Monthly Archives: október 2014

Tónleikadómur: The Bootleg Beatles í Háskólabíó + lagalisti

IMG_2802

Ég skellti mér á seinni tónleika The Bootleg Beatles sem haldnir voru í Háskólabíói síðastliðinn laugardag. Því miður missti ég af tónleikum þeirra í Hörpu 2013 en ég var staðráðinn í því að næla mér í miða í tæka tíð í þetta skiptið. Ég fékk sæti á fremsta bekk sem gerist nú ekki oft en á tónleikum eins og þessum er það sennilega enn meiri upplifun að vera í mikilli nálægð við hljómsveitina sem varð heldur betur raunin.

Tónleikarnir byrjuðu stundvíslega sem er alltaf kostur og mættu fjórmenningarnir uppá svið í gráum jakkafötum. Þeir hófu tónleikana á „She Loves You“ og héldu tempóinu nokkuð hröðu í næstu átta lögum ef frá er talið „This Boy“ sem var fimmta lagið í röðinni. Eftir fyrstu níu lögin yfirgáfu allir sviðið nema Steven White (Paul) og tveir strengjahljóðfæraleikar og tóku saman fallegan flutning á „Yesterday“.

Eftir lagið birtust hinir þrír að nýju, búnir að hafa fataskipti og voru nú komnir í svört jakkaföt og rauðar skyrtur, virkilega smart. Þeir héldu áfram keyrslunni og léku við hvurn sinn fingur. Þó maður hafi heyrt flest lögin oft og mörgum sinnum í græjunum heima þá hjó maður allt í einu eftir fáránlega flottu bassaspili í „And Your Bird Can Sing“ og furðu skemmtilegum trommutakti í „Ticket to Ride“. „Twist and Shout“ var síðasta lag fyrir hlé en þar fór Adam Hastings (Lennon) mikinn í flutningi sínum. Sætið hans pabba hafði ekki undan í öllum þessum látum og gaf sig rétt fyrir hlé og var því hléinu eytt í að finna starfsmann til að ráða bót á sætamálum hans.

Sætismálin redduðust og kunnum við starfsfólki Háskólabíós kærar þakkir fyrir það en nú höfðu Bítlarnir enn og aftur skipt um föt og nú voru þeir heldur betur glæsilegir í SPLHCB búningum en komið var að sækadelíu tímabilinu. Þegar að Adam Hastings settist við hljómborðið sat hann nokkurn veginn beint fyrir framan mig í þriggja metra fjarlægð. Áður en að þeir tóku „Lucy in the Sky with Diamonds“ reyndi hann að segja ‘eiturlyf’ en salurinn virtist ekki skilja greyið manninn sem gerði þó sitt besta svo ég endurtók fyrir hann orðið svo hann heyrði og tókst honum vel til í annað skiptið. Eftir það sagði hann einfaldlega: „Yeah, we like those!“. Svo tóku þeir lagið og fengu lög af Sgt. Peppers og Magical Mystery Tour að fylgja í kjölfarið.

IMG_2831

Er þeir höfðu lokið við „All You Need Is Love“ fóru félagarnir af sviðinu, allir nema Adam. Á þessum tímapunkti stóðu allir gestirnir enda óður ástarinnar flögrandi um salinn. Þarna var ég með símann uppi og reyndi að ná góðum myndum af kauða meðan hann ræddi við salinn og pósaði með friðarmerkinu. Allt í einu horfði hann í áttina til mín og spurði: „Would you like to do a selfie?“. Áður en ég vissi af var ég rokinn uppá sviðið, mundaði símann og smellti af sjálfu með goðinu.

IMG_2842

Adam lét sig svo hverfa baksviðs en út kom nýjasti meðlimurinn, Stephen Hill (George Harrison) í gallaskyrtu og gallabuxum. Tók hann „While My Guitar Gently Weeps“ einsamall á kassagítarinn með stuðningi frá strengjasveitinni. Að flutningi loknum snéru hinir á sviðið að nýju og nú höfðu þeir skipt um búninga í fjórða skiptið. Leikin voru lög af Abbey Road og Let It Be en síðasta lag fyrir uppklapp var einmitt „Let It Be“. Áhorfendur voru þó hungraðir í meira og klöppuðu sveitina upp að nýju. Þeir borguðu til baka með „Revolution“ og svo að lokum „Hey Jude“. Áhorfendur yfirgnæfðu hljómsveitina í „na nana nanana naaaa“ kaflanum í laginu og sjálfur söng ég úr mér lungun. Það var ekki hægt að enda tónleikana betur og héldu gestir sáttir út í kuldann.

IMG_2826

Tónleikar The Bootleg Beatles voru alveg hreint stórkostlegir. Meðlimirnir eru hreint út sagt ótrúlegir og innihalda allan pakkann þó að Adam Hastings beri algjörlega af hvað varðar bæði útlit og söng en það má ekki mikinn mun sjá á honum og John Lennon. Stephen Hill er afar leikinn á gítarinn og maður sér það alltaf betur og betur hvað George var mikilvægur partur af Bítlunum. Steven White og Hugo Degenhardt (Ringo) voru einnig flottir en þrátt fyrir góða rödd Stevens fannst mér hann ekki alveg negla Paul.

En fyrst og síðast er það tónlistin sem skiptir máli en ekki útlit drengjanna sem gerir þó sýninguna í heild ógleymanlega. Þetta eru lög sem hafa fest sig í hjörtum fólks og það sást á áhorfendum þetta kvöld. Ég horfði nokkrum sinnum í kringum mig og tók t.d. eftir því á fremsta bekk að helmingurinn af skónum hreyfðist í takt við tónlistina. Í „Hey Jude“ voru allir standandi og haldandi utan um hvorn annan og rugguðu sér til og frá á meðan þeir sungu með. Og það er einmitt það sem að upprunalegu Bítlunum tókst að gera sem var að fá fólk til þess að brosa og gleyma daglegu amstri í smástund sem gerir þá m.a. þess vegna að einni mikilvægustu hljómsveit allra tíma.

Lagalisti kvöldsins:

She Loves You
From Me to You

Roll Over Beethoven
I Want to Hold Your Hand
This Boy
A Hard Day’s Night
Can’t Buy Me Love
I Wanna Be Your Man
I Saw Her Standing There
Yesterday
Day Tripper
And Your Bird Can Sing
Help!
Nowhere Man
Taxman
Drive My Car
Ticket to Ride
Paperback Writer
Twist and Shout

Hlé

Sgt. Pepper’s Lonely Hearts Club Band
With a Little Help from My Friends
Lucy in the Sky with Diamonds
Getting Better
Penny Lane
I Am the Walrus
Hello Goodbye
All You Need Is Love
While My Guitar Gently Weeps
Because
Oh! Darling
Lady Madonna
Octopus’s Garden
Get Back
Here Comes the Sun
Let It Be

Uppklapp

Revolution
Hey Jude

Torfi

Auglýsingar