Færslusafn

Airwaves ’16: Föstudagur


Það kom ekkert annað til greina en að byrja föstudagskvöldið í Fríkirkjunni. Planið var að ná Árstíðum frá byrjun en hið daglega amstur kom í veg fyrir það. Ég var þó kominn inn í kirkjuna þegar þeir tóku síðasta lagið sitt, „Shades“ af plötunni Svefns og vöku skil. Af því einu að dæma hafði ég misst af góðum tónleikum.

En fyrir mér var aðalatriðið að sjá Mugison. Daginn áður hafði hann formlega gefið út fimmtu plötuna sína, Enjoy!. Fyrir tónleikana hafði ég ekki gefið mér tíma í að hlusta á hana en hafði heyrt fyrsta smellinn af plötunni, „I’m a Wolf“. Mugison tók það fram í byrjun að hann ætlaði að taka gamla smelli og nýtt efni í bland. Í byrjun tók hann mjög stutta útgáfu af „Stingum af“ sem ég held að enginn hafi verið svekktur yfir. Eftir eitt nýtt lag tók hann „Murr Murr“ í svipaðri útgáfu og er að finna á plötunni Ítrekun/Reminder. Grjóthart og hann hafði orð á því að hljómsveitin væri yfirleitt alveg búin á því eftir flutning á þessu lagi svo þau tóku því rólega í næsta lagi. Nýja efnið kom vel út og er algjörlega brennimerkt af Mugison. Hrifnastur var ég af laginu „Lazing On“ sem er samið um rómantíska kvöldstund fjölskyldu Mugisons í Nauthólsvíkinni (hvar annars staðar?) þar sem hann sá sólina og tunglið í sitthvoru glerinu í sólgleraugum konu sinnar. Honum fannst hann verða að semja lag um þessa stund og útkoman er hið fallega „Lazing On“. Það kom upp skondið atvik í flutningi lagsins en það vill stundum gerast þegar plötur eru nýkomnar út úr ofninum að textar hverfa úr minninu á ögurstundu. Það gerðist í síðasta erindinu en þá söng Mugison „Ég man ekki síðasta erindið, andskotinn!“ og uppskar mikinn hlátur í kirkjunni. Magnaðasti flutningurinn var þó í laginu „Þjóðarsálin“ af Haglél þar sem Mugison breyttist í heimsklassa graulara og gerði mann hálfsmeykann í kjölfarið. Yfir það heila frábærir tónleikar og Fríkirkjan sýndi og sannaði enn og aftur gildi sitt á Iceland Airwaves sem töfrandi tónleikastaður.

Gamla bíó var næsti áfangastaður en þar ætlaði ég að sjá Lake Street Dive. Það var hins vegar smá í þá tónleika svo af illri nauðsyn horfði ég á restina af Axel Flóvent tónleikunum. Ég er ekki hrifinn af tónlist Axels, hún er máttlaus, einhæf og laus við allan frumleika. Það var líka lítið um manninn í salnum og Axel Flóvent bersýnilega ekki eins heitur biti og menn vilja meina.

Það fjölgaði aðeins í salnum fyrir tónleika Lake Street Dive en ég bjóst samt við fleirum. Hvað með það. Þau mættu upp á svið, fjögur talsins og hljóðfæraskipan afar hefðbundin: söngur, kontrabassi, gítar og trommur. Þrátt fyrir einfalda hljóðfæraskipan var tónlistin samsuða af allskonar stefnum. Hljómsveitin var stórskemmtileg og var ég sérstaklega hrifinn af Rachel Price söngkonu sveitarinnar, sem hafði mikla útgeislun og frábæra rödd!

Dagskráin framundan í Gamla bíó leit vel út en ég ákvað þá að rölta upp í Hörpu til að sjá Kiasmos í Silfurbergi. Ólafur Arnalds og Janus eru að gera frábæra hluti saman og ég hafði það á tilfinningunni að Silfurberg væri afar hentugur staður fyrir tónlistina þeirra. Það var hárrétt ályktun, tónlist þeirra naut sín ótrúlega vel og þegar að lazergeislar fóru að skjótast út í salinn var mér öllum lokið. Stórkostleg sýning fyrir augu og eyra.

Á eftir Kiasmos var komið að Santigold. Ég viðurkenni að ég var lang spenntastur fyrir að heyra hana taka lagið „Disparate Youth“, eitt besta lag ársins 2012. Sú bið stóð yfir í ca. 30 mínútur en mikið var ég glaður þegar ég heyrði fyrstu tóna lagsins. Að laginu loknu rauk ég út og tók stefnuna á Iðnó.

Þar var íslenska/bandaríska hljómsveitin MOJI & THE MIDNIGHT SONS að spila. Ég hafði ekki kynnt mér sveitina en félagi minn tjáði mér að bæði trommarinn og gítarleikarinn væru í hljómsveitinni Tungl sem við erum miklir aðdáendur af. Þetta eru þeir Frosti Jón og Bjarni (Mínus). Það eitt veitti á gott en það var ekki allt. Hljómsveitin er skírð í höfuðið á Moji Abiola, magnaðri söngkonu frá Bandaríkjunum sem kynntist Frosta á bar eitt sumarkvöld á Íslandi. Moji og félagar spila blús- og sálarskotið rokk og gera það líka svona helvíti vel. KEXP sá ástæðu til þess að bjóða þeim að spila á Kex fyrr á föstudeginum og ég mæli með að fólk tékki á upptökunni af þeim tónleikum. Óvænt ánægja seint á föstudegi og uppgvötvun hátíðarinnar komin.

Áður en heim var farið ákvað ég að enda kvöldið í Gamla bíó þar sem Hermigervill lokaði dagskránni. Það er synd og skömm að segja frá því að ég hef ekki séð hann á tónleikum áður en nú var loksins komið að því. Hermigervill fór á kostum og hamaðist á græjunum sínum eins og enginn væri morgundagurinn. Hann sýndi svo magnaða takta þegar hann spilaði „Svaninn“ á theremin og ég vissi ekki hvert ég ætlaði. Eins og það hafi ekki verið nóg þá kallaði hann Berndsen til sín sem hafði spilað á undan honum og þeir hlóðu í eitt uppáhalds Berndsen lagið mitt „Two Lovers Team“. Ekki hægt að enda föstudagskvöldið betur og næst á dagskrá Nonnabiti og leigubíll heim!

Torfi Guðbrandsson

Sónar: Laugardagur

Stefnan var að byrja á Ólafi Arnalds en því miður náði ég aðeins restinni af tónleikum hans. Þegar að ég kom var Arnar úr Agent Fresco að syngja ásamt fiðluleikara og sellóleikara. Ólafur endaði samt tónleikana einn á lagi sem hann samdi til heiðurs ömmu sinnar. Virkilega fallegt en klámhringitónn hjá tónleikagesti eyðilagði samt fallega stund.

Eftir Ólaf ákvað ég að vera grand og bjóða kærustunni út að borða á Munnhörpuna. Að máltíð lokinni lá leiðin á Silfurberg þar sem að við vildum ekki taka neina sénsa á biðröðum eða veseni í kringum tónleika James Blake. DJ Andrés sá um að þeyta skífum þangað til en fyrir mér var það ekkert annað en truflun á samræðum við skemmtilegt fólk.

Loks kom James Blake og var salurinn alltaf þéttari og þéttari. James Blake bauð upp á skemmtilega fjölbreytt prógramm. Lög af plötunni James Blake fengu að hljóma ásamt glænýjum lögum og öðrum héðan og þaðan af stuttum en glæstum ferli Blakes. Ég var virkilega hrifinn af því hvernig Blake tók sjálfan sig upp í sumum lögum og spilaði svo upptökuna undir sem innihélt oft öskur og læti áhorfenda í stað þess að nota playback. Blake var annars yfirvegaður og spjallaði eilítið við áhorfendur. Hann sló svo botninn með nýja laginu „Retrograde“ við mikinn fögnuð gesta og batt þar með enda á bestu tónleika Sónar 2013 að mínu mati.

Næsta atriði í Silfurbergi var nokkuð skemmtilegt og öðruvísi en þá voru Gluteus Maximus mættir á svið ásamt nokkrum stæltum skrokkum sem lyftu lóðum uppi á sviði, heldur betur óvænt uppákoma! Daníel Ágúst birtist svo í fyrsta laginu og á eftir honum kom Högni og stóðu þeir sína plikt eins og búast mátti við. Ég lét mér þó nægja að sjá byrjunina og keypti mér bjór og fékk mér sæti fyrir utan salinn alveg þangað til að ég heyrði að Squarepusher væri mættur.

Squarepusher eða Tom Jenkinson mætti með hjálm og virkaði á mann eins og þriðji Daft Punk bróðirinn. Á hjálminum birtist sama mynd sem var á risaskjánum fyrir aftan hann og borðinu fyrir framan hann. Tónlist Squarepusher er líst á alnetinu sem drill ‘n’ bass tónlist og get ég alveg tekið undir það. Hún minnti mig einnig á tölvuleikjatónlist á sterum og meina ég það ekki á neikvæðan hátt. Sýningin var rosaleg og get ég rétt ímyndað mér hvernig hún fór ofan í fólk sem var á einhverju sterkara en bjórþambi. Klárlega einn af hápunktum hátíðarinnar en ég vildi óska þess að heilsan mín hafi verið betri því þá hefði ég dansað af mér rassgatið á þessum tónleikum!

Squarepusher helmet

Þá var komið að því að kíkja á Mugison en hann var með tónleika í Norðurljósum en fyrirfram var það vitað að þeir væru í takt við Sónar, sem sagt rafrænir. Hann var þarna mættur með heimatilbúna hljóðfærið sitt sem mér skilst að hann kalli minstrument. Honum til aðstoðar voru þrír meðlimir Ensíma og mátti glögglega greina áhrif þeirra í nokkrum lögum. Hann tók svo tvö lög af Mugiboogie í nýjum búning sem féll vel í kramið hjá áhorfendum. Eftir ca. fimm lög var mér farið að verkja það mikið í hægri hælnum að ég naut tónlistarinnar ekki lengur og neyddist því til þess að labba út.

Eftir smá slökun gerði ég mig líklegan til þess að fara á Pachanga Boys í kjallaranum en ég nennti engan veginn að bíða í röð fyrir eitthvað sem ég var ekkert svo spenntur fyrir í hræðilegum hljómgæðum í þessum blessaða bílakjallara. Þar með lauk þátttöku minni á Sónar 2013.

Niðurstaða

Sónar var mín heiðarlega tilraun til þess að kynnast þessum raftónlistarheimi betur. Yfir helgina komst ég að tvennu, ég er ekki mikið fyrir DJ-sett og til þess að fýla svona harða raftónlist þarf maður að vera annað hvort blindfullur eða á einhverju. Að þessu sinni var ég ekki í standi til þess að djamma af einhverju ráði og tel ég að það hafi komið niður á skemmtanagildi hátíðarinnar fyrir mér.

15.000 krónur finnst mér svo mikill peningur fyrir svona hátíð þar sem að flestir stóru gæjarnir komu bara til DJ-a og lítið var úr erlendum atriðum að moða. Ef maður ber svo hátíðina saman við Iceland Airwaves sem er fimm daga hátíð og miðaverð á hana er 16.500 er þetta ansi há upphæð.

Ég er ekki viss um að ég leggi leið mína aftur á Sónar á næsta ári en ef ég geri það mun ég klárlega fá mér meira að drekka.

Ætla að enda þetta á nokkrum gullkornum frá reiðum gestum hátíðarinnar.

„Verð bara að segja að ég er ekki sáttur með að hafa borgað rúmlega 17 þúsund kall fyrir yfirselda tónleika, endalausar raðir og að sjá Hörpuna í sinni skítugustu mynd. Ég er alls ekki sáttur og ég held að fólk sem hafi þarna fyrir tónlistina en ekki sukkið sé sammála mér.“

„Ótrúlegt hvernig það birtast alltaf allt í einu fleiri miðar á hátíð sem var uppseld. Hversu oft hefur „selst upp“ á sónar 2013 síðustu vikur? Mér leið eins og rollu á leið í réttir þarna inni, þetta var viðbjóðslegt og jólagjöfin frá kæró ónýt.“

– Torfi

Topp 5: Umtöluðustu listamenn landsins

Íslendingar fá gjarnan æði fyrir tónlistarmönnum og missa sig hreinlega í að lofa þá á samskiptasíðum. Facebook síðan mín hefur fengið að finna fyrir því undanfarið. Sumt er mjög gott en annað finnst mér algjört ofmat. Þetta eru þeir fimm sem fólk hefur verið að „hæpa“ undanfarið.

# 5 Retro Stefson

Retro Stefson voru saklausir til að byrja með en eftir plötu númer tvö fór allt að gerast. Stelpurnar úr Gerplu fóru allt í einu að fýla þá eftir að hafa leikið í myndbandinu við „Kimba“. Þessar stelpur áttu vini sem voru nýbúnir að jafna sig eftir símaskránna með Gillz og þetta smitaði auðvitað út frá sér. Þriðja platan er væntanleg innan skamms og það má því búast við látum.

# 4 Ásgeir Trausti

Fólk er að tapa sér yfir Ásgeiri Trausta um þessar mundir. Sjaldan hefur nýliði komið inn með eins litlum látum en valdið svo miklum usla eins og raun ber vitni. Hinn íslenski Justin Vernon (Bon Iver) vilja sumir meina og ekki batnar það. Við erum að tala um það að maðurinn hélt fjóra útgáfutónleika og seldist upp á þá alla!

# 3 Mugison

Óskabarn þjóðarinnar í fyrra. Örn Elías var búinn að gefa út nokkrar plötur sem fengu góða dóma hjá gagnrýnendum en voru ekkert að heilla almenning. Þangað til að lagið „Stingum af“ fór í spilun í útvarpinu. Allir gátu tileinkað sér boðskapinn í laginu og lærðu það utan af, meira að segja krakkar í leikskóla. Platan Haglél kom svo síðar og seldist afar vel og bauð Mugison í kjölfarið upp á fría tónleika í Hörpu takk fyrir.

# 2 Dikta

Dikta er nokkurs konar Nickleback Íslands. Múgurinn svoleiðis gleypir við tilgerðarlegum lagasmíðum og textum og heldur nafni þeirra á lofti. Þetta hefur reyndar róast aðeins enda síðasta plata ekki eins sigursæl og Get It Together. Þeir fá samt prik fyrir að gera grín af sjálfum sér í Steindanum um daginn.

# 1 Of Monsters and Men

Of Monsters and Men hefur sprengt skalann hvað varðar umtal og vinsældir. Tónlist þeirra hitti ekki bara í mark á Íslandi heldur einnig í Bandaríkjunum þar sem áhugi fyrir fólk tónlist er gífurlegur og Bretlandi. Þegar fólk er samt farið að tala um OMAM í sömu andrá og Sigur Rós og Björk er það á villigötum.

– Torfi