Category Archives: Rock Werchter

Rock Werchter 2015: Sunnudagur + uppgjör

IMG_3668

Það er alltaf svolítið súrt að vakna á sunnudegi og hugsa til þess að síðasti dagurinn sé runninn upp. Tíminn hefur liðið alltof hratt og maður er alls ekki tilbúinn í að gera eitthvað annað en að fara á tónleika og skemmta sér. Það var kannski helst þess vegna sem ég vildi gera sem mest úr deginum og mætti því snemma á tónleikasvæðið til að ná sem flestum tónleikum.

Dagurinn hófst á KluB C en þar var mættur guðspjalla- og sálarsöngvarinn Leon Bridges ásamt hljómsveit sinni. Leon er brakandi ferskur tónlistarmaður á besta aldri og gaf nýverið út frábæra plötu sem nefnist Coming Home. Honum þykir svipa mikið til Sam Cooke sem er ekki leiðinleg samlíking enda oft titlaður sem konungur sálartónlistarinnar. Tónleikarnir voru drullugóðir, Leon einbeitti sér að söngnum og léttum danshreyfingum á meðan hljómsveit hans sem vel á minnst er Texas-legasta hljómsveit sem ég hef séð sá um hljóðfæraleikinn. Í lokin náði Leon sér í gítar og rak alla af sviðinu nema bakraddarsöngkonuna sína og flutti með henni lagið „River“ sem var fallegur flutningur. Þar með var tónleikunum lokið og alveg ljóst að hér var á ferðinni ungur og upprennandi listamaður af gamla skólanum.

Eftir smá næringu ákvað ég að tylla mér á grasið fyrir framan aðalsviðið og fljótlega steig á sviðið hljómsveitin Enter Shikari frá Bretlandi. Ég hafði ekkert heyrt um þá og aldrei hlustað á þá en ég var tilbúinn að gefa þeim tækifæri og sjá hvað þeir hefðu uppá að bjóða. Það var hræðileg ákvörðun enda tónlistin afspyrnu vond. Hljómsveitin bauð uppá einhvern furðulegan bræðing af hörðu og tilraunakenndu rokki og raftónlist með hræðilegum árangri. Eftir 2-3 lög gafst ég upp og flúði inní hlöðuna en það var augljóst að ég hafði orðið vitni af lélagasta atriði Rock Werchter þetta árið.

Í hlöðunni var önnur bresk sveit að fara spila, Catfish and the Bottlemen frá Wales. Fyrir hátíðina hafði ég rennt plötunni þeirra einu sinni í gegn og vissi þar af leiðandi nokkurn veginn að hverju ég gengi í hlöðunni. Þrátt fyrir það náði hljómsveitin að koma mér á óvart og þá helst frontmaðurinn Van McCann sem geislaði af sjálfstrausti og vafði æstum kvenkynsaðdáendum um fingur sér. Þó að það hafi farið mest fyrir McCann þá má ekki gera lítið úr hinum meðlimunum enda væri frontmaðurinn lítið án þeirra. Það stafaði mikil orka af piltunum á sviðinu og alveg ljóst að sveitin er ung og gröð og í leit að frekari viðurkenningu. Þá átti hljómsveitin betri lög en mig minnti og má þar helst nefna „Kathleen“ og „Homesick“ sem hefur verið að fá mikla spilun á X-inu. Klárlega spútnik atriði hátíðarinnar ásamt Angus & Julia Stone.

Þar sem að Jessie J þurfti að aflýsa tónleikum sínum á Rock Werchter voru The Vaccines færðir yfir á aðalsviðið en upphaflega áttu þeir að spila í hlöðunni. Það voru gleðitíðindi enda hef ég alltaf haft gaman af sveitinni. Ég kíkti einmitt á þá fyrir þremur árum á RW og það má segja að þeir hafi þroskast og dafnað vel síðan þá og er nýja platan þeirra, English Graffiti góður vitnisburður um það. Hljómsveitin tók góða blöndu af gömlum og nýjum lögum og sýndu hversu góðir lagasmiðir þeir eru. Nýju lögin koma virkilega vel út og má þar helst nefna „Dream Lover“, „Give Me a Sign“ og „Minimal Affection“ sem minnir mikið á The Strokes. Gömlu lögin stóðu fyrir sínu og það er aldrei leiðinlegt að fá að heyra lög eins og „Wetsuit“, „All in White“ og „Nörgaard“ flutt lifandi á sviði. Ekkert uppá The Vaccines að kvarta þó mér finnist söngvarinn alltaf geta gert örlítið betur.

Counting Crows var næst í röðinni á aðalsviðinu en persónulega fannst mér þeir ekki eiga heima á hátíðinni. Þeir tóku slagarann sinn „Mr. Jones“ og einhver fleiri lög sem hljómuðu öll eins. Ekki merkilegir tónleikar. Í kjölfarið gerði ég heiðarlega tilraun ásamt Daða félaga mínum að sjá Alabama Shakes í hlöðunni en þar var fullt út úr öllum dyrum og gjörsamlega ómögulegt að komast inn. Pínu svekkelsi enda fátt annað merkilegt í boði á sama tíma.

Eftir góða pásu var komið að Kasabian en þeir fengu það hlutverk að „hita“ upp fyrir Muse. Sveitin er rómuð fyrir að vera ein besta tónleikasveit dagsins í dag en sitt sýnist hverjum. Þeir eru góðir en komast þó ekki í hóp þeirra allra bestu að mínu mati. Það fer þeim hins vegar vel að vera á undan stærstu nöfnunum eins og raunin var á Rock Werchter í ár. Platan þeirra 48:13 sem kom út í fyrra náði mér ekki og mér fannst hún hreinlega ekki ganga upp því miður. Þeir eiga þó fullt af góðum lögum af eldri plötunum sínum og m.a. þessa leikvangasmelli sem er svo mikilvægt að geta hent í eins og „Fire“, „Underdog“, „L.S.F.“ og „Club Foot“. Hápunkturinn á tónleikunum var þó ekki flutningur á lagi eftir þá heldur á laginu „People Are Strange“ eftir Jim Morrison og Robby Krieger meðlimum úr bestu hljómsveit í heims, The Doors. Mér fannst Kasabian sýna laginu mikla virðingu með því að taka það í heild sinni og spila það áreynslulaust út í gegn og bæta ekki við neinum krúsídúllum, lagið fékk að lifa eitt og sér og það þótti mér vænt um. Einnig var gaman að sjá þá taka hluta af Fatboy Slim slagaranum „Praise You“ og tengja það við „L.S.F.“. Ágætis tónleikar hjá Kasabian þó það séu kannski ekki bestu meðmæli í heimi að hápunktarnir á tónleikunum þínum séu ábreiður.

Þá var aðeins klukkutími í Muse og ekki seinna vænna en að fikra sig nær sviðinu. Það er svolítið síðan að ég steig niður af Muse vagninum en eftir plötuna Black Holes and Revelations missti ég áhugann. Mér fannst þó alltaf leiðinlegt að hafa ekki náð að sjá hljómsveitina uppá sitt besta á tónleikum en nú var komið tækifæri á að bæta úr því. Það var samt fullseint enda næstum því liðin 10 ár frá því að ég hlustaði síðast á Muse og hafði gaman af. Ég var einhvern veginn búinn að afskrifa þá fyrir tónleikana og allt þetta tal um að þeir væru búnir að finna ræturnar sínar aftur á nýju plötunni gáfu mér kjánahroll. En ég var tilbúinn að gefa þeim smá séns.

Tónleikarnir hófust á laginu „Psycho“ og þegar leið á lagið hugsaði ég með mér: „já okei, þetta er ágætt“ en þó þyrftu þeir að gera betur til að ná mér yfir á sitt band. Þeir voru ekki lengi að því vegna þess að næsta lag á dagskrá var „Supermassive Black Hole“ og losnaði heldur betur um stíflurnar hjá mér við að heyra það. Eftir það var ekki aftur snúið. Þó það væri skemmtilegra að heyra gömlu slagarana fannst mér nýju lögin falla vel að eldri lögunum og það var merkilega góður heildarbragur á tónleikunum. Muse sendi mig aftur til fortíðarinnar þegar ég var ca. 14 ára að reyna að finna sjálfan mig, ekki bara í tónlistinni heldur líka í tilverunni og það var mögnuð tilfinning. Smíðastofan í Kársnesskóla lifnaði við í huga mér en þar var hækkað vel í útvarpinu þegar að lög með Muse voru spiluð. Hápunkturinn á tónleikunum og jafnvel bara hátíðinni allri var þegar að þeir hentu í „Citizen Erased“ og fluttu það alveg eins og á Origin of Symmetry. Það var mjög langt síðan að ég hafði hlustað á lagið og það langt síðan að ég var búinn að gleyma því að það væri uppáhalds lagið mitt með þeim. Fleira góðgæti var á boðstólnum eins og „Stockholm Syndrome“, „Time Is Running Out“, „Hysteria“ og „Micro Cuts“. Uppklappslögin þrjú voru svo sér á báti og þá sérstaklega síðustu tvö, „Starlight“ og „Knights of Cydonia“. Þar með hafði Muse lokið sínu verki sem var að loka Rock Werchter hátíðinni 2015. Reyndar var eitthvað eftir af tímanum en ég er hræddur um að enginn geti kvartað enda tónleikarnir ákaflega vel heppnaðir og hiklaust þeir bestu á hátíðinni. Það var svo við hæfi hjá skipuleggjendum hátíðarinnar að kveðja tónleikagesti með Air laginu „How Does It Make You Feel?“ og flugeldasýningu. Hátíðinni þar með formlega slitið.

Uppgjör

Nú ef maður gerir hátíðina upp þá vegur að sjálfsögðu hæst óþarflega há tíðni af listamönnum sem þurftu að aflýsa komu sinni. Við erum að tala um Foo Fighters, Sam Smith, Ben Howard, Jessie J, JD McPherson og BADBADNOTGOOD. Ég sé nú aðallega á eftir Foo Fighters og Sam Smith og hefði hátíðin án efa verið betri hefðu þeir listamenn spilað. Það verður þó að hrósa tónleikahöldurum fyrir að fylla í götin með öðrum listamönnum.

Það er orðið ansi þreytt að þurfa að bíða eftir því að fá armböndin inná tónleikasvæðið. Það hlýtur að vera til önnur leið og reyndar held ég að það hafi verið í boði á Hive tjaldsvæðinu. Þetta skilaði sér í því að maður missti af nokkrum listamönnum og einn félagi minn féll í yfirlið, skelfilegt.

Minni sviðin tvö hafa breyst frá því að ég fór á hátíðina síðast og þær breytingar hafa verið til góðs þó að vissulega sé alltaf leiðinlegt þegar upp kemur sú staða að maður annaðhvort komist ekki inná tónleika eða líði jafnvel illa á tónleikum sökum hita eins og raunin var á alt-j.

Í heildina sá ég 26 hljómsveitir og hefði ég alveg verið til í að sjá fleiri en það getur reynst erfitt þegar maður er í samfloti við stóran hóp og getur þar af leiðandi ekki hreyft sig svo glatt. Það þarf að pissa, drekka, borða og standa í allskonar þvælingi. Það var örlítið hentugra að þvælast einn með kærustunni fyrir þremur árum og draga hana á eftir sér útum allar trissur. En ég náði þó að sjá allt það svona helsta sem ég ætlaði mér að sjá og tel ég það vel af sér vikið. Í lokin er rétt að impra svona á því helsta sem stóð upp úr og það sem gekk ekki eins vel.

Bestu tónleikarnir:

 1. Muse
 2. James Bay
 3. alt-J
 4. Angus & Julia Stone
 5. Pharrell Williams

Verstu tónleikarnir:

 1. Enter Shikari
 2. The Script
 3. Counting Crows
 4. Mumford & Sons

Besti dagurinn: Laugardagurinn

Versti dagurinn: Föstudagurinn

Spútnik atriðið: Catfish and the Bottlemen

Vonbrigðin: Hot Chip

Súrt að missa af: Alabama Shakes, Death Cab for Cutie, Die Antwoord, Eagles of Death Metal, First Aid Kit, Fufanu, Ibeyi, Patti Smith og Years & Years.

Torfi Guðbrandsson

Auglýsingar

Rock Werchter 2015: Laugardagur

Það er ómögulegt að fjalla um laugardaginn án þess að minnast á klæðaburð undirritaðs. Fyrir hátíðina hafði ég og félagi minn tekið þá ákvörðun að kaupa bol á hvorn annan sem hvorugur mátti sjá fyrr en samdægurs á hátíðinni. Laugardagurinn varð fyrir valinu og samningurinn var á þá leið að klæðast bolnum megnið af deginum. Við vissum báðir að bolurinn yrði ekki fallegur og líklega yrðum við aðhlátursefni en ég gat engan veginn undirbúið mig fyrir þann bol sem ég fékk í hendurnar á laugardeginum. Ég ætla ekki einu sinni að reyna að lýsa honum en birti í staðinn mynd af sjálfum mér í bolnum.

11657529_10152869442571035_1280158242_n (1)

Ég var sennilega sá eini af gestum hátíðarinnar í Justin Bieber bol þennan dag og líklega alla hátíðina ef útí það er farið. Athyglin sem ég fékk útá bolinn var ótrúleg og á köflum óþægileg, fólk starði stórum augum á bolinn og margir vildu fá að taka myndir. Stúlkurnar voru þó jákvæðari í minn garð og hrósuðu mér hástert á meðan drengirnir hristu flestir höfuðið. Þessi mikla athygli gerði það að verkum að mér leið hálfpartinn eins og rokkstjörnu og ég hafði varla við því að svara áreiti úr öllum áttum. Skemmtileg lífsreynsla svo vægt sé til orða tekið.

Tónlistarlega séð má segja að laugardagurinn hafi farið rólega af stað enda hægt og bítandi verið að tjasla sér saman eftir föstudaginn. Dagurinn hófst í hlöðunni en þar var The Tallest Man on Earth að fara að stíga á svið. Sá sænski var þægilegur og bauð uppá líflega sviðsframkomu og mundaði gítarinn sinn af mikilli snilli. The Tallest Man on Earth gaf út nýja plötu í maí á þessu ári og eðlilega voru tekin flest lög af henni. Hápunktur tónleikana var hins vegar flutningurinn á laginu „Love Is All“ en það sló á dauðaþögn í hlöðunni þegar það var leikið. Ágætis tónleikar hjá þeim sænska og farið að sjást í lífsmark á undirrituðum.

Næstur á dagskrá var Íslandsvinurinn Hozier en hann átti leik á aðalsviðinu. Frægðarsól Hozier hefur risið nokkuð hratt á stuttum tíma og er það að miklu leyti risasmellinum „Take Me to Church“ að þakka. Hozier á hins vegar fleiri lög góð lög og var plata hans í 8. sæti hjá Pottinum yfir bestu erlendu plötur síðasta árs. Hozier hélt frábæra tónleika í Norðurljósasal Hörpu á síðustu Airwaves hátíð og var ég spenntur að sjá hvað hann hafði fram að færa núna á miklu stærra sviði. Hozier renndi í öll helstu lögin af plötunni sinni og voru lögin ekki mörg sem ég saknaði. Gaman var að heyra hann taka „Arsonist’s Lullaby“ sem er ekki að finna á hefðbundnu útgáfu plötunnar hans. Ein ábreiða fékk að hljóma en Hozier leiðist ekki að taka ábreiður á tónleikum sínum en hann og hljómsveit hans spreyttu sig á Ariana Grande laginu „Problem“ og tókst það bara ágætlega til. Það kom svo engum á óvart að Hozier skyldi enda tónleikana á „Take Me to Church“ og stóðu þá margir upp sem höfðu setið alla tónleikana og tóku vel undir. Þar með var dagsverki Hozier lokið og gat hann að mínu mati gengið sáttur frá borði.

Íslandsvinirnir voru alls ekki hættir að spila því að næstir á svið voru The War on Drugs sem spiluðu rétt eins og Hozier á síðustu Airwaves hátíð en þeir „hituðu“ upp fyrir The Flaming Lips í Vodafonehöllinni. The War on Drugs gaf út plötuna Lost in the Dream í fyrra sem fékk frábærar viðtökur hjá tónlistarmiðlum og í kjölfarið hefur hljómsveitin verið að sækja í sig veðrið og spilað á stórum hátíðum útum allan heim. Nú voru þeir mættir á aðalsviðið á Rock Werchter á fínasta tíma. Hljómsveitin hefur vaxið mikið í áliti hjá mér frá því á tónleikunum í Vodafonehöllinni og plöturnar þeirra verða bara betri með hverri hlustun. Á tónleikunum þeirra á RW ákvað ég að halla mér aftur og njóta tónlistarinnar. Lagaval dagsins var afar vel heppnað en hljómsveitin spilaði níu lög, sjö af Lost in the Dream og svo sitthvort lagið af Slave Ambient og Wagonwheel Blues. Tónlist TWoD verkaði á mig eins og blanda af hugleiðslu og slökun en það var yndislegt að njóta tónleikanna liggjandi á bakinu og horfa beint uppí loftið og fylgjast með skýjunum, fuglunum og flugvélunum taka á loft. Ég komst að því að sennilega væri ekki til betri leið til að njóta The War on Drugs heldur en einmitt svona og að loknum tónleikunum var ég fullhlaðinn og klár fyrir kvöldið.

Eftir smá stúss í miðbæ Werchter var komið að því að breyta um umhverfi og kíkja í hlöðuna en þar áttu áströlsku systkinin Angus & Julia Stone að fara að spila. Systkinin hafa gefið út þrjár plötur saman en einnig unnið í sitthvoru lagi sem sólólistamenn en þau eru klárlega sterkari saman. Ekki nóg með það þá eru þau frábærlega studd af hljómsveit sinni sem hefur að geyma flottar týpur. Angus og Julia byrjuðu af miklum krafti og heilluðu mig reyndar það mikið í fyrsta laginu að ég er tilbúinn að slá því föstu að þau hafi átt öflugustu byrjunina á hátíðinni. Því miður var kraftinum ekki fylgt nógu vel eftir enda kannski ekki þannig tónlistarmenn en samt sem áður voru tónleikarnir þeirra vel heppnaðir. Systkinin eru eitursvöl, Angus lítur út eins og illa hirtur Joaquin Phoenix á meðan systir hans heillar mann með magnaðri sviðsframkomu sem samanstendur af eggjandi hreyfingum, fallegri rödd og gítarspili. Byrjunin var auðvitað hápunktur tónleikanna en einnig má nefna flutninginn á laginu „Big Jet Plane“ þar sem að gestir tóku vel undir og „Private Lawns“ þar sem að Julia fór á kostum. Tónleikarnir hjá þeim áströlsku komu skemmtilega á óvart og eru klárlega spútnik atriði hátíðarinnar fyrir mér.

Það var enginn tími til að slaka á því að Lenny Kravitz var að hefja leik á aðalsviðinu. Lenny Kravitz er með þeim svalari í bransanum og það er enginn tilviljun að hann hafi verið valinn í hlutverk klæðskerans Sinna í myndunum um Hungurleikana. Lenny er samt ekki bara svalur, hann á líka eitthvað til af drullu flottum lögum og ég var nú aldeilis spenntur að sjá þau lifna við uppá sviði. Ég er nú reyndar ekki kunnugur mörgum lögum eftir kauða en maður þekkir nú þessi helstu enda maðurinn tíður gestur á útvarpsstöðum og á Popp-Tíví í gamla daga. Harðari aðdáendur hafa líklega verið ánægðir með lagavalið en Lenny tók lög af sex plötum og voru flest tekin af 5. Þegar Lenny átti eftir ca. þrjú lög eftir tvístraðist hópurinn sem ég var í en einhverjir voru stressaðir þar sem að Damian Rice var að byrja í hlöðunni. Ég var nú ekki að stressa mig á Íranum og ákvað að klára Lenny enda átti hann eftir óklárað verk, hann átti nefnilega eftir að taka „Fly Away“. Það flutti hann ásamt öflugri hljómsveit sinni og endaði svo tónleikana á „Are You Gonna Go My Way“. Það margborgaði sig því að halda kyrru fyrir.

The Prodigy lokaði laugardagskvöldinu og það að sú hljómsveit skuli loka laugardagskvöldi á stórri tónlistarhátíð kemur álíka mikið á óvart og að FM Belfast komi fram í Silfurbergi á laugardagskvöldi á Iceland Airwaves. The Prodigy á hafsjó af góðum lögum og geta auðveldlega búið til svaðalega stemningu og fengið fólk til þess að hreyfa útlimi sína á alla vegu. Skiljanlega fór mesta púðrið í að kynna nýju plötuna, The Day Is My Enemy en af 16 lögum voru sjö lög tekin af henni en það er ekki hægt að kvarta yfir því enda platan helvíti öflug. Nokkur klassísk lög fengu einnig að fylgja með eins og „Breathe“, „Firestarter“, „Voodoo People“ og „Smack My Bitch Up“. Flestir voru orðnir saddir þegar sveitin hafði spilað 14 lög og allt benti til þess að sveitin hefði lokið sér af og byrjaði fólk að yfirgefa tónleikasvæðið. En þríeykið hafði bara tekið sér full langa pásu því þeir birtust aftur og tóku tvö lög til viðbótar. Því miður fyrir þá voru alltof margir búnir að yfirgefa svæðið og því um hálf misheppnaðan leik af hálfu sveitarinnar að ræða. Heilt yfir voru tónleikarnir samt þrusu flottir og ekki endilega þörf fyrir þá að bæta þessum tveimur lögum við í restina.

Laugardagurinn var mikil bæting frá föstudeginum og mögulega sá besti hingað til á hátíðinni.

Torfi Guðbrandsson

Rock Werchter 2015: Föstudagur

Það má segja að föstudagurinn á Rock Werchter hafi verið sveipaður íslensku þema en tvær íslenskar hljómsveitir komu fram þann dag. Sú fyrri var hljómsveitin Fufanu sem opnaði daginn á KluB C sviðinu en hún hljóp í skarðið fyrir BADBADNOTGOOD sem þurfti að hætta við. Því miður var ég staddur í Leuven á sama tíma að borða ómerkilegt spaghettí og versla nokkrar nauðsynjavörur en samkvæmt tísti frá sveitinni var mætingin og stemningin góð sem eru frábær tíðindi. Seinni hljómsveitin var að sjálfsögðu Of Monsters and Men sem verður komið að síðar.

Screen Shot 2015-07-09 at 11.25.07 PM

Þegar ég mætti á aðalsvæðið var Damian „Jr. Gong“ Marley, sonur Bob Marley að spila á aðalsviðinu. Ég náði síðustu 6-7 lögunum og voru hápunktarnir ábreiðurnar af Bob Marley og The Wailers lögunum „Exodus“ og „Get Up, Stand Up“ enda kannast ég nú talsvert betur við þau lög heldur en lögin hans Damian. En það var ansi gott að byrja daginn á því að fá smá reggí í kroppinn og koma sér í gott stuð fyrir næstu hljómsveit sem var Of Monsters and Men.

Það var nokkuð margt um manninn þegar að OMAM steig á svið en sjálfur var ég staddur frekar aftarlega. Ég tók strax eftir því að hljóðstyrkurinn í hljóðkerfinu var ekki nógu góður svo ég færði mig nær þegar leið á tónleikana til að heyra betur í hljómsveitinni. Sveitin var í góðu formi og má kannski sérstaklega minnast á Nönnu Bryndísi sem bar af sér mikinn þokka á sviðinu og bauð uppá hlýlega nærveru. Lagavalið samanstóð af 12 lögum, 6 af gömlu plötunni og 6 af þeirri nýju. Það sem kom kannski helst á óvart var að hljómsveitin endaði tónleikana ekki á „Little Talks“ heldur „Six Weeks“ en hittarinn fékk að hljóma næst síðastur. Tónleikagestir voru greinilega vel kunnugir „Little Talks“ enda tóku þeir vel við sér og sungu hástöfum með þegar lagið var tekið. Þó að hljómsveitin sé ekki í miklu uppáhaldi hjá mér persónulega var ekki laust við að maður fyndi fyrir smá stolti að sjá hana spila á svona stórri hátíð fyrir framan mörg þúsund manns og samgleðst ég henni innilega fyrir þann frábæra árangur sem hún hefur náð.

Eftir tónleika OMAM tók við smá pása en planið var að sjá alt-J spila í hlöðunni. Fyrir það fyrsta var náttúrulega frekar furðulegt af tónleikahöldurum að setja alt-J ekki á aðalsviðið enda átti það eftir að sýna sig að þeir hefðu alveg átt erindi þangað. Sjálfur sleppti ég því að sjá þá í Vodafonehöllinni í byrjun júní enda alltaf staðráðinn í því að sjá þá á Rock Werchter og spara mér peninginn. Það var góð ákvörðun enda lagavalið nákvæmlega það sama og í sömu röð ef frá er talinn undanfari á undan laginu „Bloodflood“. Að mínu mati voru tónleikarnir frábærir þó að inná milli leynist lakari lög sem er þá aðallega að finna á seinni plötunni þeirra. Hlaðan var troðfull af fólki og það var varla líft inni í henni sökum hita en ég var við það að gefast upp og fá mér ferskt loft þegar tónleikarnir stóðu sem hæst. Þökk sé þrjósku kollega míns náði ég sem betur fer að halda tónleikana út og sé ég alls ekki eftir því. Tónleikarnir voru nefnilega helvíti góðir þrátt fyrir hitann og svitann og var ég gríðarlega sáttur við frammstöðu fjórmenninganna frá Leeds.

IMG_3629

Ég verðlaunaði sjálfan mig með ísköldum bjór eftir tónleika alt-J og tyllti mér á grasið fyrir utan hlöðuna en Mumford & Sons voru þá nýbyrjaðir að spila á aðalsviðinu. Það verður að viðurkennast að ég hef aldrei verið á Mumford vagninum og ef ég hefði fengið að ráða hefði ég haldið mig frá tónleikum þeirra líkt og ég gerði árið 2012. En kollegi minn sem stappaði í mig stálinu á alt-J vildi ólmur kíkja á tónleikana og voru örlögin mín því ráðin enda verður maður að koma fram við náungann eins og maður vill að hann komi fram við sig. Tónleikar M&S gerðu samt ekki mikið fyrir mig nema þá kannski að sannfæra mig enn frekar um hversu óáhugaverðir þeir eru og hversu grunnt tónlistin þeirra ristir í mín tónelsku eyru.

Sá sem var næstur á aðalsviðið og ætlaði jafnframt að loka föstudagskvöldinu var enginn annar en Pharrell Williams. Þessi eitursvali maður bauð uppá mikla skemmtun með fjölskrúðugu lagavali sínu en fyrir utan að taka efni af síðustu sólóplötu sinni henti hann í slagara á borð við „Get Lucky“, „Drop It Like It’s Hot“, „Blurred Lines“, „Hollaback Girl“ og nokkur N*E*R*D lög. Pharrell var í miklu stuði og skartaði sjóarahatt og sérsniðnum Adidas gallabuxum sem myndu líta fáránlega út á einhverjum öðrum en honum. Einnig bauð hann slatta af belgískum krökkum uppá svið í laginu „Happy“ og gerðist full dramatískur í flutningi sínum á hinu stórgóða lagi „Freedom“ sem var jafnframt síðasta lagið sem hann tók. Pharrell Williams er ansi líflegur og skemmtilegur listamaður og gleði hans smitar út frá sér og það er virkilega gaman á tónleikum með svoleiðis listamanni. Pharrell Williams var ansi góð tilbreyting frá öðrum listamönnum hátíðarinnar og lokaði þessum fína föstudegi með glæsibrag.

Torfi Guðbrandsson

Rock Werchter 2015: Fimmtudagur

Ég endurnýjaði kynni mín við Rock Werchter hátíðina í ár og braut þar af leiðandi gamlan eið sem ég gerði við sjálfan mig um að sækja aldrei sömu tónlistarhátíðina erlendis tvisvar. Síðast sótti ég hátíðina árið 2012 og líkaði nokkuð vel en hægt er að lesa um hana einmitt hér á Pottinum.

Fimmtudagurinn byrjaði nákvæmlega eins og fimmtudagurinn 2012 sem var að standa í röð fyrir utan tónleikasvæðið í u.þ.b. klukkustund. Fyrstu plön dagsins fóru því útum þúfur en planið var að sjá Years & Years, First Aid Kit og Eagles of Death Metal. Ég rétt svo náði í rassgatið á EoDM en gat þó huggað mig við það að sjá að Joshua Homme var ekki með þeim á tónleikunum. Keyptir voru matarmiðar og hlustað á fyrstu tóna Royal Blood á aðalsviðinu. Það var grátlegt að þurfa að yfirgefa tónleika þeirra en James Bay var væntanlegur í Hlöðuna og ég ætlaði ekki að missa af honum.

Fyrir hátíðina var ég einna spenntastur fyrir James Bay en hann gaf út frábæra plötu fyrr á árinu og það er mikið látið með hann í heimalandinu hans. James Bay olli engum vonbrigðum og sýndi ansi góða takta á sviðinu með þétt band á bakvið sig. Bay renndi í öll helstu lögin af plötunni sinni en þó má kannski segja að hápunktur tónleikana hafi verið flutningur hans á laginu „If I Ain’t Got You“ eftir Aliciu Keys en þar sýndi hann mögnuð tilþrif, bæði á gítarinn og í söngnum. Það var svo nokkuð fyrirséð að hann myndi enda tónleikana á aðal smellinum sínum, „Hold Back the River“ sem fór vel ofan í gestina. James Bay setti standardinn því nokkuð hátt fyrir aðrar hljómsveitir á hátíðinni og það var nokkuð ljóst að tónleikar hans yrðu ekki toppaðir auðveldlega.

Næst var röðin komin að Jungle á KluB C en ég var ennþá í smá fýlu út í hljómsveitina fyrir að hafa afboðað komu sína á síðustu Airwaves hátíð. Ég náði ca. helmingnum af tónleikum þeirra sem litu afskaplega vel út. Blessunarlega náði ég að sjá mitt uppáhalds lag, „Lucky I Got What I Want“ og má einmitt segja að ég hafi verið heppinn að fá það sem ég vildi. Auk þess náði ég að sjá tvö af þeirra bestu lögum, „Busy Earnin'“ og „Time“ og gat ég því gengið nokkuð sáttur út þó að vissulega hefði verið skemmtilegra að ná öllum tónleikunum þeirra.

Þar sem að Foo Fighters þurfti að aflýsa tónleikum sínum á Rock Werchter riðlaðist dagskráin á fimmtudeginum aðeins í kjölfarið. Florence + the Machine var til að mynda seinkað um klukkutíma sem setti mig í þá erfiðu stöðu að þurfa að velja á milli hennar og Hot Chip. Það gerði ákvörðunina auðveldari að hafa séð Florence tvisvar sinnum áður en aldrei Hot Chip. Reyndar náði ég tveimur fyrstu lögunum með Florence og var annað þeirra „Ship to Wreck“ sem ég er að fýla vel þessa dagana.

Það hafði sín áhrif á KluB C að Florence væri að spila á aðalsviðinu en þrátt fyrir það var fínasta mæting á Hot Chip. Breska sveitin renndi í nokkuð pottþétt prógram og tók lög af öllum breiðskífum sínum nema þeirri fyrstu. Ég var sérstaklega ánægður að heyra þau taka „I Feel Better“ og „Flutes“. Nýju lögin voru einnig að koma virkilega vel út og þá sérstaklega „Need You Know“. Frekar öryggir tónleikar hjá Hot Chip en ekkert meira en það.

IMG_3619

Eftir smá pásu var komið að því að kíkja á SBTRKT. Ég sá SBTRKT taka „New Dorp. New York“ og „Pharaohs“ sem er í miklu uppáhaldi en missti því miður af „Wildfire“ sökum kamraferðar. Töff tónleikar samt sem áður og SBTRKT svalari en enginn.

The Chemical Brothers lokaði fimmtudagskvöldinu á aðalsviðinu og var ég spenntur að sjá hvað þeir hefðu uppá að bjóða. Þeir buðu uppá taktfasta tóna, flott sjónarspil og þó nokkur lög sem maður þekkti. Þeir sem voru þolinmóðir og kláruðu tónleikana voru verðlaunaðir þar sem að tvö af síðustu þremur lögunum voru „Galvanize“ og „Block Rockin’ Beats“. Aðrir hápunktar var „Go“ af nýju plötunni og „Swoon“. The Chemical Brothers sendu því gesti útí nóttina vel metta og fulla af orku með vel heppnuðum tónleikum sínum. Góður endir á góðum degi og byrjunin á Rock Werchter 2015 ansi sterk!

Torfi Guðbrandsson

Rock Werchter: Sunnudagur + uppgjör

Síðasti dagur hátíðarinnar var runninn upp en á pappírnum var hann ekki jafn feitur og fyrri dagarnir. Ég hóf daginn á bresku hljómsveitinni The Vaccines en í henni er bassaleikarinn Árni Hjörvar. The Vaccines spilar pönkskotið indí rokk og voru þeir hrárri en ég bjóst við. Þeir spiluðu lög af plötunni sinni What Did You Expect from the Vaccines? og einnig lög af væntanlegri plötu, Come of Age, en hún kemur út 3. september næstkomandi. Það var góð keyrsla á strákunum og náðu þeir að hita mann ágætlega upp fyrir daginn.

Eftir tveggja tíma pásu var komið að Noel Gallagher’s High Flying Birds. Kóngurinn mætti í rándýrum leðurjakka og átti gjörsamlega sviðið. Noel og félagar léku lög af sínum ferli og einnig fengu að fljóta með nokkur lög með Oasis. Það var sniðugt hjá þeim enda finnst mér lögin hjá High Flying Birds frekar einhæf. Toppurinn á tónleikunum og jafnvel hátíðinni allri var lokalagið, „Don’t Look Back in Anger“, sem hann tileinkaði Vincent Kompany, fyrirliða og miðverði Manchester City. Allur skarinn tók undir og var ég með gæsahúð allan tímann! Fínustu tónleikar sem enduðu með sprengju.

Vincent Komapany & Noel Gallagher eru miklir mátar.

Þegar Noel hafði lokið sér af voru þrjú kortér í Florence + the Machine og þá var ekkert annað að gera en að fikra sig áfram nær sviðinu. Fjögur ár voru síðan að ég sá Florence Welch og vélina troða upp í Listasafni Reykjavíkur á Iceland Airwaves. Ýmislegt hefur gengið á síðan þá og fara þau létt með að fylla hallir og leikvanga í dag. Loks flykktust þau inná sviðið við mikinn fögnuð viðstaddra og byrjuðu tónleikana á „Only If for a Night“. Enn gerði gæsahúðin vart við sig á nokkrum stöðum en fyrir mér hefði Florence mátt gera meira af því að syngja og minna af því að tala. Frægðin hefur greinilega farið illa með hana sem og áfengið og vímuefnin en hún bullar tóma vitleysu sem ekkert vit er í. En hvað um það, tíminn sem hljómsveitin fékk var að mínu mati of stuttur eða kannski nýttu þau hann bara illa. Þau tóku ekki nema níu lög, sex af Ceremonials og þrú af Lungs. Ég vildi fá meira sem og líklega flest allir sem voru á tónleikunum en Florence var orðin þyrst og þar með var það búið.

Ég var ekkert að stressa mig yfir því að fylgjast vel með Snow Patrol en ég nýtti tímann til að hlaða símann minn og þá var ágætt að hafa eitthvað til að horfa á. Þeir fengu til sín gesti eins og til að mynda Ed Sheeran sem var ágætis bónus þar sem ég missti af honum. Einu lögin sem ég þekki annars með Snow Patrol eru „Run“ og „Chasing Cars“ og tóku þeir þau bæði sem var kannski fyrirsjáanlegt en engu að síður hápunktar á annars flötum og auðgleymanlegum tónleikum.

Red Hot Chili Peppers voru næstir á svið og reyndar síðastir líka en þeir lokuðu hátíðinni í ár. Eins og margir var ég með æði fyrir þeim fyrir nokkrum árum en daginn í dag er ég lítið gefinn fyrir þá og ekki bætti úr skák þegar að gítarleikarinn John Frusciantes yfirgaf sveitina. Þeir komu mér hinsvegar skemmtilegt á óvart enda tóku þeir mörg af sínum bestu lögum. Nýji gítarleikarinn Josh Klinghoffer var feykilega öflugur og lítið hægt að kvarta undan honum. Flea og Chad Smith voru samir við sig og einnig Anthony Kiedis söngvari. Þeir voru líka í stuði en oft á milli laga kom einhver djamm syrpa af handahófi frá Josh, Flea og Chad. Maður sá að þeir voru að skemmta sér og auðvitað smitaði það út frá sér. Djammið endaði svo á laginu „Give It Away“ sem átti vel við enda allir að kveðja Rock Wercter 2012.

Uppgjör

Rock Werchter var þriðja tónlistarhátíðin mín en ég fór á Reading í Bretlandi 2009 og FIB á Spáni í fyrra. Allar þessar hátíðir eru ólíkar og kannski helst FIB sem sker sig úr enda minni í sníðum.

Það er ekki hægt að kvarta yfir mörgu á RW en ég hef þó samt nokkrar kvartanir.

 • Það var mjög svo pirrandi að þurfa að standa í röð á fimmtudeginum og bíða eftir því að fá armbandið. Þetta varð til þess að ég missti af einni hljómsveit sem ég var heitur fyrir. Á Reading og FIB var þetta afgreitt um leið og mætt var á svæðið.
 • Á RW eru þrjú svið, aðalsviðið, Hlaðan og Pýramídinn. Pýramídinn er hræðilegur. Það tekur núll eina að fylla hann og tjaldið nær svo lágt að þeir sem eru fyrir utan eiga mjög erfitt með að sjá listamennina á sviðinu. Ég veit að það er skjár fyrir utan en maður vill nú oftast geta séð fólkið lifandi líka. Til þess er maður nú að fara á svona hátíð.
 • Manni líður stundum eins og Simba og Múfasa í gnýjahjörðinni en fjöldinn af fólkinu þarna er rosalegur. Þú þarft að skipuleggja þig vel ef þú þarft að hoppa frá einum listamanni yfir í annan eins og ég þurfti að gera þegar Beirut og Pearl Jam voru að spila.

Kostina þarf ekkert að fjölyrða um enda alveg ástæða fyrir því að hátíðin sé í topp 5 yfir stærstu hátíðir í Evrópu.

Bestu tónleikarnir og þar sem allt gekk upp voru að mínu mati þessir (í stafrófsröð).

 • Beirut
 • Justice
 • M83

Fleiri orð ætla ég nú ekki að hafa um þessa ágætu hátíð en ég er nú þegar farinn að huga að næsta sumri. Hvaða hátíð skyldi verða fyrir valinu þá?

Rock Werchter: Laugardagur

Laugardagurinn hófst í hlöðunni en þar var að koma fram ein bjartasta von Breta, Michael Kiwanuka. Ég verð að viðurkenna að ég var ekkert að tapa mér yfir kauða en flest öll lögin hjá honum runnu í eitt nema „Home Again“ sem var hápunkturinn á annars flötum tónleikum.

Strax á eftir Michael voru Alabama Shakes að hefja leik í Pýramídanum en þau gáfu út frábæran frumburð fyrr á þessu ári. Því miður var orðið frekar margt um manninn og settist ég því í grasið svolítið frá skjánum sem hékk fyrir utan. Eftir að hafa einbeitt mér að fyrstu lögunum og bestu („Hold On“ og „I Found You“) ákvað ég að leggjast og loka augunum. Ég man því frekar lítið eftir restinni af tónleikunum en stundum þarf maður bara að slaka á og hvíla andlitið frá sólinni.

Aðalsviðið var næsti áfangastaður en þar voru að stíga á stokk Wolfmother og Kasabian. Rétt eins og á AS lá ég í grasinu og í þessu tilfelli safnaði ryki því að skammt frá var göngustígurinn sem mikil traffík var á. Wolfmother á ekki beint lager af góðum og eftirminnilegum lögum en þó eiga þeir til lög eins og „Woman“ og „White Unicorn“ sem eru alveg að fá fjórar stjörnur í iTunes möppunni minni. Fyrir utan þessi tvö lög og „Dimension“ var ég ekkert að missa mig og því farinn að hlakka pínu til að sjá Kasabian.

Það er ekkert svo langt síðan að Kasabian „meikaði“ það en þeir gáfu út flotta plötu árið 2004. Svo er lítið að frétta af þeim þangað til 2009 en þá kemur lagið „Fire“ þeim á kortið en allir unnendur enska boltans ættu að kannast við stefið úr því lagi. Annað en Wolfmother eiga Kasabian nóg af efni til að búa til flotta tónleika og þannig týndu þeir til lög af plötunum KasabianWest Ryder Pauper Lunatic Asylum og Velociraptor!. Það sem mér þótti standa upp úr voru lögin „Club Foot“ og „L.S.F.“ af fyrstu plötunni og „Re-Wired“ af þeirri síðustu. Í það heila hafði ég annars gaman af Kasabian en það var frekar skondið þegar Tom Meighan söngvari bað félaga sinn Sergio Pizzorno um að syngja „I’m On Fire“ partinn í „Fire“ því að greyið var að verða raddlaust. „You’re a lifesaver“ sagði hann svo og þar með kvöddu þeir.

Þar sem að ég er lítill Mumford and Sons maður og mikill M83 maður var stefnan tekin á Hlöðuna þar sem My Morning Jacket var að fara að spila. Það var ansi fámennt þar enda megnið af fólkinu á Mumford. MMJ voru þó ekkert að pæla í því og buðu uppá vel þétta tónleika. Söngvarinn Jim James er með þeim betri sem ég hef heyrt í og var ég pínu hræddur um að líkami hans gæti ekki höndlað kraftinn í honum. Hápunkturinn var þriggja laga syrpa sem innihélt „Holdin’ On to Black Metal“, „Outta My System“ og „Lay Low“. Ég kláraði að vísu ekki tónleikana því að M83 voru að fara að spila á Pýramídanum og í þetta skiptið ætlaði ég að koma mér vel fyrir þar!

Það var ekki eins troðið og áður er ég mætti á Pýramídann og náði ég að planta mér á fínum stað nálægt sviðinu. Eftirvæntingin var mikil enda M83 búin að sækja í sig veðrið síðustu ár og gefið út frábærar plötur. Geðveikin byrjaði á fyrstu sekúndu er furðuvera birtist á sviðinu og gnæfði yfir áhorfendur og var geðshræringin mikil á því augnabliki. Stuttu síðar birtust meðlimir M83 og hófu sýninguna með látum. Ég skemmti mér konunglega á þessum tónleikum og söng hástöfum með ásamt því að stíga nokkur misgóð dansspor. Ef ég ætti að nefna einhverja hápunkta væru þeir líklega „Reunion“ og „Couleurs“. Það var heldur ekkert leiðinlegt að heyra „Midnight City“ og stemninguna sem fylgdi því. Svo verð ég einnig að minnast á bassaleikarann Jordan Lawlor sem var í miklu stuði og sérstaklega þegar hann fór á kúabjölluna, aðra eins fótavinnu hef ég aldrei séð!

Það var ekki mikill tími á að melta M83 því að The xx voru þegar byrjuð að spila á aðalsviðinu. The xx er ein svalasta hljómsveit á þessari plánetu en þau nýttu sér skemmtilegan fítus á skjánum með því að birtast í svarthvítu. Öll lögin af fyrstu plötunni voru tekin ásamt fimm af væntanlegri plötu. Þau voru góð en mér fannst samt tónlistin þeirra fjara út á svona stóru sviði fyrir framan svona mikið af fólki. Ég vonast til þess að sjá þau aftur einn daginn undir betri skilyrðum.

Enn var maður á hlaupum því að næst á dagskrá var Regina Spektor en hún tróð upp á Pýramídanum  fræga. Ég settist á viðarpallinn fyrir framan skjáinn og lét ljúfu tóna Reginu leika um eyrun mín. Regina býr yfir miklum sjarma og er þar að auki frábær listamaður svo það er auðvelt að gleyma sér í eina klukkustund eins og tilfellið var á hennar tónleikum. Hápunktarnir voru margir en ég ætla að láta nægja að nefna lagið „Hero“ sem hljómaði í byrjun myndarinnar (500) Days of Summer. Mér leið vel og eiginlega betur í hjartanu eftir að hafa séð Reginu og hvet ég alla til þess að sjá hana ef tækifæri gefst til.

Ég ákvað að enda kvöldið á Incubus frekar en að fara á Editors einfaldlega vegna þess að ég fýla þá betur og tengi mig og mína persónu miklu meira við þá. Maður ferðaðist nokkur ár aftur í tímann með Incubus en þeir tóku rjómann af ferlinum. „Drive“, „Pardon Me“ og „Talk Shows On Mute“ voru þarna og einnig „Anna Molly“, „Love Hurts“ og „Nice to Know You“. Brandon Boyd fór svo úr að ofan og þá var dagurinn fullkomnaður.

Chase and Status voru byrjaðir að telja í er ég labbaði fram hjá aðalsviðinu en ég hafði bara ekkert úthald í þá geðveiki. Ég var sáttur.

Það fór hrollur um mann þegar þessi birtist í Pýramídanum!

Einnig hefði verið gaman að sjá: Ben Howard, James Vincent McMorrow, Simple Minds.

Torfi

Rock Werchter: Föstudagur

Þá var komið að föstudeginum og aðeins meira í gangi hvað varðar úrval og gæði listamanna.

Fyrstur á dagskrá hjá mér var Miles Kane í Hlöðunni en það má segja að hann sé nokkurs konar klóni af Alex Turner úr Arctic Monkeys. Það var reyndar smá töf á karlinum en maður var fljótur að gleyma því er hann birtist á sviðinu vopnaður gítar og söng „You Rearrange My Mind!“. Miles er afskaplega líflegur og skemmtilegur á sviði og skein leikgleðin af honum. Eini gallinn er kannski sá að hann á aðeins fjögur góð lög en hin eru fljót að gleymast.

Á eftir Miles var haldið á Pýramídann pínlega en þar var Perfume Genius að hefja leik. Tónlist Perfume Genius myndi njóta sín mun betur inní lokuðum sal en lögin hans eru afar róleg og hafði hann það meira að segja að orði sjálfur og afsakaði sig. En ég nýtti tækifærið bara og tyllti mér og hlóð batteríin fyrir komandi átök.

Tveggja tíma pása myndaðist eftir Perfume Genius og var hún nýtt til að nærast og sjá hluta af Gossip á en Beth Ditto fór á kostum á sviðinu og kom fólki til að hlægja með beinskeyttum húmor sínum. Ég ákvað þrátt fyrir hnyttna brandara og ágætis spretti Gossip að koma mér vel fyrir í Hlöðunni því að næstir á svið voru The Temper Trap.

Ég eyddi fyrsta kortérinu af settinu hjá The Temper Trap að pæla í söngvaranum Dougy Mandagi sem hefur að geyma ansi háa rödd. Þegar hann brýnir rausn sína eru fáir sem standast honum snúning en hann á í örlitlum erfiðleikum með lágu kaflana í lögunum og vill það stundum gerast að hljómsveitin yfirgnæfir hann. Sem betur fer lagaðist þetta eftir því sem leið á tónleikana. Annars voru þeir þrusu fínir og var ekki eitt lag sem ég saknaði. Hinsvegar setti æstur kvenkyns aðdáandi svip sinn á mína upplifun en hún lét öllum illum látum, baðaði út höndum, grét meira en eðlilegt er og var eitthvern veginn alltaf í sjóndeildarhringnum mínum. Ef ekki hefði verið fyrir hana hefði ég skemmt mér mun betur!

Jack White var ekki búinn að klára sitt sett og hlustaði ég á kauða meðan ég úðaði í mig einhverjum óþverra á svæðinu. Ég sá ekki eftir þeirri ákvörðun minni að taka The Temper Trap fram yfir tónleika hans en það var þó ánægjulegt að heyra „Seven Nation Army“ enda ákveðin nostalgía sem fylgir því lagi.

Aftur var ég mættur í Hlöðuna og nú átti að sjá Lönu Del Rey. Maður hafði ekkert heyrt neitt nema slæma hluti um greyið á sviði en ég vildi sjá það með berum augum og fella dóm á það sjálfur. Lana mætti á sviðið við mikinn fögnuð viðstaddra og renndi beint í slagarann „Blue Jeans“. Með henni á sviði voru þrjár konur sem spiluðu á strengjahljóðfæri og píanisti. Persónulega var á dolfallinn yfir sjarma og kynþokka Lönu og ekki skemmdi fyrir flutningur hennar á lögunum en þau voru í aðeins öðruvísi búningi en á plötunni. Rétt eins og Perfume Genius myndi hún samt njóta sín best í lokuðum sal eins og t.d. Eldborg. Hápunkturinn var svo í lokin er hún tók „National Anthem“ og sendi mig sáttan á aðalsviðið.

Þá var komið að Pearl Jam, einni albestu hljómsveit heims. Væntingar mínar voru miklar enda ekki gefið að sjá hljómsveit í þessum gæðaflokki. Ég get ekki sagt annað en að Eddie Vedder og félagar hafi valdið mér vonbrigðum. Fyrir mér var dagskráin þeirra alltof þung og fannst mér Eddie Vedder þurfa á hvíld að halda en þeir hafa verið að spila mikið að undanförnu. Ljósu punktarnir voru kannski helst lögin af Ten og „Daughter“. Tónleikar Beirut áttu að hefjast tíu mínútum áður en Pearl Jam myndi klára og var ég þegar farinn að undirbúa flóttaleiðina er ég heyrði Eddie Vedder kynna síðasta lagið (að ég hélt) „Rockin’ in the Free World“ sem ég hef aldrei fýlað neitt sérstaklega. Ég nýtti því tækifærið og hljóp yfir í Hlöðuna til að sjá Beirut.

Ég var eiginlega mættur á nákvæmlega sama tíma og Zach Condon og félagar í Beirut og gladdist ég mjög þegar ég heyrði fyrstu tónana í „Santa Fe“ og sá því ekki eftir þeirri ákvörðun að yfirgefa Pearl Jam. Tónlist Beirut er afar hentug til að dansa við og langaði mér helst að fækka fólkinu í Hlöðunni um helming og fleygja kærustunni til og frá áhyggjulaus. Það var hinsvegar ekki möguleiki og þurfi ég að sætta mig við að rugga mér bara í lendunum. Annars gerðu Beirut það sem Pearl Jam gerðu ekki, þeir skemmtu mér með spilamennsku og sviðsframkomu sinni og ekki skemmdi lagalistinn fyrir sem hefði getað verið valinn af sjálfum mér! Fullkominn endir á mjög góðum degi!

Guðjón „Fulli“ Ólafsson ásamt Dougy Mandagi!

Einnig hefði verið gaman að sjá: Bat for Lashes, Wiz Khalifa, „Yellow Ledbitter“ lokalag Pearl Jam

-Torfi

Rock Werchter: Fimmtudagur

Nú er meir en mánuður liðinn síðan að tónlistarhátíðin Rock Werchter í Belgíu átti sér stað og því löngu orðið tímabært að gera hátíðina upp.

Í ár mættu 437 Íslendingar á Rock Werchter og í kjölfarið spyr maður sig hvort að RW sé hin nýja Hróaskelda? Því verður ekki svarað hér en ljóst er að aðsókn Íslendinga á RW mun bara aukast með komandi árum enda erum við ekki þekkt fyrir að vera frumleg þegar kemur að því að velja okkur tónlistarhátíð.

Fyrir hátíðina var ég búinn að gera áætlun um hvaða hljómsveitir ég ætlaði að sjá en það gat ég gert þar sem búið var að birta tímasetningar listamanna á heimasíðu hátíðarinnar sem er algjör snilld.

Ætlunin var að byrja á Metric en af því varð ekki vegna stærstu biðraðar sem ég hef séð sem myndaðist fyrir utan innganginn sökum þess að armböndin voru ekki afhent fyrr en þá. Algjör svívirða og fáránlegt að geta ekki afhent manni armbandið á komutíma.

Þannig Bombay Bicycle Club var næst á dagskrá en ekki var langt síðan að Jack Steadman söngvari og gítarleikari hljómsveitarinnar hafði troðið upp á Hressó hér á landi. Þeir voru talsvert betri nú heldur en í fyrra á FIB enda næstum ár síðan að seinasta breiðskífa þeirra kom út. Þeir spiluðu aðallega efni af fyrstu og síðustu plötu ásamt því að bæta við einu af disknum Flaws. Flott byrjun á hátíðinni.

Eftir tveggja tíma pásu var komið að því að sjá Cypress Hill á minnsta og lélegasta sviðinu, Pýramídanum. Ég var búinn að koma mér ágætlega fyrir þegar að maður birtist á sviðinu og tilkynnti að seinkun yrði á hljómsveitinni. Sú seinkun varð að lokum alltof löng og ég gafst upp en stutt var þá í að Blink-182 myndi hefja leik á aðalsviðinu og vildi ég koma mér vel fyrir þar.

Ég hafði virkilega gaman af tríóinu en þeir tóku rjómann af ferlinum og voru hápunktarnir klárlega „I Miss You“ og „What’s My Age Again?“. Ef þeir hefðu svo tekið „Always“ hefði þetta verið fullkomið. Þvílík forréttindi sem það voru að fá að sjá þessa rugludalla sem prýddu gjarnan sjónvarpskjáinn heima í stofu á Popp-Tíví árunum.

Eftir Blink var komið að smá matarpásu en næstir á svið voru Elbow, hljómsveit sem ég hef aldrei náð að tengjast neinum böndum en ákvað þó að tylla mér á grasið og gefa þeim séns. Tónleikar Elbow voru hundleiðinlegir í einu orði sagt, söngvarinn tilgerðarlegur og kjánalegur og tónlistin máttlaus. Sem betur fer var ekkert annað meira spennandi í gangi á sama tíma.

The Cure voru næstir á svið en ég var mjög svo spenntur fyrir tónleikum þeirra enda frábær hljómsveit þar á ferðinni. Hljómsveitin var vel þétt og bauð uppá langa og góða dagskrá. Robert Smith var í fantaformi þetta kvöld og í raun ótrúlegt hversu vel röddin hans hljómar miðað við aldur og fyrri störf. Góðir tónleikar en maður saknar auðvitað alltaf einhverra laga en það fylgir þessu því miður.

Þá var komið að síðustu hljómsveit dagsins hjá mér en það var Justice sem var eiginlega sú sveit sem ég var spenntastur fyrir á hátíðinni enda færði ég mig miklu nær sviðinu en áður til að upplifa stemninguna betur. Ég get varla með orðum lýst tónlistarlegu fullnægingunni sem ég fékk á þessum tónleikum. Sviðsmyndin og ljósin voru trufluð, Xavier de Rosnay og Gaspard Augé eru alltof svalir fyrir þennan heim og lögin þeirra henta dansþyrstum áhorfendum einkar vel. Franska dúettnum hefur tekist að búa til tryllta sýningu enda hafa þeir góðan efnivið til að byggja á. Réttlætið sigraði að lokum og sendu mig sáttan heim á A3 tjaldsvæðið.

Jakkinn sem ég ætla að eignast einn góðan veðurdag!

Einnig hefði verið gaman að sjá: Cypress Hill, The Kooks, Metric.

Torfi