Monthly Archives: mars 2014

GusGus gefur út nýtt lag

Já það virðist allt vera að gerast í heimi danstónlistarinnar hér á landi en eins og flestir ættu að vita hefur DJ MuscleBoy gert allt vitlaust með hinu Scooter-skotna „LOUDER“ sem er að nálgast 200,000 hlustanir á YouTube. Nú hafa hins vegar drottnarar danstónlistarinnar á Íslandi, GusGus, gefið út sóðalega flott lag sem aðdáendur hafa jafnvel heyrt á tónleikum þeirra undanfarna mánuði.

Þá er það bara spurningin, tekst þeim að toppa Arabíska hestinn með næstu plötu? Af þessu lagi að dæma segi ég já!

– Torfi 

Auglýsingar

Sönghópurinn Olga í útrás

OLGAA

Alþjóðlegi sönghópurinn Olga ætlar sér stóra hluti í sumar og hyggst gefa út plötu og túra um Ísland. Í hópnum eru tveir Íslendingar, þeir Bjarni Guðmundsson (fyrsti tenór) og Pétur Oddbergur Heimisson (bass-barítón). Ásamt þeim eru Hollendingarnir Gulian van Nierop (barítón) og Jonathan Ploeg (annar tenór) og Rússinn Philip Barkhudarov (bassi). Hópurinn kynntist í Tónlistarskóla HKU í Utrecht í Hollandi en þar nema þeir söng undir handleiðslu Jóns Þorsteinssonar.

Olga varð til árið 2012 og komu drengirnir meðal annars hingað til Íslands í fyrra og héldu fimm tónleika víðsvegar um landið. Undirritaður skellti sér á síðustu tónleikana sem haldnir voru í Fríkirkjunni og komu þeir skemmtilega á óvart. „A capella“ tónleikar eiga það til að vera þurrir og svæfandi en það er ekki raunin hjá Olgu. Þeir hafa húmor fyrir sjálfum sér, taka fjölbreytt lög og koma gestum á óvart með ýmsum uppátækjum oft í miðjum flutningi. Gestirnir í Fríkirkjunni gengu allavega sáttir til dyra að tónleikum loknum eftir mikil hlátrasköll, lófaklöpp og uppklöpp.

Nú ætla þeir að leggja land undir fót að nýju og hafa með sér glænýja plötu í farteskinu. En það kostar peninga að ferðast og því ætla Olgumenn að treysta á almenning og nota Karolina Fund til þess að fjármagna ferðalagið. Fyrir utan Ísland eru fyrirhugaðir tónleikar víða um Evrópu og má þar nefna tónleika í Frakklandi, Þýskalandi, Austurríki og að sjálfsögðu Hollandi.

Þó að meirihlutinn í hópnum sé af erlendu bergi brotinn eru menn ekkert að veigra sér við að taka íslensk lög. Íslendingarnir í hópnum hafa greinilega kennt félögum sínum vel því að það má varla heyra mun á flutningi íslensku piltana og þeirra erlendu. „Heyr, himna smiður“ er gott dæmi um það.

Til gamans má geta komust Bjarni og Pétur í fréttirnar fyrir tveimur árum er þeir tóku óvænt þátt í karókí keppni undir berum himni í Berlín. Drengirnir voru á bakpokaferðalagi um Evrópu og áttu leið hjá Mauregarðinum þar í borg. Þeir gáfu sér samt tíma í að þenja raddböndin aðeins og fluttu Elvis slagarann „Can’t Help Falling In Love“ við mikinn fögnuð viðstaddra. Í kjölfarið unnu þeir sér inn hina frægu 15 mínútna frægð á Íslandi.

Ég hvet fólk eindregið til að fylgjast vel með Olgu á komandi mánuðum því að treystið mér, hér eru á ferðinni mikil gæðablóð sem finnst fátt skemmtilegra en að gleðja fólk með fögrum söng.

Tónleikarnir sem þeir ætla að halda á Íslandi:

Fimmtudagurinn 26. júní – Tjarnarborg, Ólafsfjörður
Sunnudagurinn 29. júní – Hvollinn, Hvolsvöllur
Þriðjudagurinn 1. júlí – Langholtskirkja, Reykjavík
Miðvikudagurinn 2. júlí – Bláa kirkjan, Seyðisfjörður
Föstudagurinn 4. júlí – Hafnarkirkja, Höfn í Hornafirði

Heimasíða Olgu: http://www.olgavocalensemble.com

Olga á Facebook: http://www.facebook.com/olgavocalensemble

Leggðu Olgu lið hér: http://www.karolinafund.com/project/view/309

Torfi Guðbrandsson