard, Jessie J, JD McPherson og BADBADNOTGOOD. Ég sé nú aðallega á eftir Foo Fighters og Sam Smith og hefði hátíðin án efa verið betri hefðu þeir listamenn spilað. Það verður þó að hrósa tónleikahöldurum fyrir að fylla í götin með öðrum listamönnum.

Það er orðið ansi þreytt að þurfa að bíða eftir því að fá armböndin inná tónleikasvæðið. Það hlýtur að vera til önnur leið og reyndar held ég að það hafi verið í boði á Hive tjaldsvæðinu. Þetta skilaði sér í því að maður missti af nokkrum listamönnum og einn félagi minn féll í yfirlið, skelfilegt.

Minni sviðin tvö hafa breyst frá því að ég fór á hátíðina síðast og þær breytingar hafa verið til góðs þó að vissulega sé alltaf leiðinlegt þegar upp kemur sú staða að maður annaðhvort komist ekki inná tónleika eða líði jafnvel illa á tónleikum sökum hita eins og raunin var á alt-j.

Í heildina sá ég 26 hljómsveitir og hefði ég alveg verið til í að sjá fleiri en það getur reynst erfitt þegar maður er í samfloti við stóran hóp og getur þar af leiðandi ekki hreyft sig svo glatt. Það þarf að pissa, drekka, borða og standa í allskonar þvælingi. Það var örlítið hentugra að þvælast einn með kærustunni fyrir þremur árum og draga hana á eftir sér útum allar trissur. En ég náði þó að sjá allt það svona helsta sem ég ætlaði mér að sjá og tel ég það vel af sér vikið. Í lokin er rétt að impra svona á því helsta sem stóð upp úr og það sem gekk ekki eins vel.

Bestu tónleikarnir:

  1. Muse
  2. James Bay
  3. alt-J
  4. Angus & Julia Stone
  5. Pharrell Williams

Verstu tónleikarnir:

  1. Enter Shikari
  2. The Script
  3. Counting Crows
  4. Mumford & Sons

Besti dagurinn: Laugardagurinn

Versti dagurinn: Föstudagurinn

Spútnik atriðið: Catfish and the Bottlemen

Vonbrigðin: Hot Chip

Súrt að missa af: Alabama Shakes, Death Cab for Cutie, Die Antwoord, Eagles of Death Metal, First Aid Kit, Fufanu, Ibeyi, Patti Smith og Years & Years.

Torfi Guðbrandsson

Rock Werchter 2015: Laugardagur

Það er ómögulegt að fjalla um laugardaginn án þess að minnast á klæðaburð undirritaðs. Fyrir hátíðina hafði ég og félagi minn tekið þá ákvörðun að kaupa bol á hvorn annan sem hvorugur mátti sjá fyrr en samdægurs á hátíðinni. Laugardagurinn varð fyrir valinu og samningurinn var á þá leið að klæðast bolnum megnið af deginum. Við vissum báðir að bolurinn yrði ekki fallegur og líklega yrðum við aðhlátursefni en ég gat engan veginn undirbúið mig fyrir þann bol sem ég fékk í hendurnar á laugardeginum. Ég ætla ekki einu sinni að reyna að lýsa honum en birti í staðinn mynd af sjálfum mér í bolnum.

11657529_10152869442571035_1280158242_n (1)

Ég var sennilega sá eini af gestum hátíðarinnar í Justin Bieber bol þennan dag og líklega alla hátíðina ef útí það er farið. Athyglin sem ég fékk útá bolinn var ótrúleg og á köflum óþægileg, fólk starði stórum augum á bolinn og margir vildu fá að taka myndir. Stúlkurnar voru þó jákvæðari í minn garð og hrósuðu mér hástert á meðan drengirnir hristu flestir höfuðið. Þessi mikla athygli gerði það að verkum að mér leið hálfpartinn eins og rokkstjörnu og ég hafði varla við því að svara áreiti úr öllum áttum. Skemmtileg lífsreynsla svo vægt sé til orða tekið.

Tónlistarlega séð má segja að laugardagurinn hafi farið rólega af stað enda hægt og bítandi verið að tjasla sér saman eftir föstudaginn. Dagurinn hófst í hlöðunni en þar var The Tallest Man on Earth að fara að stíga á svið. Sá sænski var þægilegur og bauð uppá líflega sviðsframkomu og mundaði gítarinn sinn af mikilli snilli. The Tallest Man on Earth gaf út nýja plötu í maí á þessu ári og eðlilega voru tekin flest lög af henni. Hápunktur tónleikana var hins vegar flutningurinn á laginu „Love Is All“ en það sló á dauðaþögn í hlöðunni þegar það var leikið. Ágætis tónleikar hjá þeim sænska og farið að sjást í lífsmark á undirrituðum.

Næstur á dagskrá var Íslandsvinurinn Hozier en hann átti leik á aðalsviðinu. Frægðarsól Hozier hefur risið nokkuð hratt á stuttum tíma og er það að miklu leyti risasmellinum „Take Me to Church“ að þakka. Hozier á hins vegar fleiri lög góð lög og var plata hans í 8. sæti hjá Pottinum yfir bestu erlendu plötur síðasta árs. Hozier hélt frábæra tónleika í Norðurljósasal Hörpu á síðustu Airwaves hátíð og var ég spenntur að sjá hvað hann hafði fram að færa núna á miklu stærra sviði. Hozier renndi í öll helstu lögin af plötunni sinni og voru lögin ekki mörg sem ég saknaði. Gaman var að heyra hann taka „Arsonist’s Lullaby“ sem er ekki að finna á hefðbundnu útgáfu plötunnar hans. Ein ábreiða fékk að hljóma en Hozier leiðist ekki að taka ábreiður á tónleikum sínum en hann og hljómsveit hans spreyttu sig á Ariana Grande laginu „Problem“ og tókst það bara ágætlega til. Það kom svo engum á óvart að Hozier skyldi enda tónleikana á „Take Me to Church“ og stóðu þá margir upp sem höfðu setið alla tónleikana og tóku vel undir. Þar með var dagsverki Hozier lokið og gat hann að mínu mati gengið sáttur frá borði.

Íslandsvinirnir voru alls ekki hættir að spila því að næstir á svið voru The War on Drugs sem spiluðu rétt eins og Hozier á síðustu Airwaves hátíð en þeir „hituðu“ upp fyrir The Flaming Lips í Vodafonehöllinni. The War on Drugs gaf út plötuna Lost in the Dream í fyrra sem fékk frábærar viðtökur hjá tónlistarmiðlum og í kjölfarið hefur hljómsveitin verið að sækja í sig veðrið og spilað á stórum hátíðum útum allan heim. Nú voru þeir mættir á aðalsviðið á Rock Werchter á fínasta tíma. Hljómsveitin hefur vaxið mikið í áliti hjá mér frá því á tónleikunum í Vodafonehöllinni og plöturnar þeirra verða bara betri með hverri hlustun. Á tónleikunum þeirra á RW ákvað ég að halla mér aftur og njóta tónlistarinnar. Lagaval dagsins var afar vel heppnað en hljómsveitin spilaði níu lög, sjö af Lost in the Dream og svo sitthvort lagið af Slave Ambient og Wagonwheel Blues. Tónlist TWoD verkaði á mig eins og blanda af hugleiðslu og slökun en það var yndislegt að njóta tónleikanna liggjandi á bakinu og horfa beint uppí loftið og fylgjast með skýjunum, fuglunum og flugvélunum taka á loft. Ég komst að því að sennilega væri ekki til betri leið til að njóta The War on Drugs heldur en einmitt svona og að loknum tónleikunum var ég fullhlaðinn og klár fyrir kvöldið.

Eftir smá stúss í miðbæ Werchter var komið að því að breyta um umhverfi og kíkja í hlöðuna en þar áttu áströlsku systkinin Angus & Julia Stone að fara að spila. Systkinin hafa gefið út þrjár plötur saman en einnig unnið í sitthvoru lagi sem sólólistamenn en þau eru klárlega sterkari saman. Ekki nóg með það þá eru þau frábærlega studd af hljómsveit sinni sem hefur að geyma flottar týpur. Angus og Julia byrjuðu af miklum krafti og heilluðu mig reyndar það mikið í fyrsta laginu að ég er tilbúinn að slá því föstu að þau hafi átt öflugustu byrjunina á hátíðinni. Því miður var kraftinum ekki fylgt nógu vel eftir enda kannski ekki þannig tónlistarmenn en samt sem áður voru tónleikarnir þeirra vel heppnaðir. Systkinin eru eitursvöl, Angus lítur út eins og illa hirtur Joaquin Phoenix á meðan systir hans heillar mann með magnaðri sviðsframkomu sem samanstendur af eggjandi hreyfingum, fallegri rödd og gítarspili. Byrjunin var auðvitað hápunktur tónleikanna en einnig má nefna flutninginn á laginu „Big Jet Plane“ þar sem að gestir tóku vel undir og „Private Lawns“ þar sem að Julia fór á kostum. Tónleikarnir hjá þeim áströlsku komu skemmtilega á óvart og eru klárlega spútnik atriði hátíðarinnar fyrir mér.

Það var enginn tími til að slaka á því að Lenny Kravitz var að hefja leik á aðalsviðinu. Lenny Kravitz er með þeim svalari í bransanum og það er enginn tilviljun að hann hafi verið valinn í hlutverk klæðskerans Sinna í myndunum um Hungurleikana. Lenny er samt ekki bara svalur, hann á líka eitthvað til af drullu flottum lögum og ég var nú aldeilis spenntur að sjá þau lifna við uppá sviði. Ég er nú reyndar ekki kunnugur mörgum lögum eftir kauða en maður þekkir nú þessi helstu enda maðurinn tíður gestur á útvarpsstöðum og á Popp-Tíví í gamla daga. Harðari aðdáendur hafa líklega verið ánægðir með lagavalið en Lenny tók lög af sex plötum og voru flest tekin af 5. Þegar Lenny átti eftir ca. þrjú lög eftir tvístraðist hópurinn sem ég var í en einhverjir voru stressaðir þar sem að Damian Rice var að byrja í hlöðunni. Ég var nú ekki að stressa mig á Íranum og ákvað að klára Lenny enda átti hann eftir óklárað verk, hann átti nefnilega eftir að taka „Fly Away“. Það flutti hann ásamt öflugri hljómsveit sinni og endaði svo tónleikana á „Are You Gonna Go My Way“. Það margborgaði sig því að halda kyrru fyrir.

The Prodigy lokaði laugardagskvöldinu og það að sú hljómsveit skuli loka laugardagskvöldi á stórri tónlistarhátíð kemur álíka mikið á óvart og að FM Belfast komi fram í Silfurbergi á laugardagskvöldi á Iceland Airwaves. The Prodigy á hafsjó af góðum lögum og geta auðveldlega búið til svaðalega stemningu og fengið fólk til þess að hreyfa útlimi sína á alla vegu. Skiljanlega fór mesta púðrið í að kynna nýju plötuna, The Day Is My Enemy en af 16 lögum voru sjö lög tekin af henni en það er ekki hægt að kvarta yfir því enda platan helvíti öflug. Nokkur klassísk lög fengu einnig að fylgja með eins og „Breathe“, „Firestarter“, „Voodoo People“ og „Smack My Bitch Up“. Flestir voru orðnir saddir þegar sveitin hafði spilað 14 lög og allt benti til þess að sveitin hefði lokið sér af og byrjaði fólk að yfirgefa tónleikasvæðið. En þríeykið hafði bara tekið sér full langa pásu því þeir birtust aftur og tóku tvö lög til viðbótar. Því miður fyrir þá voru alltof margir búnir að yfirgefa svæðið og því um hálf misheppnaðan leik af hálfu sveitarinnar að ræða. Heilt yfir voru tónleikarnir samt þrusu flottir og ekki endilega þörf fyrir þá að bæta þessum tveimur lögum við í restina.

Laugardagurinn var mikil bæting frá föstudeginum og mögulega sá besti hingað til á hátíðinni.

Torfi Guðbrandsson

Rock Werchter 2015: Föstudagur

Það má segja að föstudagurinn á Rock Werchter hafi verið sveipaður íslensku þema en tvær íslenskar hljómsveitir komu fram þann dag. Sú fyrri var hljómsveitin Fufanu sem opnaði daginn á KluB C sviðinu en hún hljóp í skarðið fyrir BADBADNOTGOOD sem þurfti að hætta við. Því miður var ég staddur í Leuven á sama tíma að borða ómerkilegt spaghettí og versla nokkrar nauðsynjavörur en samkvæmt tísti frá sveitinni var mætingin og stemningin góð sem eru frábær tíðindi. Seinni hljómsveitin var að sjálfsögðu Of Monsters and Men sem verður komið að síðar.

Screen Shot 2015-07-09 at 11.25.07 PM

Þegar ég mætti á aðalsvæðið var Damian „Jr. Gong“ Marley, sonur Bob Marley að spila á aðalsviðinu. Ég náði síðustu 6-7 lögunum og voru hápunktarnir ábreiðurnar af Bob Marley og The Wailers lögunum „Exodus“ og „Get Up, Stand Up“ enda kannast ég nú talsvert betur við þau lög heldur en lögin hans Damian. En það var ansi gott að byrja daginn á því að fá smá reggí í kroppinn og koma sér í gott stuð fyrir næstu hljómsveit sem var Of Monsters and Men.

Það var nokkuð margt um manninn þegar að OMAM steig á svið en sjálfur var ég staddur frekar aftarlega. Ég tók strax eftir því að hljóðstyrkurinn í hljóðkerfinu var ekki nógu góður svo ég færði mig nær þegar leið á tónleikana til að heyra betur í hljómsveitinni. Sveitin var í góðu formi og má kannski sérstaklega minnast á Nönnu Bryndísi sem bar af sér mikinn þokka á sviðinu og bauð uppá hlýlega nærveru. Lagavalið samanstóð af 12 lögum, 6 af gömlu plötunni og 6 af þeirri nýju. Það sem kom kannski helst á óvart var að hljómsveitin endaði tónleikana ekki á „Little Talks“ heldur „Six Weeks“ en hittarinn fékk að hljóma næst síðastur. Tónleikagestir voru greinilega vel kunnugir „Little Talks“ enda tóku þeir vel við sér og sungu hástöfum með þegar lagið var tekið. Þó að hljómsveitin sé ekki í miklu uppáhaldi hjá mér persónulega var ekki laust við að maður fyndi fyrir smá stolti að sjá hana spila á svona stórri hátíð fyrir framan mörg þúsund manns og samgleðst ég henni innilega fyrir þann frábæra árangur sem hún hefur náð.

Eftir tónleika OMAM tók við smá pása en planið var að sjá alt-J spila í hlöðunni. Fyrir það fyrsta var náttúrulega frekar furðulegt af tónleikahöldurum að setja alt-J ekki á aðalsviðið enda átti það eftir að sýna sig að þeir hefðu alveg átt erindi þangað. Sjálfur sleppti ég því að sjá þá í Vodafonehöllinni í byrjun júní enda alltaf staðráðinn í því að sjá þá á Rock Werchter og spara mér peninginn. Það var góð ákvörðun enda lagavalið nákvæmlega það sama og í sömu röð ef frá er talinn undanfari á undan laginu „Bloodflood“. Að mínu mati voru tónleikarnir frábærir þó að inná milli leynist lakari lög sem er þá aðallega að finna á seinni plötunni þeirra. Hlaðan var troðfull af fólki og það var varla líft inni í henni sökum hita en ég var við það að gefast upp og fá mér ferskt loft þegar tónleikarnir stóðu sem hæst. Þökk sé þrjósku kollega míns náði ég sem betur fer að halda tónleikana út og sé ég alls ekki eftir því. Tónleikarnir voru nefnilega helvíti góðir þrátt fyrir hitann og svitann og var ég gríðarlega sáttur við frammstöðu fjórmenninganna frá Leeds.

IMG_3629

Ég verðlaunaði sjálfan mig með ísköldum bjór eftir tónleika alt-J og tyllti mér á grasið fyrir utan hlöðuna en Mumford & Sons voru þá nýbyrjaðir að spila á aðalsviðinu. Það verður að viðurkennast að ég hef aldrei verið á Mumford vagninum og ef ég hefði fengið að ráða hefði ég haldið mig frá tónleikum þeirra líkt og ég gerði árið 2012. En kollegi minn sem stappaði í mig stálinu á alt-J vildi ólmur kíkja á tónleikana og voru örlögin mín því ráðin enda verður maður að koma fram við náungann eins og maður vill að hann komi fram við sig. Tónleikar M&S gerðu samt ekki mikið fyrir mig nema þá kannski að sannfæra mig enn frekar um hversu óáhugaverðir þeir eru og hversu grunnt tónlistin þeirra ristir í mín tónelsku eyru.

Sá sem var næstur á aðalsviðið og ætlaði jafnframt að loka föstudagskvöldinu var enginn annar en Pharrell Williams. Þessi eitursvali maður bauð uppá mikla skemmtun með fjölskrúðugu lagavali sínu en fyrir utan að taka efni af síðustu sólóplötu sinni henti hann í slagara á borð við „Get Lucky“, „Drop It Like It’s Hot“, „Blurred Lines“, „Hollaback Girl“ og nokkur N*E*R*D lög. Pharrell var í miklu stuði og skartaði sjóarahatt og sérsniðnum Adidas gallabuxum sem myndu líta fáránlega út á einhverjum öðrum en honum. Einnig bauð hann slatta af belgískum krökkum uppá svið í laginu „Happy“ og gerðist full dramatískur í flutningi sínum á hinu stórgóða lagi „Freedom“ sem var jafnframt síðasta lagið sem hann tók. Pharrell Williams er ansi líflegur og skemmtilegur listamaður og gleði hans smitar út frá sér og það er virkilega gaman á tónleikum með svoleiðis listamanni. Pharrell Williams var ansi góð tilbreyting frá öðrum listamönnum hátíðarinnar og lokaði þessum fína föstudegi með glæsibrag.

Torfi Guðbrandsson

Rock Werchter 2015: Fimmtudagur

Ég endurnýjaði kynni mín við Rock Werchter hátíðina í ár og braut þar af leiðandi gamlan eið sem ég gerði við sjálfan mig um að sækja aldrei sömu tónlistarhátíðina erlendis tvisvar. Síðast sótti ég hátíðina árið 2012 og líkaði nokkuð vel en hægt er að lesa um hana einmitt hér á Pottinum.

Fimmtudagurinn byrjaði nákvæmlega eins og fimmtudagurinn 2012 sem var að standa í röð fyrir utan tónleikasvæðið í u.þ.b. klukkustund. Fyrstu plön dagsins fóru því útum þúfur en planið var að sjá Years & Years, First Aid Kit og Eagles of Death Metal. Ég rétt svo náði í rassgatið á EoDM en gat þó huggað mig við það að sjá að Joshua Homme var ekki með þeim á tónleikunum. Keyptir voru matarmiðar og hlustað á fyrstu tóna Royal Blood á aðalsviðinu. Það var grátlegt að þurfa að yfirgefa tónleika þeirra en James Bay var væntanlegur í Hlöðuna og ég ætlaði ekki að missa af honum.

Fyrir hátíðina var ég einna spenntastur fyrir James Bay en hann gaf út frábæra plötu fyrr á árinu og það er mikið látið með hann í heimalandinu hans. James Bay olli engum vonbrigðum og sýndi ansi góða takta á sviðinu með þétt band á bakvið sig. Bay renndi í öll helstu lögin af plötunni sinni en þó má kannski segja að hápunktur tónleikana hafi verið flutningur hans á laginu „If I Ain’t Got You“ eftir Aliciu Keys en þar sýndi hann mögnuð tilþrif, bæði á gítarinn og í söngnum. Það var svo nokkuð fyrirséð að hann myndi enda tónleikana á aðal smellinum sínum, „Hold Back the River“ sem fór vel ofan í gestina. James Bay setti standardinn því nokkuð hátt fyrir aðrar hljómsveitir á hátíðinni og það var nokkuð ljóst að tónleikar hans yrðu ekki toppaðir auðveldlega.

Næst var röðin komin að Jungle á KluB C en ég var ennþá í smá fýlu út í hljómsveitina fyrir að hafa afboðað komu sína á síðustu Airwaves hátíð. Ég náði ca. helmingnum af tónleikum þeirra sem litu afskaplega vel út. Blessunarlega náði ég að sjá mitt uppáhalds lag, „Lucky I Got What I Want“ og má einmitt segja að ég hafi verið heppinn að fá það sem ég vildi. Auk þess náði ég að sjá tvö af þeirra bestu lögum, „Busy Earnin'“ og „Time“ og gat ég því gengið nokkuð sáttur út þó að vissulega hefði verið skemmtilegra að ná öllum tónleikunum þeirra.

Þar sem að Foo Fighters þurfti að aflýsa tónleikum sínum á Rock Werchter riðlaðist dagskráin á fimmtudeginum aðeins í kjölfarið. Florence + the Machine var til að mynda seinkað um klukkutíma sem setti mig í þá erfiðu stöðu að þurfa að velja á milli hennar og Hot Chip. Það gerði ákvörðunina auðveldari að hafa séð Florence tvisvar sinnum áður en aldrei Hot Chip. Reyndar náði ég tveimur fyrstu lögunum með Florence og var annað þeirra „Ship to Wreck“ sem ég er að fýla vel þessa dagana.

Það hafði sín áhrif á KluB C að Florence væri að spila á aðalsviðinu en þrátt fyrir það var fínasta mæting á Hot Chip. Breska sveitin renndi í nokkuð pottþétt prógram og tók lög af öllum breiðskífum sínum nema þeirri fyrstu. Ég var sérstaklega ánægður að heyra þau taka „I Feel Better“ og „Flutes“. Nýju lögin voru einnig að koma virkilega vel út og þá sérstaklega „Need You Know“. Frekar öryggir tónleikar hjá Hot Chip en ekkert meira en það.

IMG_3619

Eftir smá pásu var komið að því að kíkja á SBTRKT. Ég sá SBTRKT taka „New Dorp. New York“ og „Pharaohs“ sem er í miklu uppáhaldi en missti því miður af „Wildfire“ sökum kamraferðar. Töff tónleikar samt sem áður og SBTRKT svalari en enginn.

The Chemical Brothers lokaði fimmtudagskvöldinu á aðalsviðinu og var ég spenntur að sjá hvað þeir hefðu uppá að bjóða. Þeir buðu uppá taktfasta tóna, flott sjónarspil og þó nokkur lög sem maður þekkti. Þeir sem voru þolinmóðir og kláruðu tónleikana voru verðlaunaðir þar sem að tvö af síðustu þremur lögunum voru „Galvanize“ og „Block Rockin’ Beats“. Aðrir hápunktar var „Go“ af nýju plötunni og „Swoon“. The Chemical Brothers sendu því gesti útí nóttina vel metta og fulla af orku með vel heppnuðum tónleikum sínum. Góður endir á góðum degi og byrjunin á Rock Werchter 2015 ansi sterk!

Torfi Guðbrandsson

Kaleo hitar upp fyrir Kings of Leon

maxresdefault
Kaleo kemur til með að hita upp fyrir Kings of Leon sem kemur fram á stórtónleikum í Laugardalshöllinni þann 13. ágúst næstkomandi en þetta kemur fram í tilkynningu frá Senu á heimasíðu þeirra. Valið kemur ekki á óvart enda Kaleo búin að ryðja sér til rúms sem ein fremsta rokkhljómsveit landsins og svipar tónlistinni hennar oft til suðurríkjarokksins í landi tækifæranna. Hljómsveitin er einmitt að túra um Bandaríkin þessa dagana og reynir að heilla Kanann með tónlist sinni og miðað við það sem að Kaleo hefur uppá að bjóða ætti það að takast vel.

Tónleikar þeirra í Laugardalshöllinni 13. ágúst hljóta að verða þeir stærstu í sögu sveitarinnar enda von á 10.000 gestum. Þá er aldrei að vita nema að Caleb Followill og félagar taki ástfóstri við Kaleo og bjóði þeim að hita upp fyrir sig á fleiri tónleikum víðsvegar um heiminn. Kaleo er svo væntanleg til landsins seinna í sumar og mun halda tónleika í Gamla bíói þann 11. júlí næstkomandi.

– Torfi Guðbrandsson