Færslusafn

Rock Werchter 2015: Laugardagur

Það er ómögulegt að fjalla um laugardaginn án þess að minnast á klæðaburð undirritaðs. Fyrir hátíðina hafði ég og félagi minn tekið þá ákvörðun að kaupa bol á hvorn annan sem hvorugur mátti sjá fyrr en samdægurs á hátíðinni. Laugardagurinn varð fyrir valinu og samningurinn var á þá leið að klæðast bolnum megnið af deginum. Við vissum báðir að bolurinn yrði ekki fallegur og líklega yrðum við aðhlátursefni en ég gat engan veginn undirbúið mig fyrir þann bol sem ég fékk í hendurnar á laugardeginum. Ég ætla ekki einu sinni að reyna að lýsa honum en birti í staðinn mynd af sjálfum mér í bolnum.

11657529_10152869442571035_1280158242_n (1)

Ég var sennilega sá eini af gestum hátíðarinnar í Justin Bieber bol þennan dag og líklega alla hátíðina ef útí það er farið. Athyglin sem ég fékk útá bolinn var ótrúleg og á köflum óþægileg, fólk starði stórum augum á bolinn og margir vildu fá að taka myndir. Stúlkurnar voru þó jákvæðari í minn garð og hrósuðu mér hástert á meðan drengirnir hristu flestir höfuðið. Þessi mikla athygli gerði það að verkum að mér leið hálfpartinn eins og rokkstjörnu og ég hafði varla við því að svara áreiti úr öllum áttum. Skemmtileg lífsreynsla svo vægt sé til orða tekið.

Tónlistarlega séð má segja að laugardagurinn hafi farið rólega af stað enda hægt og bítandi verið að tjasla sér saman eftir föstudaginn. Dagurinn hófst í hlöðunni en þar var The Tallest Man on Earth að fara að stíga á svið. Sá sænski var þægilegur og bauð uppá líflega sviðsframkomu og mundaði gítarinn sinn af mikilli snilli. The Tallest Man on Earth gaf út nýja plötu í maí á þessu ári og eðlilega voru tekin flest lög af henni. Hápunktur tónleikana var hins vegar flutningurinn á laginu „Love Is All“ en það sló á dauðaþögn í hlöðunni þegar það var leikið. Ágætis tónleikar hjá þeim sænska og farið að sjást í lífsmark á undirrituðum.

Næstur á dagskrá var Íslandsvinurinn Hozier en hann átti leik á aðalsviðinu. Frægðarsól Hozier hefur risið nokkuð hratt á stuttum tíma og er það að miklu leyti risasmellinum „Take Me to Church“ að þakka. Hozier á hins vegar fleiri lög góð lög og var plata hans í 8. sæti hjá Pottinum yfir bestu erlendu plötur síðasta árs. Hozier hélt frábæra tónleika í Norðurljósasal Hörpu á síðustu Airwaves hátíð og var ég spenntur að sjá hvað hann hafði fram að færa núna á miklu stærra sviði. Hozier renndi í öll helstu lögin af plötunni sinni og voru lögin ekki mörg sem ég saknaði. Gaman var að heyra hann taka „Arsonist’s Lullaby“ sem er ekki að finna á hefðbundnu útgáfu plötunnar hans. Ein ábreiða fékk að hljóma en Hozier leiðist ekki að taka ábreiður á tónleikum sínum en hann og hljómsveit hans spreyttu sig á Ariana Grande laginu „Problem“ og tókst það bara ágætlega til. Það kom svo engum á óvart að Hozier skyldi enda tónleikana á „Take Me to Church“ og stóðu þá margir upp sem höfðu setið alla tónleikana og tóku vel undir. Þar með var dagsverki Hozier lokið og gat hann að mínu mati gengið sáttur frá borði.

Íslandsvinirnir voru alls ekki hættir að spila því að næstir á svið voru The War on Drugs sem spiluðu rétt eins og Hozier á síðustu Airwaves hátíð en þeir „hituðu“ upp fyrir The Flaming Lips í Vodafonehöllinni. The War on Drugs gaf út plötuna Lost in the Dream í fyrra sem fékk frábærar viðtökur hjá tónlistarmiðlum og í kjölfarið hefur hljómsveitin verið að sækja í sig veðrið og spilað á stórum hátíðum útum allan heim. Nú voru þeir mættir á aðalsviðið á Rock Werchter á fínasta tíma. Hljómsveitin hefur vaxið mikið í áliti hjá mér frá því á tónleikunum í Vodafonehöllinni og plöturnar þeirra verða bara betri með hverri hlustun. Á tónleikunum þeirra á RW ákvað ég að halla mér aftur og njóta tónlistarinnar. Lagaval dagsins var afar vel heppnað en hljómsveitin spilaði níu lög, sjö af Lost in the Dream og svo sitthvort lagið af Slave Ambient og Wagonwheel Blues. Tónlist TWoD verkaði á mig eins og blanda af hugleiðslu og slökun en það var yndislegt að njóta tónleikanna liggjandi á bakinu og horfa beint uppí loftið og fylgjast með skýjunum, fuglunum og flugvélunum taka á loft. Ég komst að því að sennilega væri ekki til betri leið til að njóta The War on Drugs heldur en einmitt svona og að loknum tónleikunum var ég fullhlaðinn og klár fyrir kvöldið.

Eftir smá stúss í miðbæ Werchter var komið að því að breyta um umhverfi og kíkja í hlöðuna en þar áttu áströlsku systkinin Angus & Julia Stone að fara að spila. Systkinin hafa gefið út þrjár plötur saman en einnig unnið í sitthvoru lagi sem sólólistamenn en þau eru klárlega sterkari saman. Ekki nóg með það þá eru þau frábærlega studd af hljómsveit sinni sem hefur að geyma flottar týpur. Angus og Julia byrjuðu af miklum krafti og heilluðu mig reyndar það mikið í fyrsta laginu að ég er tilbúinn að slá því föstu að þau hafi átt öflugustu byrjunina á hátíðinni. Því miður var kraftinum ekki fylgt nógu vel eftir enda kannski ekki þannig tónlistarmenn en samt sem áður voru tónleikarnir þeirra vel heppnaðir. Systkinin eru eitursvöl, Angus lítur út eins og illa hirtur Joaquin Phoenix á meðan systir hans heillar mann með magnaðri sviðsframkomu sem samanstendur af eggjandi hreyfingum, fallegri rödd og gítarspili. Byrjunin var auðvitað hápunktur tónleikanna en einnig má nefna flutninginn á laginu „Big Jet Plane“ þar sem að gestir tóku vel undir og „Private Lawns“ þar sem að Julia fór á kostum. Tónleikarnir hjá þeim áströlsku komu skemmtilega á óvart og eru klárlega spútnik atriði hátíðarinnar fyrir mér.

Það var enginn tími til að slaka á því að Lenny Kravitz var að hefja leik á aðalsviðinu. Lenny Kravitz er með þeim svalari í bransanum og það er enginn tilviljun að hann hafi verið valinn í hlutverk klæðskerans Sinna í myndunum um Hungurleikana. Lenny er samt ekki bara svalur, hann á líka eitthvað til af drullu flottum lögum og ég var nú aldeilis spenntur að sjá þau lifna við uppá sviði. Ég er nú reyndar ekki kunnugur mörgum lögum eftir kauða en maður þekkir nú þessi helstu enda maðurinn tíður gestur á útvarpsstöðum og á Popp-Tíví í gamla daga. Harðari aðdáendur hafa líklega verið ánægðir með lagavalið en Lenny tók lög af sex plötum og voru flest tekin af 5. Þegar Lenny átti eftir ca. þrjú lög eftir tvístraðist hópurinn sem ég var í en einhverjir voru stressaðir þar sem að Damian Rice var að byrja í hlöðunni. Ég var nú ekki að stressa mig á Íranum og ákvað að klára Lenny enda átti hann eftir óklárað verk, hann átti nefnilega eftir að taka „Fly Away“. Það flutti hann ásamt öflugri hljómsveit sinni og endaði svo tónleikana á „Are You Gonna Go My Way“. Það margborgaði sig því að halda kyrru fyrir.

The Prodigy lokaði laugardagskvöldinu og það að sú hljómsveit skuli loka laugardagskvöldi á stórri tónlistarhátíð kemur álíka mikið á óvart og að FM Belfast komi fram í Silfurbergi á laugardagskvöldi á Iceland Airwaves. The Prodigy á hafsjó af góðum lögum og geta auðveldlega búið til svaðalega stemningu og fengið fólk til þess að hreyfa útlimi sína á alla vegu. Skiljanlega fór mesta púðrið í að kynna nýju plötuna, The Day Is My Enemy en af 16 lögum voru sjö lög tekin af henni en það er ekki hægt að kvarta yfir því enda platan helvíti öflug. Nokkur klassísk lög fengu einnig að fylgja með eins og „Breathe“, „Firestarter“, „Voodoo People“ og „Smack My Bitch Up“. Flestir voru orðnir saddir þegar sveitin hafði spilað 14 lög og allt benti til þess að sveitin hefði lokið sér af og byrjaði fólk að yfirgefa tónleikasvæðið. En þríeykið hafði bara tekið sér full langa pásu því þeir birtust aftur og tóku tvö lög til viðbótar. Því miður fyrir þá voru alltof margir búnir að yfirgefa svæðið og því um hálf misheppnaðan leik af hálfu sveitarinnar að ræða. Heilt yfir voru tónleikarnir samt þrusu flottir og ekki endilega þörf fyrir þá að bæta þessum tveimur lögum við í restina.

Laugardagurinn var mikil bæting frá föstudeginum og mögulega sá besti hingað til á hátíðinni.

Torfi Guðbrandsson

Auglýsingar

Airwaves ’14: Sunnudagur (+ lagalisti)

Hljómsveitirnar The War on Drugs og The Flaming Lips sáu um slúttið á Airwaves hátíðinni í ár. The War on Drugs var hér í fyrsta skipti en The Flaming Lips spilaði á Íslandi fyrir 15 árum.

The War on Drugs mættu sttundvíslega á sviðið og fóru nokkuð rólega af stað. Reyndar fannst mér fyrstu þrjú lögin öll frekar keimlík og var farinn að efast um ágæti sveitarinnar en það var óþarfi því að sveitin vann virkilega vel á þegar leið á tónleikana. Gestirnir í Vodafone-höllinni voru litlir í sér og kannski ekki furða eftir fjóra stútfulla daga af tónlist og gleði. Adam Granduciel fékk því kannski ekki þau viðbrögð sem hann vonaðist eftir þegar hann sagði t.d. að þetta væri í fyrsta skipti þeirra á Íslandi og að The Flaming Lips væru næstir á svið. Þeir enduðu tónleikana af krafti og reyndar það miklum krafti að brestir komu í hljóðkerfið nokkrum sinnum en það kom ekki að sök og skiluðu þeir af sér í heildina alveg hreint ágætis tónleikum.

Þá tók við hálftíma bið eftir The Flaming Lips en Wayne Coyne var þó mættur fyrr upp á svið til að fylgjast með vinnu hljóðmanna í skærgrænu hettupeysunni sinni. Maður gerði sér strax grein fyrir því að eitthvað yrði nú lagt meira í sviðsmyndina þeirra heldur en The War on Drugs og til að mynda hékk stór bjálki fyrir ofan sviðið sem var allur út í einhvers konar köðlum sem reyndust svo vera risastórar seríur.

Tíminn leið og hljómsveitin mætti á sviðið. Fyrsta verk var að koma út helling af blöðrum í salinn og stórum blöðrustöfum sem búið var að teipa saman og mynd „FUCK YEAH ICELAND“. Því næst komu risastórar uppblásaðar fígúrur á sviðið sem stóðu sitthvoru megin við Coyne og létu manni líða eins og Vodafone-höllin hefði verið breytt í sirkus. Lagavalið hjá The Flaming Lips var afskaplega skemmtilegt og þótti mér tónleikarnir fara vel af stað með laginu „The Abandoned Hospital Ship“. Góðri byrjun var fylgt á eftir með „She Don’t Use Jelly“ og „Yoshimi Battles the Pink Robots, Pt. 1“. Wayne Coyne var málglaður og talaði meðal annars um að þeir hefðu séð The Knife og Caribou spila. Ekki nóg með það sáu þeir líka norðurljós og Björk! Hann var ekkert að skafa af lofinu í hennar garð og sagði hana haft ótrúleg áhrif á heiminn. Bætti því svo við að við ættum að passa upp á að hún skyldi ekki labba inn í eldgos.

IMG_2984

Annars eru Wayne Coyle og félagar ekkert að hata að blása hluti upp og þeir héldu því áfram er Coyne steig inn í hina frægu loftkúlu og æddi af stað út í áhorfendaskarann. Mikið ljósmyndaklám átti sér stað í kjölfarið og var gripið til myndavéla og snjallsíma. Þetta var allt tilkomumikið og alveg á hreinu að svona metnaður er ekki lagður í tónleika á hverjum degi hér á Íslandi. Eftir 14 lög lögðu meðlimir frá sér hljóðfærin og héldu baksviðs en áhorfendur vildu meira og öskruðu og klöppuðu og það bar árangur að lokum því drengirnir snéru aftur á sviðið litlu síðar. Kunnuglegir tónar bárust frá sviðinu er „Do You Realize??“ fékk að hljóma og áhorfendur tóku til við að syngja með og rugga sér. Þeir voru ekki hættir því að þeir vildu sýna fólki hversu flinkir þeir eru sem ábreiðuband og tóku frekar epíska útgáfu af „Lucy in the Sky with Diamonds“ sem á afar vel við bandið en þeir voru nýlega að gefa út tribute plötu af Sgt. Pepper’s Lonely Heart Clubs Band. Þar með var botninn sleginn í tónleikana og Airwaves hátíðina mína.

Lagalisti:

The Abandoned Hospital Ship
She Don’t Use Jelly
Yoshimi Battles the Pink Robots, Pt. 1
In the Morning of the Magicians 
Watching the Planes
Feeling Yourself Disintegrate
Race for the Prize
Vein of Stars
Look… The Sun Is Rising
The W.A.N.D.
A Spoonful Weighs a Ton

Uppklapp

Do You Realize??
Lucy in the Sky with Diamonds

Airwaves hátíðin var frábær í ár þó að maður geti nú alltaf staðið sig betur í að sjá fleiri listamenn og að vera klókari varðandi raðirnar. Fyrir mér voru þetta sjö bestu tónleikarnir sem ég fór á.

1. The Flaming Lips
2. Hozier
3. Klangkarussell
4. Grísalappalísa ásamt Megasi
5. Ezra Furman
6. Anna Calvi
7. Júníus Meyvant

Annars þakka ég kærlega fyrir lesturinn!

– Torfi

Airwaves ’14: Laugardagur

Laugardagurinn hófst með smá innliti í Silfurbergið þar sem að fyrsta hljómsveit til að ríða á vaðið var Samaris. Mér fannst það eiga vel við að þau skyldu spila á undan The Knife enda hefur mér einmitt dottið sú hljómsveit í hug þegar ég hlusta á Samaris. Ég gaf mér reyndar ekki mikinn tíma í tónleika þeirra í þetta skiptið en þau eru alltaf söm við sig og eru að gera afskaplega flotta hluti.

Ég trítlaði yfir í Norðurljósasal en þar var Júníus Meyvant mættur ásamt hljómsveit. Segja má að hátíðin hafi verið tækifærið fyrir Júníus til þess að sanna sig og að vera ekki eitthvað „one hit wonder“. Júníus skilaði af sér gallalausum tónleikum þar sem að undur falleg tónlistin réði ríkjum og hans fallega rödd fékk að njóta sín til hins ýtrasta. Maðurinn á greinilega nóg af áheyrilegum lögum og er ég í kjölfarið strax orðinn spenntur fyrir plötunni hans sem er vonandi ekki langt í.

Þá var ferðinni aftur heitið í Silfurbergið en þar var The Knife að fara að spila síðustu tónleikana á Shaking the Habitual túrnum sínum og jafnvel síðustu tónleika sína ever. Því var maður ekki alveg viss hvar maður hafði þau. Ég held að flestir hafi búist við einhverjum nostalgíu „best of“ tónleikum sem gat alveg skeð en ef maður skoðaði lagalista af túrnum þeirra þá var það ekki tilfellið. Til að byrja með mætti ofurhress kona uppá sviðið sem eyddi 10 mínútum í að hita mannskapinn upp, persónulega hefðu 5 mínútur nægt mér en þetta var orðið frekar þreytt. Því næst mætti hljómsveitin upp á svið en sjaldan hef ég séð sviðið á Silfurberginu eins vel nýtt. Tónleikar The Knife minntu helst á árshátíð framandi ættbálks en þeim leiddist það ekki að dansa undir dynjandi takti og seiðandi röddu Karin. Í einu lagi gengu þau það langt að allir meðlimirnir tóku til við að dansa en enginn sá um að spila tónlistina. Ég tek það fram að ég kláraði ekki tónleikana en ég kannaðist ekki við eitt lag þessar 35 mínútur sem ég eyddi í salnum og því kannski smá vonbrigði en engu að síður var upplifunin þess virði og það verður ekki hægt að þræta fyrir það að The Knife leggur mikið í tónleika sína þó að tími þekktari laganna á tónleikum þeirra sé liðinn.

Ástæðan fyrir því að ég kláraði ekki tónleika The Knife var Hozier. Pilturinn frá Írlandi gerði vart um sig hjá mér fyrir rúmlega ári síðan þegar að lagið „Take Me to Church“ hlaut mikla spilun á X-inu. Ég var heillaður af dramatíkinni í laginu og þessari ótrúlegu rödd og fór að fylgjast betur með kauða. Eftirfylgnin stigmagnaðist, ekki síst vegna væntanlegrar komu hans á Airwaves og allt náði þetta hámarki þegar hann gaf út sína fyrstu plötu í september. Hozier á auðvelt með að búa til lög sem grípa mann og textarnir hans eru margir hverjir magnaðir. Áður en hann mætti til Íslands hafði hann átt vel heppnaðan túr í Bandaríkjunum þar sem að hann kom meðal annars fram í SNL en frægðarsól hans hefur kannski risið hraðar en skipuleggjendur Iceland Airwaves áttu von á. Tónleikar Hozier í Norðurljósasal voru æðislegir ef horft er framhjá óþolandi klið í salnum. Vil ég meina að þessi kliður hafi borist frá þeim sem voru þarna mættir einungis til þess að hlusta á eitt lag. Hozier var duglegur að spjalla við salinn og tilkynnti meðal annars að hann væri að fara að túra með Ásgeiri. Fyrir flutninginn á laginu „In a Week“ talaði hann um heimahaga sína sem gengu stundum undir nafninu „the garden of Ireland“ sem ættu þó ekki möguleika að sporna við fegurð íslensku náttúrunnar. Hozier var sum sé með allan pakkann og greinilega engin þreyta farin að segja til sín. Honum tókst líka að láta mig fá gæsahúð er hann flutti „The Angel of Small Death & the Codeine Scene“ og trúið mér, það þarf mikið til.

IMG_2977

Síðustu tónleikar kvöldsins sem ég sótti voru hjá Ezra Furman í Iðnó en þar er mikill meistari á ferð. Fyndið hvað ljósmyndir geta blekkt en ég nánast þekkti ekki manninn. Það kom kannski ekki á óvart þar sem að hann var í rauðum kjól, sokkabuxum og með hvíta spennu á höfðinu. Tónleikarnir voru ótrúlega skemmtilegir þar sem að fjörugt rokkið var í hávegum haft og mögnuð rödd Ezra fékk að njóta sín en hún hljómar eins og blanda af röddum yngri Bob Dylan, David Byrne (Talking Heads) og Alec Ounsworth (Clap Your Hands Say Yeah). Frábær endir á þrusu fínu laugardagskvöldi!

Airwaves ’14: Böndin sem skipta máli

IMG_1127

Ég hef nú lokið við heimavinnuna mína fyrir Airwaves hátíðina sem hefst „formlega“ á morgun en off-venue dagskráin fór af stað í gær. Úrvalið af hljómsveitum og listamönnum er ansi gott í ár en sumar hljómsveitir eru öðrum fremri og það verður að hafa það í huga ef maður ætlar að eiga gott Airwaves. Afrakstur vinnunar eru tveir listar af hljómsveitum sem ég persónulega ætla að gera mitt besta til að sjá en það er auðvitað aðeins óskhyggja enda er laugardagurinn t.d. pakkaður af góðum hljómsveitum sem spila á sama tíma. Einhverju ætti maður samt að ná á off-venue en þó eru nokkrar sem taka ekki í þeirri dagskrá. Athugið að hér er aðeins um erlenda flytjendur að ræða en ég treysti mínum samlöndum auðvitað fyrir því að velja úr íslensku flórunni.

Skylduáhorf:

Caribou
Flaming Lips
Future Islands
Hozier
The Knife
The War on Drugs

Hafðu auga með þessum:

Anna Calvi
BLAENAVON
Ezra Furman
Horse Thief
How to Dress Well
Jaakko Eino Kalevi
King Gizzard and the Lizard Wizard
Klangkarussell
Kwabs
La Femme
Phox
Radical Face
Roosevelt
Son Lux
The Walking Who
Thus Owls
Tomas Barfod
Unknown Mortal Orchestra

– Torfi