Monthly Archives: desember 2014

Bestu kvikmyndir 2014

Potturinn hefur hingað til ekki verið að taka saman þær kvikmyndir sem honum þótti bestar yfir árið þar sem að tónlistin hefur alltaf haft yfirhöndina en þar sem að kvikmyndaárið í ár var virkilega ljúft er ekki annað hægt. Ætlunin var einnig að fara yfir þær íslensku á topp 5 lista en því miður er erfitt að fylla upp í svoleiðis lista þegar maður gefur ekki kost á sér á Afann og Algjöran Sveppa. Hins vegar var ég gríðarlega sáttur við Vonarstræti, Borgríki 2 og París Norðursins. Því má svo bæta við að kvikmyndir sem komu út 2013 en rötuðu ekki í íslensk kvikmyndahús fyrr en í ársbyrjun eru ekki gjaldgengar á þennan lista.

# 10 Dawn of the Planet of the Apes

dawn-planet-apes-koba-weapon
Dawn of the Planet of the Apes er talsvert betri heldur en forveri sinn og veitir upprunalegu Planet of the Apes myndinni mikla samkeppni um að hljóta titilinn „besta Apaplánetumyndin“. Sagan er komin í ansi spennandi átt enda aparnir komnir í ansi harða baráttu við mennina sem þurfa að berjast fyrir lífi sínu. Endirinn býður upp á framhald sem ætti að vera tilhlökkunarefni.

# 9 John Wick 

john wick
Ef maður var ekki að búast við einhverju á árinu þá var það frábær hasarmynd með Keanu Reeves í aðalhlutverki. Reeves hefur sjaldan verið betri á hvíta tjaldinu og sýnir hér gamalkunna takta.

# 8 The Hobbit: Battle of Five Armies 

smaug
Þriðja myndin um Hobbitann er að mínu mati sú besta í þríleiknum enda eru dvergarnir loksins hættir á hlaupum og farnir að einbeita sér að því að verja heimili sitt. Myndin byrjar af krafti þegar Smeyginn lætur að sér kveða í Vatnabæ í einu flottasta atriði sem ég hef séð í kvikmynd. Að því loknu er stríðið mikla byggt upp sem kemst þó aldrei nálægt glæsileika stríðanna í Hringadróttinssögu. En þrátt fyrir að þríleikurinn um Bilbó og félaga sé ekki í sama gæðaflokki og Hringadróttinssaga hef ég samt alltaf jafn gaman af þessum magnaða heimi sem að Tolkien og Peter Jackson bjuggu til fyrir okkur og á ég eftir að sakna þess að sjá ekki fleiri ævintýri úr Miðgarði lifna við á hvíta tjaldinu.

# 7 The Raid 2

The-Raid-2-Reviews-Berandal
Fyrri myndin, The Raid, sló mig útaf laginu á sínum tíma með ótrúlegustu slagsmálaatriðum sem ég hef séð. The Raid 2, er lengri, betri og sagan áhugaverðari. Áhorfandinn fylgir lögreglumanninum Rama í gegnum spillingu og svik lögreglumanna og annarra bófa. Myndin er stútfull af flottum karakterum eins og Uco, Prakoso og auðvitað Rama en allir eru þeir túlkaðir af leikurum sem hafa ekki mikla reynslu á hvíta tjaldinu þó annað mætti halda. Raid myndirnar verða seint toppaðar hvað gæði slagsmálaatriða varðar og eru Iko Uwais og Yayan Ruhian sennilega komnir með vinnu fyrir lífstíð í að skapa slagsmálasenur fyrir kvikmyndir.

# 6 The Grand Budapest Hotel

grand-budapest-hotel-fiennes-revolori
Leikstjórinn Wes Anderson stígur ekki feilspor og er The Grand Budapest Hotel enn ein snilldin sem hann hristir fram úr erminni. Það er enginn betri en einmitt W. Anderson þegar kemur að því að nýta stór nöfn í minni hlutverkum en hér höfum við nöfn eins og Willem Dafoe, Adrien Brody, Jude Law, Bill Murray, Jeff Goldblum og Edward Norton sem allir hafa kynnst lengri skjátíma. Ralph Fiennes er hins vegar sá sem eignar sér myndina en hann leikur hóteleigandann M. Gustave sem rekur undur fallegt hótel. Hann ásamt lobbístráknum Zero lendir í alls kyns uppákomum sem eru ansi skoplegar þökk sé snilli leikstjórans og skrifum Stefan Zweig. The Grand Budapest Hotel fer langt með að vera besta myndin úr smiðju Wes Anderson og þá er nú mikið sagt.

# 5 Nightcrawler 

Nighcrawler-still-04
Jake Gyllenhaal er stórkostlegur í hlutverki siðblinda ljósmyndarans Louis Bloom sem vinnur hörðum höndum að því að ná góðum ljósmyndum af slysum og vettvangi glæpa í Los Angeles. Bloom verður svo heltekinn af vinnu sinni að smátt og smátt fer hann að hafa áhrif á aðstæður til þess eins að ná betra efni. Ótrúlega mögnuð mynd sem lætur áhorfandann fyllast af viðbjóði og stundum hlátri. Það er bara svo fjandi óþægilegt að hlæja að svona sjúkum manni á meðal almennings.

# 4 Guardians of the Galaxy 

guardians-of-the-galaxy-starlord-flying
Guardians of the Galaxy var ágætis tilbreyting frá Iron Man og þessum helstu ofurhetjum sem kvikmyndaunnendur hafa verið mataðir af í nokkur ár. Enginn gat þó séð fyrir að þetta hliðarverkefni ætti eftir að slá svona rækilega í gegn. Græn Zoe, tré, þvottabjörn, MMA bardagakappi og blanda af Han Solo og Mal var það sem þurfti til að bjarga vetrarbrautinni að þessu sinni og að sjálfsögðu frábær tónlistin. Það er hvergi dauðan punkt að finna í þessari tveggja klukkustunda skemmtiferðageimskipssiglingu og nú þarf Marvel að leggja drög að næstu mynd um þessa varðmenn.

# 3 Boyhood

boy
Án efa ein metnaðarfyllsta kvikmynd sem gerð hefur verið. Kvikmynd sem tekin var upp yfir 12 ára tímabil þar sem fylgst er með uppvexti Mason og fjölskyldu hans. Boyhood er laus við alla tilgerð og dregur upp raunverulega mynd af þroska og lífsskeiði hjá ungum dreng sem gengur í gegnum mis erfiðar raunir frá 5 ára aldri til 18. Leikarar eiga mikið lof skilið og þá sérstaklega Ellar Coltrane og Ethan Hawke.

# 2 Gone Girl

rosamundgonegirl_640px
Er ég sá plakatið af Gone Girl var ég fljótur að dæma myndina sem misheppnaða þar sem að Ben Affleck lék aðalhlutverkið. Svo áttaði ég mig á því að Ben Affleck er ekki sá Ben sem við munum eftir í Armageddon. Ég dreif mig því á myndina og Guð minn almáttugur hvað þetta var sturluð mynd. Myndin tók tvær stefnubreytingar sem ég sá alls ekki fyrir og komu mér vægast sagt í opna skjöldu. Rosamund Pike hefur hingað til alltaf verið þessi snoppufríða og viðkunnanlega leikkona fyrir mér en hérna sýnir hún stórleik með óútreiknanlegum karakter sínum. Ben Affleck stendur sig einnig vel sem hinn ólánsami Nick Dunne. Gone Girl skildi mig eftir orðlausan í sætinu mínu og þurfti ég smá tíma til að jafna mig eftir hana og horfa ekki tortryggnum augum á kærustuna mína.

# 1 Interstellar

interstellar_a
Myndirnar í topp 3 hefðu svo sem geta raðast öðruvísi en svona er allavega niðurröðunin núna. Það var bara eitthvað alltof sexí við það að sjá krafta Christopher Nolan og Matthew McConaughey sameinast í geimnum. Lífshorfur mannsins eru í hættu og Cooper er sendur út í geim ásamt öðrum í þeim tilgangi að finna aðra plánetu þar sem maðurinn getur hafið nýtt líf. Það sem ég elska hvað mest við kvikmyndir sem gerast út í geimnum er að þar fáum við að sjá hið sanna eðli mannsins þar sem aldrei hefur reynt meira á þolmörk hans. Maðurinn þarf að taka stórar ákvarðanir og svara stórum spurningum. Matt Damon verður allavega ekki tekinn í sátt aftur í bráð.

– Torfi Guðbrandsson

Auglýsingar

Bestu íslensku plöturnar 2014

Fyrir mér var íslenska tónlistarárið sterkara í lögum í þetta skiptið og aðeins tvær plötur sem mér þótti bera af. Restin var ekki eins sterk en átti þó afskaplega fína spretti.

# 10 M-Band – Haust 

m-band haust
Hörður sendi frá sér þessa fallegu plötu fyrr í haust og féll hún afar vel við árstíðina sem hún er kennd við.

Hápunktar: Ever Ending Never.

# 9 Rökkurró – Innra

Cover_For_I_Tunes
Innra og Haust eru dæmi um plötur sem vinna á með hverri hlustun og verða sífellt betri eftir því sem maður hlustar meira á þær. Það má því ekki dæma þær of snemma en báðar þessar plötur eiga eflaust eftir að láta að sér kveða enn frekar með tímanum.

Hápunktar: The Backbone, Hunger.

# 8 Knife Fights – I Need You to Go to Hell

knife fights
Sigurður Angantýsson, söngvari og gítarleikari Knife Fights afgreiddi mig nokkrum sinnum í Skífunni á árinu og fyrir það er ég þakklátur. En ég verð þó að skamma hann fyrir að hafa ekki mælt með þessari frábæru plötu sem hann á mikið í. Sem betur fer kom Dr. Gunni mér á sporið og reddaði þar með tilþrifalitlum strætóferðum mínum upp í vinnu.

Hápunktar: Stay Forever in Doubt, Underground.

# 7 Vio – Dive In

vio 2
Frumburður Vio var betri en ég hafði reiknað með og komu þeir mér á óvart með fjölbreyttum lagasmíðum sínum. Eina stundina eru þeir í léttum gír eins og í lögunum „Perfect Boys“ og „Wherever You May Be“ en aðra sýna þeir á sér alvarlegri hliðar eins og í „Empty Streets“ og „Dive In“. Það er enginn flýtibragur á þessu verki sem er í afar góðu jafnvægi.

Hápunktar: Wherever You May Be, You Lost It.

# 6 Mono Town – In the Eye of the Storm

mono
Á einhvern óskiljanlegan hátt hefur þessi plata ekki hlotið náð fyrir eyrum íslenskra fjölmiðla og tónlistarspekúlanta. Potturinn er hins vegar á öðru máli. Hér er um að ræða heilsteypta og fallega plötu sem rennur ljúft í gegn. Magnaður söngur Bjarka í laginu „Yesterday’s Feeling“ er svo sér kapituli útaf fyrir sig.

Hápunktar: Peacemaker, Yesterday’s Feeling.

# 5 GusGus – Mexico 

GusGus_-_Mexico
Það er alltaf ánægjuefni þegar GusGus ákveður að henda í plötu. Mexico fer ákaflega vel af stað og fyrstu fimm lögunum sýna meðlimir flokksins úr hverju þeir eru gerðir. Næstu þrjú lög eru ekki eins sterk en þeim tekst þó að loka plötunni með þriðja besta lagi ársins.

Hápunktar: Another Life, Crossfade, Obnoxiously Sexual, This Is What You Get When You Mess with Love.

# 4 Samaris – Silkidrangar

silkidrangar
Samaris fylgir á eftir frumburði sínum með Silkidröngum sem er alls ekki síðra verk. Platan hangir vel saman og hefur sveitinni tekist að mastera sinn einstaka stíl. Samaris vinnur svolítið á sömu uppskriftinni, seiðandi söng, klarínett, frábærum töktum og gömlum íslenskum textum sem gæti mistekist og orðið þreytandi en blessunarlega fer tríóið afskaplega vel með vopnabúrið sitt.

Hápunktar: Lífsins ólgusjór, Nótt, Tíbrá.

# 3 Teitur Magnússon – 27

teitur
Teitur hefur undanfarin ár gert það gott með Ojba Rasta en ákvað nú að gefa frá sér eina sóló. Teitur er 27 ára sem er ákaflega hættulegur aldur í tónlistarheiminum en sem betur fer er Húnvetningurinn sprelllifandi. Platan er virkilega skemmtileg og inniheldur frábæra texta og lög. Að auki tekur Teitur ábreiðu af „Háflóð“ eftir Bubba og gerir það að sínu og smellpassar það inn í stemninguna á plötunni. Eini gallinn við 27 er að hún er alltof stutt eða aðeins 27 mínútur og 36 sekúndur.

Hápunktar: Háflóð, Nenni, Vinur vina minna.

# 2 Prins Póló – Sorrí

Sorrí
Prinsinn gerði stormandi lukku í ár með Sorrí og tónlistinni úr París Norðursins. Hann heillaði landann með tónlist sinni og textum en þeir sem hafa fylgst með Prinsinum vita að eitthvað stórkostlegt var í vændum í ár eftir að hafa töfrað fram hvern slagarann á fætur öðrum árin 2012 og 2013. Prinsinn safnar saman gömlum hitturum á Sorrí og bætir við nokkrum nýjum svo úr verður ansi eigulegur gripur. Sorrí hefði hæglega getað endað í fyrsta sæti en undir lokin var þetta spurning um eitt lag sem var ekki í sama gæðaflokki og hin.

Hápunktar: Öll lögin fyrir utan „Vakúmpakkað líf“.

# 1 Grísalappalísa – Rökrétt framhald 

grísalappalísa
Rökrétt framhald er besta íslenska platan árið 2014 og látið engan fjölmiðil eða kjána út í bæ ljúga einhverju öðru að ykkur. Grísalappalísa gerði allt rétt á plötu nr. 2 og toppuðu að mínu mati ALI sem var alls ekki sjálfgefið. Sveitin bætti við sig meðlim í formi hins síkáta Rúnars Arnar og það virðist bara haft góð áhrif á lísurnar. Baldur er orðinn ansi lipur textahöfundur en hann er skráður fyrir 8 textum á plötunni en Gunnar semur hina þrjá textana með honum. Platan býr yfir góðum heildarbrag þrátt fyrir að lögin séu að mörgu leyti ólík. „Nóttin“ minnir um margt á Súkkat enda inniheldur lagið hin fleygu orð „það er vont en það venst“. Í „Þurz“ verður maður var við áhrif Þurzaflokksins á 2:20-3:06 sem er ein af þeim hljómsveitum sem veitti meðlimum tónlistarlegt uppeldi. Svo eru lög eins og „Flýja“ og „Vonin blíð“ sem ég fór yfir í síðustu færslu. Nú ef þú vilt upplifa þig eins og þú sért á einhverju sterku án þess þó að þurfa að innbyrða ólögleg efni mæli ég með því að þú hlustir á „ABC“ sem er gjörsamlega bilað lag. Það kennir sum sé ýmissa grasa á Rökrétta framhaldi Grísalappalísu og ég vona bara að biðin eftir næstu plötu verði ekki löng.

Hápunktar: Platan eins og hún leggur sig.

– Torfi Guðbrandsson

Bestu íslensku lögin 2014

Að vanda var mikil gróska í íslenskri tónlist í ár. Þau voru mörg lögin sem náðu athygli minni en þetta eru þau 25 sem mér þóttu best.

# 25 „Yfir hafið“ – Uniimog 


Nýjasta súpergrúppan með þeim Sigurði Guðmunds og Ásgeiri í broddi fylkingar með eitt afskaplega ljúft og fínt lag.

# 24 „Listamaður“ – Elín Helena

Skemmtilega kaldhæðið lag úr smiðju pönksveitarinnar Elínar Helenu.

# 23 „Hunger“ – Rökkurró

Áður óþekktur kraftur gerir vart við sig í þessu frábæra lagi frá Rökkurró sem stígur fastar á bensíngjöfina.

# 22 „All the Pretty Girls“ – Kaleo 

Kaleo nutu mikilla vinsælda í kjölfar fyrstu plötu sinnar og þetta lag gerir ekkert til að róa þær niður.

# 21 „Show Us“ – Oculus & Berndsen

Þrátt fyrir glæsilegt orðspor þessara drengja fór nú ekki mikið fyrir þessu lagi sem minnir svolítið á Röyksopp.

# 20 „Nótt“ – Samaris

Upphafslagið á Silkidrangar er geysilega sterkt og nýtur sín ekki síður á tónleikum sveitarinnar.

# 19 „Ever Ending Never“ – M-Band

Spikfeitt lag úr smiðju raftónlistarmannsins efnilega M-Band.

# 18 „Ótta“ – Sólstafir 

Sólstafir sýna hér sínar sterkustu hliðar með níu mínútna slagara af samnefndri plötu.

# 17 „Ryðgaður dans“ – Valdimar

Hugljúft og fallegt lag frá drengjunum í Valdimar.

# 16 „Fed All My Days“ – Máni Orrason

Máni kom eins og þruma úr heiðskíru lofti þegar hann sendi okkur Íslendingum þennan slagara úr svefnherberginu sínu á Spáni.

# 15 „Tvær plánetur“ – Úlfur Úlfur

Drengirnir í Úlfur Úlfur hafa verið duglegir að minna á sig á árinu en þetta lag verður að teljast þeirra besta til þessa.

# 14 „Yesterday’s Feeling“ – Mono Town

Feykilega fallegt lag frá Mono Town sem gerði það gott á árinu.

# 13 „Wherever You May Be“ – Vio 

Vio, sigurvegarar Músíktilrauna 2014 með lag sem bætir og kætir.

# 12 „Stjörnustríð“ – Shades of Reykjavík 

Það þarf ekkert að spyrja að leikslokum þegar að þú setur stef úr Star Wars saman við eina svölustu sveit landsins.

# 11 „Don’t Be a Man“ – Knife Fights

Þökk sé Snarlinum frá Dr. Gunna kynntist ég Knife Fights sem redduðu prófatíðinni í dimmum desember.

# 10 „Another Life“ – GusGus

GusGus með eitt af gamla skólanum. Algjörlega ómögulegt að hreyfa sig ekki þegar þetta lag hljómar.

# 9 „You Lost It“ – Vio 

Vio voru fljótir að sýna fram á verðskuldaðann sigur í Músíktilraunum.

# 8 „París norðursins“ – Prins Póló

Eins og það hafi ekki verið nóg að sefa þorsta aðdáenda með Sorrí þá þurfti Prinsinn endanlega að drekkja okkur með þessari snilld.

# 7 „Vonin blíð“ – Grísalappalísa

Lísan sýnir á sér nýja hlið með þessu magnaða lagi.

# 6 „Stay Forever in Doubt“ – Knife Fights

Annað lagið á listanum með Knife Fights og það er vel verðskuldað. Hér er allt til fyrirmyndar, meðferð á hljóðfærum sem og söngur Sigurðar. Og já, truflað lag!

# 5 „Nenni“ – Teitur Magnússon

Ofur einfaldur texti í boði Benedikts Gröndal gerir hér góða hluti í stórum og fjölbreyttum hljóðheimi Teits. Þó að textinn sé ekki flókinn segir hann samt svo margt og á alveg jafn vel við í dag eins og á dögum Benedikts. Fyrsta lagið sem ég mun hlusta á þegar ég er orðinn leiður á að skrifa ritgerð eða læra undir próf.

# 4 „Flýja“ – Grísalappalísa

Það er ekki hægt að flýja undan Grísalappalísu þegar hún er í þessu stuði. Strengjalísurnar hjálpa til við að gera lagið eitt af þeim bestu á árinu sem telur sjö mínútur og 24 sekúndur. Keyrsla sem fer rólega af stað en stigmagnast þegar lengra líður á og nær fallegu hámarki í restina. Topp stöff.

# 3 „This Is What You Get When You Mess with Love“ – GusGus

GusGus er ein af þessum sveitum sem gerir rólegum lögum alveg jafn góð skil líkt og þeim dansvænari. Daníel Ágúst er einn besti söngvari landsins að mínu mati og slíkur söngvari verður að fá að syngja falleg lög með fallegum texta. Það er tilfellið hér.

# 2 „Finn á mér“ – Prins Póló

Þegar ég hlustaði á þetta lag fyrst varð ég orðlaus í smá stund því að ég tengdi mig (að hluta til) við innihald textans. Það eitt og sér hefði samt ekki verið nóg til að skila laginu í annað sætið en það gerði frábær tónlistin sem ómar undir.

# 1 „Color Decay“ – Júníus Meyvant

„Color Decay“ er eitt af þessum lögum sem þú heyrir og telur þig fullvissan um að hér sé um erlendan tónlistarmann að ræða. Blessunarlega getum við Íslendingar eignað okkur þetta fallega lag. Hér smellur gjörsamlega allt saman, blásturs- og strengjahljóðfæri stækka hljóðheim lagsins svo um munar og einlægni Júníusar nýtur sín alveg í botn. Íslenskri dægurlagamenningu hefur fæðst enn einn demanturinn og það er hætta á því að Júníus eigi eftir að eigna sér næsta tónlistarár á Íslandi og vonandi víðar.

– Torfi Guðbrandsson

Topp 5: Plötuumslög ársins 2014

Plötuumslög geta skipt miklu máli. Plata sem er falleg að utan getur nefnilega verið ansi vond að innan en þá er einmitt mikilvægt að ná til hlustandans í skamma stund og enn betra ef hann kaupir plötuna út í búð þó hann verði fyrir vonbrigðum þegar heim er komið. Blessunarlega eru eftirfarandi listamenn á þessum lista lausir við það að gera vonda tónlist en eiga það allir sameiginlegt að pakka tónlistinni sinni inn í fallegar umbúðir.

# 5 Skálmöld – Með vættum

skalmold_med_vaettum_filnal_cover-2-600x600
Ég er í miklu víkingastuði þessa dagana þökk sé þáttunum Vikings. Umhverfið á þessu umslagi er því kunnuglegt.

# 4 Prins Póló – Sorrí 

Sorrí
Einkennismerki prinsins er svo ótrúlega einfalt og skemmtilegt en oft er einfaldleikinn bestur. Hann skilar umslagi prinsins að þessu sinni í 4. sæti.

# 3 The Vintage Caravan – Voyage

the-vintage-caravan_voyage
Endurútgáfa Nuclear Blast Records af plötunni Voyage sem kom upphaflega út árið 2012 er litrík og má alveg ímynda sér að meðlimir séu staddir inn í þessum tryllta vagni á hraðferð út í ruglið.

# 2 Samaris – Silkidrangar 

silkidrangar
Þetta gulllitaða kattardýr náði mér strax rétt eins og tónlist Samaris. Ekkert meira um það að segja svo sem.

# 1 Elín Helena – Til þeirra er málið varðar 

Elín til
Hér eru körfuboltamenn í kröppum dansi en eins og við sjáum á hártísku og búningum eru allnokkur ár síðan að Bjarnleifur Bjarnleifsson smellti af. Afar lýsandi mynd fyrir innihaldið.

Þessi voru einnig heit:

Börn – s/t
Grísalappalísa – Rökrétt framhald
Mono Town – In the Eye of the Storm
Rökkurró – Innra
Teitur Magnússon – 27
Vio – Dive In

– Torfi